Hvað skiptir máli?

Hvað skiptir máli?

FransBoðskapur Frans frá Assisi á erindi við nútímann. Hann beindi sjónum að þeim fátæku og kallaði eftir félagslegu réttlæti. Þau vandamál sem við blöstu á hans tíma eru enn við lýði: styrjaldir, fátækt, spilling valdastétta, félagsleg útskúfun og aukið bil milli allsnægta og örbirgðar.

Frans frá Assisi tilheyrði þeim fátækustu. Hann vann sem daglaunamaður. Hann bað engan um fé og lét aldrei söfnunarbauk ganga.

Boðskapur hans var einfaldur: Græðgi veldur þjáningu bæði hjá fórnarlömbum sem sökudólgum.

Sinnuleysi þeirra sem stöðugt sanka að sér kemur í bakið á þeim sjálfum.

Græðgi er tortímandi afl; siðferðilega, félagslega og andlega.

Frans frá Assisi leit ekki upp til valdamanna. Hann fór fótgangandi til Rómar. Þegar hann kom í Vatíkanið og upplifði spillinguna þar með eigin augum var hann hávær í gagnrýni sinni á græðgina, auðsöfnunina, valdafíknina og innantóma tilvist. Páfinn, Innocensíus III., varð hneykslaður á því hvernig þetta fátæka, auma mannkerti leyfði sér að segja að kirkjan væri í andstöðu við kristnina.

Það eru ýmsir tortryggnir í garð núverandi páfa sem hefur tekið Frans frá Assisi sér til fyririrmyndar og segja hann lýðskrumara. Enginn forvera hans á páfastóli hefur þorað að taka upp nafnið Frans. Páfinn veit að með því að taka upp nafn Frans frá Assisi, sem var félagslegt “drop-out” á 13. öld, er hann að kalla eftir pólitískum áherslum á aukið réttlæti. Frans frá Assisi var sonur auðugs silkikaupmanns sem lifði í vellystingum praktuglega uns hann venti sínu kvæði í kross, 24 ára gamall, yfirgaf fjölskyldu, auð og frama.

Páfinn í Róm hefur hent á haugana sérsmíðuðu rauðu páfaskónum, gylltu skikkjunum og bróderaða fatnaðinum. Hann er að reyna að vekja athygli á því sem skiptir máli.

Datt þetta í hug nú í innantómu fjargviðri í aðdraganda kosninga. Það er óneitanlega svolítið skondið þegar Páfinn í Róm er orðinn eftirtektarverðari fyrir skoðanir en flestir frambjóðendur og fylgismenn þeirra.

Fundur í Evrópsku lagaakademíunni 17. maí

Fundur í Evrópsku lagaakademíunni 17. maí

Vinnufundur í Evrópsku lagaakademíunni (European Academy of Law/ ERA) í Trier, 17. maí. Evrópska lagaakademían er ein virtasta stofnun á sviði Evrópuréttar í Evrópu. Á vegum ERA eru haldin námskeið fyrir dómara, embættismenn, lögmenn og aðra sem þurfa á þekkingu á sviði Evrópuréttar að halda. Margir íslenskir embættismenn hafa sótt námskeið í ERA en stofnunin er staðsett í Trier í Þýskalandi. ERA er styrkt af Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess. Herdís hefur setið í stjórn ERA (Board of Trustees)  frá 2012.

eraacademy era

 

Millikyn og friðhelgi einkalífs

Millikyn og friðhelgi einkalífs

intersexconchitaSigur Conchitu Wurzt frá Austurríki í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 10. maí varpaði ljósi á þann veruleika að það er ekki hægt að flokka alla einstaklinga í kven- eða karlkyn við fæðingu. Víðast hvar eru þau réttindi að vera óflokkaður eftir kyni heldur sem „millikyn“ ekki viðurkennd.

 

Alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð samkynhneigðra og transfólks er hinn 17. maí. Þá mun kastljósinu væntanlega víða beint að þeim fordómum sem fólk af „millikyni“ sætir en það hugtak nær yfir það sem læknar  fyrr á tímum kölluðu tvíkynjung (e. hermaphrodite), einstakling með æxlunarfæri beggja kynja.

whose body

Væntingarnar um hvort barn sé drengur eða stúlka við fæðingu og sú skýra staða sem mótast af því hvers kyns maður er upp frá því veldur  einstaklingum af millikyni erfiðleikum og jafnvel mikilli þjáningu. Samfélagið hleypir engum upp með það að flokka sig ekki í karl eða konu. En einstaklingar af millikyni eru öðruvísi en hvort kyn fyrir sig hvað varðar litninga, líffærafræði og kynkyrtla. Það er því brot á mannréttindum þeirra að þurfa að flokka sig eftir kyni sem þeir tilheyra ekki með réttu.

 

Þar sem foreldrar, sem eignast börn af millikyni eru oftast ekki áttaðir á eðli máls eru þeir oft fljótir að samþykkja að framkvæmd sé aðgerð til að „leiðrétta“ kyn barnsins. Slíkar aðgerðir þjóna fyrst og fremst útlitskröfum en eru almennt ekki læknisfræðilega nauðsynlegar. Þar sem þær eru oft gerðar á litlum börnum er unnt að líta svo á að búið sé að brjóta varanlega á grundvallarrétti einstaklings sem hefur ekki veitt upplýst samþykki fyrir því að utaðankomandi aðilar ákvarði kyn þess fyrir lífstíð.

millkyn

Aðgerðir, sem miða að því að „leiðrétta“  kyn; hvort sem um er  að ræða skurðaðgerðir eða aðra læknisfræðilega eða sálfræðilega meðferð, geta haft stórskaðleg andleg áhrif á einstakling. Meðferðin tekur  langan tíma og algengir líkamlegir fylgikvillar fylgja oft í kjölfar skurðaðgerða. Það kyn sem einstaklingi er úthlutað með læknisfræðilegri „aðstoð“ er síðan oft ekki í samræmi við sjálfsmynd og tilfinningalíf einstaklingsins.

 

Þá benda nýjar upplýsingar til þess að læknisfræðileg gögn, bæði um  tölfræði og aðgerðir á einstaklingum séu ekki aðgengileg, ekki einu sinni fólki sem slík aðgerð var framkvæmd á.

 

Aðgerðir, sem miða að því að leiðrétta kyn taka ekki mið af rétti millikyns-einstaklinga til sjálfs-ákvörðunar og réttarins til líkamlegra heilinda/ástands, sem fellur undir friðhelgi einkalífs (8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu). Líkami manneskju er hluti af einkalífinu og það að ekki sé hróflað við tilfinningalífi hennar (manneskjunnar) er einnig þáttur af því að njóta friðhelgi einkalífs.

Samþykki foreldra fyrir kyn-leiðréttingu barns, sem hefur hvorki líkamlegan þroska né burði til að taka  ákvörðun sjálft, er ekki í samræmi við þá meginreglu barnaréttar – að það sem er er barninu fyrir bestu – skuli ávallt hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir, sem varða börn (sbr. t.d. aðgerðir á kynfærum stúlkubarna). Aðgerðir á kynfærum barna sem eru óafturkræfar eru brot á mannréttindum.

Nú fer í hönd tími endurskoðunar á löggjöf víða varðandi flokkun einstaklinga eftir kyni í opinberum gögnum (fæðingarvottorð, vegabréf o.s.frv.).  Í nóvember 2013 tóku gildi lög í Þýskalandi, sem hafa það í för með sér að  nýr reitur er kominn í fæðingarvottorðin – þriðji reiturinn auk karlkyns og kvenkyns – fyrir foreldra barna sem eru ekki með “skýr kyn-ákvarðandi einkenni”.  Áður höfðu foreldrar viku til að ákveða hvort kynið skyldi velja til skráningar og í kjölfarið var framkvæmd aðgerð á barninu. Þýskaland er eina ríkið, mér vitanlega, sem hefur sett lög af þessu tagi.

Vænti þess að það, sem flokkast réttilega undir friðhelgi einkalífs; skapgerð, tilfinningalíf, kyn, kynhneigð, líkamsstarfsemi og aðrir þættir sem einkenna einstaklinga án þess að valda öðrum skaða, andstætt  t.d. ofbeldisfullri hegðun, verði virtir í löggjöf og framkvæmd hennar enda stór verkefni sem bíða okkar allra að leysa  – í þágu okkar allra – og skipta meira máli en líkamsstarfsemi, tilfinningalíf, kynhneigð, kynlíf eða  áhugaleysi um kynlíf og annað sem fellur undir einkalíf og ógnar á engan hátt almannahagsmunum.

Joaquim Barbosa forseti hæstaréttar Brasilíu 7. maí

Joaquim Barbosa forseti hæstaréttar Brasilíu 7. maí

Á fundi Feneyjanefndar og æðstu dómstóla í Suður-Ameríku í Ouro Preto í Brasilíu IMG_48637. maí s.l. var forseti hæstaréttar Brasilíu, Joaquim Barbosa með framsögu í panel sem ég stýrði. Umfjöllunarefnið var vernd efnahagslegra og félagslegra réttinda á tímum efnahagsþrenginga. Barbosa var kjörinn einn af 100 áhrifamestu mönnum heims af Time í fyrra (sjá hér). Hann er álitinn þjóðhetja í Brasilíu vegna einarðrar afstöðu sinnar til spillingar og áhrifa peningavalds í pólitík. Barbosa var dómari í stærsta pólitíska spillingarmáli sem komið hefur fyrir hæstarétt Brasilíu. Hann er oft nefndur sem næsti verðandi forseti Brasilíu.

 

Ræða á stúdentsafmæli 1974 árgangs MH

Ræða á stúdentsafmæli 1974 árgangs MH

studentar MH

 

Kæru samstúdentar,

 

Fallegu unglingar sem genguð inn í steinsteypta gráa byggingu við rætur Öskjuhlíðar haustið 1970; nýja menntaskólann við Hamrahlíð.

Feimnu unglingar.

Bjartsýnu unglingar – ekki vissum við hvað lífið bæri í skauti sér.

Óöruggu unglingar – sumir farnir að reykja í steintröppunum eftir viku. Aðrir slógu um sig með frösum – Kommúnistaávarpið var ritið sem vitnað var í.

Kæru samstúdentar; þegar litið er til baka er það þetta sem við eigum sameiginlegt:

  • Væntingarnar sem við höfðum þetta haust þegar nútíma Ísland var enn fremur ungt, einfalt og saklaust eins og við sjálf.
  • Upplifun af kennurum, samverustundir í hléum í Norðurkjalla eða fyrir framan sjoppuna Sómalíu, skólaböllin, þar sem freistingarnar voru til að falla fyrir þeim og skólaferðalögin . . .
  • Og síðan þessi ferð í gegnum lífið. Tilveran er undarlegt ferðalag.

 

Þegar við spegluðum okkur í framtíðinni sáum við hana út frá þeim veruleika sem við þekktum haustið 1970 – það voru aðeins liðin 25 ár frá lokum síðari heimsstyraldar.

Reykjavík var engin fjölmenningarborg:

  • skóbúð á Laugaveginum auglýsti að skólaskór væru sendir í póstkröfu
  • Í Morgunblaðinu voru heilu síðurnar með myndum af brúðhjónum – sem var árnað heilla – normið var mjög skýrt – aðeins var vitað var um tvo homma í Reykjavík og eina fræga lesbían var Saffo sem uppi var 6 öldum fyrir Krist.
  • Lög unga fólksins voru spiluð einu sinni í viku í Ríkisútvarpinu – Elvis Presley var enn í fullu fjöri í Las Vegas og Bítlarnir komu þetta haust með lagið The Long and Winding Road
  • franskar og kokteilsósa voru gourmet fæði þessa tíma – og enginn var í heilsurækt!
  • Reykjavík var örugg borg á sama tíma og Baader Meinhoff-gengið var að ræna banka í Berlín

Það var engin leið að sjá fyrir tæknivædda framtíðina, tölvurnar, snjallsímana – samfélagsmiðlana – hjónabönd samkynhneigðra – fjölmenningarsamfélagið – hvað þá feminismann á tíma þar sem kynferðisleg áreitni í garð kvenna var einnig normið.

Á þessum tíma sem liðinn er höfum við skautað öfganna á milli . . . hugsa sér að unglingarnir sem margir héldu sig vera mikla byltingarmenn og marxista (lýsi eftir þeim nú) skuli vera orðin eldri kynslóðin í heimi þar sem ójöfnuður hefur aldrei verið meiri – ekki frá lokum 19. aldar – m.a. s. hægri flokkar í Evrópu og Bandaríkjunum tala um þörfina á að taka á spillingu og rjúfa tengsl peningavalds og pólítíkur.

Kæru olnbogabörn kerfisins: tilvist okkar í Hamrahlíðinni markaðist af því að við tilheyrðum aldrei raunverulega 68 kynslóðinni ( erum ekki það gömul) né fjöldaframleiðslunni í áfangakerfinu.

Við vorum hluti af þessu gamla og hluti af þessu nýja. Hippaímyndin var vinsælust og það var pottþétt að vitna í Marx. Pípureykjandi lið talaði um sögulega efnishyggju; og að hjónabandið væri ekkert annað en opinber skækjulifnaður . . .

Ungir feministar nútímans hefðu upplifað bullandi kvenfyrirlitningu í skólanum á köflum – en það er önnur saga.

Svo gengum við út í sumarið 1974, tókum þátt í fyrstu þingkosningunum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur en Marx-Lenínistar fengu 121 atkvæði – öll úr Hamrahlíðinni. Lengra náðu ekki áhrif olnbogabarnanna.

Þau hafa ekki gert sig gildandi á hinum pólitíska vígvelli.

Veit ekki um marga frambjóðendur úr hópi olnbogabarna – veik útgáfa af Ástþóri stendur hér – olnbogabörnin hafa ekki farið á þing eða í ríkisstjórn. Þau hafa haslað sér völl á öðrum sviðum – og brillerað eins þeim einum er lagið – bæði leynt og ljóst –

Úr þessum hópi hafa komið bestu læknar þjóðarinnar, dómarar, fjölmiðlafólk, lögmenn, arkitektar, hagfræðingar, bókmenntafólk, músíkantar, fólk í viðskiptum og ferðaiðnaði, kennarar, embættismenn – og ég held vegna reynslu okkar sem olnbogabarna – þá séum við flest frábærir og skilningsríkir foreldrar . . .

Olnbogabörnin væru ekki það sem þau eru í dag hefðu þau ekki notið maka sinna –þeirra maka sem ekki gáfust upp í hjónaböndum með olnbogabörnum – því olnbogabörnin eru svolítið spes eins og ég hef áður vikið að. Þess vegna verður að hrósa sérstaklega þeim einstöku mökum sem hafa þraukað og sitja hér nú.

Við sem urðum flugfreyjur sumarið eftir stúdentspróf fengum smjörþef af hinum stóra heimi – minnist auglýsingar í glansriti með löngum, dömulegum sígarettum og slagorðið var:

You have come a long way baby!

Það er nákvæmlega málið. Þetta hefur verið löng ferð, kæru olnbogabörn. Eins og segir í ljóðinu Hótel Jörð eftir Tómas Guðmundsson – þar sem við erum gestir og hótel okkar jörðin:

En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl
þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða.
En við sem ferðumst eigum ei annars völ,
það ER ekki um fleiri gististaði að ræða.

Olnbogabörnin eru þrautseig. Seiglan hefur skilað þeim langt. Þau hafa upplifað eitt mesta efnahagshrun sögunnar sem var ekki síður hrun á siðferðilegum og pólitískum gildum. En þar voru olnbogabörnin engir sérstakir gerendur.

Ekkert olnbogabarn er mér vitanlega í kladda sérstaks saksóknara – eða blaðrandi frá sér allt vit í rannsóknarskýrslum Alþingis . . .

Og þegar ég lít yfir hópinn og farinn veg sé ég ekki einstaklinga í stöðugri keppni um að krækja sér í bestu bitana. Mörg hafa látið sér það lynda að vera utan hringiðu óáreitt og spök.

Hvað sem því líður stöndum við nú á tímamótum. Við getum ekki lengur verið í hlutverki olnbogabarnana. Við erum að eldast og verðum að gera okkur meira gildandi – svo ég grípi í orðfæri fyrrum prófessors sem er alltaf að vinna forsetakosningar!

Hvað dettur ykkur í hug? Einn af okkar kynslóð; frumkvöðullinn Steve Jobs sagði að maður ætti bara að gera það sem hugur manns stæði til.

Af því að ég þekki ykkur – veit ég hvað þið eruð að hugsa núna. Bendi bara á að það er búið að taka frá herbergi hér við hliðina ef einhver skyldi verða ofurölvi. Ég lendi ekki þar í kvöld af því að ég er á bakvakt fyrir fyrir Lögmannafélagið þennan sólarhring – ef eitthvert ykkar skyldi loks komast í kast við lögin.

Elsku samstúdentar: takk fyrir það liðna – góða skemmtun og bjarta framtíð!

(Ræða Herdísar Þorgeirsdóttur á stúdentsafmæli 1974 árgangsins frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, 9. maí 2014). 

MH Herdís flytur ræðu

MH 4A

MH herdís vala o.co