intersexconchitaSigur Conchitu Wurzt frá Austurríki í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 10. maí varpaði ljósi á þann veruleika að það er ekki hægt að flokka alla einstaklinga í kven- eða karlkyn við fæðingu. Víðast hvar eru þau réttindi að vera óflokkaður eftir kyni heldur sem „millikyn“ ekki viðurkennd.

 

Alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð samkynhneigðra og transfólks er hinn 17. maí. Þá mun kastljósinu væntanlega víða beint að þeim fordómum sem fólk af „millikyni“ sætir en það hugtak nær yfir það sem læknar  fyrr á tímum kölluðu tvíkynjung (e. hermaphrodite), einstakling með æxlunarfæri beggja kynja.

whose body

Væntingarnar um hvort barn sé drengur eða stúlka við fæðingu og sú skýra staða sem mótast af því hvers kyns maður er upp frá því veldur  einstaklingum af millikyni erfiðleikum og jafnvel mikilli þjáningu. Samfélagið hleypir engum upp með það að flokka sig ekki í karl eða konu. En einstaklingar af millikyni eru öðruvísi en hvort kyn fyrir sig hvað varðar litninga, líffærafræði og kynkyrtla. Það er því brot á mannréttindum þeirra að þurfa að flokka sig eftir kyni sem þeir tilheyra ekki með réttu.

 

Þar sem foreldrar, sem eignast börn af millikyni eru oftast ekki áttaðir á eðli máls eru þeir oft fljótir að samþykkja að framkvæmd sé aðgerð til að „leiðrétta“ kyn barnsins. Slíkar aðgerðir þjóna fyrst og fremst útlitskröfum en eru almennt ekki læknisfræðilega nauðsynlegar. Þar sem þær eru oft gerðar á litlum börnum er unnt að líta svo á að búið sé að brjóta varanlega á grundvallarrétti einstaklings sem hefur ekki veitt upplýst samþykki fyrir því að utaðankomandi aðilar ákvarði kyn þess fyrir lífstíð.

millkyn

Aðgerðir, sem miða að því að „leiðrétta“  kyn; hvort sem um er  að ræða skurðaðgerðir eða aðra læknisfræðilega eða sálfræðilega meðferð, geta haft stórskaðleg andleg áhrif á einstakling. Meðferðin tekur  langan tíma og algengir líkamlegir fylgikvillar fylgja oft í kjölfar skurðaðgerða. Það kyn sem einstaklingi er úthlutað með læknisfræðilegri „aðstoð“ er síðan oft ekki í samræmi við sjálfsmynd og tilfinningalíf einstaklingsins.

 

Þá benda nýjar upplýsingar til þess að læknisfræðileg gögn, bæði um  tölfræði og aðgerðir á einstaklingum séu ekki aðgengileg, ekki einu sinni fólki sem slík aðgerð var framkvæmd á.

 

Aðgerðir, sem miða að því að leiðrétta kyn taka ekki mið af rétti millikyns-einstaklinga til sjálfs-ákvörðunar og réttarins til líkamlegra heilinda/ástands, sem fellur undir friðhelgi einkalífs (8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu). Líkami manneskju er hluti af einkalífinu og það að ekki sé hróflað við tilfinningalífi hennar (manneskjunnar) er einnig þáttur af því að njóta friðhelgi einkalífs.

Samþykki foreldra fyrir kyn-leiðréttingu barns, sem hefur hvorki líkamlegan þroska né burði til að taka  ákvörðun sjálft, er ekki í samræmi við þá meginreglu barnaréttar – að það sem er er barninu fyrir bestu – skuli ávallt hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir, sem varða börn (sbr. t.d. aðgerðir á kynfærum stúlkubarna). Aðgerðir á kynfærum barna sem eru óafturkræfar eru brot á mannréttindum.

Nú fer í hönd tími endurskoðunar á löggjöf víða varðandi flokkun einstaklinga eftir kyni í opinberum gögnum (fæðingarvottorð, vegabréf o.s.frv.).  Í nóvember 2013 tóku gildi lög í Þýskalandi, sem hafa það í för með sér að  nýr reitur er kominn í fæðingarvottorðin – þriðji reiturinn auk karlkyns og kvenkyns – fyrir foreldra barna sem eru ekki með “skýr kyn-ákvarðandi einkenni”.  Áður höfðu foreldrar viku til að ákveða hvort kynið skyldi velja til skráningar og í kjölfarið var framkvæmd aðgerð á barninu. Þýskaland er eina ríkið, mér vitanlega, sem hefur sett lög af þessu tagi.

Vænti þess að það, sem flokkast réttilega undir friðhelgi einkalífs; skapgerð, tilfinningalíf, kyn, kynhneigð, líkamsstarfsemi og aðrir þættir sem einkenna einstaklinga án þess að valda öðrum skaða, andstætt  t.d. ofbeldisfullri hegðun, verði virtir í löggjöf og framkvæmd hennar enda stór verkefni sem bíða okkar allra að leysa  – í þágu okkar allra – og skipta meira máli en líkamsstarfsemi, tilfinningalíf, kynhneigð, kynlíf eða  áhugaleysi um kynlíf og annað sem fellur undir einkalíf og ógnar á engan hátt almannahagsmunum.