by Herdís Þorgeirsdóttir | 18.12.2022 | PISTLAR & FRÉTTIR
Aðalfundur Feneyjanefndar, 133. aðalfundur frá upphafi, var haldinn 16. og 17. desember sl. Fundur undirnenfnda og stjórnar voru haldinir hinn 15. desember. Feneyjanefndin hefur birt öll álit sín, bæði frá þessum fundi svo og einnig má finna þau undir hlekk sem vísar á álit eftir ríkjum, þ.á m þau álit sem hún hefur unnið fyrir Ísland.
Í lok síðasta aðalfundar, fundaði stjórn Feneyjanefndar með forsætisnefnd Evrópuráðsþings, þar sem rædd voru mál er varða báðar stofnanir.
Hér eru hlekkir á álit Feneyjanefndar eftir ríkjum.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 14.09.2022 | ÁHUGAVERT, PISTLAR & FRÉTTIR
Rætt var við Maríu Elísabetu Bragadóttur í Orðum um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.
Fyrir mánuði kom út annað smásagnasafn höfundarins Maríu Elísabetar Bragadóttur. Nýja bókin heitir Sápufuglinn og geymir þrjár smásögur en fyrir tæpum tveimur árum vakti höfundur athygli með frumraun sinni Herbergi í öðrum heimi. Í smásögum Maríu Elísabetar fær lesandi innsýn inn í hugar- og reynsluheim ungs fólks sem er að reyna að fóta sig í tilveru fullorðinna, í ástarsamböndum og fjölskyldusamböndum. Flestar sagnanna eru fyrstu persónu frásagnir sem gefa djúpa innsýn í þrá eftir raunverulegum tengslum og óöryggi – sem sögurnar fjalla allar um hver með sínum hætti. Rætt var við Maríu Elísabetu í Orðum um bækur á Rás 1 um bækur hennar.
Skrifar til að skilja heiminn
„Ég held að ég hafi bara byrjað að skrifa skáldskap þegar að ég lærði að skrifa og þegar að ég lærði að lesa,“ segir María Elísabet. Hún segir skrifin sína aðferð til að skilja heiminn og til að tengjast honum. „Ef að ég myndi ekki skrifa þá væri ég svolítið sambandslaus. Mér finnst ég oft vera að stinga mér í samband með því að skrifa.“
Heimur bókmennta hafur fylgt Maríu frá því að hún lærði að lesa, jafnt skrif sem lestur. „Ég les frekar mikið myndi ég segja og núna fæ ég samviskubit þegar að ég er ekki að skrifa nema ég sé að lesa, því þá finnst mér ég vera að sinna vinnu.“ Hún les á hverjum degi en sinnir skriftum í skorpum. „Ég er misjafnlega iðin og er enn sem komið er dálítið kaotísk. En að upplagi get ég verið öguð þegar mikið liggur við, þá er ég það.“
Hingað til hefur hún að mestu fengist við prósaformið og út hafa komið tvö smásagnasöfn. „Ég hef aldrei fundið hjá mér þörf fyrir að gefa út ljóð.“ María les mikið ljóð og hefur skrifað þau en finnst að eigin sögn ógnvekjandi tilhugsun að gefa þau út. „Ég er öruggari með mig sem prósahöfund en það gæti alveg breyst.“
Góð tilfinning að þekkja persónuna vel
Smásögur Maríu hafa getið sér gott orð fyrir beittan húmor og djúpt innsæi höfundar sem birtist í leiftrandi persónusköpun. Hún hefur skapað stórt persónugallerí og segir gott að kynnast persónunum vel í gegnum skrifin. „Það er rosalega góð tilfinning að vera að skrifa samtal og finna að þú átt ekki í neinum vandræðum með framvinduna í samtalinu af því að þér finnst eins og að þú sért farin að fá það góða tilfinningu fyrir karakternum að þú veist bara nákvæmlega hvað karakterinn myndi segja þarna.“
María segir misjafnt hvernig sögurnar komi til sín, hvort persónurnar eða atburðarásin séu fyrri til að láta á sér kræla. „Ég held að þetta sé svolítil hringrás.“ Það sem leitar yfirleitt fyrst til hennar er einhver tilfinning sem hún vill koma til skila. „Einhver samskiptadýnamík eða eitthvað þannig.“
Átakasamt ferli
Í titilsögu nýrrar bókar hennar, Sápufuglinn, segir frá sambandi tvítugs sögumanns og Jóhönnu sem er 13 árum eldri. „Það er þarna valda dýnamík í nánu sambandi.“ Hin unga ónefnda söguhetja er heilluð af eldri konu og aldursmunurinn spyr spurninga um hvernig okkur finnist rétt að elska aðra manneskju. „Mér fannst svolítið erfitt að skrifa þessa sögu, það var alveg svolítið átakasamt ferli.“
María segist hafa verið lengi að átta sig á hvernig væri best að koma sögunni sem hún vildi segja til skila. „Ég vildi forðast að vera með falskan tón og svo var ég alltaf að hugsa um strúktúrinn, það var erfitt að finna út hvernig ég vildi hafa strúktúrinn af þessari sögu.“ Fyrstu drög sögunnar voru talsvert styttri en endanleg útkoman og voru skrifuð hratt. „En svo fann ég hvað ég var óánægð með hana og ég þurfti að endurskrifa hana, taka mér dálítið langan tíma og þurfti að lengja hana.“
„En svo einhvern veginn endaði þetta á því að vera þannig að ég treysti svolítið mikið þessum aðalkarakter. Hún er, þrátt fyrir að vera dálítið rugluð, þá er hún líka sterk.“ Aðalpersónan er að stíga sín fyrstu skref í heimi fullorðinna og á í sínu fyrsta fullorðinsástarsambandi. „Hún er fylgin sér. Hún er í sambandi með eldri konu en samt stendur á sínu. Hún er að reyna að lifa í heilindum, að reyna að vera sönn manneskja.“
Leti tabú í íslensku samfélagi
Önnur saga í smásagnasafninu Sápufuglinn heitir Dvergurinn með eyrað og er örlítið frábrugðin öðrum sögum Maríu. „Það er nánast smá vísindaskáldskapur þar stundum. Hún er dálítið ljóðræn og furðuleg.“ Sjálf segist María heilluð af fjölbreyttum höfundum sem beita fyrir sig mismunandi stílum bókmennta. „Ég er sjálf mjög hrifin af höfundum sem skrifa dálítið fjölbreytilega og lesandinn veit ekki alltaf hvar hann hefur höfundinn.“
Dvergurinn með eyrað fjallar um ætt kvenna og sérstaklega þá yngstu sem er titilpersóna sögunnar. Fyrst fylgjast lesendur með henni sem lítilli stúlku sem vex úr grasi og verður ung kona. Hún er með sífellt eyrnasuð og ankannaleg eyru, sem þó er aldrei farið í nákvæmar lýsingar á. Sagan tekur einnig á tabúi í íslensku samfélagi því mæðgurnar eru allar latar. „Þar er amma mín að veifa. Amma mín sagði alltaf að hún væri löt og hún ætti eftir að verða fyrsta konan á Íslandi til að deyja úr leti. Þannig að amma var smá innblástur þar.“
„Mér fannst gott að skrifa einhverja sögu sem lét nánast ekkert uppi. Þetta er allt í höndum lesandans um hvað þetta raunverulega fjallar.“ Hún segir þó að óneitanlega sé sorglegur tónn í sögunni og ef til vill sé leti kvennanna harmræn. „Kannski er það eitthvað slæmt í þessari sögu. Það er allavega eitthvað að. Allar þessar konur eru á skjön. Þær finna sig ekki í tímanum.“
Börn líka með flókið tilfinningalíf
Það mætti segja að síðasta sagan í smásagnasafninu Herbergi í öðrum heimi sé titilsaga bókarinnar þó hún beri annað nafn því sagan vísar til nafns bókarinnar með afgerandi hætti. Sagan heitir Ég er ekki kona, ég er sjö ára og segir frá systrunum Rúnu og Bergljótu. Rúna er um það bil að verða kynþroska en Bergljót er sjö ára. Móðir þeirra hefur beðið þær að halda sig til hlés því hún er að halda kvennaboð og sú eldri reynir að passa þá yngri. „Barnungu karakterarnir eru með flókið tilfinningalíf líka,“ segir María.
Persónur Maríu eru gjarnan ungar konur eða jafnvel börn. Rúna í sögunni Ég er ekki kona, ég er sjö ára er á mörkum þess að vera barn og vera ung kona. „Hún Rúna, hana langar til að vera fullorðin, en þetta er samt tvíbent. Hún þolir ekki hvað systir hennar fær mikla athygli og hún er svolítið afbrýðisöm en hún vill líka vernda systur sína frá fullorðinsheiminum, sem hún er líka hrædd við.“
Einn góður lesandi ótrúlegur
Íslenska málsvæðið er nokkuð lítið og því segir María ómetanlegt að eiga góða þýðendur. „Það er skrítið að skrifa á íslensku, maður er að skrifa á leynitungumáli.“ Sögur hennar hafa verið þýddar á nokkur tungumál og hún hefur ferðast utan til að taka þátt í málþingum og fleiru. Nýlega var hún í Tékklandi og Slóvakíu að taka þátt í Authors Reading Month. „Það var ævintýralegt, ótrúlega mögnuð upplifun og eitthvað sem að ég hafði aldrei leitt hugann að.“
Eitt kvöldið á hátíðinni spurði kona hana hvort það freistaði Maríu ekki að skrifa einfaldlega á ensku. „Mér fannst það alveg fáránleg spurning. Bara, nei.“ Þó að hún eigi sér þann draum að bækur hennar nái til víðari hóps en þeirra sem kunna íslensku þá hugnast henni ekki að skrifa á öðru tungumáli en móðurmáli sínu. Fyrir vikið þurfum við að treysta á góða þýðendur. „Við eigum reyndar ótrúlega góða þýðendur.“
Lesendafjöldi Maríu veldur henni þó ekki þungum áhyggjum. „Áður en að ég byrjaði að skrifa þá var ég ekki að hugsa oh þetta er eitthvað þunglyndislegt að vera bara að skrifa fyrir 300 þúsund manns. Ég er enn þá á þeim stað að mér finnst magnað þegar að ein manneskja les og ég er ekki að vera með einhverja falska hógværð eða eitthvað svoleiðis. Ég er bara að meina það. Einn góður lesandi, það er ótrúlegt.“
María lagði stund á heimspeki í Háskóla Íslands og hefur ekki lært þar ritlist eins og margir höfundar af yngri kynslóðinni um þessar mundir. Hún segir dýrmætt að eiga vini sem sinna líka skrifum. „Það er gott að eiga gott tengslanet og sérstaklega að geta talað við fólk sem er að gera það sama og þú. Eignast góða yfirlesara. Ég held að tengslanet sé þó ekkert forsenda þess að verða góður rithöfundur.“
Rætt var við Maríu Elísabetu Bragadóttur í Orðum um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 13.09.2022 | PISTLAR & FRÉTTIR
Af Facebook síðu Herdísar Kjerulf Þorgeirsdóttur:
Ég kemst ekki að fylgja Guðbjörgu Þorvarðardóttur dýralækni síðasta spölinn í dag. Við vorum bræðradætur. Hún var nokkrum árum eldri en ég – úr fjölmennum, stórmyndarlegum systkinahópi. Gauja ólst upp á Kiðafelli í Kjós en í minningunni tengi ég hana Unni afasystur minni Jónsdóttur, sem einnig var hestakona og mikill karakter. Gauja skar sig strax úr fjöldanum. Það gustaði um hana í bókstaflegri merkingu. Röddin hennar var sterk og kraftmikil – það var undirliggjandi hlátur í henni. Minning poppar upp af gráleitum laugardagsmorgni á menntaskólaárunum þar sem ég gekk niður Bankastrætið á leið í Eymundsson. Reykjavík var engin stórborg á þessum árum, fremur gróðurlaus og hugmyndasnauð, fannst manni. Þetta var á þeim árum sem hippamenning blómstraði, penar konur að reykja pípur í mussum án þess að maður yrði var við háværa hugmyndafræði. Aðeins tveir hommar voru þekktir í bænum – annar vann í tóbaksbúð og hinn á hárgreiðslustofu. Sappho var eina lesbían sem vitað var um. Öllum bar að hlýða tíðarandanum, vera steyptir í sama mótið, vera eins, vera í mussum. Þarna sem ég gekk í eigin þönkum niður Bankastrætið, og ekki í hippafötum, skransar snögglega leigubíll í brekkunni og við kveður rödd sem kallar nafn mitt eins og kraftmikill hvirfilbylur ólgandi af hlátri: Gauja frænka kannski rúmlega tvítug með flösku í leigubíl fyrir hádegi á laugardegi . . . ekki dæmigert fyrir nokkurn á þessum tíma nema einhverja kalla í kaupstaðaferð eða sjóara í landi. Þarna var hún í vaðstígvélum og lopapeysu með ljósrauðleitt hárið og stóran spékopp eins og íslensk útgáfa af Línu langsokk nýkomin úr siglingu í Suðurhöfum. Lína langsokkur sem vippaði hesti upp með annarri hendinni. Minning sem ég hef aldrei gleymt og fær mig alltaf til að brosa. Gauja varð farsæll dýralæknir, rak Dýralæknastofu Dagfinns á Skólavörðustíg um langt árabil og hrókur alls fagnaðar í lífinu. Blessuð sé minning eftirminnilegrar frænku. Innilegar samúðarkveðjur til Juliette konu hennar og minna góðu frændsystkina.
Æviágrip – yfirlit
Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Hún lést 28. ágúst síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona Guðbjargar er Juliette Marion f. 2.5.1960. Guðbjörg Anna var dóttir hjónanna Önnu Einarsdóttur, húsmóður (4.11.1921–11.11.1998) og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar (24.11.1917–30.8.1983), síðar sýslumanns á Ísafirði. Þau skildu. Anna giftist síðar Hjalta Sigurbjörnssyni (8. 7.1916–12.11.2006) bónda á Kiðafelli í Kjós og þar var Guðbjörg upp alin frá fimm ára aldri. Alsystkini Guðbjargar Önnu eru: Einar f. 16.3.1944; Sigríður, f. 3.8.1948; Margrét, f. 22.11.1949; og Þorsteinn, f. 10.8.1955. Hálfsystkini Guðbjargar sammæðra eru: Þorkell Gunnar f. 30.3.1957; Sigurbjörn f. 10.6.1958; Kristín Ovell f. 5.4.1961; og Björn f. 4.8.1963. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður f. 9. 2.1947; Þórunn, f. 18.8.1955; Dagbjört Þyri, f. 19.3.1958; Ólína Kjerúlf, f. 8.9.1958 og Halldóra Jóhanna Kjerúlf, f. 23.11.1959. Fóstursonur Guðbjargar Önnu er Kjartan Tumi Biering f. 31.10.1973. Guðbjörg Anna útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri 1968. Hún varð stúdent frá MT (Menntaskólanum við Tjörnina) 1971 og dýralæknir frá KVL (Den Kongelige Veterinær og Landbohøjskole) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn 1981. Eftir námið í Danmörku vann hún í eitt ár við slátureftirlit sauðfjár í Invercargill á Nýja Sjálandi. Lauk síðan masternámi í röntgenlækningum dýra í Sidney í Ástralíu 1983. Guðbjörg Anna var héraðsdýralæknir í Strandasýslu með búsetu á Hólmavík til margra ára. Síðar gegndi hún sama starfi á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Um aldamótin söðlaði hún um og setti á stofn eigin stofu, Dýralæknastofu Dagfinns, að Skólavörðustíg 35 í Reykjavík, þar sem hún starfaði alla tíð síðan. Guðbjörg Anna var virk í félagsmálum og lét víða til sín taka á því sviði. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands 2009–2015 og sat um skeið í samninganefnd BHM fyrir Dýralæknafélagið.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 26.08.2022 | PISTLAR & FRÉTTIR
Eiríkur Guðmundsson leit á David Bowie, einn mesta tónlistarsnilling 20. aldarinnar, sem eins konar sálufélaga. Bowie var engin venjuleg poppstjarna heldur fjölhæfur listamaður, eiginlega náttúruafl sem mótaði tíðarandann með víðtækum áhrifum sínum, langt út fyrir svið tónlistarinnar. Hann var innblástur fyrir fólk á sviði lista, fræðimennsku, tísku og pólitíkur og fyrir hina jaðarsettu með „androgynous“ útliti sínu og öllum þeim öðrum sjálfum sem hann notaði í listsköpun sinni. Skáld, hugsuður og andlega leitandi. Eiríkur, útvarpsmaður, fræðimaður, rithöfundur, næmur á fólk og skarpgreindur, tengdi við þessa afburðasnjöllu veröld Bowies vitsmunalega og tilfinningalega.
Árið sem Eiríkur fæddist var tímamótaverk Bowies, Space Oddity, frumflutt á sama tíma og fyrsta geimfarið landaði mönnum á tunglinu. BBC bannaði spilun lagsins vegna textans um geimfarann Major Tom, sem missti jarðsamband og hvarf út í geiminn – en það var spilað samt! Annað sjálf Bowies sem heillaði Eirík var Ziggy Stardust, geimveran sem notaði útvarp til að koma boðskap um von til mannkyns andspænis miklum hamförum.
Eiríkur var ekki passívur aðdáandi Bowies, sem lýsti tónsmíðum við leitina að Guði. Held að leitin að hinu andlega og þráin eftir æðra réttlæti hafi verið sá kjarni í listsköpuninni sem gerði það að verkum að Bowie, með öllum sínum öðrum sjálfum, varð eins konar annað sjálf Eiríks – sem útvarps- og fjölmiðlamanns.
Með pistlum sínum í útvarpi kom hann við kaunin á valdhöfum og áhrifafólki. Afleiðingar þess taka sinn toll. Eiríkur var ekki vellauðug og heimsfræg rokkstjarna sem gat ögrað samtímanum – heldur starfsmaður á ríkisstofnun sem er hugsanlega á köflum hallari undir kerfishugsun en þau háleitu markmið að vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu og mismunandi skoðana.
Það vakti ekkert annað fyrir Eiríki en að kalla eftir betra samfélagi – þannig dró hann upp einfalda mynd af Bolungarvík æsku sinnar, þar sem pabbi hans var kennari, móðir hans ljósmóðir, útgerðarmaðurinn í plássinu vel liðinn og bræður hans „allt góðir menn“.
Man fyrst eftir Eiríki haustið 1993 á ritstjórn Heimsmyndar í Aðalstræti 4 þar sem hann stóð álengdar, dökkhærður, fallegur, feiminn og athugull. Í júní 2012 sendi hann mér skilaboð um að hann og mamma hans myndu koma á kosningaskrifstofuna á kjördag. Engin von um sigur en Eiríkur áttaði sig á inntaki framboðsins.
Viðbrögðin við ótímabærum dauða Eiríks sýna hvað hann snerti marga persónulega með velvilja sínum og að það munaði um rödd hans á hinum opinbera vettvangi. Eiríkur gaf og gaf af sjálfum sér.
Í lagi Bowies Soul Love er fjallað um móður sem syrgir son er féll í stríði. Við móður Eiríks langar mig að segja: Sonur þinn var hugrakkur og færði persónulegar fórnir fyrir hugsjón sína um betri heim – en kveikurinn sem stjórnaði brunanum í lífskertinu hans var á margföldum hraða.
Við Kolbein Orfeus langar mig að segja: Nafnið sem hann gaf þér felur í sér þá von að framferði þitt í lífinu verði svo fagurt að þú hrífir aðra með þér.
Við Vöku, bræður hans og þau sem elskuðu hann vitna ég í nýleg skilaboð frá Eiríki með ljóðlínu Jónasar Hallgrímssonar: Andi Guðs á mig andi, ugglaust mun ég þá huggast.
Kveð Eirík, vin minn, með orðum Bowies til Major Tom áður en geimferðin hefst: Megi kærleikur Guðs umvefja þig.
Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 26.07.2022 | PISTLAR & FRÉTTIR
Í dag barst sú harmafregn frá Vilnius að fyrrum fulltrúi í Feneyjanefndinni og dómari við stjórnlagadómstól Litháen, Gediminas Mesonis væri látinn. Hann var fæddur í Vilnius 9. nóvember 1968. Hann varð doktor í lögum árið 2000 en áður en hann lagði stund á lögfræði lærði hann efnafræði.
Félagar í Feneyjanefnd eru harmi slegnir vegna sviplegt fráfalls óvenju greinds og góðs manns. Hann var sérfræðingur í stjórnskipunarrétti. Á vettvangi Feneyjanefndar vann aðallega að málum tengdum félagafrelsi í austur Evrópu og dómstólum í löndum Mið-Asíu.
Persónulega minnist ég einstaklega góðs og glaðværs manns með mikla kýmnigáfu . Mér er það ógleymanlegt þegar við ræddum tilurð máls sem síðar fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu varðandi auglýsingu þar sem sjálfur Jesús Kristur var í gallabuxum (Sekmadienis Ltd. v. Lithuania). Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að litháísk stjórnvöld hefðu gerst brotleg við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með því að skerða tjáningarfrelsi fyrirtækis sem notaði auglýsingar sem sýndu trúarlegar persónur eins og Jesú Krist í gallabuxum. Litháískir dómstólar töldu sig vera að verja rétt trúaðra sem gengi í þessu tilviki framar tjáningarfrelsi auglýsanda.
Sjálfur hafði hann húmor fyrir þessu máli og ég heyri enn hláturinn þegar við ræddum um það. Enda var hann maður sem virtist ekki taka sig eða aðra of hátíðlega.
Sorglegt þegar gott fólk fer of snemma.
https://www.venice.coe.int/webforms/events/?id=3370
by Herdís Þorgeirsdóttir | 1.02.2022 | PISTLAR & FRÉTTIR
Nýr dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli gegn Austurríki (Standard Verlagsgesellschaft MBH gegn Austurríki nr. 3), er athyglisverður þar sem hann lýtur að nafnlausum ummælum á netinu. Málið sem hér um ræðir snýr að ábyrgð fjölmiðlaveitu á netinu sem neitaði að upplýsa um hver stæði á bak við meint ærumeiðandi ummæli. Það var fjölmiðlafyrirtæki með netmiðil dagblaðsins Der Standard, sem fór með málið fyrir MDE en fyrirtækið hafði neitað að fara eftir dómsúrskurði sem skyldaði það til að upplýsa um hverjir stæðu að baki nafnlausum athugasemdum við greinar um tvo tiltekna stjórnmálamenn og stjórnmálaflokk. MDE taldi að austurríski dómsstóllinn hefði með úrskurði sínum farið gegn tjáningarfrelsisákvæði MSE sem er í 10. grein sáttmálans. MDE taldi að dómstólar í Austurríki hefðu ekki haft næga hliðsjón af mikilvægi nafnlausra ummæla í að stuðla að meira framboði á upplýsingum, hugmyndum og skoðunum þegar kemur að pólitískri umfjöllun. Dómstólinn útvíkkaði með þessum dómi verndina sem 10. grein Mannréttindasáttmálans veitir fjölmiðlaveitum sem eru með netmiðla. Um leið vaknar sú spurning hvort verndin nái til annarra hýsingaraðila á netinu sem vilja brúa bilið á milli nafnleyndar, tjáningarfrelsis og annarra lögmætra hagsmuna.
Fjölmiðlafyrirtækið sem á Der Standard er hlutafélag staðsett í Vín og gefur dagblaðið út í prentformi, stafrænu formi og sem netmiðil. Síðastnefnda útgáfan veitir svigrúm fyrir umræður í lok hverrar greinar undir titlinum: Skoðun þín skiptir máli. Athugasemdir á þessum vettvangi eru síaðar með hugbúnaði eftir ákveðnum aðferðum og í samræmi við þær reglur sem fyrirtækið setur. Sá sem vill skilja eftir athugasemd verður að skrá sig á netsíðunni og undirgangast þá skilmála sem settir eru fyrir þátttöku í athugasemdakerfinu. Þessir aðilar verða að gefa upp fullt nafn, netfang og einnig póstfang. Fjölmiðlafyrirtækið hefur þessar notenda upplýsingar hjá sér en þær eru ekki opinberar. Sá fyrirvari er þó settur að fyrirtækið geti þurft að opinbera notenda upplýsingar sé því skylt að gera það með lögum. Persónulegt niíð, hótanir, meiðyrði og óhróður um fyrirtækI eru ekki liðin. Fjölmiðlafyriirtækið áskilur sér rétt til að eyða athugasemdum sem eru ekki í samræmi vð reglur þeirra. Meiðyrði og hatursorðræða er ekki liðin. Notenda upplýsingar eru veittar þriðja aðila liggi nægilega ljóst fyrir að umþrætt athugasemd feli í sér brot á persónulegum réttindum.
Þær athugasemdir sem urðu tilefni málaferla vörðuðu tvær greinar. Fyrri greinin var undir fyrirsögninni „ [S.] bræður grípa til aðgerða gegn einstaklingum í athugasemdakerfinu” og fjallaði um þingmanninn K.S. sem áður var leiðtogi Frelsisflokksins, hægri sinnaðs stjórnmálaflokks í Austurríki. Við umrædda grein voru gerðar 1600 athugasemdir. Þingmaðurinn vísaði til þeirra sem gagnrýndu hann sem háværra hælbíta. Seinni greinin innihélt viðtal við Herbert Kickl þingmann austuríska þingsins og ritara Frelsisflokksins (nú formaður Frelsisflokksins).
,,Njóti nafnleynd engrar verndar í tengslum við pólitíska fjölmiðlaumræðu skapast ótti meðal þeirra sem tjá sig á netinu við hefndarráðstafanir valdamikilla aðila. Við það má bæta að fælingarmáttur hefndarráðstafana ýtir undir frekari sjálfs-ritskoðun á kostnað öflugrar pólitískrar umræðu sem er lífæð lýðræðisins”.
Þingmennirnir kröfðu fjölmiðlafyrirtækið um notenda upplýsingar tveggja aðila, og þingmaðurinn H.K. krafðist upplýsinga um aðila sem hafði skilið eftir meint meiðandi og móðgandi ummæli við báðar greinarnar. Fór H.K. þess á leit við fjölmiðlafyrirtækið að þeirri athugasemd yrði eytt og var orðið við því en kröfu um afhendingu notenda upplýsinga hafnað. Í kjölfarið hófu þingmennirnir tveir og flokkur þeirra málaferli og kröfðu fjölmiðlafyrirtækið um notanda upplýsingar á þeirri forsendu að ella væri ekki unnt að höfða meiðyrðamál. Hið stefnda fjölmiðlafyrirtæki hélt því fram að hin umþrættu ummæli væru ekki meiðandi heldur gildisdómar (skoðun) og að stefnendur væru stjórnmálamenn sem yrðu að þola mun meiri opinbera gagnrýni en einkaðailar. Enn fremur hélt fjölmiðlafyrirtækið því fram að það gæti neitað að afhenda notenda upplýsingar á grundvelli ritstjórnartrúnaðar í samræmi við fjölmiðlalög sem vernduðu ritstjórnartrúnað og réttinn til að gefa ekki upp heimildir.
Á fyrra dómstigi varð niðurstaðan sú að mörk gagnrýni sem stjórnmálamenn yrðu að þola væru mun víðtækari en hjá einkaaðilum; ummælin umþrættu væru ekki meiðyrði og því bæri fjölmiðlafyrirtækinu ekki skylda til að afhenda notenda upplýsingar á grundvelli Evrópusambandstilskipunar um rafræn viðskipti. Dómum var þó snúið við af áfrýjunardómstól og fjölmiðlafyrirtækinu gert skylt að afhenda notenda upplýsingarnar og greiða málskostnað stefnenda þar sem ummælin fælu í sér meiðyrði. Enn fremur leit áfrýjunardómstóllinn svo á að ritstjórnartrúnaður um vernd heimilda ætti ekki við þar sem óljóst væri hvort upplýsingar þær væru nauðsynlegar til mats á þeim grundvallaratriðum sem væru til skoðunar. Hæstiréttur Austurríkis staðfesti niðurstöðu áfrýjunardómstólsins á þeirri forsendu að hér væri ekki um vernd heimilda að ræða í tengslum við störf blaðamanna og því ekki um ólögmæta íhlutun í fjölmiðlafrelsi að ræða.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) tók þann pól í hæðina þegar fjölmiðlafyrirtækið kærði málið að það snerist ekki um meiðyrði heldur skyldu fjölmiðlaveitunnar til að afhenda notenda upplýsingar við tilteknar kringumstæður. MDE viðurkenndi að þrátt fyrir að fjölmiðlafyrirtækið dreifði upplýsingum og léti í té umræðuvettvang fyrir mál er varðaði almannahagsmuni, þá væri það í þessu tilviki fjölmiðlaveita (e. Host provider) sem heyrði undir slík lög í landsrétti. Engu að síður ákvað dómstóllinn að skoða málið í heild sinni.
Dómstóllinn lagði áherslu á að ekki væri til staðar algildur réttur um nafnleynd á netinu, þar væru í gangi ýmis stig nafnleyndar. Í þessu tilviki stæði fjölmiðlafyrirtækið vörð um nafnleynd notenda umræðuvettvangs í því skyni að vernda ekki aðeins frelsi fjölmiðilsins heldur einnig tjáningarfrelsi og einkalíf notenda. Dómstóllinn kvað nafnleynd tilgangslausa ef fjölmiðlafyrirtæki gætu ekki staðið vörð um hana eftir sínum eigin leiðum. Af því leiddi að dómsúrskurður um afléttingu væri íhtlutun í tjáningarfrelsi fjölmiðlafyrirtækis undir 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu.
Þar sem málsaðilar þrættu ekki um að íhlutun væri í samræmi við lög og þjónaði þeim lögmætu markmiðum að vernda orðstýr og rétt annarra þá væri loka prófraunin sú hvort slík íhlutun væri nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi. Taldi dómstóllinn að austurískir dómstólar hefðu ekki gætt meðalhófs þegar þeir fyrirskipuðu fjölmiðlafyrirtækinu að aflétta nafnleynd. Hin umþrættu ummæli voru liður í pólitískri umræðu, í athugasemdum fyrir neðan greinarnar um stjórnmálamennina og flokkinn þeirra. Ekki var unnt að sýna fram á það hvernig hagsmunir stefnenda í málinu gengju framar hagsmunum aðila í athugasemdakerfum og fjölmiðlafyrirtækisins í að vernda höfunda ummælanna. Þvert á móti liggur áratuga löng dómaframkvæmd til grundvallar því viðmiði að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa minna svigrúm til verndar þegar kemur að opinberri umræðu.
Þar sem málið sneri að afhendingu notenda upplýsinga, og fljótt á litið væru næg gögn því til staðfestingar væri engu að síður þörf á frekari rökum en borin voru upp af dómstólum í Austurríki auk þess sem krafan um meðalhóf væri brýn. Taldi Mannréttindadómstóllinn að í þessu tiltekna máli hefðu austurrískir dómstólar horft fram hjá mikilvægi nafnleyndar, þegar komast þyrfti hjá hefndarráðstöfunum gagnvart þeim sem tækju þátt í opinberri umræðu án þess að sviðsljósinu yrði beint að þeim sjálfum“, þar sem skort hefði fullnægjandi rökstuðning fyrir úrskurði um afhendingu á notenda upplýsingum. Með þessu móti hefðu austurísk stjórnvöld brotið á tjáningarfrelsi fjölmiðlafyrirtækisins.
Mannréttindadómstóllinn var ekki einhuga í þessu máli. Breski dómarinn við MDE, Tim Eicke, skilaði séráliti og benti á að fjölmiðlafyrirtækið sem kærði niðurstöðu austurískra dómstóla til MDE hefði ekki borið fyrir sig sem málsástæðu mikilvægi nafnleyndar notenda sinna heldur ritstjórnarlegan trúnað. Meirihlutinn hafði reyndar staðfest að mál þetta sneri ekki að fjölmiðlinum sem slíkum eða blaðamönnum heldur að þætti utanaðkomandi enda umþrætt ummæli í athugasemakerfum liður af pólitískri umræðu á vettvangi fjölmiðla. Það er ekki úrslitaatriði hvort upplýsingar um notendur fjölmiðla á netinu falli í flokk ,,heimilda blaðamanna“ eða að vernd nafnleyndar á netinu sé ekki algild. Hin mikilvægu skilaboð Mannréttindadómstólsins eru þau að njóti nafnleynd engrar verndar í tengslum við pólitíska fjölmiðlaumræðu skapast ótti meðal þeirra sem tjá sig á netinu við hefndarráðstafanir valdamikilla aðila. Við það má bæta að fælingarmáttur hefndarráðstafana ýtir undir frekari sjálfs-ritskoðun á kostnað öflugrar pólitískrar umræðu sem er lífæð lýðræðisins. Það eru sömu lögmál að baki nafnleynd í pólitískri umræðu og að vernda heimildir blaðamanna. Ástæða þess að fjölmiðlar hafa í áranna rás verið tilbúnir til að vaða eld og brennistein til verndar heimildarmönnum er af sama toga spunnin og mikilvægi nafnleyndar – blaðamennska og pólitísk umræða þrífst ekki án framlags heimildamanna og háværrar umræðu gagnrýninna radda sem spenna upp pólitíska umræðu rétt eins og rafmagn lætur peruna loga.