Nýr dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli gegn Austurríki (Standard Verlagsgesellschaft MBH gegn Austurríki nr. 3), er athyglisverður þar sem hann lýtur að nafnlausum ummælum á netinu. Málið sem hér um ræðir snýr að ábyrgð fjölmiðlaveitu á netinu sem neitaði að upplýsa um hver stæði á bak við meint ærumeiðandi ummæli. Það var fjölmiðlafyrirtæki með netmiðil dagblaðsins Der Standard, sem fór með málið fyrir MDE en fyrirtækið hafði neitað að fara eftir dómsúrskurði sem skyldaði það til að upplýsa um hverjir stæðu að baki nafnlausum athugasemdum við greinar um tvo tiltekna stjórnmálamenn og stjórnmálaflokk. MDE taldi að austurríski dómsstóllinn hefði með úrskurði sínum farið gegn  tjáningarfrelsisákvæði MSE sem er í 10. grein sáttmálans. MDE taldi að dómstólar í Austurríki hefðu ekki haft næga hliðsjón af mikilvægi nafnlausra ummæla í að stuðla að meira framboði á upplýsingum, hugmyndum og skoðunum þegar kemur að pólitískri umfjöllun. Dómstólinn útvíkkaði með þessum dómi verndina sem 10. grein Mannréttindasáttmálans veitir fjölmiðlaveitum sem eru með netmiðla. Um leið vaknar sú spurning hvort verndin nái til annarra hýsingaraðila á netinu sem vilja brúa bilið á milli nafnleyndar, tjáningarfrelsis og annarra lögmætra hagsmuna.

Fjölmiðlafyrirtækið sem á Der Standard er hlutafélag staðsett í Vín og gefur dagblaðið út í prentformi, stafrænu formi og sem netmiðil. Síðastnefnda útgáfan veitir svigrúm fyrir umræður í lok hverrar greinar undir titlinum: Skoðun þín skiptir máli. Athugasemdir á þessum vettvangi eru síaðar með hugbúnaði eftir ákveðnum aðferðum og í samræmi við þær reglur sem fyrirtækið setur. Sá sem vill skilja eftir athugasemd verður að skrá sig á netsíðunni og undirgangast þá skilmála sem settir eru fyrir þátttöku í athugasemdakerfinu.  Þessir aðilar verða að gefa upp fullt nafn, netfang og einnig póstfang. Fjölmiðlafyrirtækið hefur þessar notenda upplýsingar hjá sér en þær eru ekki opinberar. Sá fyrirvari er þó settur að fyrirtækið geti þurft að opinbera notenda upplýsingar sé því skylt að gera það með lögum. Persónulegt niíð, hótanir, meiðyrði og óhróður um fyrirtækI eru ekki liðin. Fjölmiðlafyriirtækið áskilur sér rétt til að eyða athugasemdum sem eru ekki í samræmi vð reglur þeirra. Meiðyrði og hatursorðræða er ekki liðin. Notenda upplýsingar eru veittar þriðja aðila liggi nægilega ljóst fyrir að umþrætt athugasemd feli í sér brot á persónulegum réttindum.

Þær athugasemdir sem urðu tilefni málaferla vörðuðu tvær greinar. Fyrri greinin var undir fyrirsögninni „ [S.] bræður grípa til aðgerða gegn einstaklingum í athugasemdakerfinu” og fjallaði um þingmanninn K.S. sem áður var leiðtogi Frelsisflokksins, hægri sinnaðs stjórnmálaflokks í Austurríki. Við umrædda grein voru gerðar 1600 athugasemdir. Þingmaðurinn vísaði til þeirra sem gagnrýndu hann sem háværra hælbíta. Seinni greinin innihélt viðtal við Herbert Kickl þingmann austuríska þingsins og ritara Frelsisflokksins (nú formaður Frelsisflokksins).

,,Njóti nafnleynd engrar verndar  í tengslum við pólitíska fjölmiðlaumræðu skapast  ótti meðal þeirra sem tjá sig á netinu við hefndarráðstafanir valdamikilla aðila. Við það má bæta að fælingarmáttur hefndarráðstafana ýtir undir frekari sjálfs-ritskoðun  á kostnað öflugrar pólitískrar umræðu sem er lífæð lýðræðisins”.

Þingmennirnir kröfðu fjölmiðlafyrirtækið um notenda upplýsingar tveggja aðila, og þingmaðurinn H.K. krafðist upplýsinga um aðila sem hafði skilið eftir meint meiðandi og móðgandi ummæli við báðar greinarnar. Fór H.K. þess á leit við fjölmiðlafyrirtækið að þeirri athugasemd yrði eytt og var orðið við því en kröfu um afhendingu notenda upplýsinga hafnað. Í kjölfarið hófu þingmennirnir tveir og flokkur þeirra málaferli og kröfðu fjölmiðlafyrirtækið um notanda upplýsingar á þeirri forsendu að ella væri ekki unnt að höfða meiðyrðamál. Hið stefnda fjölmiðlafyrirtæki hélt því fram að hin umþrættu ummæli væru ekki meiðandi heldur gildisdómar (skoðun) og að stefnendur væru stjórnmálamenn  sem yrðu að þola mun meiri opinbera gagnrýni en einkaðailar. Enn fremur hélt fjölmiðlafyrirtækið því fram að það gæti neitað að afhenda notenda upplýsingar á grundvelli ritstjórnartrúnaðar í samræmi við fjölmiðlalög sem vernduðu ritstjórnartrúnað og réttinn til að gefa ekki upp heimildir.

Á fyrra dómstigi varð niðurstaðan sú að mörk gagnrýni sem stjórnmálamenn yrðu að þola væru mun víðtækari en hjá einkaaðilum; ummælin umþrættu væru ekki meiðyrði og því bæri fjölmiðlafyrirtækinu ekki skylda til að afhenda notenda upplýsingar á grundvelli Evrópusambandstilskipunar um rafræn viðskipti. Dómum var þó snúið við af áfrýjunardómstól og fjölmiðlafyrirtækinu gert skylt að afhenda notenda upplýsingarnar og greiða málskostnað stefnenda þar sem ummælin fælu í sér meiðyrði. Enn fremur leit áfrýjunardómstóllinn svo á að ritstjórnartrúnaður um vernd heimilda ætti ekki við þar sem óljóst væri hvort upplýsingar þær væru nauðsynlegar til mats á þeim grundvallaratriðum sem væru til skoðunar. Hæstiréttur Austurríkis staðfesti niðurstöðu áfrýjunardómstólsins á þeirri forsendu að hér væri ekki um vernd heimilda að ræða í tengslum við störf blaðamanna og því ekki um ólögmæta íhlutun í fjölmiðlafrelsi að ræða.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) tók þann pól í hæðina þegar fjölmiðlafyrirtækið kærði málið að það snerist ekki um meiðyrði heldur skyldu fjölmiðlaveitunnar til að afhenda notenda upplýsingar við tilteknar kringumstæður. MDE viðurkenndi að þrátt fyrir að fjölmiðlafyrirtækið dreifði upplýsingum og léti í té umræðuvettvang fyrir mál er varðaði almannahagsmuni, þá væri það í þessu tilviki fjölmiðlaveita (e. Host provider) sem heyrði undir slík lög í landsrétti. Engu að síður ákvað dómstóllinn að skoða málið í heild sinni.

Dómstóllinn lagði áherslu á að ekki væri til staðar algildur réttur um nafnleynd á netinu, þar væru í gangi ýmis stig nafnleyndar. Í þessu tilviki stæði fjölmiðlafyrirtækið vörð um nafnleynd notenda umræðuvettvangs í því skyni að vernda ekki aðeins frelsi fjölmiðilsins heldur einnig tjáningarfrelsi og einkalíf notenda. Dómstóllinn kvað nafnleynd tilgangslausa ef fjölmiðlafyrirtæki gætu ekki staðið vörð um hana eftir sínum eigin leiðum. Af því leiddi að dómsúrskurður um afléttingu væri íhtlutun í tjáningarfrelsi fjölmiðlafyrirtækis undir 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu.

Þar sem málsaðilar þrættu ekki um að íhlutun væri í samræmi við lög og þjónaði þeim lögmætu markmiðum að vernda orðstýr og rétt annarra þá væri loka prófraunin sú hvort slík íhlutun væri nauðsynleg í lýðræðislegu samfélagi. Taldi dómstóllinn að austurískir dómstólar hefðu ekki gætt meðalhófs þegar þeir fyrirskipuðu  fjölmiðlafyrirtækinu að aflétta nafnleynd. Hin umþrættu ummæli voru liður í pólitískri umræðu, í athugasemdum fyrir neðan greinarnar um stjórnmálamennina og flokkinn þeirra. Ekki var unnt að sýna fram á það hvernig hagsmunir stefnenda í málinu gengju framar hagsmunum aðila í athugasemdakerfum og fjölmiðlafyrirtækisins í að vernda höfunda ummælanna. Þvert á móti liggur áratuga löng dómaframkvæmd til grundvallar því viðmiði að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa minna svigrúm til verndar þegar kemur að opinberri umræðu.

Þar sem málið sneri að afhendingu notenda upplýsinga, og fljótt á litið væru næg gögn því til staðfestingar væri engu að síður þörf á frekari rökum en borin voru upp af dómstólum í Austurríki auk þess sem krafan um meðalhóf væri brýn. Taldi Mannréttindadómstóllinn að í þessu tiltekna máli hefðu austurrískir dómstólar horft fram hjá mikilvægi nafnleyndar, þegar komast þyrfti hjá hefndarráðstöfunum gagnvart þeim sem tækju þátt í opinberri umræðu án þess að sviðsljósinu yrði beint að þeim sjálfum“, þar sem skort hefði fullnægjandi rökstuðning fyrir úrskurði um afhendingu  á notenda upplýsingum. Með þessu móti hefðu austurísk stjórnvöld brotið á tjáningarfrelsi fjölmiðlafyrirtækisins.

Mannréttindadómstóllinn var ekki  einhuga í þessu máli. Breski dómarinn við MDE, Tim Eicke, skilaði séráliti og benti á að fjölmiðlafyrirtækið sem kærði niðurstöðu austurískra dómstóla til MDE hefði ekki borið fyrir sig sem málsástæðu mikilvægi nafnleyndar notenda sinna heldur ritstjórnarlegan trúnað. Meirihlutinn hafði reyndar staðfest að mál þetta sneri ekki að fjölmiðlinum sem slíkum eða blaðamönnum heldur að þætti utanaðkomandi enda umþrætt ummæli í athugasemakerfum liður af pólitískri umræðu á vettvangi fjölmiðla. Það er ekki úrslitaatriði hvort upplýsingar um notendur fjölmiðla á netinu falli  í flokk ,,heimilda blaðamanna“ eða að vernd nafnleyndar á netinu sé ekki algild.  Hin mikilvægu skilaboð Mannréttindadómstólsins eru þau að njóti nafnleynd engrar verndar  í tengslum við pólitíska fjölmiðlaumræðu skapast  ótti meðal þeirra sem tjá sig á netinu við hefndarráðstafanir valdamikilla aðila. Við það má bæta að fælingarmáttur hefndarráðstafana ýtir undir frekari sjálfs-ritskoðun  á kostnað öflugrar pólitískrar umræðu sem er lífæð lýðræðisins. Það eru sömu lögmál að baki nafnleynd í pólitískri umræðu og að  vernda  heimildir blaðamanna. Ástæða þess að fjölmiðlar hafa í áranna rás verið tilbúnir til að vaða eld og brennistein til verndar heimildarmönnum er af sama toga spunnin og mikilvægi nafnleyndar – blaðamennska og pólitísk umræða þrífst ekki án framlags heimildamanna og háværrar umræðu gagnrýninna radda sem spenna upp pólitíska umræðu rétt eins og rafmagn lætur peruna loga.