by Herdís Þorgeirsdóttir | 14.10.2014 | ALMANAK
Forseti Ítalíu, Giorgio Napolitano, bauð stjórn Feneyjanefndarinnar á sinn fund í Quirinale-höllinni fyrir hádegi 10. október. Napolitano, sem hefur verið forseti frá 2006 þekkir vel til starfa Feneyjanefndar eins og fram kom á fundinum en hann hafði góð kynni af fyrsta forseta nefndarinnar, Antonio LaPergola. Napolitano ræddi þýðingarmikið hlutverk nefndarinnar sem einnar mikilvægustu stofnunar á vettvangi Evrópuráðsins, ekki síst í ljósi þess að aðild að nefndinni eiga mörg ríki utan Evrópuráðsins. Þetta benti Forseti Ítalíu á að styrkti nefndina í að vinna að lýðræði með lögum enda væri innan hennar vébanda mikil sérfræðiþekking á sviði mannréttinda og stjórnskipunar og skilningur á mikilvægi lýðræðislegra stofnana samfélagsins.
Lífverðir forseta Ítalíu (Reggimento Corazzieri) eru sóttir til Svartfjallalands (Montenegro) en þeir eru allir hátt í 2 metrar á hæð. Inntökuskilyrði er að þeir séu ekki undir 190 cm á hæð. Einkennisorð þeirra eru: “Virtus in periculis firmior” (hugrekki styrkist í hættu). Þessi hlýtur að vera yfir 2 metrar á hæð því sú sem stendur við hlið hans er 175 cm. Myndin er tekin fyrir utan Quirinal höllina sem er bústaður forseta Ítalíu og er 20 sinnum stærri en Hvíta húsið og stendur á samnefndri hæð sem er sú hæsta af hæðunum sjö í Róm. Þrjátíu páfar, fjórir konungar og tólf forsetar hafa átt þarna heima en höllin var reist á 16. öld.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 23.09.2014 | ALMANAK
Var með framsögu á ráðstefnu 19. september, sem haldin var í Skopje, Makedóníu á vegum stjórnlagadómstólsins þar, ÖSE og réttarríkis-deildar Konrad Adenauer-sjóðsins fyrir ríki í suðaustur Evrópu. Fjallað var m.a. um það hvernig æðstu dómstólar gætu staðið vörð um þrígreiningu ríkisvaldsins. Á ráðstefnunni töluðu m.a. Dean Spielmann forseti Mannréttindadómstóls Evrópu og forseti Makedóníu Gjorgje Ivanov, en hann er fjórði forseti Makedóníu og fyrrum prófessor við ýmsa háskóla m.a. í Bologne á Ítalíu. Sérsvið hans er stjórnmálaheimspeki og var fróðlegt að ræða við hann.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 10.09.2014 | ALMANAK
Á fundi í Varsjá með fulltrúum OSCE/ODIHR vegna undirbúnings alhliða leiðbeininga fyrir aðildarríki Evrópuráðs um lagasetningu á sviði félagafrelsis. (Sjá frétt hér). Fundurinn er haldinn í byggingu (Brühl-höllinni) sem var sprengd í loft upp í síðari heimsstyrjöldinni en endurreist í nákvæmlega saman barokkstílnum. Myndin er tekin í sal þar sem Chopin hélt sína fyrstu tónleika, þá barn að aldri. Hann yfirgaf Varsjá tvítugur (rétt fyrir uppreisnina 1830) og kom þangað aldrei aftur. Hjarta hans var alltaf pólskt og sagt er að það sé grafið í Póllandi þótt útför hans hafi farið fram í París að viðstöddu fjölmenni.
http://www.osce.org/odihr/123316
by Herdís Þorgeirsdóttir | 9.07.2014 | ALMANAK
Fréttir á Ajara sjónvarpsstöðinni um ráðstefnu sem stjórnlagadómstóll Georgíu stóð fyrir 5. júlí um nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs á netinu; vernd gagna o.fl. Þátttakendur voru m.a. dómarar við stjórnlagadómstóla frá Þýskalandi, ýmsum ríkjum austur Evrópu, Eystrasaltslöndunum, þingmenn, prófessorar og undirrituð af hálfu Feneyjanefndar Evrópuráðs.
http://www.venice.coe.int/webforms/events/?id=1887
by Herdís Þorgeirsdóttir | 30.05.2014 | ALMANAK
Var í boði Stofnunar rússneskra stjórnvalda um lagasetningu og samanburðarlögfræði á ráðstefnu í Moskvu 29. og 30. maí n.k. Var með fyrirlestur og tók þátt í panel-umræðum með Sergey Naryshkin, forseta rússneska þingsins og Olgu Golodec, varaforsætisráðherra Rússlands. Á myndinni ásamt Olgu Golodec og Gerard Marcou, prófessor í lögum við Sorbonne í París.