Nýr dómsmálaráðherra Brasilíu

Nýr dómsmálaráðherra Brasilíu

Forseti Brasilíu, Lula da Silva, hefur skipað Ricardo Lewandowski nýjan dómsmálaráðherra Brasilíu. Við erum skólasystkin frá The Fletcher School of Law and Diplomacy og hittumst á fundi í Chile fyrir nokkrum árum en þá var hann forseti hæstaréttar í Brasilíu.

Viðurkenning bókmenntaverðlauna ESB

Viðurkenning bókmenntaverðlauna ESB

María Elísabet Bragadóttir rithöfundur hlaut viðurkenningu evrópsku bókmenntaverðlaunanna í Brussel hinn 4. apríl fyrir smásögur sínar í bókinni Sápufuglinum.
Úkraínski rithöfundurinn Andrey Kurkov  afhenti Maríu Elísabetu viðurkenninguna sagði sögurnar hennar í Sápufuglinum sýna brothætta fegurð okkar tíma á djúpan, kaldhæðinn hátt og samúð með mennskunni í veikleika sem tilfinningalegum möguleikum. Það hvernig María Elísabet næði að fjalla um ýmis nútímaleg vandamál út frá grundvallar- og flóknum tilfinningum væri vitnisburður um mjög hæfileikaríkan og efnilegan ungan rithöfund.

Af heimasíðu sendinefndar ESB á Íslandi:

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2024 voru afhent á sérstakri verðlaunaathöfn í Brussel 4. apríl en 13 rithöfundar voru tilnefndir til verðlaunanna árið 2024. Bókmenntaverðlaunum ESB er ætlað að vekja athygli á hinum mikla fjölbreytileika sem einkennir evrópskar bókmenntir sem og viðurkenna upprennandi rithöfunda frá 40 þátttökuríkjum Creative Europe, menningaráætlunar Evrópusambandsins. Ísland er meðal þátttökuríkja Creative Europe menningaráætlunarinnar.

Danski rithöfundurinn Theis Ørntoft hreppti hnossið í ár og er handhafi bókmenntaverðlauna ESB 2024. Íslenski rithöfundurinn María Elísabet Bragadóttir hlaut sérstaka viðurkenningu frá stjórn bókmenntaverðlaunna fyrir bókina sína Sápufuglinn.

Sendinefnd ESB óskar Maríu Elísabetu til hamingju með sérstöku viðurkenninguna.

Dómnefnd samanstóð af 7 bókmenntasérfræðingum

 

Verðlaunahafi og sérstakar viðurkenningar:

Danmörk: Theis Ørntoft, Jordisk, útgefandi: Gyldendal

Búlgaría: Todor Todorov, Хагабула, útgefandi: Janet 45

Þýskaland: Deniz Utlu, Vaters Meer, útgefandi: Suhrkamp

Ísland: María Elísabet Bragadóttir, Sápufuglinn, útgefandi: Una útgáfuhús            

Holland: Sholeh Rezazadeh, Ik ken een berg die op me wacht, útgefandi: Ambo|Anthos

Slóvenía: Tina Vrščaj, Na klancu, útgefandi: Cankarjeva založba

María Elísabet um ímyndunaraflið á RÚV

María Elísabet um ímyndunaraflið á RÚV

Rithöfundurinn María Elísabet Bragadóttir hefur sent frá sér tvö smásagnasöfn og segir erfitt að útskýra hvaðan sögur hennar koma. „Ég myndi ekki segja að ég fái hugmyndir að sögunum heldur fæ ég tilfinningu sem ég vil koma til skila.“

Rætt var við Maríu Elísabetu Bragadóttur í Orðum um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Fyrir mánuði kom út annað smásagnasafn höfundarins Maríu Elísabetar Bragadóttur. Nýja bókin heitir Sápufuglinn og geymir þrjár smásögur en fyrir tæpum tveimur árum vakti höfundur athygli með frumraun sinni Herbergi í öðrum heimi. Í smásögum Maríu Elísabetar fær lesandi innsýn inn í hugar- og reynsluheim ungs fólks sem er að reyna að fóta sig í tilveru fullorðinna, í ástarsamböndum og fjölskyldusamböndum. Flestar sagnanna eru fyrstu persónu frásagnir sem gefa djúpa innsýn í þrá eftir raunverulegum tengslum og óöryggi – sem sögurnar fjalla allar um hver með sínum hætti. Rætt var við Maríu Elísabetu í Orðum um bækur á Rás 1 um bækur hennar.

Skrifar til að skilja heiminn

„Ég held að ég hafi bara byrjað að skrifa skáldskap þegar að ég lærði að skrifa og þegar að ég lærði að lesa,“ segir María Elísabet. Hún segir skrifin sína aðferð til að skilja heiminn og til að tengjast honum. „Ef að ég myndi ekki skrifa þá væri ég svolítið sambandslaus. Mér finnst ég oft vera að stinga mér í samband með því að skrifa.“

Heimur bókmennta hafur fylgt Maríu frá því að hún lærði að lesa, jafnt skrif sem lestur. „Ég les frekar mikið myndi ég segja og núna fæ ég samviskubit þegar að ég er ekki að skrifa nema ég sé að lesa, því þá finnst mér ég vera að sinna vinnu.“ Hún les á hverjum degi en sinnir skriftum í skorpum. „Ég er misjafnlega iðin og er enn sem komið er dálítið kaotísk. En að upplagi get ég verið öguð þegar mikið liggur við, þá er ég það.“

Hingað til hefur hún að mestu fengist við prósaformið og út hafa komið tvö smásagnasöfn. „Ég hef aldrei fundið hjá mér þörf fyrir að gefa út ljóð.“ María les mikið ljóð og hefur skrifað þau en finnst að eigin sögn ógnvekjandi tilhugsun að gefa þau út. „Ég er öruggari með mig sem prósahöfund en það gæti alveg breyst.“

Góð tilfinning að þekkja persónuna vel

Smásögur Maríu hafa getið sér gott orð fyrir beittan húmor og djúpt innsæi höfundar sem birtist í leiftrandi persónusköpun. Hún hefur skapað stórt persónugallerí og segir gott að kynnast persónunum vel í gegnum skrifin. „Það er rosalega góð tilfinning að vera að skrifa samtal og finna að þú átt ekki í neinum vandræðum með framvinduna í samtalinu af því að þér finnst eins og að þú sért farin að fá það góða tilfinningu fyrir karakternum að þú veist bara nákvæmlega hvað karakterinn myndi segja þarna.“

María segir misjafnt hvernig sögurnar komi til sín, hvort persónurnar eða atburðarásin séu fyrri til að láta á sér kræla. „Ég held að þetta sé svolítil hringrás.“ Það sem leitar yfirleitt fyrst til hennar er einhver tilfinning sem hún vill koma til skila. „Einhver samskiptadýnamík eða eitthvað þannig.“

Átakasamt ferli

Í titilsögu nýrrar bókar hennar, Sápufuglinn, segir frá sambandi tvítugs sögumanns og Jóhönnu sem er 13 árum eldri. „Það er þarna valda dýnamík í nánu sambandi.“ Hin unga ónefnda söguhetja er heilluð af eldri konu og aldursmunurinn spyr spurninga um hvernig okkur finnist rétt að elska aðra manneskju. „Mér fannst svolítið erfitt að skrifa þessa sögu, það var alveg svolítið átakasamt ferli.“

María segist hafa verið lengi að átta sig á hvernig væri best að koma sögunni sem hún vildi segja til skila. „Ég vildi forðast að vera með falskan tón og svo var ég alltaf að hugsa um strúktúrinn, það var erfitt að finna út hvernig ég vildi hafa strúktúrinn af þessari sögu.“ Fyrstu drög sögunnar voru talsvert styttri en endanleg útkoman og voru skrifuð hratt. „En svo fann ég hvað ég var óánægð með hana og ég þurfti að endurskrifa hana, taka mér dálítið langan tíma og þurfti að lengja hana.“

„En svo einhvern veginn endaði þetta á því að vera þannig að ég treysti svolítið mikið þessum aðalkarakter. Hún er, þrátt fyrir að vera dálítið rugluð, þá er hún líka sterk.“ Aðalpersónan er að stíga sín fyrstu skref í heimi fullorðinna og á í sínu fyrsta fullorðinsástarsambandi. „Hún er fylgin sér. Hún er í sambandi með eldri konu en samt stendur á sínu. Hún er að reyna að lifa í heilindum, að reyna að vera sönn manneskja.“

Leti tabú í íslensku samfélagi

Önnur saga í smásagnasafninu Sápufuglinn heitir Dvergurinn með eyrað og er örlítið frábrugðin öðrum sögum Maríu. „Það er nánast smá vísindaskáldskapur þar stundum. Hún er dálítið ljóðræn og furðuleg.“ Sjálf segist María heilluð af fjölbreyttum höfundum sem beita fyrir sig mismunandi stílum bókmennta. „Ég er sjálf mjög hrifin af höfundum sem skrifa dálítið fjölbreytilega og lesandinn veit ekki alltaf hvar hann hefur höfundinn.“

Dvergurinn með eyrað fjallar um ætt kvenna og sérstaklega þá yngstu sem er titilpersóna sögunnar. Fyrst fylgjast lesendur með henni sem lítilli stúlku sem vex úr grasi og verður ung kona. Hún er með sífellt eyrnasuð og ankannaleg eyru, sem þó er aldrei farið í nákvæmar lýsingar á. Sagan tekur einnig á tabúi í íslensku samfélagi því mæðgurnar eru allar latar. „Þar er amma mín að veifa. Amma mín sagði alltaf að hún væri löt og hún ætti eftir að verða fyrsta konan á Íslandi til að deyja úr leti. Þannig að amma var smá innblástur þar.“

„Mér fannst gott að skrifa einhverja sögu sem lét nánast ekkert uppi. Þetta er allt í höndum lesandans um hvað þetta raunverulega fjallar.“ Hún segir þó að óneitanlega sé sorglegur tónn í sögunni og ef til vill sé leti kvennanna harmræn. „Kannski er það eitthvað slæmt í þessari sögu. Það er allavega eitthvað að. Allar þessar konur eru á skjön. Þær finna sig ekki í tímanum.“

Börn líka með flókið tilfinningalíf

Það mætti segja að síðasta sagan í smásagnasafninu Herbergi í öðrum heimi sé titilsaga bókarinnar þó hún beri annað nafn því sagan vísar til nafns bókarinnar með afgerandi hætti. Sagan heitir Ég er ekki kona, ég er sjö ára og segir frá systrunum Rúnu og Bergljótu. Rúna er um það bil að verða kynþroska en Bergljót er sjö ára. Móðir þeirra hefur beðið þær að halda sig til hlés því hún er að halda kvennaboð og sú eldri reynir að passa þá yngri. „Barnungu karakterarnir eru með flókið tilfinningalíf líka,“ segir María.

Persónur Maríu eru gjarnan ungar konur eða jafnvel börn. Rúna í sögunni Ég er ekki kona, ég er sjö ára er á mörkum þess að vera barn og vera ung kona. „Hún Rúna, hana langar til að vera fullorðin, en þetta er samt tvíbent. Hún þolir ekki hvað systir hennar fær mikla athygli og hún er svolítið afbrýðisöm en hún vill líka vernda systur sína frá fullorðinsheiminum, sem hún er líka hrædd við.“

Einn góður lesandi ótrúlegur

Íslenska málsvæðið er nokkuð lítið og því segir María ómetanlegt að eiga góða þýðendur. „Það er skrítið að skrifa á íslensku, maður er að skrifa á leynitungumáli.“ Sögur hennar hafa verið þýddar á nokkur tungumál og hún hefur ferðast utan til að taka þátt í málþingum og fleiru. Nýlega var hún í Tékklandi og Slóvakíu að taka þátt í Authors Reading Month. „Það var ævintýralegt, ótrúlega mögnuð upplifun og eitthvað sem að ég hafði aldrei leitt hugann að.“

Eitt kvöldið á hátíðinni spurði kona hana hvort það freistaði Maríu ekki að skrifa einfaldlega á ensku. „Mér fannst það alveg fáránleg spurning. Bara, nei.“ Þó að hún eigi sér þann draum að bækur hennar nái til víðari hóps en þeirra sem kunna íslensku þá hugnast henni ekki að skrifa á öðru tungumáli en móðurmáli sínu. Fyrir vikið þurfum við að treysta á góða þýðendur. „Við eigum reyndar ótrúlega góða þýðendur.“

Lesendafjöldi Maríu veldur henni þó ekki þungum áhyggjum. „Áður en að ég byrjaði að skrifa þá var ég ekki að hugsa oh þetta er eitthvað þunglyndislegt að vera bara að skrifa fyrir 300 þúsund manns. Ég er enn þá á þeim stað að mér finnst magnað þegar að ein manneskja les og ég er ekki að vera með einhverja falska hógværð eða eitthvað svoleiðis. Ég er bara að meina það. Einn góður lesandi, það er ótrúlegt.“

María lagði stund á heimspeki í Háskóla Íslands og hefur ekki lært þar ritlist eins og margir höfundar af yngri kynslóðinni um þessar mundir. Hún segir dýrmætt að eiga vini sem sinna líka skrifum. „Það er gott að eiga gott tengslanet og sérstaklega að geta talað við fólk sem er að gera það sama og þú. Eignast góða yfirlesara. Ég held að tengslanet sé þó ekkert forsenda þess að verða góður rithöfundur.“

Rætt var við Maríu Elísabetu Bragadóttur í Orðum um bækur á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tónsmíðar við Essex Serpent

Tónsmíðar við Essex Serpent

Tónskáldin Herdís Stefánsdóttir og Dustin O’Halloran hafa samið tónlistina við nýja þáttaseríu á Apple TV – The Essex Serpent sem byggir á verðlaunaskáldsögu Sarah Perry en í aðalhlutverkum eru Tom Hiddleston og Claire Danes. Sagan gerist á síðari hluta Viktoríutímans í litlu sjávarplássi á Englandi þar sem fólk hefur orðið vart við ógnvænlegan orm (líkt og Lagarfljótsorminn) eftir að steingervingar komu í ljós við jarðskjálfta. Tom Hiddleston leikur þorpsprestinn en Claire Danes er steingervingafræðingur, ekkja sem kemur frá London til að rannsaka fyrirbærið. Herdís og Dustin hafa hlotið lof gagnrýnenda fyrir tónlistina.

Óvissan

Óvissan

Staðsetning rússneskra hersveita – um 100 þúsund manns og vopnabúnaðar við landamæri Rússlands og Úkraínu sem og á landamærum Hvíta Rússlands og Úkraínu hefur vakið sterk viðbrögð innan Atlantshafsbandalagsins – auk þess er því haldið fram að Rússar séu í startholunum með skipaflota og flugsveitir komi til átaka. Ástandið veldur ótta. Rússar hafa mánuðum saman verið að byggja upp hernaðarmátt við landamæri Úkraínu sem Pútin, forseti Rússlands, segir að sé liður í að verja Rússa gegn ört vaxandi Atlantshafsbandalagi. Hann hefur lýst yfir vonbrigðum með þá afstöðu NATO að koma ekki til móts við kröfur Rússa um að meina Úkraínu þátttöku í bandalaginu.

Biden forseti Bandaríkjanna er óspar á yfirlýsingar um mögulega innrás Rússa í Úkraínu sem yrði með hans orðum ,,sú stærsta frá því í síðari heimsstyrjöldinni”. Komi til átaka er stigmögnun líkleg í tíma og rúmi. Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, hefur biðlað til alþjóða samfélagsins að halda aftur af hræðsluáróðri  því efnahagur Úkraínu sé í húfi.

En það kann einnig liggja fyrir lausn sem eru drögin að Minsk samkomulaginu frá 2015 á milli Frakka, Þjóðverja, Rússa og Úkraínu, stutt af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna – en því var ætlað að enda átökin í Donbas í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga 2014. Efnislega gæti Minsk-samkomulagið átt við núverandi stöðu. Á sínum tíma synjuðu Frakkar og Þjóðverjar tilboði Bandaríkjamanna um að fá Úkraínu til að ganga í NATO enda fyrirséð hver viðbrögð Rússa yrðu við því. Það boð kom upphaflega frá  George W. Bush 2008 og var síðar ítrekað af Barak Obama.  Minsk samkomulagið 2015 gekk út frá takmörkun vígbúnaðar í aðskilnaðarhluta Rússa í Donbas héraði og að hersveitir yrðu fjarlægðar um leið og fullveldi Úkraínu  yrði tryggt og stjórn yfir landamærum við Rússland sem og sjálfstjórn Donbas-héraðs. Minsk samkomulaginu hefur hins vegar ekki verið hrint í framkvæmd.

Emmanuel Macron forseti Frakklands sagði nýlega að mikilvægt væri að endurvekja fjórhliða viðræður Rússa, Þjóðverja, Frakka og Úkraínu til að finna lausn á stigmögnun átaka. Eins og samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna er nú háttað gætu ríki Evrópu stigið inn og reynt að miðla málum. Öryggi og friður í Evrópu er einnig í húfi.

Hvað varðar kröfu Rússa um að Úkraína gangi ekki í NATO má minna á  Svíþjóð og Finnland sem ekki eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu og lýstu áður yfir hlutleysi vegna nálægðar við Rússland. Því hlutleysi var hins vegar aflýst þegar þau gengu í Evrópusambandið þótt þau séu formlega ekki aðilar að NATO. Síðustu vikur og daga hefur verið ítrekað af hálfu forsvarsmanna NATO að dyrnar að bandalaginu stæðu þeim opnar. Bæði ríkin hafa aukið sveigjanleika í stuðningi við NATO með því að hleypa hersveitum Atlantshafsbandalagsins inn í lögsögu sína á krísutímum. Það hefði hins vegar bæði hernaðarlegar og pólitískar afleiðingar gengju Svíar og Finnar í NATO. Ólíklegt er annað en að Rússar myndu bregðast við því með einhverjum hætti. Að sama skapi er óþolandi fyrir fullvalda ríki annað en að hafa valkostinn og vera ekki múlbundin af skilyrðum nærliggjandi stórvelda.

Þrátt fyrir að Rússar virðist í startholunum að ráðast inn í Úkraínu með uppbyggingu á hernaðarmætti á landamærunum – og að til innrásar kæmi á næstu vikum er ólíklegt að NATO ríkin myndu blanda sér beint í slík átök en þau myndu hafa voveiglegar afleiðingar fyrir stöðuna á alþjóðavettvangi. Það er einnig ljóst að í því er fólgin mikil áhætta fyrir Rússa að ráðast inn í Úkraínu. Bandaríkin gætu brugðist hart við og Rússar væru komnir í ógöngur.

Pútin talar fyrir rússneskum hagsmunum og aðgerðir síðustu mánaða eru til að staðfesta alvöruna – því liggur beinast við að tala saman áður en stórslys verður. Það er ótækt annað en að finna lausn á þessari deilu.

Vladimir Pútin, Francoise Holland þáverandi Frakklandsforseti, Angela Merkel þáverandi kanslari Þýskalands og Petro Poroshenko þáverandi forseti Úkraínu við undiritun Minsk-samkomulagsins.