Tónskáldin Herdís Stefánsdóttir og Dustin O’Halloran hafa samið tónlistina við nýja þáttaseríu á Apple TV – The Essex Serpent sem byggir á verðlaunaskáldsögu Sarah Perry en í aðalhlutverkum eru Tom Hiddleston og Claire Danes. Sagan gerist á síðari hluta Viktoríutímans í litlu sjávarplássi á Englandi þar sem fólk hefur orðið vart við ógnvænlegan orm (líkt og Lagarfljótsorminn) eftir að steingervingar komu í ljós við jarðskjálfta. Tom Hiddleston leikur þorpsprestinn en Claire Danes er steingervingafræðingur, ekkja sem kemur frá London til að rannsaka fyrirbærið. Herdís og Dustin hafa hlotið lof gagnrýnenda fyrir tónlistina.