by Herdís Þorgeirsdóttir | 16.01.2014 | Fréttir
Fyrstu verðlaun Evrópuráðsins (Council of Europe) kennd við Raoul Wallenberg verða veitt í Strassborg föstudaginn, 17. janúar. Verðlaunahafinn er Elmas Arus, rúmensk kvikmyndagerðarkona. Hlýtur hún verðlaunin í viðurkenningarskyni fyrir að hafa vakið athygli að aðstæðum Roma-fólks í Tyrklandi og víðar. Á árunum 2001 til 2010 hefur hún unnið ásamt sjálfboðaliðum að þessu verkefni og haft mikil áhrif á stefnumótun stjórnvalda í Tyrklandi til að rétta hlut Roma-fólksins.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 8.01.2014 | Almanak
Dr. Herdís Þorgeirsdóttir hefur verið kjörin einn þriggja varaforseta nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum, í daglegu tali nefnd Feneyjanefndin. Hlutverk Feneyjanefndar er að veita lögfræðilega ráðgjöf til aðildarríkja á sviði stjórnskipunar, ekki síst þeirra ríkja sem eru að aðlaga löggjöf og stofnanir að evrópskum og alþjóðlegum viðmiðum á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis.
Að Feneyjanefnd eiga aðild 59 ríki með einn og hálfan milljarð íbúa, þar af 47 ríki Evrópuráðsins auk Bandaríkjanna, ríkja í Suður-Ameríku, Asíu og Norður-Afríku. Fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambands og Efnahags-öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sitja aðalfundi nefndarinnar. Í Feneyjanefnd eiga sæti sérfræðingar á sviði stjórnskipunar og mannréttinda.
Herdís Þorgeirsdóttur var skipuð fulltrúi í Feneyjarnefnd af hálfu Íslands 2010 og hafði þá gegnt stöðu varafulltrúa frá 2003. Núverandi varafulltrúar eru Páll Hreinsson dómari við EFTA-dómstólinn og Hjörtur Torfason fyrrv. hæstaréttardómari. Herdís hefur gegnt formennsku í stærstu undirnefnd Feneyjanefndar á sviði mannréttinda frá 2011.
Herdís var skipuð prófessor við lagadeild háskólans á Bifröst 2004. Hún hefur átt sæti stjórn Evrópsku lagaakademíunnar frá 2012. Hún var kjörin forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga 2009 og endurkjörin 2011. Hún hefur lengi starfað í hópi lögfræðingateymis á sviði evrópsks vinnuréttar og jafnréttis. Hún er menntuð lögfræðingur og stjórnmálafræðingur, lauk framhaldsnámi í Bandaríkjunum og doktorsprófi frá lagadeild Lundarháskóla. Hún starfar nú sem lögmaður í Reykjavík.
Meginhlutverk Feneyjanefndar er að veita lagalega ráðgjöf í formi lögfræðiálita á lagafrumvörpum eða nýrri lagasetningu sem er borin undir nefndina. Feneyjanefndin gerir einnig rannsóknir á mikilvægum álitaefnum. Aðilar sem leita eftir lögfræðilegum álitaefnum Feneyjanefndar eru löggjafsamkundar aðildarríkja og ríkisstjórnir; framkvæmdastjóri Evrópuráðs, ráðherranefnd og þingmannasamkunda Evrópuráðs; alþjóðlegar stofnanir, Evrópusambandið, Efnahags-öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og fleiri. Á síðasta ári óskaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis eftir áliti Feneyjarnefndar á frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Feneyjanefndin hefur aðsetur í höfuðstöðvum Evrópuráðs í Strassborg. Mannréttindadómstóll Evrópu vitnar iðulega til álita nefndarinnar sem og dómstólar, stjórnvöld, félagasamtök og fjölmiðlar víða um heim.
Sjá hér.
(http://www.venice.coe.int/webforms/events/
by Herdís Þorgeirsdóttir | 30.12.2013 | Fréttir
Nefnd fimm dómara yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) ákvað að vísa dómi til yfirdeildar dómstólsins en dómur hennar skal vera endanlegur. Þetta var eina málið sem nefndin féllst á að vísa til yfirdeildarinnar af tuttugu, á fundi sínum 9. desember s.l.
Málið Morice gegn Frakklandi snýst um sakfellingu lögmannsins, Oliver Morice, sem ákærður var fyrir ærumeiðingar vegna ummæla sinna í grein í blaðinu Le Monde í garð dómara sem voru að rannsaka lát dómarans, Bernhard Borrel. Lík Borrel fannst í nálægð við borgina Djibouti árið 1995 og var það að hluta til brunnið. Lögreglurannsókn leiddi til þess að litið var á dauða dómarans sem sjálfsmorð. Hann hefði sjálfur borið eld að líkama sínum. Ekkja hans, Elisabet Borrel, vefengdi niðurstöðuna og taldi að hann hefði verið myrtur. Málið var opnað aftur og dómarar hófu að rannsaka málið á nýjan leik. Lögmaður ekkjunnar vefengdi hlutleysi rannsóknardómaranna í blaðagreininni í Le Monde eftir að áfrýjunardómstóll í París hafði tekið málið úr höndum þeirra, sem höfðu verið skipaðir til að rannsaka málið. Dómararnir kvörtuðu undan meiðyrðum og í kjölfarið var gefin út ákæra á hendur lögmanninum og hann síðan fundinn sekur um ærumeiðingar.
Lögmaðurinn taldi að brotið hefði verið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar við meðferð málsins fyrir dómi í Frakklandi, þar sem einn dómaranna hefði þegar lýst yfir stuðningi við dómarann, sem lögmaðurinn gagnrýndi. Hann taldi jafnframt að tjáningarfrelsi sitt hefði verið skert með ólögmætum hætti. Deild Mannréttindadómstóls Evrópu komst einróma að þeirri niðurstöðu í júlí 2013 að réttur lögmannsins til réttlátrar málsmeðferðar hefði verið brotinn en frönsk stjórnvöld hefðu hins vegar ekki brotið á rétti hans til tjáningar. Ummæli lögmannsins í garð dómaranna í greininni í Le Monde hefðu verið móðgandi og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á dómskerfinu. Frönsk stjórnvöld hefðu því ekki farið á skjön við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með því að sakfella lögmanninn fyrir ærumeiðingar.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 19.12.2013 | Fréttir
Fulltrúum 47 aðildarríkja Evrópuráðs hefur verið falið að kanna fullnustu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu 3-4 desember 2013, samkvæmt nýjum fréttum frá Strassborg.
Aðildarríki Evróuráðs hafa skuldbundið sig til að hlíta endanlegum dómi Mannréttindadómstólsins í hverju því máli sem þau eru aðilar að. Endanlegur dómur dómstólsins er fenginn ráðherranefndinni sem hefur umsjón með fullnustu hans. Telji ráðherranefndin að aðildarríki neiti að hlíta endanlegum dómi í máli sem það á aðild að getur hún, eftir að hafa afhenti viðkomandi ríki formlega tilkynningu þar um og með ákvörðun sem er samþykkt með með tveimur þriðju hlutum atkvæða þeirra fulltrúa sem eiga rétt til setu í nefndinni, beint þeirri spurningu til dómstólsins hvort samningsaðilinn hafi brotið gegn skyldum sínum skv. 1. mgr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um að samningsríki verði að tryggja öllum innan sinnar lögsögu þau réttindi sem eru í sáttmálanum.
Þau mál sem eru til skoðunar núna varða Albaníu, Armeníu, Azerbaijan, Belgíu, Bosníu og Hersegóvínu, Búlgaríu, Tékkland, Grikkland, Moldóvu, Noreg, Pólland, Rúmeníu, Rússland, Serbíu, Slóveníu, Spán, Tyrkland, Úkraínu og Bretland. Varðandi Bretland er til dæmis til skoðunar fullnusta dóms í máli Hirst nr. 2 gegn Bretlandi í máli þar sem dómstóllinn kvað fortakslaust bann við því að fangar fái að nýta kosningarétt sinn fara í bága við Mannréttindaáttmála Evrópu.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 18.12.2013 | Fréttir
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) komst að þeirri niðurstöðu í máli Perincek gegn Sviss hinn 17. desember s.l. að svissnesk stjórnvöld hefðu brotið á tjáningarfrelsi manns sem hafði afneitað þjóðarmorðinu á Armenum 1915 á opinberum vettvangi (dómur deildar, sem er ekki endanlegur). Maðurinn hafði verið ákærður fyrir brot á svissneskum hegningarlögum með ummælum sínum. Taldi dómstóllinn að maðurinn hefði ekki gerst brotlegur á grundvelli sáttmálans með því að kalla söguskýringuna um þjóðarmorðið “alþjóðlega lygi”. Hann hefði tekið þátt í mikilvægri pólitískri umræðu og svigrúm til að hefta tjáningarfrelsi hans þar af leiðandi takmarkað. Ekki væri unnt að nota sömu skilgreiningu í tilfelli Armeníu 1915 og varðandi afneitun á helförinni þar sem tilvist gasklefa væri t.d. sönnuð.