Tvær stelpur klöngrast áfram í djúpum snjó á köldum janúardegi. Það brakar í fönninni. Þær eru klæddar í þungar, dragsíðar fullorðinskápur. Leiðin í Akrakot, sem stendur við fjörukambinn í Álftanesinu er löng og ógreiðfær. Þar býr Þorgerður ásamt foreldrum sínum og systkinum.

Gangan út á Álftanes varð í huga okkar táknrænt upphaf samfylgdar sem stóð í rúm 46 ár. Þorgerður er góður ferðafélagi. Hún er eins og persóna úr Íslendingasögunum með mikið, ljóst hár. Augun blá og stór, varirnar þykkar, ungt andlitið stórskorið, svipsterk, sviphrein. Fríða, móðir hennar sagði þá að stórgerðar konur yrðu glæsilegri með aldrinum. Álftanesið er heimurinn hennar. Hún hefur unnið öll hefðbundin sveitastörf með afa sínum, bóndanum á Grund; tekið á móti lömbunum, gefið hænunum, þekkir fuglalífið, kann að smíða og járnabinda. Á sumrin vaknar hún við sólarupprás og syndir í sjónum. Þarna mótast ást hennar á náttúrunni, verkvitið, ábyrgð hennar og velvilji. Móðir hennar þjáist af hugarvíli og er stundum lögð inn. Þá vinnur unga stúlkan heimilisverkin fumlaust og sinnir yngri systkinum sínum.

Litla Akrakotið er raunverulegt höfðingjasetur, þangað kemur fólk af öllum toga, ýmsir sem standa höllum fæti í lífinu og vinir barnanna. Fólki líður vel í návist Fríðu sem vegna veikinda sinna hefur innsæi í sálir fólks.

Þorgerður er stundum með tiktúrur. Mæðgurnar eru komnar hálfa leið í bæinn þegar Þorgerður, á leið í próf í lagadeildinni, áttar sig á því að hún hefur gleymt pennanum sem hún fékk í fermingargjöf. Fríða snýr við og sækir pennann. Þorgerður notaði hann alla tíð síðan. Týndi engu og aldrei sjálfri sér.

Hún sagði foreldra sína hafa snúist í kringum sig. Þannig lærir maður að vera góður við aðra, sagði hún síðar. Hvort hún var. Á stórum stundum í lífi mínu var hún alltaf nálæg. Á erfiðaleikatímum var hún eins og klettur.Við töluðum saman á hverjum degi. Þú ert nú meiri vinkonan, sagði ég oft. Hvernig er hægt að launa svona samfylgd í örfáum orðum?

Þorgerður var hetja. Þegar mamma hennar veiktist og átti ekki afturkvæmt, tók Þorgerður við. Eins og hún ætti ekki  nóg með sitt; móðir ungra drengja, lögfræðingur að reyna að komast í betri stöðu sem fulltrúi hjá bæjarfógeta og síðar í héraðsdómi – í karlaheimi –  vel gefin, skilningsrík, nákvæm, með gott vald á íslenskri tungu og rökhugsun.

Líkt og á göngunni forðum, lét hún skaflana ekki hindra sig. Yfir litlu var hún trú, yfir mikið var hún sett. Hennar ríki var allt það fólk sem naut góðvildar hennar. Eftir langan vinnudag, sama hvernig viðraði, keyrði hún upp á Arnarholt til að sinna móður sinni – í sautján vetur. Hún gekk systkinum sínum í móðurstað,  sleppti aldrei hendinni af þeim.

718014minniÁður en hún var skipuð héraðsdómari hafði hún starfað sem slíkur um árabil. Dómar hennar voru nær undantekningarlaust staðfestir af hæstarétti. Sumir merkt innlegg í kennslu í lögfræði.

Hún vitnaði stundum í ógæfukonu, sem stóð frammi fyrir fjölskipuðum dómi og sagði: þetta er bara „kómísens“! Almenn skynsemi var hennar leiðarljós og samlíðan með mönnum og málleysingjum.

Allt sem Þorgerður tók sér fyrir hendur gerði hún vel. Hún hafði ríkt fegurðarskyn og næmt auga. Hún var með glæsilegri konum.

Nú syrgja sárt, Kristján maðurinn hennar, faðir hennar Erlendur, systkinin Júlíana, Sveinn og Hugborg og synirnir Erlendur Kári og Friðrik Gunnar. Engir stóðu hjarta hennar nær en glókollarnir tveir.  Veganesti þeirra er umhyggja hennar og kærleikur. Með fordæmi sínu kenndi hún þeim hvað það er að vera góð og vönduð manneskja. Hún vissi að það skipti máli að nota tímann vel og halda hughraustur áfram. Bráðum kemur vorið. Þá vaknar náttúran til lífsins á Álftanesi og fuglarnir syngja. Ferðinni er ekki lokið þótt Þorgerður hafi farið yfir á aðra braut.  Hún heldur utan um ykkur ─ alla leið.

Herdís Þorgeirsdóttir

Þorgerður, Herdís, Bogga

 

þorgerður með boggu

þorgerður með guffu litlu