Nokkrar myndir

Nokkrar myndir

15. október 2012

 Ingrid Schulerud

Ingrid Schulerud heilsaði upp á mig á fundi hjá Evrópuráðinu í vikunni. Hún sagðist hafa lesið um forsetakosningarnar á Íslandi í norsku pressunni. Ingrid er stjórnmálafræðingur að mennt og starfar að málefnum Evrópska efnahagssvæðisins í utanríkisráðuneytinu í Osló. Eiginmaður hennar er Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Þess má jafnframt geta að föðursystir hennar var hinn dáði og verðlaunaði barnabókahöfundur, Ann-Cath Vestly. Hver man ekki eftir bókinni um  Óla Alexander Fíli bomm-bomm?

Caroline Martin

Er lögfræðingur sem starfar hjá Nefnd Evrópuráðsins um lýðræði með lögum (Feneyjarnefnd) – á sviði lýðræðisstofnana og mannréttinda. Hún á þýska móður en franskan föður og er alin upp í Frakklandi. Hún hefur starfað hjá Evrópuráðinu í nokkuð langan tíma; er mikil fagmanneskja og frábær í samstarfi.

Dan Meridor

Í þó nokkurn tíma hefur þessi maður verið sessunautur minn á fundum hjá Evrópuráðinu – fulltrúi Írlands situr á milli okkar, þ.e. Íslands og Ísrael. Dan Meridor heitir hann og er varnamálaráðherra og varaforsætisráðherra Ísrael. Lífverðir fylgja honum hvert fótmál. Hann hefur áður gegnt stöðu dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra enda verið lengi tengdur stjórnmálum. Hann er fæddur í Jersúsalem 1947; er lögfræðingur að mennt; en gegndi herþjónustu áður. Las einhvers staðar að hann hafi verið skriðdrekaforingi í sex daga stríðinu á milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrland hins vegar í júní 1967 og Jóm Kippur stríðinu í október 1973 á milli Ísraels annars vegar og bandalags Arabaríkja hins vegar. Stríðið hófst með sameiginlegri árás Egyptalands og Sýrlands á Ísrael á jóm kippur, hátíðisdegi gyðinga.

 Slavica Banic

Á myndinni er ég með Slavica Banic, sem er dómari við stjórnlagadómstólinn í Króatíu og með mér í Evrópusamtökum kvenlögfræðinga – (www.ewla.org). Hún er fædd í Sarajevo í Bosníu Hersegóvínu í febrúar 1966 og lauk laganámi frá háskólanum í Zagreb. Hún var skipuð dómari við stjórnlagadómstólinn í Króatíu 2008.

 

Þorgerður Erlendsdóttir

Æskuvinkona mín, Þorgerður Erlendsdóttir er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.  Til hægri á myndinni er yngsta systir hennar, Hugborg. Þorgerður er einstök kona, vandvirk, vel gefin, vel gerð og vill hvers manns vanda leysa.

Hugrekki, lýðræði, auðræði

Hugrekki, lýðræði, auðræði

6. október 2012

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal Bergsteins Sigurðssonar við ástralska rithöfundinn, Önnu Funder, höfund bókarinnar Stasiland. Í bókinni segir hún sögu fjögurra andófsmanna í Austur-Þýskalandi og fjallar um hugrakka uppljóstrara og starfsmenn austur-þýsku öryggislögreglunnar, Stasi.  Í viðtalinu segir Anna Funder að hún hafi mikinn áhuga á hugrekki og að skoða hvers konar kjark þurfi til þess að neita að starfa með ógnarstjórn, vitandi að maður verði látinn gjalda  þess á einn eða annan hátt.

“Í upphafi drap Stasi fólk óhikað en þegar á leið dró úr því og við tóku aðferðir sem miðuðu að því að taka fólk á taugum, til dæmis áreitni og hagnýting illa fenginna upplýsingar um hagi þess“.

Í fyrradag lést samstarfsfélagi, Vojin Dimitrijevic, serbneskur prófessor, dómari við stríðsglæpadómstólinn í Haag, forstöðumaður Mannréttindastofnunarinnar í Belgrad, mikilsvirtur fræðimaður á alþjóðavettangi og baráttumaður gegn hvers konar spillingu, alræðistilburðum og mannréttindabrotum; heiðraður af frönskum stjórnvöldum og prófessor við háskóla beggja meginn Atlantsála. Hann var áttræður þegar hann lést og hafði mikla reynslu af spilltum stjórnvöldum og skoðanakúgun.  Hann hafði verið skipaður prófessor við lagadeild háskólans í Belgrad  en var vikið úr starfi vegna andúðar sinnar og gagnrýni á stjórnarhætti hins forherta, þáverandi forseta landsins, Slobodan Milosevic. Prófessor  Dimitrijevic hafði hugrekki til þess að fara gegn straumnum.

Miloslevic var mannréttindaníðingur og hafði lítið dálæti á pólitískum réttindum eins og tjáningarfrelsi og auðvitað var borgaralegt hugrekki manna eins og prófessors Diemitrijevic, sem hafði engan áhuga á að vera kjölturakki spilltra stjórnmálamanna – eitur í beinum Slobodans Milosevic. Enda galt Vojin Dimitrijevic fyrir með stöðu sinni við háskólann í Belgrad þar sem prófessorar eru skipaðir til æviloka. En hann átti eftir að ná frama sem fræðimaður á alþjóðavettvangi og komst í þá stöðu að vera skipaður dómari við stríðsglæpadómstólinn í Haag – þangað sem Slobodan Milosevic var dreginn síðar (en hann dó í fangaklefa í Haag 2006). Meðan Sloba, eins og gælunafn hans var, var forseti Serbíu og síðar Júgóslavíu, voru ítök stjórnvalda í fjölmiðlum álitin ein kjölfesta valdsins – að vanda – og þannig var umræðunni í samfélaginu stjórnað.  Blaðamenn og fleiri voru sóttir til saka fyrir að gagnrýna stjórnvöld  – en þegar óttinn er orðinn víðtækur þarf ekki ekki sinni að ákæra fólk. Sjálfs-ritskoðunin tekur völdin og fólk þegir – nema þessir fáu hugrökku sem eru tilbúnir að færa persónulegar fórnir. Enginn skyldi halda að þessi lýsing eigi bara við Serbíu – eða að hún eigi bara við síðasta áratug síðustu aldar.

Serbía varð 45 aðildarríki að Evrópuráðinu 2003 og hefur því undirgengist þær skuldbindingar sem Mannréttindasáttmáli Evrópu leggur á ríki að standa vörð um tjáningarfrelsi; og ekki eingöngu það heldur ber stjórnvöldum skylda til að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að þetta grundvallarfrelsi í lýðræðisríkjum sé virkt. Í dómaframkvæmd og túlkun á 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu er vernd tjáningarfrelsis meðal annars fólgin í því að vernda uppljóstrara; stuðla að öflugri pólitískri umræðu, sjálfstæðu, óháðu ríkisútvarpi, fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og umfram allt óttaleysi blaðamanna, bloggara og almennings í að tjá sig.

Árið 1927 skrifaði Louis Brandeis dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna rökstuðning fyrir niðurstöðu í dómi í máli Whitney gegn Kalíforníu – þar sem hann sagði m.a. að þátttaka í opinberri umræðu væri pólitísk skylda og að þeir sem hefðu lagt grunninn að bandarískri stjórnskipun hefðu gert sér grein fyrir því að stofnanir samfélagsins væru ekki öruggar andspænis kúgunartilburðum —- (t.d. skoðanakúgun í stjórnsýslu, í háskólum o.s.frv.) – en óttinn elur af sér kúgun; kúgun leiðir til haturs og hatur er ógn við stöðugleika stjórnkerfa – leiðin til farsældar er fólgin í opinskárri umræðu, í heilbrigðri gagnrýni.

Á öðrum stað sagði þessi merki hæstaréttardómari: – hugrekki er forsenda frelsis. Enn fremur sagði  hann:

Við getum búið við lýðræði, eða að við búum við það að auðurinn er í höndum örfárra – en við getum ekki búið við hvort tveggja.

(We may have democracy, or we may have wealth concentrated in the hands of a few, but we can’t have both.)

Þannig hugsaði dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna fyrir næstum einni öld.

Þeir sem eru hugrakkir í dag geta endurtekið: Við getum búið við lýðræði eða auðræði en við getum ekki búið við hvort tveggja.

Verum hugrökk!

Uppgjör kosningabaráttu

Uppgjör kosningabaráttu

 

Uppgjör framboðs Herdísar Þorgeirsdóttur

Frétt Bylgjunnar

Frétt Vísis

Frétt í DV

Frétt Mbl. af útgjöldum frambjóðenda.

Vísir 

RÚV / RÚV um opið bókhald Herdísar

Sjónvarpsfréttir á RÚV daginn eftir að skilafrestur rann út

Var við kennslu í Tbilisi, Georgíu alla síðustu viku. Kom heim á sunnudagskvöld en aðrir frambjóðendur höfðu verið skila fyrir helgina. Uppgjörið fór til löggilts endurskoðanda í gær og er nú komið til Ríkisendurskoðunar.

 

Hér birtist uppgjör mitt vegna kosninga til embættis forseta Íslands þann 30. júní 2012.

Bókhald mitt var opið hér á heimasíðunni fram yfir kosningar, þann 30. júní s.l.

Í þessu uppgjöri, sem er nú vottað af löggiltum endurskoðanda og komið til Ríkisendurskoðunar, er gerð grein fyrir öllum mótteknum framlögum og útgjöldum vegna framboðs míns. Kosningabaráttan stóð yfir tímabilið maí – júní 2012.

Í samræmi við þau málefni sem ég lagði áherslu á í kosningabaráttunni – að peningaöfl ættu ekki að ráða úrslitum í lýðræðisþjóðfélagi, þáði ég enga styrki frá fyrirtækjum.
(more…)

Kennsla  í Georgíu á tíma þingkosninga

Kennsla í Georgíu á tíma þingkosninga

1.10.2012

Þingkosningar eru í Georgíu í dag. Ég kom heim í gær eftir að hafa verið í rúma viku að kenna mannréttindi við lagadeild Háskólans í Tbilisi, sem er ríkisháskóli og sá stærsti á Kákasussvæðinu. Við lagadeildina eru fimm þúsund nemendur. Deildarforsetinn, Irakli Burduli er sérfræðingur í félagarétti en hann stundaði doktorsnám í Salsburg í Austurríki. Kennslan fór fram á ensku og ég verð að segja að standardinn á nemendum er hár. Þau eru með góðan grunn í stjórnskipun eigin lands og hafa skilning á inntaki mannréttinda. Einn tími fór í  umræður um réttindi mótmælenda á grundvelli alþjóðlegara mannréttindaákvæða, þ.á m. fjölluðum við um Pussy Riot og þau voru hörð á því að rússnesk stjórnvöld hefðu með sakfellingu stúlknanna verið að berja niður pólitíska gagnrýni þótt þær hafi verið dæmdar fyrir óspektir á almannafæri. Enda hefði markmið þeirra ekki verið að ráðast að trúarbrögðum rétttrúnaðarkirkjunnar heldur að vekja athygli á pólitísku ástandi í Rússlandi. Eftir að Pútin var kjörin forseti í þriðja sinn í júní s.l. undirritaði hann ný lög um mótmæli á almannafæri með hertum viðurlögum þar sem hægt er að sekta fólk á grundvelli óskýrt orðaðra ákvæða um 300 þúsund rúblur (9300 bandaríkjadali).

Með nokkrum nemendum við lagadeildina í Tbilisi.

Ég fann strax þegar ég kom til Tbilisi að það er óróleiki í loftinu; spenna vegna kosninganna en einnig ótti við hvað kann að taka við. Einingarflokkur Saakashvilis, forseta, sem hefur verið við völd síðan 2003, á í höggi við kosningabandalag undir forystu milljarðamæringsins Bidzina Ivanishvili. Sá síðarnefndi er talinn hafa náin tengsl við Pútin og sagður hafa auðgast á góðum viðskiptasamböndum og samningum við Rússa en fátt hrýs mönnum eins hugur við og að Rússar nái aftur tökum á Georgíu. Landið var hluti af Sovétríkjunum og í skugga þeirra allt til þess að þau hrundu.

Mótmæli fyrir utan háskólann í Tbilisi síðastliðinn mánudag.

Georgía er staðsett á landfræðilega mikilvægum krossgötum þar sem Evrópa og Asía mætast. Menningarsaga landsins er forn og einstök og Georgíubúar rómaðir fyrir gestrisni sína og matargerð. Íbúar eru um fjórar og hálf milljón og meirihlutinn kristinn. Rétttrúnaðarkirkjan stendur föstum og fornum rótum í landinu og maður sér unga töffara signa sig þegar þeir ganga fram hjá kirkjum. En þeir eru einnig umburðalyndir því í Tbilisi eru moskur og synagogur hlið við hlið.

Rustaveli breiðgatan að kvöldlagi.

Borgin er undurfögur, staðsett í náttúrulegu virki milli hárra fjalla enda verið bitbein Persa, Tyrkja og Rússa í aldanna rás. Rússar náðu yfirráðum í landinu á 19. öld og á Rustaveli breiðgötunni stendur höll Romanov fjölskyldunnar með stórum skrúðgarði. Þar eru glæsileg hótel, listasöfn og kirkjur; stór bygging í sovéskum stíl sem hýsir fræðasetur Marx, Engels og Lenins; rétttrúnaðarkirkjur, söng og leikhús en þarna sátu Leo Tolstoy og Alexander Pushkin ásamt fleiri þekktum einstaklingum sem heilluðust af Tbilisi. Við Rustaveli stendur einnig þinghúsið þar sem mótmælendur söfnuðust saman í apríl 1989 og kröfðust sjálfstæðis við fall Sovétríkjanna þegar brynvarðir skriðdrekar og rússneskir hermenn murkuðu lífið úr tuttugu ungmennum sem þar komu saman, þar af sautján  ungum stúlkum. Landið var innlimað í Sovétríkin eftir byltingu bolsévika og hlaut sjálfstæði aftur 1991. Við tóku erfið ár og laganemar sem fóru með mér í skoðunarferð sögðu mér að þeir hefðu hreinlega soltið sem börn vegna ástandsins í landinu á tímabili; enginn matur, ekkert rafmagn og fólk beið í biðröð heilan dag eftir brauðhleif. Þetta var árið 2000.

Enn er Georgía bitbein stórvelda en bæði Rússar og Bandaríkjamenn telja sig eiga mikilla hagsmuna að gæta þar. Samband Georgíu við Rússa hangir á bláþræði eftir að þeir síðarnefndu studdu aðskilnaðarhreyfignar í Abkhazia og suður Ossetíu. Hagsmunir Bandaríkjamanna liggja meðal annars í fjárfestingum í olíuleiðslum frá Azerbaijan í gegnum Georgíu til Tyrklands. Herinn í Georgíu hefur notið stuðnings frá Bandaríkjamönnum og hefur það verið áhyggjuefni í Kreml þar sem Georgía vill bæði vera í NATO og Evrópusambandinu.

Eftir hrun Sovétríkjanna 1991 var Zivad Gamsahurdia kjörinn forseti en fljótlega vikið frá völdum af stjórnarandstöðunni sem kom fyrrum utanríkisráðherra Sovétríkjanna Eduard Shevardnadze. Í ellefu ára stjórnartíð hans voru kjör almennings mjög bágborgin, glæpatíðni há og mikil spilling. Í fjöldauppreisn 2003 í kjölfar þingkosninga (Rósabyltingarinnar) var honum vikið frá völdum.

Á meðan Georgía var hluti af Sovétríkjunum var landið nokkuð vel sett vegna aðgangs að ódýrri orku. Í kjölfar sjálfstæðis hertu Rússar skrúfurnar og lokuðu fyrir aðgang Georgíu að orkunni. Rússarnir hafa einnig lokað á önnur viðskipti við landið og efnahagur þess hefur því sem næst hrunið. Georgía var alfarið háð Rússum um gasbirgðir en rússneska fyrirtækið Gazprom hefur margfaldað söluverðið á gasi til þeirra.

Með Irakli Burduli deildarforseta lagadeildar háskólans í Tbilisi.

Ég hitti Mikhael Saakashvili á þingi um stjórnskipunarrétt í boði stjórnlagadómstólsins í Georgíu fyrir rúmu ári. Hann er lögfræðimenntaður með framhaldsmenntun í alþjóðalögum frá Columbiaháskólanum í New York og sá frambjóðandi sem nýtur velvildar vegna baráttu gegn ítökum Rússa í landinu. Hann er talinn hafa staðið sig vel í baráttunni gegn glæpum (Burduli deildarforseti lagadeildarinnar segir mér að „zero tolerance“ – stefnan – ekkert umburðalyndi hafi ráðið því), jafnvel spillingu þótt stjórnmálastétt landsins og embættismenn séu taldir ónæmir fyrir kjörum almennings og á þeim stað í tilverunni að þurfa „skrifaðar siðareglur“ til að þekkja mun á réttu og röngu, nokkuð sem Íslendingar kannast við. En Mikhael Saakashviili þykir líka í forsetatíð sinni hafa fyllst valdhroka en hann lét reisa forsetahöll í hlíðum Tbilisi 2010 sem blasir við upplýst og glæsileg, stærri en Hvíta Húsið í Washington.

Höll Ivanishvilis úr gleri og stáli gnæfir yfir Tbilisi.

Þingkosningarnar í dag eru prófsteinn á framtíð Saakashvilis. Stjórnarandstaðan styður auðkýfinginn Bidzina Ivanishvili. Hann er ríkasti maður Georgíu og flokkur hans lofar íbúum landsins bjartri framtíð. Saakashvili segir hann muni koma Georgíu undir rússnesk yfirráð á nýjan leik.

Þegar ég hóf kennslu við lagadeildina í Tbilisi höfðu myndböndin um pyntingar á ungum föngum (börnum undir lögaldri) í fangelsi lekið út. Stúdentar mótmæltu pyntingunum og tengdu þær núverandi stjórnvöldum. Í eitt skipti komu öryggisverðir inn í kennslustofu og báðu mig að gera hlé á kennslu vegna uppþota á háskólalóðinni. Ivanashvili hefur gert sér mat úr myndböndunum og segir pyntingar á ungu föngunum sýna hve stjórn Saakashvili hirði lítt um mannréttindi. Aðrir segja myndböndunum hafa verið lekið gagngert viku fyrir kosningar til að koma höggi á Saakashvili.

Á laugardaginn tók ég mynd af gler- og stálhöll Ivanishvilis, sem er eins og út úr James Bond mynd með þyrlupalli og gnæfir yfir borgina í fjallshlíð. Almenningur heldur að hann muni nota auð sinn til að láta drauminn um bjarta framtíð Georgíu verða að veruleika. Ivanishvili auðgaðist í Rússlandi á tíunda áratug síðustu aldar en auður hans er metinn á 5.5 milljarða bandaríkjadala eða um helming fjárhags alls landsins. Í listaverkasafni hans má finna verk eftir Picasso og fleiri stórmenni listasögunnar. Meðal mánðarlaun í landinu eru um 200 dollarar.

Í klaustri frá 6. öld hátt upp í fjöllum Georgíu.

Ég varð vör við raunverulegan ótta margs hugsandi fólks sem ég talaði við á meðan ég var í Tbilisi. Aðstæður þessa fólks eru allt aðrar en okkar. Það sem sameinar okkur hins vegar er að baráttan fyrir lýðræði og mannréttindum krefst stöðugrar árvekni og að valdapot af því tagi sem er að eiga sér stað í Georgíu – það er að auðkýfingur sem  hefur að öllum líkindum auðgast óeðlilega á viðskiptum í Rússlandi og er í nánu sambandi við pólitísk öfl þar  er ekki ávísun á bjarta framtíð.

Kennsla við lagadeild háskólans í Tbilisi

Kennsla við lagadeild háskólans í Tbilisi

10Með laganemum við Tibilisi háskóla í september 2012.

Nýlega fékk nemandi minn við lagadeild háskólans í Tibilisi styrk frá sænska ríkinu til að stunda nám í mannréttindum við lagadeild Lundarháskóla. Við ríkisháskólann í Tibilisi í Georgíu eru um 18 þúsund nemendur. Ég hef undanfarið kennt námskeið i mannréttindum við lagadeildina.

22