Minningarorð um Rannveigu Tryggvadóttur 1926-2015

Minningarorð um Rannveigu Tryggvadóttur 1926-2015

systkin hávallagötu 1930Það er vart hægt að ímynda sér fallegri barnahóp en á ljósmynd eftir Kaldal í kringum 1930. Þetta eru börn Herdísar Ásgeirsdóttur og Tryggva Ófeigssonar. Elstur er Páll Ásgeir í matrósafötum, næst er Jóhanna, síðan Rannveig og þá Herdís en systurnar þrjár eru fæddar með rúmu árs millibili. Anna, sú yngsta, fæddist 1935 en það ár flutti fjölskyldan af Vesturgötu 32 í nýbyggt fúnkishús á Hávallagötu 9. Þar fengu systurnar stórt herbergi, alltaf kallað systraherbergið. Systurnar voru oft taldar upp í einni runu: Hanna, Ranna, Heddý, Anna. Í herberginu var stór “ottoman” sem Ranna og Heddý deildu. Heddý var myrkfælin og fékk að sofa fyrir innan Rönnu sem taldi aldrei eftir sér að fara framúr með henni á nóttunni og fylgja henni á baðherbergið. Kærleiksríka systrasambandið sem þarna myndaðist hélst alla tíð.

Þær léku sér við sömu vinina á Landakotstúninu; Möbbu dóttur Ólafs Thors, Obbu dóttur Péturs Magnússonar, Denna síðar forsætisráðherra, Clausen-bræðurna og Matthías Johannessen sem seinna lýsti því í viðtali að allir hefðu verið skotnir í dætrum Tryggva Ófeigssonar.

Þær útskrifuðust saman stúdentar úr Versló og þegar Ranna gifti sig lét Heddý mála af henni portrett til að innsigla væntumþykju sína í hennar garð. Alla tíð voru þær að miðla hvor annarri; Heddý glaðværð og hlátri, Ranna fróðleik og góðum ráðum til yngri systur sinnar.

Börnin sín eignuðust þær á svipuðum tíma; Ranna eignaðist Valgeir 1952, Evu 1954, Herdísi 1955, Rannveigu 1958 og Tryggva 1960. Heddý eignaðist sín fjögur á sömu árum og Ranna sín fjögur yngri. Fjölskyldurnar höfðu náinn samgang alla tíð. Hallvarði manni Rönnu og Þorgeiri manni Heddýar var vel til vina. Elstu dætur sínar skírðu systurnar saman og Heddý lét m.a.s. eftir Rönnu á síðustu stundu að skíra dóttur sína (undirritaða) Herdísi (átti að heita Sigríður) svo að Ranna gæti skírt sína Evu að ósk föðurömmunnar á Laufásvegi. Þær munaði aldrei um að gera hvor annarri greiða.

Í minningunni kemur upp mynd af Rönnu frænku í sunnudagsheimsókn á sjöunda áratugnum. Hún er að segja Heddý frá því hvað hún hafi lesið fróðlega grein í Time eða Newsweek. Íhaldskona af gamla skólanum, jafnvel meira í ætt við John Locke en frænda sinn Jón Þorláksson. Hún trúði á einstaklingsfrelsi og einkaframtakið en var einnig meðvituð um þær samfélagslegu skyldur sem því fylgdu að farnast betur. Hún mátti ekkert aumt sjá og öllum vildi hún gefa það sem hún gat. Ekki gekk hún hart eftir að rukka leigu hjá ungum leigjendum sem voru í kjallaranum hjá henni. Hún var alla tíð með fókusinn á þá sem minnst máttu sín í samfélaginu. Henni var umhugað um málefni ungra kvenna, einstæðra mæðra og barna. Oft fannst manni hún fanatísk en það sem skiptir máli þegar upp er staðið er að hún hafði einlægan áhuga á þjóðfélagsmálum, var góðviljuð og greind hugsjónakona. Hún var í eðli sínu fræðimanneskja og naut sín því vel í sambandi við síðari mann sinn, Örnólf Thorlacius. Hún var viðkvæm sál, listræn, alvörugefin og klettur þeim sem á þurftu að halda.

Systir hennar, Heddý, er sannfærð um að lúðrasveit taki á móti Rönnu í himnaríki því þannig eiginleika hafi hún sýnt í verki í þessari jarðvist.

Votta Örnólfi eftirlifandi manni Rönnu frænku og kærum frændsystkinum mínum innilega samúð.

Herdís Þorgeirsdóttir

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/06/andlat_rannveig_tryggvadottir/

ranna bjútí

Tjáningafrelsi í frumskógi

Tjáningafrelsi í frumskógi

charlie hebdo sex slavesHugleiðingar í kjölfar hryðjuverkanna á Charlie Hebdo

Þegar ég var að skrifa doktorsritgerð um tjáningafrelsi fjölmiðla og sjálfs-ritskoðun við lagadeild háskólans í Lundi undir lok síðustu aldar var mér boðið að taka þátt í spennandi ráðstefnu í Stokkhólmi þar sem aðalfyrirlesari var Salman Rushdie. Einn af forsprökkum ráðstefnunnar var Arne Roth sem þá hafði verið sagt upp sem ritstjóra sænska stórblaðsins Dagens Nyheter vegna umfjöllunar um eigendavald og sjálfs-ritskoðun. Sterk fyrirtækjasamstæða átti blaðið og sá sína sæng út breidda. Á tólftu stundu var ráðstefnunni þó aflýst þar sem hótun hafði borist um hryðjuverkaárás. Þetta litla dæmi varpar ljósi á vanda opinnar, gagnrýninnar umræðu í samtímanum; Salman Rushdie varð heimsfægur þegar Ayatollah Khomeini, æðsti leiðtogi Írans, lýsti því yfir að Rushdie væri réttdræpur vegna bókar sinnar Sálmar Satans; Arne Ruth var fórnarlamb fjármálaafla í fjölmiðlum og fælingarmáttur ógnarinnar um hryðjuverkaárás hafði náð tilgangi sínum.

Enginn á rétt á því að vera ekki móðgaður

páfinn í charlie hebdoÞegar hryðjuverkaárásin var gerð á háðsádeilublaðið Charlie Hebdo hinn 7. jan s.l. og átta menn á ritstjórninni myrtir, ritstjóri þess og teiknarar, hrökk evrópskur umheimur við og óttaslegnir ráðamenn sýndu samstöðu með grundvallarmannréttindum í fjöldagöngu í París. Salman Rushdie sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að skopmyndir hefðu alltaf verið ein leið tjáningar gegn harðstjórn, óheiðarleika og heimsku. Fólk yrði að þola að trú þess væri gagnrýnd, hædd og ekki sýnd virðing, rétt eins og aðrar hugmyndir. Enginn ætti rétt á því að verða ekki móðgaður.

Jótlandspósturinn fældur frá frekari umfjöllun

Voðaverkin í París voru túlkuð sem aðför að tjáningarfrelsinu því þeim væri ætlað að fæla aðra frá að skopast að Múhameð spámanni. Enda kom á daginn að alþjóðleg stórblöð ætluðu ekki að taka áhættuna á að endurbirta skopmyndir Charlie Hebdo. Ritstjóri Jótlandspóstins, sem vakti alþjóðlega athygli vegna birtinga skopmynda af Múhameð spámanni árið 2005, birti leiðara eftir árásina á Charlie Hebdo þar sem hann staðfesti að Jótlandspósturinn hefði látið undan ógninni (aðalteiknarinn hefur verið undir stöðugri lögregluvernd vegna morðhótana); sverðið væri sterkara en penninn og þeir ætluðu ekki að fórna lífi sínu á altari háðsádeilu. Birting myndanna á sínum tíma hafði margvíslegar afleiðingar; óeirðir brutust út og margir létu lífið. Þá stóðu dönsk fyrirtæki frammi fyrir viðskiptabanni í ríkjum múslima og því voru stórfelldir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Jótlandspósturinn hefur ekki farið varhluta af þrýstingi úr viðskiptalífinu um að láta af háðsádeilum á Islam. Útflutningur til Mið-Austurlanda dróst í kjölfarið saman um 50% og dönsk fyrirtæki eru sögð hafa tapað um 170 milljónum dala á nokkurra mánaða tímabili. Upphafleg réttlæting Jótlandspóstsins fyrir birtingu skopteikninga af Múhameð spámanni var að vinna yrði bug á sjálfs-ritskoðun blaðamanna. Ákæruvaldið vildi ekki höfða mál gegn Jótlandspóstinum á grundvelli dönsku hegningarlaganna, sem banna guðlast, á þeirri forsendu að umfjöllunin varðaði almanna hagsmuni og nyti því verndar tjáningarfrelsisins eins og það er t.d. verndað með 10 gr Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ekki sama samstaða með blaðamönnum sem fjalla um spillingu heima fyrir

Woerth Sarko BettencourtÞað eru margar leiðir til að ýta undir sjálfs-ritskoðun inn á fjölmiðlum. Þetta vita blaðamenn út um allan heim en á síðasta ári, 2014, voru meira en 60 blaðamenn drepnir, margir fyrir skrif um spillingu og mannréttindabrot. Aðrir hafa verið settir á bak við lás og slá; pyntaðir eða þeim er stefnt fyrir meiðyrði þar sem miskabætur eru svo háar að þeir eiga sér ekki viðreisnar von, eða þeir eru einfaldlega reknir og missa lífsviðurværi sitt. Forystumenn í stjórnmálum gráta ekki endilega örlög þeirra enda hafa margir þessara blaðamanna gengið nærri þessum ráðamönnum sjálfum. Einn þeirra er blaðamaður Le Monde sem nú er undir lögregluvernd vegna morðhótana í garð sín og fjölskyldu sinnar. Hann fjallaði um fjármálatengsl Sarkosy fyrrum forseta Frakklands við L’Oreal Bettencourt samsteypuna og fleiri spillingarmál. Sarkosy var einn þeirra sem tók þátt í samstöðugöngunni ásamt ráðamönnum ríkja sem hafa margt á samviskunni gagnvart blaðamönnum og tjáningarfrelsi þeirra.

Blaðakonan Anna Politkovskaya sem þekkt varð í Rússlandi fyrir gagnrýni á stjórnvöld og skrif um spillingu var myrt fyrir nokkrum árum – og fullyrt að stjórnvöld stæðu á bak við ódæðið. Ritstjóri í austurhluta Úkraníu sem stýrði blöðum sem gefin voru út á rússnesku og talið er að hafi verið í haldi á vegum stjórnvalda fannst látinn í skógi s.l. sumar og líkaminn illa farinn eftir pyntingar.

Ástandið í fjölmiðlum hörmulegt víða í ríkjum Evrópuráðs

anna politÞess vegna minna samtök blaðamanna sem kalla sig fréttamenn án landamæra á að það hefur lítið upp á sig að samsama sig eingöngu með Charlie Hebdo og gleyma öllum hinum blaðamönnunum, bloggurunum og skopmyndateiknurunum sem eru að fjalla um viðkvæm málefni.

Ástandið í fjölmiðlun er vægast sagt hörmulegt víða í ríkjum Evrópuráðs þrátt fyrir aukna réttarvernd og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem pólitísk ádeila nýtur sérstakrar verndar enda blaðamönnum skylt að miðla áfram upplýsingum og hugmyndum sem varða almannahag og í þeim tilgangi heimilt að ganga langt með ýkjum, jafnvel rangfærslum og gífuryrðum ef það er liður af mikilvægri samfélagslegri umræðu sem almenningur á rétt á að móttaka. Tjáningarfrelsið í tengslum við lýðræðislega stjórnarhætti er túlkað rúmt; það má móðga fólk, hneyksla það og koma róti á huga þess en slíkar eru kröfur umburðalyndis, víðsýni og fjölhyggju sem slík samfélög eiga að byggja á.

Skopteiknari sakfelldur í Frakklandi

Þó taldi Mannréttindadómstóll Evrópu rétt að sakfella teiknara í Frakklandi sem gerði grín að árásinni á tvíburaturnana með skopmynd tveimur dögum eftir að hún átti sér stað 9. september 2001. Teiknarinn var ákærður fyrir að hampa hryðjuverkum vegna meðfylgjandi texta sem sagði: “Okkur hefur öll dreymt um þetta . . . Hamas lét verða af því”. Hann sagði teikninguna framlag sitt í pólitískri og listrænni ádeilu og andúð á Bandaríkjunum og teikningin af árásinni ætti að sýna í skoplegu ljósi hnignun bandarískrar heimsvaldastefnu. Dómstóllinn sagði að teikningin gerði meira en að sýna hnignun bandarískrar heimsvaldastefnu af því að hún vegsamaði tortímingu þessa stórveldis og vísaði dómstóllinn þá til myndatextans sem hann sagði sýna stuðning teiknarans við hryðjuverkamennina. Sakfelling teiknarans hefði því verið réttmæt og sekt sem hann hefði verið dæmdur til að greiða ekki verið úr hófi.

Tvískinningur Charlie Hebdo?

grande mosqueeFyrir nokkrum árum stefndu múslimasamtök í Frakklandi Charlie Hebdo fyrir kynþáttafordóma  og sökuðu blaðið um að hafa sett samasemmerki á milli Islam og hryðjuverka. Charlie Hebdo var sýknað af frönskum dómstólum á þeirri forsendu að hér væri ekki um árás á Islam að ræða heldur á hryðjuverkamenn sem væru múhameðstrúar og teikning af Múhameð spámanni með sprengju í túrbaninum þyrftu að skoðast í samræmi við efnistök blaðsins sem væri beint gegn trúarlegum öfgum.

Árið 2008 var einn af blaðamönnum Charlie Hebdo rekinn vegna skrifa sem sögð voru fela í sér fordóma gagnvart Gyðingum en í greininni gerði hann grín að Jean, syni Sarkosy forseta Frakklands, sem hann sagði taka gyðingatrú vegna metnaðar þar sem hann var að kvænast konu úr auðugri gyðingafjölskyldu. Blaðamaðurinn vann síðan dómsmál gegn Charlie Hebdo á grundvelli ólögmætrar uppsagnar.

Islamófóbíu verður að skoða í samhengi við ástandið í álfunnipoverty

Gagnrýni á efnistök Charlie Hebdo beinist að því að blaðið sýni tvískinnung með því að gera valdalausa múslima að skotspæni enda jarðvegurinn móttækilegur fyrir slíku háði. Nokkrum dögum fyrir voðaverkin 7. janúar s.l. birtust fréttir af fjöldamótmælum gegn Islamvæðingu í Þýskalandi en þar sem í Frakklandi fer andúð á Islam vaxandi. Þannig að háðsádeilur á Islam, sem hafa verið réttlættar sem þáttur af lýðræðislegri veraldarhyggju, njóta stuðnings fjölda íbúa víða í Evrópu. Aukna andúð á Islam eða islamófóbíu verður að skoða í samhengi við ástandið í álfunni eins og slóvenski heimspekingurinn Slavoj Zizek bendir á. Hann vitnar í ummæli Marx Horkheimir sem sagði á uppgangsárum nasismans að ef menn forðast að gagnrýna kapítalismann ættu þeir að steinþegja um fasismann.

Útskúfun úr mannlegu samfélagihomeless

Annar merkur hugsuður, pólski félagsfræðingurinn Zigmunt Bauman, sem upplifað hefur miklar hræringar í veraraldarsögunni á 20. öld, síðari heimsstyrjöldina, helförina og stalínismann, bendir í þessu samhengi á það hvernig reiðin beinist nú að fjölmiðlum þar eð þeir hafi svo mikil áhrif á almenna skoðanamótun. Dauðarefsingin “fatwa” sem Khomeini gaf út fyrir 18 árum síðan er enn að verki og viðbrögð vesturlanda með fjölmenningar-afstöðunni séu yfirborðsleg þar sem þau séu ekki tilbúin til að meðtaka grunngildi Islam og öfugt. Hann bendir á hvernig stjórnkerfi vestrænna ríkja eru að molna að innan; þverrandi traust á milli kjörinna leiðtoga og almennings og eins írónískt og það hljómar vitnar þessi róttæki fræðimaður máli sínu til stuðnings í Frans páfa, sem eins og ég hef áður fjallað um – er stiginn inn á hið pólitíska svið en það hefur verið hertekið af fjármálaöflum sem þurfa í raun ekki að standa ábyrg gjörða sinna gagnvart almenningi með sama hætti og hin kjörnu stjórnvöld sem ýmsir eru að átta sig á að ráða ekki ferðinni í raun. Fjármagnsöflin eru blind á mannlega eymd.

thou shalt not killPáfinn bendir á hvernig boðorðið þú skalt ekki morð fremja undirstriki réttinn til lífs og þetta boðorð eigi við um ríkjandi efnahagsumhverfi ójöfnuðar og útrýmingar sem sé að ganga að fólki dauðu. Lögmál frumskógarins gildi í samkeppnisumhverfi nútímans þar sem þorri fólks sé útilokaður frá þátttöku, settur út á jaðarinn án atvinnu, án möguleika, án undankomu. Litið sé á manneskjuna sem neysluvarning, sem síðan megi henda. Ekki eigi lengur við að tala um arðrán eða kúgun heldur útskúfun úr mannlegu samfélagi þar sem þeir sem verða undir eru álitnir drasl eða úrhrök.

Þetta er frumskógurinn sem menn virðast ekki sjá fyrir trjánum og hamast áfram að benda á tréin án þess að átta sig á villu síns vegar.

 ©

Erindi flutt hjá Rotarý, föstudaginn 16. janúar 2015 .

Kirkjan verði pólitísk?

Kirkjan verði pólitísk?

páfinn unjust economic structuresÞegar núverandi páfi tók við embætti vorið 2013 líkti hann kaþólsku kirkjunni við sjúkrahús á vígvelli. Fyrirrennari hans, hinn þýski Benedikt XVI var fyrsti páfinn í sex aldir sem sagði af sér. Hann orkaði ekki að berjast áfram gegn spillingu, yfirhylmingu og kynferðisglæpum sem höfðu brennimerkt kaþólsku kirkjuna.

“Holdsveiki páfadómsins”

Þá kom þessi maður; fyrsti páfinn sem kemur frá Suður-Ameríku og er úr reglu Jesúíta, með próf í efnafræði, heimspeki og guðfræði og vann sem ungur maður sem dyravörður í næturklúbbi; hann tók sér nafnið Frans og sendi þar með þau skilaboð til umheimsins að hann væri að taka Frans frá Assisi sér til fyrirmyndar. Hann vildi hvorki gullhring né rauða páfaskó, var vanur að ferðast í strætó og vildi opna kirkjuna fyrir þeim hrjáðu og smáðu.

Frans frá Assisi sem uppi var á árunum 1181-1226 er verndardýrlingur dýranna og sá dýrlingur innan kaþólsku kirkjunnar sem þykir hafa komist næst Jesú Kristi í líferni sínu; vegna samsömunar og samúðar með þeim fátæku og útskúfuðu, en hann er einhver dáðasta persóna í allri trúarsögunni.

Þau vandamál sem blöstu við á tíma Frans frá Assisi eru enn við lýði: stríð, fátækt, spilling valdastétta, félagsleg útskúfun og aukið bil á milli þeirra sem búa við allsnægtir og hinna sem búa við örbirgð. Frans frá Assisi, sonur auðugs silkikaupmans, fékk vitrun rúmlega tvítugur og helgaði líf sitt hinum fátæku. Hann bað engan um fé og lét aldrei söfnunarbauk ganga. Boðskapur hans var einfaldur: Græðgi veldur þjáningu bæði hjá fórnarlömbum sem sökudólgum. Sinnuleysi þeirra sem stöðugt sanka að sér kemur í bakið á þeim sjálfum. Græðgi er tortímandi afl; siðferðilega, félagslega og andlega. Frans frá Assisi leit ekki upp til valdamanna. Hann fór fótgangandi til Rómar. Þegar hann kom í Vatíkanið upplifði hann spillinguna, græðgina, auðsöfnunina, valdafíknina og innantóma tilvist. Páfinn, Innocensíus III., varð hneykslaður á því hvernig þetta fátæka, auma mannkerti leyfði sér að finnast slíkt ríkidæmi vera í andstöðu við kristnina.

Páfinn sagðist fá kraft og hugljómun frá Frans frá Assisi enda ætti boðskapur hans erindi í nútímanum. Sagt er að Frans frá Assisi hafi orðið fyrir vitrun árið 1204 þá rúmlega tvítugur. Kristur á að hafa birst honum og sagt: Frans, Frans farðu og gerðu við hús mitt sem þú sérð að er að hruni komið – alveg eins og kaþólska kirkjan sem þessi nýi páfi var að taka við. Hann sá Vatíkanið sem sjálf-miðað og laust úr tengslum við umheiminn og öll hans stóru vandamál. Hann talaði um “holdsveiki páfadómsins”.

Þegar hann var settur inn í embætti bað hann fólkið að biðja fyrir sér. Vandamálin voru risavaxin, gegnumspillt kirkja sem var orðin veraldleg og volg í afstöðunni. Á einu og hálfu ári hefur þessum páfa tekist að vekja athygli út um allan heim fyrir að þora að tala um stórfelld pólitísk og efnahagsleg vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Rödd hans hljómar um heimsbyggðina og veitir innblástur stjórnmálamönnum og forystumönnum alþjóðastofnana sem hafa verið smeykir við að tjá sig um nákvæmlega þessi sömu vandamál.

Með því að gera þennan páfa að umtalsefni hér í íslensku þjóðkirkjunni á aðventunni er ég ekki að taka undir sjónarmið kaþólskunnar heldur að vekja athygli á tvennu; að það þarf að opna kirkjuna fyrir nákvæmlega þessari umræðu og að kirkjan á ekki að vera hrædd við að vera slíkur vettvangur. Hún á að vera skjól þeim röddum sem eru annars þaggaðar.

 

Gagnrýni á þjóðkirkjuna

Einn þekktasti, núlifandi rithöfundur Íslendinga sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrsta sunnudaginn í aðventu að kirkjan höfðaði ekki til almennings af því að þar væru engar lífrænar hugmyndir. Guðbergur Bergsson sagði að það væri ekki nóg að kalla inn konur í prestastétt ef þær fengju bara fólk til að koma í kirkju til að syngja við kertaljós. Það sem felst í þessum orðum er að ef að kirkjan á að gegna veigamiklu hlutverki í samfélaginu, ef hún á að vera vegurinn, sannleikurinn og lífið þá þarf hún að vera vörn hinum kúgaða og vígi á neyðartímum, eins og segir í Biblíunni.

 Eru slíkir tímar?  Spyrjið páfann í Róm. Hann er 77 ára, með eitt lunga og hikar ekki við að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur. Hann er kominn með viðurnefnið Páfi fólksins langt út fyrir raðir kaþólikka vegna þess að hann tekur á raunverulegum vandamálum samtímans. Hann felur sig ekki á bak við fíkjublöð einstakra vinsælla málaflokka. Hann skreytir sig ekki með slagorðum sem þegar eru viðtekin. Hann bendir á ógnirnar sem öllum samfélögum stafa af vaxandi ójöfnuði, ítökum fjármálaafla og yfirþjóðlegra stórfyrirtækja, sem er löngu vaxin flestum þjóðríkjum yfir höfuð.

 Kirkjan getur ekki staðið þegjandi álengdar ef mannréttindi eru fyrir borð borin, ef sannleikurinn er traðkaður í svaðið og óréttið fær að grassera óáreitt. Fór ekki Jesú inn í musterið og rak út peningamennina.

í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar var lúterstrúarpresturinn Martin Niemüller öflugur í andstöðu sinni við Hitler og uppgang nasismans. Hann var handtekinn og var í fanga- og þrælkunarbúðum í sjö ár. Niemüller sagði þýsku mótmælendakirkjuna hafa átt þátt í uppgangi nasmismans og verið samseka í ofsóknum og fjöldamorðum með því að standa hjá aðgerðarlaus . . .  Hann sagði þessi fleygu orð sem síðan er oft vitnað í til að undirstrika mikilvægi þess að þegja ekki yfir óréttlæti.

  • Fyrst handtóku þeir sósíalista; ég var ekki sósíalisti og mótmælti því ekki.
  • Næst réðust þeir að verkalýðshreyfingunni; ég tilheyrði henni ekki og gerði því ekkert.
  • Þá réðust þeir gegn Gyðingunum; ég aðhafðist ekki af því að ég var ekki Gyðingur.
  • Síðan komu þeir og tóku mig; þá var enginn eftir til að koma mér til hjálpar.

 

 Þöggun

Eins og sagan af Martin Niemüller sýnir þá þarf mikið hugrekki til að fara gegn ríkjandi öflum. Aðhald er öllum valdhöfum nauðsynlegt.  Leiðarljós okkar stjórnskipunar eru lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Undirstaða allra annarra mannréttinda er tjáningarfrelsið, rétturinn til að segja skoðun sína.

Í aldanna rás hafa stjórnmálaheimspekingar varað við því að því meira sem valdið er því meiri er hættan á valdníðslu. Og ef enginn fer gegn valdníðslunni þá heldur hún óhindruð áfram. Þögnin er nánasti vinur alræðisins, harðstjórnarinnar og kúgunarinnar. Sá sem fer með mikið vald vill eðli máls samkvæmt útiloka andóf. Það breytir engu hvaða merkimiða pólitískir valdhafar skreyta sig með. Í  kommúnismanum var allt andóf barið niður og eftir hrun hans, þar sem nýtt alræði byggir á samþættingu hins pólitíska valds og fjármálaafla, hafa stjórnvöld á þessum sömu slóðum vakið athygli heimsbyggðar með framgöngu sinni gagnvart gagnrýnisröddum.

Fjölmiðlar sem eiga að vera varðhundar almennings eru víðast hvar undir sömu sök seldir.  Þeir eru í eigu fjársterkra aðila sem hafa tögl og hagldir – og sterk ítök í stjórnmálum. Út um allt kerfið og í flestum ríkjum heims eru menn og konur að ritskoða sig. Það að vera opinskátt gagnrýninn kallar á að vera settur út á jaðarinn,  a.m.k. úr kerfi valdhafanna sem gjarnan réttlæta skoðanakúgun með því að ákveðnar skoðanir séu ógn við þjóðarhagsmuni.

Fólk þarf ekki að verða mjög fullorðið til að átta sig á því að beina brautin er mun þægilegri en vegurinn sem Jesú talaði um. Þegar Jesú sagði “ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið”  áttuðu lærisveinarnir sig ekki á því hvaða veg hann var að tala um. Símon Pétur spurði hann hvert hann væri að fara af því að hann vildi fylgja honum og leggja líf sitt í sölurnar fyrir hann. Jesús svaraði: Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig. Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar.

Pétur var mannlegur. Hann var hræddur. Eftir að Jesú var handtekinn flýðu allir lærisveinarnir (Markús 14:50) en Pétur fylgdi honum álengdar. Hann horfði upp á mennina hrækja á Jesú og slá hann eftir að hafa dæmt hann sekan. Pétur óttaðist um líf sitt; hann var ekki tilbúinn á þessari stundu að verða fyrir sömu ofsóknum og Jesú. En Jesús hafði áður aðvarað lærisveina sína að menn yrðu framseldir og teknir af lífi vegna hans nafns og þeir myndu framselja hver annan og hata. Þetta er saga mannkyns, óttinn verður oft sannleikanum yfirsterkari. Oftast þurfa valdhafar ekki að þagga niður í fólki, það sér um það sjálft. Að standa einn, hæddur, spottaður, ofsóttur er flestum um megn eins og Pétri forðum. Það er einn skiljanlegasti þáttur mannlegs eðlis að vera varkár andspænis ógn. Þetta vissi Jesú og hann bað fyrir Pétri; að trú hans myndi ekki þrjóta og að hann myndi styrkja aðra þegar hann væri snúinn við. Veikleiki Símons Péturs Jónassonar og mistök voru einn þáttur í því að styrkja hann. Jesú sagði við hann: Þú ert Pétur, kletturinn og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. (Mattheus 16:17).

 

Kirkjan sem klettur sameini rödd sína þeirra sem enga hafa

Við notum orðið klettur um einhvern sem aldrei bregst. Það eru ekki freskurnar í loftinu, gullið og hinn mikilfenglegi arkitektúr sem gerir kirkju að kletti – það er hlutverkið sem hún gegnir eða á að gegna . . .  að þjóna sannleikanum; vera farvegur fyrir réttlæti og raddir þeirra sem minna mega sín.

Hér er ekki verið að gera lítið úr starfi kirkjunnar. Hins vegar er hægt að sjá fyrir sér hvernig kirkjan á víðsjárverðum tímum þar sem viðurkennt er að trúnaðarbrestur hefur orðið milli almennings annars vegar og kjörinna stjórnvalda, fjölmiðla og háskólasamfélags hins vegar, gæti  gengið í endurnýjun lífdaga. Þá er ekki átt við að markaðssetja eigi kirkjunam heldur að kirkjan nái sér á strik eins og Pétur eftir að hann afneitaði Jesú og verði öðrum styrkur – raunverulegur klettur fyrir trú, von og kærleika.

Íslenska þjóðkirkjan hefur haldið sig fyrir utan pólitísk deilumál . En  það vaknar sú spurning hvort kirkjan þurfi ekki að endurskoða þá afstöðu og þá bendi ég aftur á hvað páfinn er að gera til að ganga veginn nær Jesú Kristi, veginn í átt að sannleikanum og lífinu.

Áður en fundur G20 ríkjanna hófst í nóvember s.l. bað páfinn leiðtoga 20 stærstu hagkerfa heims um að gleyma ekki öllum þeim mannslífum sem pólitískar og tæknilegar ákvarðanir bitna á. Og hann talar ekki um fátækt eins og einhvern fjarlægjan ósóma heldur brýnir hann fyrir umheiminum að það þurfi að breyta innviðum samfélaganna til að draga úr fátæktinni og ójöfnuðinum. Hann bendir á flennifyrirsagnir fjölmiðla þegar hlutabréf lækka í verði en í flestum ríkjum Evrópu – og hvað þá annars staðar – deyr fólk á götum úti úr kulda, vosbúð og hungri án þess að það þyki fréttnæmt. Milljónir ungra kvenna, manna, stúlkna og drengja eru seld mansali í kynlífsþrælkun og þeir ríku hafa aldrei verið ríkari en þeir eru í dag á meðan eymd hinna fátæku vex.  Börnin í dag eiga ekki sömu tækifæri og við höfðum. Er það ekki hlutverk þjóðkirkjunnar okkar að opna umræðuna, gefa röddum byr sem fá ekki hljómgrunn út í þjóðfélaginu. Ef kirkjan kallar eftir þátttöku almennings í þessari umræðu gæti hún verið í betri aðstöðu til þess en nokkur önnur stofnun í samfélaginu.

Aftur vík ég að páfanum sem hefur gert þröngsýni lagahyggjunnar að umræðuefni. Jesú spurði faríseana hvort það væri leyfilegt að lækna veikan mann á hvíldardegi. Það var fátt um svör. “Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea þá komist þér aldrei í himnaríki”, sagði Jesú.

Ég vona að kirkjan hiki ekki heldur stígi fram og umvefji það samfélag sem hún vill þjóna, sameini sína rödd þeirra sem enga hafa. Kærleikur og réttlæti eiga að ráða för en ekki bókstafur og blind lagahyggja.

 

(Ræða Herdísar Þorgeirsdóttur í Áskirkju, annan sunnudag í aðventu, 7. desember 2014)

 

 

 

 

 

19. júní

19. júní

DickensEnginn af rithöfundum Viktoríutímans þekkti eins kjör fátækra í borgum og Charles Dickens. Hann bjó á Doughtystræti í Lundúnum og ráfaði oft um um götur borgarinnar að næturlagi. Þar hafa orðið til fyrirmyndir að mörgum af hans helstu sögupersónum. Sem barn vann hann í verksmiðju þegar foreldrar hans voru í skuldafangelsi. Síðar stofnaði Dickens heimili fyrir fátækar konur sem áttu hvergi höfði sínu að halla. Þar var hann allt í öllu, útvegaði það sem þær þurftu.

Dagur sem kenndur er við kvenréttindi er merkingarlaus ef baráttumálin eru ekki í tengslum við kjarna vandans, vaxandi misskiptingu og aukna fátækt; kvenna, barna og karla.