systkin hávallagötu 1930Það er vart hægt að ímynda sér fallegri barnahóp en á ljósmynd eftir Kaldal í kringum 1930. Þetta eru börn Herdísar Ásgeirsdóttur og Tryggva Ófeigssonar. Elstur er Páll Ásgeir í matrósafötum, næst er Jóhanna, síðan Rannveig og þá Herdís en systurnar þrjár eru fæddar með rúmu árs millibili. Anna, sú yngsta, fæddist 1935 en það ár flutti fjölskyldan af Vesturgötu 32 í nýbyggt fúnkishús á Hávallagötu 9. Þar fengu systurnar stórt herbergi, alltaf kallað systraherbergið. Systurnar voru oft taldar upp í einni runu: Hanna, Ranna, Heddý, Anna. Í herberginu var stór “ottoman” sem Ranna og Heddý deildu. Heddý var myrkfælin og fékk að sofa fyrir innan Rönnu sem taldi aldrei eftir sér að fara framúr með henni á nóttunni og fylgja henni á baðherbergið. Kærleiksríka systrasambandið sem þarna myndaðist hélst alla tíð.

Þær léku sér við sömu vinina á Landakotstúninu; Möbbu dóttur Ólafs Thors, Obbu dóttur Péturs Magnússonar, Denna síðar forsætisráðherra, Clausen-bræðurna og Matthías Johannessen sem seinna lýsti því í viðtali að allir hefðu verið skotnir í dætrum Tryggva Ófeigssonar.

Þær útskrifuðust saman stúdentar úr Versló og þegar Ranna gifti sig lét Heddý mála af henni portrett til að innsigla væntumþykju sína í hennar garð. Alla tíð voru þær að miðla hvor annarri; Heddý glaðværð og hlátri, Ranna fróðleik og góðum ráðum til yngri systur sinnar.

Börnin sín eignuðust þær á svipuðum tíma; Ranna eignaðist Valgeir 1952, Evu 1954, Herdísi 1955, Rannveigu 1958 og Tryggva 1960. Heddý eignaðist sín fjögur á sömu árum og Ranna sín fjögur yngri. Fjölskyldurnar höfðu náinn samgang alla tíð. Hallvarði manni Rönnu og Þorgeiri manni Heddýar var vel til vina. Elstu dætur sínar skírðu systurnar saman og Heddý lét m.a.s. eftir Rönnu á síðustu stundu að skíra dóttur sína (undirritaða) Herdísi (átti að heita Sigríður) svo að Ranna gæti skírt sína Evu að ósk föðurömmunnar á Laufásvegi. Þær munaði aldrei um að gera hvor annarri greiða.

Í minningunni kemur upp mynd af Rönnu frænku í sunnudagsheimsókn á sjöunda áratugnum. Hún er að segja Heddý frá því hvað hún hafi lesið fróðlega grein í Time eða Newsweek. Íhaldskona af gamla skólanum, jafnvel meira í ætt við John Locke en frænda sinn Jón Þorláksson. Hún trúði á einstaklingsfrelsi og einkaframtakið en var einnig meðvituð um þær samfélagslegu skyldur sem því fylgdu að farnast betur. Hún mátti ekkert aumt sjá og öllum vildi hún gefa það sem hún gat. Ekki gekk hún hart eftir að rukka leigu hjá ungum leigjendum sem voru í kjallaranum hjá henni. Hún var alla tíð með fókusinn á þá sem minnst máttu sín í samfélaginu. Henni var umhugað um málefni ungra kvenna, einstæðra mæðra og barna. Oft fannst manni hún fanatísk en það sem skiptir máli þegar upp er staðið er að hún hafði einlægan áhuga á þjóðfélagsmálum, var góðviljuð og greind hugsjónakona. Hún var í eðli sínu fræðimanneskja og naut sín því vel í sambandi við síðari mann sinn, Örnólf Thorlacius. Hún var viðkvæm sál, listræn, alvörugefin og klettur þeim sem á þurftu að halda.

Systir hennar, Heddý, er sannfærð um að lúðrasveit taki á móti Rönnu í himnaríki því þannig eiginleika hafi hún sýnt í verki í þessari jarðvist.

Votta Örnólfi eftirlifandi manni Rönnu frænku og kærum frændsystkinum mínum innilega samúð.

Herdís Þorgeirsdóttir

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/06/andlat_rannveig_tryggvadottir/

ranna bjútí