charlie hebdo sex slavesHugleiðingar í kjölfar hryðjuverkanna á Charlie Hebdo

Þegar ég var að skrifa doktorsritgerð um tjáningafrelsi fjölmiðla og sjálfs-ritskoðun við lagadeild háskólans í Lundi undir lok síðustu aldar var mér boðið að taka þátt í spennandi ráðstefnu í Stokkhólmi þar sem aðalfyrirlesari var Salman Rushdie. Einn af forsprökkum ráðstefnunnar var Arne Roth sem þá hafði verið sagt upp sem ritstjóra sænska stórblaðsins Dagens Nyheter vegna umfjöllunar um eigendavald og sjálfs-ritskoðun. Sterk fyrirtækjasamstæða átti blaðið og sá sína sæng út breidda. Á tólftu stundu var ráðstefnunni þó aflýst þar sem hótun hafði borist um hryðjuverkaárás. Þetta litla dæmi varpar ljósi á vanda opinnar, gagnrýninnar umræðu í samtímanum; Salman Rushdie varð heimsfægur þegar Ayatollah Khomeini, æðsti leiðtogi Írans, lýsti því yfir að Rushdie væri réttdræpur vegna bókar sinnar Sálmar Satans; Arne Ruth var fórnarlamb fjármálaafla í fjölmiðlum og fælingarmáttur ógnarinnar um hryðjuverkaárás hafði náð tilgangi sínum.

Enginn á rétt á því að vera ekki móðgaður

páfinn í charlie hebdoÞegar hryðjuverkaárásin var gerð á háðsádeilublaðið Charlie Hebdo hinn 7. jan s.l. og átta menn á ritstjórninni myrtir, ritstjóri þess og teiknarar, hrökk evrópskur umheimur við og óttaslegnir ráðamenn sýndu samstöðu með grundvallarmannréttindum í fjöldagöngu í París. Salman Rushdie sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að skopmyndir hefðu alltaf verið ein leið tjáningar gegn harðstjórn, óheiðarleika og heimsku. Fólk yrði að þola að trú þess væri gagnrýnd, hædd og ekki sýnd virðing, rétt eins og aðrar hugmyndir. Enginn ætti rétt á því að verða ekki móðgaður.

Jótlandspósturinn fældur frá frekari umfjöllun

Voðaverkin í París voru túlkuð sem aðför að tjáningarfrelsinu því þeim væri ætlað að fæla aðra frá að skopast að Múhameð spámanni. Enda kom á daginn að alþjóðleg stórblöð ætluðu ekki að taka áhættuna á að endurbirta skopmyndir Charlie Hebdo. Ritstjóri Jótlandspóstins, sem vakti alþjóðlega athygli vegna birtinga skopmynda af Múhameð spámanni árið 2005, birti leiðara eftir árásina á Charlie Hebdo þar sem hann staðfesti að Jótlandspósturinn hefði látið undan ógninni (aðalteiknarinn hefur verið undir stöðugri lögregluvernd vegna morðhótana); sverðið væri sterkara en penninn og þeir ætluðu ekki að fórna lífi sínu á altari háðsádeilu. Birting myndanna á sínum tíma hafði margvíslegar afleiðingar; óeirðir brutust út og margir létu lífið. Þá stóðu dönsk fyrirtæki frammi fyrir viðskiptabanni í ríkjum múslima og því voru stórfelldir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Jótlandspósturinn hefur ekki farið varhluta af þrýstingi úr viðskiptalífinu um að láta af háðsádeilum á Islam. Útflutningur til Mið-Austurlanda dróst í kjölfarið saman um 50% og dönsk fyrirtæki eru sögð hafa tapað um 170 milljónum dala á nokkurra mánaða tímabili. Upphafleg réttlæting Jótlandspóstsins fyrir birtingu skopteikninga af Múhameð spámanni var að vinna yrði bug á sjálfs-ritskoðun blaðamanna. Ákæruvaldið vildi ekki höfða mál gegn Jótlandspóstinum á grundvelli dönsku hegningarlaganna, sem banna guðlast, á þeirri forsendu að umfjöllunin varðaði almanna hagsmuni og nyti því verndar tjáningarfrelsisins eins og það er t.d. verndað með 10 gr Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ekki sama samstaða með blaðamönnum sem fjalla um spillingu heima fyrir

Woerth Sarko BettencourtÞað eru margar leiðir til að ýta undir sjálfs-ritskoðun inn á fjölmiðlum. Þetta vita blaðamenn út um allan heim en á síðasta ári, 2014, voru meira en 60 blaðamenn drepnir, margir fyrir skrif um spillingu og mannréttindabrot. Aðrir hafa verið settir á bak við lás og slá; pyntaðir eða þeim er stefnt fyrir meiðyrði þar sem miskabætur eru svo háar að þeir eiga sér ekki viðreisnar von, eða þeir eru einfaldlega reknir og missa lífsviðurværi sitt. Forystumenn í stjórnmálum gráta ekki endilega örlög þeirra enda hafa margir þessara blaðamanna gengið nærri þessum ráðamönnum sjálfum. Einn þeirra er blaðamaður Le Monde sem nú er undir lögregluvernd vegna morðhótana í garð sín og fjölskyldu sinnar. Hann fjallaði um fjármálatengsl Sarkosy fyrrum forseta Frakklands við L’Oreal Bettencourt samsteypuna og fleiri spillingarmál. Sarkosy var einn þeirra sem tók þátt í samstöðugöngunni ásamt ráðamönnum ríkja sem hafa margt á samviskunni gagnvart blaðamönnum og tjáningarfrelsi þeirra.

Blaðakonan Anna Politkovskaya sem þekkt varð í Rússlandi fyrir gagnrýni á stjórnvöld og skrif um spillingu var myrt fyrir nokkrum árum – og fullyrt að stjórnvöld stæðu á bak við ódæðið. Ritstjóri í austurhluta Úkraníu sem stýrði blöðum sem gefin voru út á rússnesku og talið er að hafi verið í haldi á vegum stjórnvalda fannst látinn í skógi s.l. sumar og líkaminn illa farinn eftir pyntingar.

Ástandið í fjölmiðlum hörmulegt víða í ríkjum Evrópuráðs

anna politÞess vegna minna samtök blaðamanna sem kalla sig fréttamenn án landamæra á að það hefur lítið upp á sig að samsama sig eingöngu með Charlie Hebdo og gleyma öllum hinum blaðamönnunum, bloggurunum og skopmyndateiknurunum sem eru að fjalla um viðkvæm málefni.

Ástandið í fjölmiðlun er vægast sagt hörmulegt víða í ríkjum Evrópuráðs þrátt fyrir aukna réttarvernd og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem pólitísk ádeila nýtur sérstakrar verndar enda blaðamönnum skylt að miðla áfram upplýsingum og hugmyndum sem varða almannahag og í þeim tilgangi heimilt að ganga langt með ýkjum, jafnvel rangfærslum og gífuryrðum ef það er liður af mikilvægri samfélagslegri umræðu sem almenningur á rétt á að móttaka. Tjáningarfrelsið í tengslum við lýðræðislega stjórnarhætti er túlkað rúmt; það má móðga fólk, hneyksla það og koma róti á huga þess en slíkar eru kröfur umburðalyndis, víðsýni og fjölhyggju sem slík samfélög eiga að byggja á.

Skopteiknari sakfelldur í Frakklandi

Þó taldi Mannréttindadómstóll Evrópu rétt að sakfella teiknara í Frakklandi sem gerði grín að árásinni á tvíburaturnana með skopmynd tveimur dögum eftir að hún átti sér stað 9. september 2001. Teiknarinn var ákærður fyrir að hampa hryðjuverkum vegna meðfylgjandi texta sem sagði: “Okkur hefur öll dreymt um þetta . . . Hamas lét verða af því”. Hann sagði teikninguna framlag sitt í pólitískri og listrænni ádeilu og andúð á Bandaríkjunum og teikningin af árásinni ætti að sýna í skoplegu ljósi hnignun bandarískrar heimsvaldastefnu. Dómstóllinn sagði að teikningin gerði meira en að sýna hnignun bandarískrar heimsvaldastefnu af því að hún vegsamaði tortímingu þessa stórveldis og vísaði dómstóllinn þá til myndatextans sem hann sagði sýna stuðning teiknarans við hryðjuverkamennina. Sakfelling teiknarans hefði því verið réttmæt og sekt sem hann hefði verið dæmdur til að greiða ekki verið úr hófi.

Tvískinningur Charlie Hebdo?

grande mosqueeFyrir nokkrum árum stefndu múslimasamtök í Frakklandi Charlie Hebdo fyrir kynþáttafordóma  og sökuðu blaðið um að hafa sett samasemmerki á milli Islam og hryðjuverka. Charlie Hebdo var sýknað af frönskum dómstólum á þeirri forsendu að hér væri ekki um árás á Islam að ræða heldur á hryðjuverkamenn sem væru múhameðstrúar og teikning af Múhameð spámanni með sprengju í túrbaninum þyrftu að skoðast í samræmi við efnistök blaðsins sem væri beint gegn trúarlegum öfgum.

Árið 2008 var einn af blaðamönnum Charlie Hebdo rekinn vegna skrifa sem sögð voru fela í sér fordóma gagnvart Gyðingum en í greininni gerði hann grín að Jean, syni Sarkosy forseta Frakklands, sem hann sagði taka gyðingatrú vegna metnaðar þar sem hann var að kvænast konu úr auðugri gyðingafjölskyldu. Blaðamaðurinn vann síðan dómsmál gegn Charlie Hebdo á grundvelli ólögmætrar uppsagnar.

Islamófóbíu verður að skoða í samhengi við ástandið í álfunnipoverty

Gagnrýni á efnistök Charlie Hebdo beinist að því að blaðið sýni tvískinnung með því að gera valdalausa múslima að skotspæni enda jarðvegurinn móttækilegur fyrir slíku háði. Nokkrum dögum fyrir voðaverkin 7. janúar s.l. birtust fréttir af fjöldamótmælum gegn Islamvæðingu í Þýskalandi en þar sem í Frakklandi fer andúð á Islam vaxandi. Þannig að háðsádeilur á Islam, sem hafa verið réttlættar sem þáttur af lýðræðislegri veraldarhyggju, njóta stuðnings fjölda íbúa víða í Evrópu. Aukna andúð á Islam eða islamófóbíu verður að skoða í samhengi við ástandið í álfunni eins og slóvenski heimspekingurinn Slavoj Zizek bendir á. Hann vitnar í ummæli Marx Horkheimir sem sagði á uppgangsárum nasismans að ef menn forðast að gagnrýna kapítalismann ættu þeir að steinþegja um fasismann.

Útskúfun úr mannlegu samfélagihomeless

Annar merkur hugsuður, pólski félagsfræðingurinn Zigmunt Bauman, sem upplifað hefur miklar hræringar í veraraldarsögunni á 20. öld, síðari heimsstyrjöldina, helförina og stalínismann, bendir í þessu samhengi á það hvernig reiðin beinist nú að fjölmiðlum þar eð þeir hafi svo mikil áhrif á almenna skoðanamótun. Dauðarefsingin “fatwa” sem Khomeini gaf út fyrir 18 árum síðan er enn að verki og viðbrögð vesturlanda með fjölmenningar-afstöðunni séu yfirborðsleg þar sem þau séu ekki tilbúin til að meðtaka grunngildi Islam og öfugt. Hann bendir á hvernig stjórnkerfi vestrænna ríkja eru að molna að innan; þverrandi traust á milli kjörinna leiðtoga og almennings og eins írónískt og það hljómar vitnar þessi róttæki fræðimaður máli sínu til stuðnings í Frans páfa, sem eins og ég hef áður fjallað um – er stiginn inn á hið pólitíska svið en það hefur verið hertekið af fjármálaöflum sem þurfa í raun ekki að standa ábyrg gjörða sinna gagnvart almenningi með sama hætti og hin kjörnu stjórnvöld sem ýmsir eru að átta sig á að ráða ekki ferðinni í raun. Fjármagnsöflin eru blind á mannlega eymd.

thou shalt not killPáfinn bendir á hvernig boðorðið þú skalt ekki morð fremja undirstriki réttinn til lífs og þetta boðorð eigi við um ríkjandi efnahagsumhverfi ójöfnuðar og útrýmingar sem sé að ganga að fólki dauðu. Lögmál frumskógarins gildi í samkeppnisumhverfi nútímans þar sem þorri fólks sé útilokaður frá þátttöku, settur út á jaðarinn án atvinnu, án möguleika, án undankomu. Litið sé á manneskjuna sem neysluvarning, sem síðan megi henda. Ekki eigi lengur við að tala um arðrán eða kúgun heldur útskúfun úr mannlegu samfélagi þar sem þeir sem verða undir eru álitnir drasl eða úrhrök.

Þetta er frumskógurinn sem menn virðast ekki sjá fyrir trjánum og hamast áfram að benda á tréin án þess að átta sig á villu síns vegar.

 ©

Erindi flutt hjá Rotarý, föstudaginn 16. janúar 2015 .