Ein spurning

Ein spurning

Það er meir en aldarfjórðungur síðan Hæstiréttur kvað jafnréttislög þýðingarlítil nema meginreglur væru skýrðar svo að veita skyldi konu starf ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin hvað varðar menntun og annað sem máli skiptir og karlmaður sem við hana keppir ef á starfssviðinu eru fáar konur. Í níutíu ára sögu ríkisútvarpsins hefur engin kona gegnt stöðu útvarpsstjóra. Ellefti karlinn var ráðinn útvarpsstjóri í vikunni andspænis  flóru fremstu fjölmiðlakvenna landsins.

Þegar staðan var auglýst laus til umsóknar var krafan um konu í stól útvarpsstjóra orðin tifandi tímasprengja. Yrði karl tekinn umfram konu í stöðuna þyrfti hann að hafa augljósa yfirburði á þeim sviðum sem gerð voru að skilyrði.

Margar færustu fjölmiðlakonur landsins sóttu um starfið en engin þeirra komst áfram eftir fyrsta viðtal. Þrír karlar og ein kona rötuðu í lokaúrtakið.

Konur sem eiga að baki áratuga reynslu sem ritstjórar, fréttastjórar, útgefendur, dagskrárgerðamenn, fréttamenn, rithöfundar, fræðimenn og stjórnendur hljóta að spyrja hvað hafi legið til grundvallar valinu í lokaúrtakið því ekki voru það hæfnis- og  kynjasjónarmið. Auk þess var krafan um sanngjarnt og gagnsætt ráðningarferli að engu höfð.

Svo virðist sem stjórn ríkisútvarpsins hafi markvisst útilokað þessar konur á lokametrunum til að forðast óhagstæðan samanburð við þann sem ráðinn var  í því skyni að hindra jafnréttiskærur.

Eftir stendur ein spurning sem beint er til stjórnar ríkisútvarpsins:

 

Hvaða umfram hæfnisþættir og yfirburðir réðu ráðningu ellefta karlsins í stöðu útvarpsstjóra?

 

Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir

 

______________________________________

Mannréttindalögmaður, fyrrverandi ritstjóri og útgefandi.

Grein þessi birtist í miðopnu Morgunblaðsins laugardaginn 1. febrúar 2019 þegar í kjölfar umdeildrar ráðningar í stöðu útvarpsstjóra hjá ríkisútvarpinu.

Venezuela á barmi glötunar

Venezuela á barmi glötunar

 

Í Venezúela er klíkuræði; stjórn sem hikar ekki við að taka opinbert fé og ríkiseigur til að skara eld að eigin köku. Ástandið í landinu er hrikalegt, jaðrar við hungursneyð þar sem fólk hefur ekki efni á matvælum sem hafa hækkað upp úr öllu valdi. Ungbarnadauði hefur tvöfaldast frá því 2008, malaría og aðrir sjúkdómar grassera. Sjúkrahús eru gersamlega fjársvelt og hafa hvorki lyf né tæki til að bjarga fólki.

 

Efnahagsástandið hefur lengi verið slæmt. Eftir að svokölluð sósíalistastjórn Nicolás Maduro kom til valda hefur ástandið hríðversnað og efnahagsþvinganir Bandaríkjastjórnar hjálpa ekki til enda bitna þær á almenningi ekki spilltum stjórnvöldum. Enda hafa þær ekki dugað til að hrekja hann frá völdum. Maduro forseti sem er jafnframt yfirmaður hersins tryggir sér stuðning hans með fjárframlögumsem sem ella færi í lyf og sjúkraaðstoð og launar háttsettum mönnum innan hersins og hermönnum hollustuna með kauphækkunum og með því að koma þeim fyrir í lykilstöðum. Lokað er fyrir fjárframlög erlendis frá til mannúðarmála. Hörmungarnar blasa alls staðar við. Börn deyja úr hungri og sjúkdómum.

 

Allar eignir Venesúela í Bandaríkjunum  hafa verið frystar og blátt bann lagt við öllum viðskiptum við yfirvöld í landinu og fulltrúa þeirra. Refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Venesúela eru þær hörðustu sem vestrænt ríki hefur verið beitt í meira en þrjá áratugi og eru á pari við þær sem Norður-Kórea, Íran, Sýrland og Kúba hafa þurft að þola.

 

Það hefur hallað undan fæti í Venesúela allt frá dögum Hugo Chavez, sem varð forseti 1999 en landið var eitt sinn hið auðugusta í Suður-Ameríku enda ríkt af olíuauðlindum. Þegar Chavez sem var sósíalisti tók við embætti hafði ójöfnuð vaxið hröðum skrefum í landinu; hinir ríku orðið ríkari og þeir fátækari fátækari. Chavez lofaði að berjast gegn óværu spillingar og minnka ójöfnuð en aðferðirnar sem stjórn hans beitti skiluðu ekki árangri heldur hinu gagnstæða. Gjaldeyrishöf juku á svört viðskipti með Bandaríkjadali; verðlagshöft bitnuðu á matvælaframleiðendum en þegar Maduro tók við embætti 2013 var 800 % verðbólga í landinu. Stjórn hans brást við með aukinni prentun peninga, verðbólgan jókst; verðlagseftirlit var hert með enn verri afleiðingum en áður. Vöruskortur eykst stöðugt, innfluttur varningur ókaupandi og matur og lyf af skornum skammti.

Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá því mars, eru 94% íbúa landsins undir fátæktarmörkum og tuttugu og fimm prósent íbúa þiggja einhvers konar mannúðaraðstoð. 

Herdís Tryggvadóttir 29. janúar 1928 – 15. ágúst 2019

Herdís Tryggvadóttir 29. janúar 1928 – 15. ágúst 2019

Minningarorð flutt í Hallgrímskirkju 23. ágúst 2019

Herdís Tryggvadóttir kveður í lok sumars á 92. aldursári eftir að hafa verið rúmföst í nokkrar vikur. Barnabarn spurði nokkru áður: Hvernig líður þér amma? Ég er í toppstandi, svaraði amma Herdís. Bandarísk hjón sem hittu í fyrsta sinn þessa háöldruðu konu þar sem hún sat í hjólastól á Grund pössuðu sig á því að tala nógu hægt og skýrt þannig að hún skildi þau nú örugglega. Þau hrukku í kút við svar hennar á hnitmiðaðri ensku þar sem geislandi bros fylgdi í kjölfarið. Þeir sem þekktu Herdísi vissu af þessum eiginleika hennar – í framkomu fór hún ekki troðnar slóðir. Hún snart fólk með óvenjulegum og skemmtilegum tilsvörum.  Frjálsleg í framkomu, laus við tilgerð og einlæg.  Hún lét sér ekki nægja að fá hláturskast sem ung kona heldur valt hún líka úr stólnum – hún hló svo mikið. Hún sáldraði gleði þar sem hún fór, gaf af sér og gaf frá sér – það sem hún átti, jafnvel allt sem hún átti. Fátækleg ung kona gekk fram hjá húsi hennar á köldum vetrardegi fyrir ótal mörgum árum í þunnum jakka, skjálfandi af kulda. Herdís stóð á tröppunum í nýrri kápu en vatt sér að konunni og lagði nýju kápuna yfir axlir hennar.  Til eru sögur af henni af æskuheimilinu þegar maður barði að dyrum sem átti ekkert og baðst ölmusu. Þá hljóp hún inn í eldhús og náði í sunnudagslærið sem átti að steikja og færði manninum. Fyrstu launin sem hún fékk eftir að hún fór að vinna lét hún renna til Mæðrastyrksnefndar og hún hélt áfram að gefa allt sitt líf, til hjálparstofnana og í þágu mannúðarmála.

Herdís Tryggvadóttir leit svo á að kærleikur, fyrirgefning og það að hugsa ekki aðeins um eigin hag – væru inntak kristinnar trúar, sem var haldreipi hennar í gegnum lífið.

 

Hún var fædd á Vesturgötu 32 í svokölluðu Kapteinshúsi sem afi hennar Ásgeir Þorsteinsson skútuskiptstjóri sem lést aðeins þrítugur og kona hans Rannveig Sigurðardóttur höfðu reist. Í húsinu ólst upp heimasætan, Herdís Ásgeirsdóttir, fædd 1895. Seinni maður Rannveigar, Páll Matthíasson skipstjóri sem dó úr spænsku veikinni 1918 kynnti fyrir Herdísi Ásgeirsdóttur ungan mann, sem hann sagði þann efnilegasta sem hann hefði fyrir hitt en það var Tryggvi Ófeigsson þá í Stýrimannaskólanum, síðar skipstjóri og útgerðarmaður. Herdísi hafði dreymt fyrir þessum manni – en hún var draumspök eins og ætt hennar og síðar dóttir hennar Herdís, sem var fjórða í röðinni af fimm börnum þeirra Tryggva. Elstur var Páll Ásgeir, síðan Jóhanna, Rannveig, þá Herdís og yngst Anna, sú eina sem lifir af þessum myndarlega systkinahóp sem frá 1935 ólst upp í húsinu á Hávallagötu 9 – við Landakotstúnið þar sem Herdís lék sér ásamt Rönnu systur sinni, Möbbu Thors, Þorbjörgu Péturs, Clausen-bræðrum, Steingrími Hermanns og Matta Jó. Síðustu dagana sem Herdís lifði rifjaði hún upp minningar af Landakotstúninu og Ferdínand munki sem reyndi reka krakkana af túninu sem þá tilheyrði kirkjunni. Obba vinkona Herdísar minnist þess þegar hún sá þær Heddý og Rönnu fyrst nýfluttar á Hávallagötu, önnur í blárri kápu með hatt og hin í rauðri. Þær systur Hanna, Ranna, Heddý og Anna deildu svokölluðu systraherbergi á Hávallagötu 9. Ranna fylgdi yngri systur sinni ef hún þurfti að fara fram úr á nóttunni því Heddý var myrkfælin. Þær voru miklar og nánar vinkonur alla tíð og saman útskrifuðust þær stúdentar frá Verslunarskóla Íslands vorið 1950. Herdís hafði mestan áhuga á ensku og enskum bókmenntum, sem hún síðar lagði stund á við Háskóla Íslands. Eftir að seinni heimsstyrjöld lauk var Herdís í tæpt ár í Svíþjóð. Hún fór með móður sinni Herdísi til Stokkhólms en varð síðan eftir á húsmæðraskóla sem var staðsettur í sögufrægum kastala sem heitir Skarhult og er á Skáni. Þar lærði hún meðal annars að matreiða fisk í hlaupi, baka marsipantertur og að vefa – en hún fékk bestan vitnisburð af öllum stúlkunum í skólanum fyrir kurteislega og fallega framkomu en síðar sem móðir var hún nokkuð ströng í uppeldinu þegar kom að borðsiðum, því að sýna þakklæti, eldra fólki virðingu og heilsa brosandi.

 

Þegar heim var komið hóf hún nám í Verslunarskólanum þar sem hún var vinsæl meðal bekkjarsystkina og kom engum á óvart að hún skyldi kjörin fegurðardrottning skólans – þessi fallega og glæsilega stúlka. Sjálf var hún alla tíð lítt meðvituð um útlit sitt – þótt hún hefði auga fyrir fegurð og fallegri hönnun –  náðu slík fyrirbæri aldrei að njörva hana niður –  til þess var hún of frjáls andi og of leitandi sál . . . hún sótti innblástur í rómantíska sýn á lífið, hetjur Íslendingasagna – ekki síst útlagana – tragískar Shakespearpersónur – trúarleiðtoga – andlega jöfra og fórnfúsar manneskjur. Innst inni dreymdi hana unga um að verða hjúkrunarkona einhvers staðar þar sem neyðin væri mest en einnig stóð hugur hennar til leiklistar – og hún var í leiklistarskóla hjá Lárusi Pálssyni sem taldi hana mikið efni í grínleikkonu.  Föður hennar leist ekki á það að hún færi í nám í leiklist til Bretlands en hún var þá starfandi á skrifstofu útgerðarfyrirtækis hans, Júpiter og Mars í Aðalstræti 4.  Á þeim tíma kynntist hún ungum laganema, Þorgeiri Þorsteinssyni. Þau gengu í hjónaband 7. nóvember 1953 en þá var Herdís komin nokkra mánuði leið með frumburð þeirra.  Ungu hjónin bjuggu til að byrja með á Hávallagötu 9. Þau voru stórglæsilegt par – hann dökkur yfirlitum og hún ljós –  bakgrunnur þeirra var nokkuð svipaður og á milli foreldra þeirra ríkti vinsemd. Sumarið 1954 fóru foreldrar Herdísar, systkini og makar  í heimsókn austur á firði til foreldra Þorgeirs, Þorsteins Jónssonar kaupfélagsstjóra og Sigríðar Þorvarðardóttur Kjerúlf í Hermes á Reyðarfirði og ættarbólsins á Egilsstöðum. Þorsteinn tengdafaðir hennar sýndi Herdísi sláturhús kaupfélagsins en dýravinurinn Herdís – neytti aldrei kjöts eftir þá heimsókn.

 

Herdís og Þorgeir eignuðust fjögur börn. Elst er Herdís mannréttindalögfræðingur, fædd 18. febrúar 1954; hún var gift Stefáni Erlendssyni og átti með honum dótturina Herdísi. Með síðari eiginmanni Braga Gunnarssyni en þau skildu – eignaðist hún Maríu Elísabetu, Gunnar Þorgeir og Hörð Tryggva. Næstur er Þorsteinn hagfræðingur, fæddur 17. september 1955, kvæntur Ástu Karen Rafnsdóttur og eiga þau þrjú börn: Ástu Sólhildi, Ásgeir Þór og Herdísi Athenu; þriðja er Sigríður prófessor, fædd 22. febrúar 1958 gift Magnúsi Diðrik Baldurssyni og eiga þau eina dóttur, Elísabetu. Yngstur er Ófeigur Tryggvi læknir, fæddur 17. júlí 1960. Hann er kvæntur Maríu Heimisdóttur og eiga þau synina Tryggva og Gísla. Barnabarnabörnin þrjú – öll fædd 2018 – eru: Hekla Lúísa fædd á níræðis afmælisdegi langömmu sinnar, Tryggvi Veturliði og Ísold Aurelia.

 

Herdís og Þorgeir bjuggu fyrstu árin á Þórsgötu, síðan í Sigtúni 23 þar til Þorgeir var ráðinn fulltrúi lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli 1959. Þá fluttu þau í Grænásinn sem var innan vallarmarka – þrjár lágreistar blokkir þar sem íslenskir ríkisstarfsmenn bjuggu. Herdísi leist ekki á blikuna í fyrstu en árin í Grænási þar sem þau bjuggu fram til ársins 1967 voru í minningu hennar góð ár – hún átti góðar nágrannakonur, var kjörin formaður sóknarnefndar Grænássafnaðar og börnin gengu í barnaskóla Njarðvíkur. Herdís hlýddi þeim vel yfir lexíur og þau voru öll framúrskarandi í námi.  

 

Hún lagði mikið upp úr því að þau lærðu skólaljóðin utanað og læsu þau upp hátt og skýrt. Hún dró upp fyrirmyndir úr fortíðinni, glæddi þær lífi, vitnaði í Shakespeare eða aðra – til að brýna þau áfram – húsverkin og praktískir hlutir máttu sitja á hakanum. Hún í Sjálfstæðisflokknum og Þorgeir genetískur framsóknarmaður þráttuðu um pólitík en nöfn úr heimi alþjóðastjórnmála voru fleyg á heimilinu og börnunum jafn tamt að hlusta á sögur um Gilitrutt, Grímsævintýri, De Gaulle, Kúbudeiluna og Kennedy.

 

Úr Grænási flutti fjölskyldan í Garðabæinn í ágúst 1967. Herdís og Þorgeir skildu tveimur árum síðar – þótt ekki yrði af lögskilnaði fyrr en  nokkuð löngu síðar.  Erfið ár voru framundan – hún var ein með fjögur börn – engan sérstakan starfsferil og á brattann að sækja. Aðmírall á Keflavíkurflugvelli sem Þorgeir starfs síns vegna hafði mikið samneyti hafði sagt um Herdísi konu hans að svo flott væri hún – að hún væri eins og kvenhetja úr Íslendingasögunum. Sjálf var Herdís lúmskt hrifnust af útlögum eins og Gretti Ásmundssyni. Eitthvað í karakter hennar kallaðist á við þá sem stóðu einir og í mótbyr. Það var stórsjór inni í henni eins og í pabba hennar skipstjóranum sem fleytti henni á hærri öldufalda þar sem sýnin var víðari. Það var líka viðkvæmni í henni sem var alveg hennar eigin, en byggði á kristilegri sýn móður hennar.

Hún skar sig á suman hátt úr, að því er börnunum fannst.  Hún hló hátt, eins og reyndar þær systur allar, og hún söng í kirkjunni, eins og enginn hlustaði. Það var lífskraftur þarna og gleði sem voru í senn smitandi og svolítið vandræðaleg fyrir unglinga en gerði þá líka næmari á berskjöldun og ósvikna tjáningu. Hún var hrifnæm stemningsmanneskja. Þegar börn hennar sögðu henni frá velgengni í starfi eða námi þá var gleði hennar slík að hún varð að halda sér í eitthvað veggfast, að eigin sögn, svo ekki liði yfir hana.

Hún afvopnaði fólk með framkomu sinni af því að hún tók sig ekki alvarlega,  gerði stanslaust grín að eigin göllum. ,,Tveir mínusar gera plús” var viðkvæði þeirra Þorgeirs beggja í gleði yfir þessum plúsum, börnunum fjórum, sem þeim voru gefin.

 

Á þessum árum beitti hún sér innan samtaka um Herferð gegn hungri en börnin minnast þess að hún tók þátt í hungurvöku yfir heila helgi sem var til að minna á hungur í Afríku og hvetja til söfnunar, en tómlegt var í kæliskápnum heima. Rannveig systir hennar lét sig  þá ekki muna um að bæta fjórum krökkum við matarborðið þar sem fyrir sátu hennar fimm. Herdís átti einnig þátt í stofnun friðarsveita Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og sinnti fleiri mannúðarmálum.

 

Hún var alla tíð mikill dýravinur; villikettir leituðu skjóls hjá henni í vetrarhörkum; hún eignaðist þrjá hunda sem fylgdu henni síðustu fjóra áratugina. Það var samkennd innra með henni með hrjáðum og smáðum. Þessi samkennd lá djúpt í sál hennar og kannski hafði það eitthvað með eigin reynslu að gera. Hún fékk kíghósta sem barn og m.a.s. pabbi hennar tók sér frí af sjónum til að vera í landi og halda á barninu við opinn gluggann sem hóstaði svo að lá við köfnun. Hún átti erfitt í upphafi skólagöngu, lenti á kennara sem sló hana með reglustiku á hendina þar sem henni fannst Herdís ekki standa sig nógu vel. Móðir hennar átti við heilsuleysi að stríða og var fjarri á köflum fyrstu árin og börnin í umsjá vinnustúlkna á heimilinu, en faðirinn skipstjórinn úti á sjó. Síðar í lífinu fékk hún sinn skammt af vonbrigðum í sambandi við ástina en þráin bjó með henni fram á hinsta dag. Þegar annar sona hennar spurði hana hvort hana vantaði eitthvað þar sem hún lá rúmliggjandi á Grund kom svarið að bragði: Kannski kall!

 

Með tíð og tíma varð Herdís ættmóðirin í stórfjölskyldunni – Heddý frænka með stóra brosið, hlýja hjartað og heimboðin þar sem hún hafði bakað stórar og skrautlegar tertur sem sprengdu alla skala og ýmist voru kallaðar ,,flugslys“ eða ,,drottningar“ og enginn var skilinn útundan. – Eftir skilnaðinn eignaðist Þorgeir barn með annarri konu og umfaðmaði Herdís þá stúlku, Kötlu Margréti, alla tíð. Á milli Herdísar og Þorgeirs ríkti gagnkvæm virðing og síðustu árin sem bæði lifðu hittist fjölskyldan reglulega og borðaði saman.

 

Merkilegasti kapítulinn var kannski sá síðasti þar sem Amma Herdís var í aðalhlutverki og brilleraði. Hún hélt uppteknum hætti og hringdi, stundum oft á dag í barnabörnin rétt eins og hún hafði hringt í börnin sín, jafnvel vini þeirra líka.

 

Hún mátti óska sér ferðar í 75 ára afmælisgjöf og kaus að fara í pílagrímsferð til kraftaverkastaðarins Lourdes þar sem María birtist Bernadette, ungri, fátækri stúlku. Herdís sagði helgidóminn birtast hinum smæstu, sem eiga um sárast að binda, eins og Bernadette. Það var inntakið í lífssýn hennar. Hún tengdi við þetta viðkvæmasta blóm, sem býr í okkur öllum og ræktaði þessi tengsl með bænalífi sínu sem var snar þáttur í daglegri tilvist hennar. Hún bað fyrir öllum, og var meðlimur í bænahópi fyrir sjúka til margra ára hér í Hallgrímskirkju.

 

Ein uppáhaldssaga hennar var Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson, um Fjalla-Bensa,  sem leggur allt of mikið í sölurnar til að bjarga nokkrum skjátum í vetrarstormum. Hún fékk að lesa þessa sögu í útvarp þar sem hún var henni svo hjartfólgin. Það var því ekki tilviljun að presturinn sem kom og hélt bænastund með henni og afkomendum síðasta daginn sem hún lifði, leggði út af 23. Davíðssálmi um góða hirðinn. Herdís gat ekki lengur tjáð sig þegar hér var komið, en andlitið lýsti upp þegar farið var með þennan sálm.

 

Herdís hló að efasemdum um eilíft líf. Til hvers væri þá verið að dragnast áfram í hálf tilgangslausri jarðvist, spurði hún börn sín og barnabörn? ,,Haldið þið að þetta sé til einskis?“ Hún lifði lífinu í ljósi þessarar trúar. Kannski þess vegna lýsti af henni. Það stirndi ekki á gólfin hjá henni en það var fallegt í kringum hana. Hún skóp rými fyrir aðrar víddir en þær praktísku. Hún hringdi til að segja frá draumum sem henni fannst boða gott – og líka til að vara við – og hún var óspör á hrósyrði í viðleitni að gleðja aðra. Þannig lifir hún áfram með okkur – elsku ljósberi kærleikans, Herdís Tryggvadóttir.

 

 

Minningargreinar sem birtustu í Morgunblaðinu frá 23. ágúst 2019 – 29. ágúst 2019

  1. ágúst 2019| Minningargreinar | 2363 orð | 1 mynd

Herdís Tryggvadóttir

Herdís Tryggvadóttir fæddist í Reykjavík 29. janúar 1928. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 15. ágúst 2019. 

Foreldrar hennar voru Herdís Ásgeirsdóttir, f. 1895, d. 1982, og Tryggvi Ófeigsson, f. 1896, d. 1987, útgerðarmaður. Systkini Herdísar: Páll Ásgeir, f. 1922, d. 2011; Jóhanna f. 1925, d. 2011; Rannveig, f. 1926, d. 2015; og Anna, f. 1935, sem er nú ein eftirlifandi þeirra systkina.

Herdís gekk í hjónaband 7. nóvember 1953 með Þorgeiri Þorsteinssyni, sýslumanni og lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, f. 28. ágúst 1929, d. 27.11. 2013. Þau skildu. Foreldrar hans: Sigríður Þorvarðardóttir Kjerúlf, f. 1891, d. 1973, og Þorsteinn Jónsson, kaupfélagstjóri KHB, f. 1889, d. 1976. Börn Herdísar og Þorgeirs eru: A) Herdís, mannréttindalögfræðingur, f. 1954. Barn Herdísar og fyrri eiginmanns, Stefáns Erlendssonar: i) Herdís, f. 1987. Hennar maður: Dustin O’Halloran; barn þeirra: Ísold Aurelia, f. 2018. Börn Herdísar og síðari eiginmanns, Braga Gunnarssonar, þau skildu: ii) María Elísabet, f. 1993, iii) Gunnar Þorgeir, f. 1994, iv) Hörður Tryggvi, f. 1997. B) Þorsteinn, hagfræðingur, f. 1955. Maki: Ásta Karen Rafnsdóttir. Börn þeirra: i) Ásta Sólhildur, f. 1991. Hennar maður: Kristján Skúli Skúlason; barn þeirra: Tryggvi Veturliði, f. 2018, ii) Ásgeir Þór, f. 1994, Herdís Athena, f. 1996. C) Sigríður, prófessor, f. 1958. Maki: Magnús Diðrik Baldursson. Barn þeirra: Elísabet, f. 1986. Maki: Christoph Buller; barn þeirra: Hekla Lúísa, f. 2018. D) Ófeigur Tryggvi, læknir, f. 1960. Maki: María Heimisdóttir. Synir þeirra: i) Tryggvi, f. 1991, ii) Gísli, f. 1998.

Herdís ólst upp í Reykjavík, bjó fyrst á Vesturgötu 32, á Hávallagötu 9, og næstum síðustu 40 ár ævinnar á Laugarásvegi 17a. Herdís var við nám í húsmæðraskóla Skarhult í Svíþjóð eftir seinni heimsstyrjöldina og lærði um skeið leiklist í skóla Lárusar Pálssonar. Herdís lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og varð stúdent þaðan vorið 1950. Hún lagði síðar stund á ensku við Háskóla Íslands. Hún vann á skrifstofu Júpíters og Mars en var heimavinnandi eftir það, fyrir utan nokkur ár sem hún vann hjá Loftleiðum. 

Herdís vann alla tíð að mannúðarmálum, ekki síst tengdum kirkjunni, málefnum kvenna og náttúru- og dýravernd. Hún studdi heilsugæsluverkefni á vegum Kristniboðssambandsins í Afríku, var stofnaðili að friðarsveitum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, beitti sér innan samtakanna Herferð gegn hungri og átti þátt í stofnun samtaka gegn limlestingu á kynfærum kvenna, svo eitthvað sé nefnt. Herdís tók þátt í starfi bænahóps fyrir sjúka í Hallgrímskirkju um langt árabil. Hún tók virkan þátt í náttúruverndarbaráttu í upphafi þessarar aldar og birti fjölda blaðagreina um hugðarefni sín, þ.ám. um dýravernd, en hún neytti ekki kjöts frá unga aldri.

Útför hennar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 23. ágúst 2019, klukkan 15.

Við kveðjum í dag Herdísi Tryggvadóttur. Með Herdísi er gengin einstök kona sem átti engan sinn líka. Hún var hugsjónakona sem barðist fyrir öllu og öllum sem eru óréttlæti beittir eða standa höllum fæti; mönnum, dýrum, náttúrunni. Baráttuþrek sitt sótti Herdís ekki síst í sannfæringu trúarinnar. En hún prédikaði ekki trú sína í orði heldur lifði hana og sýndi í verki. Þannig var Herdís öllum sem henni kynntust lýsandi fyrirmynd.

Herdís var góða sálin í fjölskyldunni. Hún var kærleiksrík móðir, tengdamóðir, amma og langamma. Hún reyndist okkur fjölskyldunni alla tíð einstaklega vel, var hjálpsöm, ástrík, nærgætin og örlát. Herdís skildi eftir sig mikinn auð með afkomendum sínum og gaf þeim skilyrðislausa ást og umhyggju. Hún var ætíð hvetjandi og styðjandi og vék aldrei styggðaryrði að nokkrum manni heldur sá það besta í öllum.

Herdís var falleg ytra sem innra og í henni sló gullhjarta. Það var mikil gjöf að fá að verða samferða henni í 35 ár. Með hverju árinu sem leið dýpkaði vinátta okkar. Hún hafði skoðanir en var lærdómsfús, ævinlega opin fyrir nýjum hugmyndum og til í að ræða um hvað sem var. Og hún var skemmtileg og fyndin – smitandi hlátur hennar ómótstæðilegur. Allir sem umgengust Herdísi komu betri manneskjur af hverjum fundi við hana.

Ég kveð Herdísi Tryggvadóttur tengdamóður mína með söknuði, þakklæti og djúpri virðingu. Minning hennar mun lifa.

Magnús Diðrik Baldursson.

 

 

Elsku amma mín Herdís. Nú þegar ég kveð þig með trega í hjarta í hinsta sinn, elsku amma mín, finnst mér ég þurfa að kveðja svo miklu meira en bara þig sem manneskju. Ég þarf endanlega að kveðja æsku mína sem þú stóðst vörð um eins og klettur með óþreytandi jákvæðni, uppörvun, áhyggjum um hvort mér væri kalt eða ég þreytt, með ást og þolinmæði. Ömmur og afar eru verndarar barnsins innra með okkur og það er ein mesta gjöf lífs míns að hafa fengið að njóta þess fram á fullorðinsaldur að eiga eins merkilega manneskju að og amma mín Herdís var.

Það voru átök og áskoranir í lífi ömmu Herdísar sem við barnabörnin urðum aldrei vör við í æsku en hún ræddi svo fallega opinskátt um þegar við eltumst. Þegar ég hef sjálf þurft á að halda var hún alltaf traustur vinur, talaði í mig kjark, dæmdi aldrei, var hreinskilin og sýndi mér einlæga og mannlega hlið á sér. Hún kenndi mér að líta á erfiðleikana sem eðlilega kafla lífsins. Ég er ekki viss um að það sé til manneskja í þessari veröld sem var jafn full af gleði og þakklæti og hún – fram á síðustu ævidaga sína. Amma Herdís eltist og lést með einstakri reisn án þess að tapa nokkru sinni bjartsýni sinni eða fegurð.

Amma Herdís sagðist hafa getað hugsað sér að verða leikkona eða hjúkrunarfræðingur ef hún hefði farið í frekara nám, en í stað þess að fyllast eftirsjá lifði hún gildi þessara starfsstétta; var geislandi skemmtikraftur og húmoristi, umhyggjusöm við þá sem voru hjálparþurfi, gaf sig alla í umönnun fjölskyldu sinnar, var örlátari en flestir og sparaði aldrei hrós. Hún kynnti mig fyrir Albert Schweizer og hugmyndum sínum um hjálparstarf þegar ég var lítil stelpa sem gaf mér kjark til að ferðast á framandi slóðir og velja mér framtíðarstarf.

Heimsóknir mínar til Íslands síðastliðinn áratug hafa einkennst af því að fá að eyða sem mestum tíma með ömmu Herdísi; að fara saman í laugarnar þar sem hún flaut á bakinu í pottinum eins og svífandi engill, drekka 50:50-blöndu af neskaffi á tröppunum á Laugarásveginum, á Dalbraut og svo Grund, læra öll lög Sound of Music utan að, hafa hana sem heiðursgest í brúðkaupinu mínu, tala um guðinn hennar og lífið og allt það sem skiptir mestu máli, hlæja saman og skynja léttleika lífsins í samskiptum við hana. Enginn hafði jafn smitandi hlátur, eins og allir sem hana þekktu vita. Amma sýndi mér að það er í senn hægt að vera djúpvitur og bæði einlæg og sjálfstæð í hugsun – t.d. með því að hafa mynd af Línu langsokk á afmælistertunni í áttræðisafmæli sínu – og kenndi mér að í raun sé það einn og sami hluturinn.

Heimferðirnar munu aldrei verða samar héðan í frá en Reykjavík verður eins og þakin blómabreiðu úr minningum um ömmu sama hvert ég lít.

Ég hefði aldrei orðið að þeirri manneskju sem ég er í dag ef ekki hefði verið fyrir þig, elsku amma mín. Þú hefur mótað mig svo miklu meira sem persónu en þig gæti órað fyrir. Það er ein stærsta gjöfin í lífi mínu að hafa fengið að verið barnabarn þitt.

Þakklætið er óendanlegt.

Elísabet Magnúsdóttir Sigríðardóttir.

 

 

Amma mín var tímalaus kona. Hún lét sér hreyfingar mínútuvísisins í léttu rúmi liggja og ég sá hana aldrei drífa sig. Hún var líka tímalaus því hún hélt alltaf í barnið í sér, lífsglöð og forvitin til hinsta dags. Því þótti mér aldrei erfitt að ímynda mér hana á ólíkum æviskeiðum. Sem myrkfælið og draumlynt barn sem fletti hugfangið sögunni af Örkinni hans Nóa, sem ungling sem keyrði bíl föður síns próflaust, sem rúmlega tvítuga konu sem heimsótti sláturhús með tengdaföður sínum og borðaði aldrei kjöt framar. Hún var falleg og trúuð.

Amma mín var hugsjónakona. Hún klippti út allar greinar sem tengdust velferð dýra. Hvort sem umfjöllunarefnið var aðbúnaður selanna í Húsdýragarðinum eða siðferðileg hugvekja um kjötiðnaðinn. Lengi var það henni kappsmál að fá Kobba, roskna páfagaukinn í Blómavali, færðan yfir í stærra búr.

Húsið hennar var ævintýralegt eins og hún sjálf. Það var dulmagnaður og yndislegur staður. Veggirnir voru klæddir þykkri furu. Á efri hæðinni var japanskt vaxblóm, risavaxin hengiplanta með ljósbleikum og hvítum blómaklösum sem minntu á útskorið kertavax. Fíngerðir og mjúkir stilkar héngu yfir flöskugrænt handrið og slúttu niður á neðri hæð. Þar voru stórblómóttar gardínur fyrir gluggum, svo síðar að faldurinn lá í konunglegum fellingum á gólfinu. Hún bakaði súkkulaðiköku og bræddi suðusúkkulaði yfir, steikti pönnukökur með mörgum eggjum, samt brotnuðu þær þegar maður reyndi að rúlla þeim. Við sátum á heitri stétt fyrir utan útihurðina, með ullarteppi og sængur undir okkur. Ég með valinn hatt úr safni ömmu á kollinum. Amma sjálf svo kulsæl að hún var með alpahúfu og íklædd tveimur ullarpeysum í sólinni. Nágrannastrákurinn sló grasið og amma bað hann að sneiða framhjá fíflunum því henni fannst þeir svo fallegir.

Amma mín eignaðist vini hvert sem hún fór. Hún hafði einstaka útgeislun og sterka nærveru sem var uppfull af gleði og samkennd. Ég get ekki séð fyrir mér andlitið hennar öðruvísi en brosandi. „Þú þarft mikið að tala, Maja,“ sagði hún við mig þegar ég var barn. Hrifning hennar á allri einlægri tjáningarþörf var fölskvalaus. Mér fannst ég geta sagt ömmu allt og hún hlustaði á mig vaða elginn. „Ég var aldrei mikið fyrir skóla, ég var alltaf meira fyrir lífið,“ sagði hún glettin. „Og kannski verð ég fyrsta konan á Íslandi til að deyja úr leti,“ sagði hún líka enda hafði hún mikinn húmor fyrir sjálfri sér.

Sannleikurinn er sá að amma mín var frjáls andi. Viðjar kerfisins höfðu aldrei roð við henni. Hún var flugmælsk og þegar ég varð eldri skrifaði ég oft niður eftir henni. Í vor sagði amma við mig orðrétt: „Lífið er ekki að renna sér eftir sléttu skautasvelli. Það getur enginn verið blómaskraut kyrrt í vasa sem enginn snertir. Lífið tekur í mann og tuskar mann til. En útkoman er oft ágæt.“

Hjartans amma, kvik og ung sál, frjór hugur og viturt hjarta. Ég er Guði þakklát fyrir að hafa átt hana sem ömmu. Ég gleðst yfir lífi hennar, að hafa fengið að elska hana og þiggja allar hennar gjafir. Það er í hennar anda. Guð blessi ömmu.

María Elisabet Bragadóttir.

 

 

Elsku Heddý frænka, minningar streyma fram um góðar stundir þar sem fjölskyldur okkar nutu hvítu sandstrandanna á Flórída og æskuminningar frá flotastöðinni í Keflavík á meðan faðir minn, flug-skurðlæknir, var staðsettur þar með Önnu systur þinni og móður minni. Man eftir móanum og hrauninu sem var leikvöllur okkar frændsystkina og okkur að búa til flugvélar úr dagblöðum og að bralla ýmislegt. Og hvað pabbi minn hafði gaman af því að stríða þér, bara til að heyra hlátur þinn og sjá bros þitt! Hvað tíminn hefur liðið hratt! Man eftir húsinu þínu í Garðabænum þegar ég var orðinn aðeins stærri og okkur frændsystkinum, krökkunum þínum, að leika í kríuvarpi í grenndinni. Þá brosi ég við tilhugsunina um klikkaða hundinn þinn á heimili þínu á Laugarásvegi, nálægt stóru sundlauginni. Dásamlegir hádegisverðir og kvöldverðir á æskuheimili þínu á Hávallagötunni, skemmtilegar máltíðir á Hótel Sögu, sem í minningunni eru sérstakar, ekki síst vegna nærveru þinnar, glampans í augunum og brossins þíns sem var „bjart eins og nýsleginn túskildingur“. Hláturinn smitaði alla viðstadda. Við munum sakna þín sárt og erum öll betri manneskjur fyrir að hafa átt þig að í lífi okkar. Ég er einfaldlega þakklátur afa Tryggva Ófeigssyni og ömmu Herdísi Ásgeirsdóttur fyrir að koma til manns því afbragðsfólki sem ég kalla með stolti móðursystur: Heddý, Rönnu, Hönnu og Pál móðurbróður. Alveg er ég viss um að þau brosa breitt, með hlýju í hjarta og faðminn opinn þar sem þau bjóða þig nú velkomna heim. Guð hraði för þinni og blessi þig elsku Heddý.

Tryggvi McDonald.

 

 

Það var mikil gæfa að fá að vera samferða Heddý frænku og hennar fólki alla tíð. Hún og móðir mín, Rannveig, voru systur og aldursmunurinn var aðeins 14 mánuðir. Afar kært var með þeim og áttu þær margt sameiginlegt. Ég held ég megi segja að stuðningur þeirra hvorrar við aðra hafi verið ómetanlegur en þær urðu báðar einstæðar mæður, önnur með fjögur ung börn og hin fimm. Þetta var á tímum þegar skilnaðir voru fátíðir og öryggisnetið ekki eins þéttriðið og nú er.

Heimili Heddýjar stóð okkur systkinunum ávallt opið og var alltaf gaman að koma þangað. Ekki síst þar sem ég var svo heppinn að eiga þar jafnaldra og vin, Ófeig Tryggva, en mæður okkar fæddu okkur með fimm daga millibili.

Elskusemi Heddýjar og umhyggja fyrir öðrum, ásamt glaðværð og kímni, var afar einkennandi fyrir hana og ekki síður hversu vítt og breitt þessir eiginleikar teygðu sig. Allir nutu jafnt, hvort heldur fjölskylda, menn eða málleysingjar, vinir eða vandalausir.

Lýsandi dæmi um þetta er þegar nágranni hennar stóð í framkvæmdum við heimili sitt og bað um leyfi til að staðsetja kaffistofugám á heimreið Heddýjar um nokkurra mánaða skeið. Var það auðsótt mál, en hún bætti um betur og bakaði reglulega kökur ofan í vinnumennina og færði þeim með sínu breiða brosi.

Einhverju sinni er ég var u.þ.b. 13 ára ætlaði Heddý sér að hringja í móður mína en ég svaraði í símann. Furðaði hún sig á því að ég væri heima en ekki í skólanum. Ég svaraði sem var, að skólasystkinin væru í skíðaferðalagi, ég ætti ekki skíði og væri því heima. Henni fannst það afleitt og sagðist myndu sækja mig eftir hálftíma, sem hún og gerði. Því næst fórum við í Útilíf og þar gerði hún mig að stoltum skíðaeiganda. Fyrir þetta og svo margt annað er ég henni eilíflega þakklátur. Ekki síst umhyggjusemina gagnvart börnunum mínum.

Við Þuríður sendum öllum aðstandendum og vinum Herdísar Tryggvadóttur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég get ekki skilið við þessi orð án þess að geta þess hversu trúuð hún var, í fallegustu merkingu þess orðs.

Guð blessi þig Heddý mín og takk fyrir allt.

Tryggvi Hallvarðsson.

 

 

HINSTA KVEÐJA
Sólargeislinn Heddý frænka passaði mig í nokkra mánuði þegar ég var tveggja ára. Hún var með foreldrum mínum í Stokkhólmi þar sem faðir minn var í utanríkisþjónustunni. Sambandið sem myndaðist þá á milli mín og föðursystur minnar hélst alla tíð.
Takk, elsku Heddý frænka, fyrir skilyrðislausa ást og vináttu. Samúðarkveðjur frá okkur Þórhalli til fjölskyldunnar. Guð blessi þig.

Herdís Pálsdóttir.

 

✝ Herdís Tryggvadóttir

fæddist 29. janúar 1928. Hún lést 15. ágúst 2019.

Útför hennar fór fram 23. ágúst 2019.

Móðursystir mín,Herdís Tryggvadóttir, gekk alltaf undir gælunafninu Heddí frænka hjá okkur börnum Rannveigar, systur hennar. Systurnar voru fjórar, Hanna, Ranna, Heddí og Anna, auk elsta bróðurins Páls. Það var rúmt ár á milli móður okkar og Heddíar, og ákaflega kært með þeim systrum. Stóra systirin Ranna fylgdi Heddí, litlu systur, fram á nótt-unni með glöðu geði og þegar þær áttu að fá nýja svefnbekki um 9- 10 ára aldurinn var fenginn tvíbreiður bekkur handa þessum samrýndu systrum. Seinna á lífs-leiðinni, fráskildar konur með stóran barnahóp, styrktu þær áfram hvor aðra með ráðum og dáð. Það er minnisstætt þegar Heddí taldi ekki eftir sér að hafa okkur systkinin í gistingu í Græn- ásnum í um vikutíma eitt sumarið – við fimm bættust við hennar fjögur – en allt gekk vel. Fjögur systkini í hvorum hóp áttu sér jafnaldra í hinum systkinahópnum, og öll þekktumst við mjög vel.

Heddí frænku var gefin létta lundin sem hafði einkennt móðurömmu okkar, Herdísi Ásgeirsdóttur. Þeirrar lyndiseinkunnar frænku okkar nutu allir sem í kringum hana voru, því hún var einkar lagin við að gleðja aðra. Það var aldrei falskur tónn í hrósinu sem hún var örlát á. Hennar eigin uppspretta gleðinnar var einlæg trú, sem hún lærði af móður sinni og naut alla ævi.

Glettnin var aldrei langt undan hjá Heddí. Skemmtilegar athugasemdir gátu náð manni fljótt niður á jörðina. Í einu stórafmæli mínu tók ég svo til orða að mér fyndist ég alls ekki orðin gömul, og benti á hressar móður- og föðursystur því til sönnunar. Heddí spurði mig kímin hvort henni hefði bara verið boðið til þess að sýna hversu ungt afmælisbarnið væri miðað við hana.

Hún náði einnig vel til næstu kynslóðar á eftir. Börnin mín minnast jákvæðninnar og smit- andi gleði, og stinga upp á „hrós- degi“ í minningu hennar.

Þegar Rannveig móðir mín dó fyrir fjórum árum hafði Heddí frænka á orði að nú yrði gleði í himnaríki. Mér finnst gott að minnast þeirra orða nú þegar Heddí frænka er öll. Það ríkir ábyggilega gleði og kátína í himnaríki þegar lífskúnstnerinn Herdís Tryggvadóttir bætist þar í hópinn.

Innilegar samúðarkveðjur til Herdísar, Þorsteins, Sigríðar og Ófeigs og fjölskyldna þeirra, svo og Kötlu Margrétar og allra ætt- ingja og vina. Góð kona er gengin.

Eva Hallvarðsdóttir.

 

Orð mega sín lítils þegar elsku Heddí frænka, eins og hún var

ávallt kölluð, er kvödd. Brosið henn- ar fallega sem lýsti upp umhverfið, dill- andi hláturinn, glettnin og sú mikla væntumþykja sem hún sýndi alla tíð var einstök og ég er mjög þakklát fyrir það. Hitti ég hana var eins víst að ég væri ausin lofi – ég

væri alltaf að fríkka og liti svo vel út. Hvernig þetta myndi eigin- lega enda! Maður einhvern veg- inn efldist allur því ekki var ann- að hægt en að trúa henni örstutta stund, og síðan var hlegið.

Hún sýndi væntumþykju með spurningum um það hvernig öll- um liði og hvort ekki væri allt gott að frétta. Ef einhver átti erf- itt bað hún fyrir viðkomandi, en trú hennar var sterk alla tíð. Hún fylgdist grannt með og spurði frétta. Þegar henni voru sagðar jákvæðar fréttir samgladdist hún á þann hátt að einlægnin skein í gegn og maður trúði því að allt færi á besta veg.

Ég er henni óendanlega þakk- lát fyrir hjálpsemina sem hún sýndi mér þegar ég glímdi við veikindi mánuðum saman. Óbeð- in kom hún daglega til mín og hjálpaði með börnin.

Heddí var mér sem önnur móðir en mikill samgangur var milli þeirra systra Heddíar og Rönnu þegar barnahópurinn var ungur. Ég dvaldi talsvert hjá henni á æskuárum og á góðar minningar frá Grænásnum og Garðaflötinni.

Umhyggja hennar var mikil og sem dæmi um það var okkur Siggu dóttur hennar ekki hleypt út í sundbol á góðviðrisdögum nema vera í lopaundirfötum. Það mátti ekki slá að okkur.

Hún mátti ekkert aumt sjá og dýr áttu sér ávallt griðastað hjá henni líkt og villikisurnar sem fengu skjól og mat undir úti- tröppunum. Hún var svo mikill dýravinur að hún lét ekki kjöt inn fyrir varir sínar frá því hún var ung.

Þegar ég kveð elsku frænku mína ætla ég að gera orðin sem hún lét falla við dánarbeð kærrar systur sinnar að mínum: „Ég samgleðst elsku Rönnu minni því ég er svo þakklát fyrir að hún fékk loksins að kveðja.“ Nú eru þær systur sameinaðar að nýju á góðum stað.

Rannveig Hallvarðsdóttir.

 

Orð virðast fátækleg þegar ég reyni að skrifa örfáar línur til að lýsa uppáhaldsfrænku minni henni Heddý, konu sem var hold- gervingur þess að lifa guðlegu lífi; lífi samkenndar, skilnings, kærleika og ómælds hláturs. Þar sem ég ólst upp í Bandaríkjunum þá voru heimsóknir mínar fátíð- ari en ella en þær höfðu engu minni áhrif en hefði ég búið á Ís- landi. Það skipti engu máli hversu oft ég bað hana að elda handa mér fiskibollur, uppá- haldsrétt barnæsku minnar, þá brosti hún bara og var óðara rok- in inn í eldhúsið. Gómsætir réttir og dásamlegar kökur voru gerð af sama barmafulla og skilyrðis- lausa kærleika og allt annað sem hún tók sér fyrir hendur. Ég var alltaf full eftirvæntingar þegar ég var á leið í heimsókn til hennar, og ég fór þaðan með þá tilfinn- ingu að vera elskuð, lífsglöð og með bros á vör. Og við Heddý vil ég segja þetta: Ég get ekki þakk- að þér nógsamlega fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, en mest þakka ég þér fyrir það sem þú hafðir ekki hugmynd um að hafa gert. Endalausar sögur af föður mínum sem lést árið 1983 hafa hjálpað mér að að halda minningu hans lifandi, bæði í hug og hjarta. Þú varst fyrirmynd í samkennd, gjafmildi og mikilvægi hláturmildi sem hefur ævinlega hjálpað mér að minna sjálfa mig á hvað raunverulega skiptir máli í lífinu. Sterk trú þín hefur verið mér innblástur og öllum í kringum þig til eftirbreytni, og ég finn til friðar í hjartanu vitandi að þú ert í örmum Guðs núna, í eilífri sælu og hlæjandi á himni.

Mér hefur lærst að fólk mun gleyma því sem þú sagðir, fólk mun gleyma því sem þú gerðir, en fólk mun aldrei gleyma hvernig þú lést því líða.

(Maya Angelou)

Mary Beth Loftus.

 

Ég minnist vinkonu minnar Herdísar Tryggvadóttur sem ég hef þekkt frá barnæsku úr Kópavoginum.

Þegar við vorum litlar stelpur lékum við okkur við Kópavogs- lækinn ásamt Rannveigu systur Herdísar sem var vinkona mín alla tíð. Þar busluðum við þrjár saman í læknum sem þá var tær í sveitinni. Á þessum árum var Kópavogurinn alvöru sveit, börn voru gjarnan send í sveit í Kópa- voginn á sumrin. Foreldrar okkar voru þarna með sumarbústaði og áttum við Herdís og Rannveig þarna góðar stundir. Þar voru berjalautirnar upp um alla móa og lækurinn tær. Á sumrin var heyskapur á bæjunum Fífu- hvammi, Digranesi og einnig á bænum Breiðholti sem var aðeins lengra frá okkur.

Þórunn var bóndi á Fífu- hvammi og átti hún þrjá syni og eina dóttur. Einn þeirra, Guð- mundur, var mjög mikið ljúf- menni og var mikill vinur allra barna í dalnum. Hann var ávallt að passa upp á að börnin færu sér ekki að voða í læknum, berjamó eða hvar þau voru niðurkomin í sveitinni. Herdís sagði mér að hjúkrunarfræðingurinn sem bjó um hann eftir andlátið hefði sagt hann hafa verið eins og engill þegar hann lést. Herdís var trúuð kona og trúði þessu en hún hélt mikið upp á þennan mann og tal- aði mikið um hann í seinni tíð.

Herdís var mikil hugsjónakona og vann talsvert að mannúðar- málum. Hún var vel gefin, ein- staklega falleg og var hún kosin fegurðardrottning í Verslunar- skólanum, þar sem hún tók stúd- entspróf.

Leiðir okkur Herdísar lágu aftur saman þegar hún flutti á Dalbrautina. Það gladdi mig að fá Herdísi í húsið, þessa glæsilegu góðu konu sem vildi alltaf láta gott af sér leiða. Herdís var hrók- ur alls fagnaðar alls staðar sem hún kom. Oft hittumst við saman í matsalnum í hádeginu og svo áttum við líka gleðistundir saman með kaffibollann á morgnana.

Herdís mín, ég er þakklát fyrir gleðistundirnar á Dalbrautinni, þær komu sér vel.

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Sendi fjölskyldu Herdísar innilegar samúðarkveðjur.

Hólmfríður Bjarnadóttir.

 

„En hvað þú ert með fallegt nef, Sólveig mín“ heyrðist kallað frá fjarlægari enda borðsins á Grillinu á Sögu. Stórfjölskyldan leit upp frá diskunum og virti kafrjóðan stelpukrakkann fyrir sér. Stelpan fálmaði yfir nefið í vonlausri tilraun til að fela vaxandi bólu og gaut augunum á svipmik- inn ættföðurinn við borðsendann. „Nei, ekki Fjallsættarnefið“, sagði Heddý frænka, „þitt er enn glæsilegra, grískt eins og á Afródítu.“

Hvort unglingsnefið stóð undir þessari stórbrotnu lýsingu skiptir minnstu máli því sagan lýsir föðursystur minni ákaflega vel. Hún kunni að hrósa fólki, löngu áður en slíkt komst í tísku. Heddý frænka var einstaklega jákvæð og gefandi manneskja en jafn- framt hreinskilin og laus við væmni. Eiginleikar sem styrkt- ust með aldrinum. Eins og Páll Ásgeir, bróðir hennar og faðir minn, hafði hún glettnisglampa í augum og létta lund. „Mikið er gott að hlæja með þér,“ sagði hún þegar við höfðum dottið í hressilegt hláturskast þar sem hún lá enn, mörgum vikum eftir fótbrot, föst inni á spítala fyrir nokkrum árum. „Það eru allir svo voðalega alvarlegir hérna.“

Heddý frænku var alltaf kalt og hafði sífelldar áhyggjur af að öðrum væri líka kalt. „Það er örugglega gallað í mér systemið,“ sagði hún við mig og Herdísi systur mína þar sem hún sat kappdúðuð inni á Grund tíu dögum áður en hún kvaddi þennan heim. Svo hló hún og kærri minningu skaut upp í huga mér. Á ættarmóti á Húnavöllum, tuttugu og átta árum fyrr, birtist hún við tjaldið þar sem við fjölskyldan reyndum að sofa. Það var komið fram yfir miðnætti, dæturnar tvær voru loks sofnaðar en það yngsta, ársgamall gutti, hrökk sífellt upp af svefninum og grét sáran. Klædd minkapelsi yfir ullarpeysu og náttkjól og með hlýja húfu á höfði tók hún ekki annað í mál en að ég kæmi með barnið inn á hótelherbergi til hennar. Ég fór inn með drenginn en hann náði ekki að festa þar svefn. Loks brugðum við á það ráð að pakka honum niður í barnavagn og fram undir morgun þessa hlýju sumarnótt gengum við frænkur með lítinn Pál Ásgeir eftir sveitaveg- um Húnavatnssýslu. Þessari samstöðu með ungri móður mun ég aldrei gleyma.

Herdís var, eins og Anna, sem nú er ein eftir af systkinunum fimm, ákaflega trúuð. Trú hennar var lifandi, björt og iðkuð í verki. Þegar á hefur bjátað hjá mér og mínum hefur Heddý beðið fyrir okkur sem aldrei fyrr. Fyrir það þakka ég, efasemdarkonan, og grunar að bænahiti þeirra systra hafi átt sinn þátt í að allt hefur farið á besta veg.

Aldrei heyrði ég Heddý tala illa um nokkurn mann en hún var engu að síður raunsæ og hreinskilin kona. Hún var félagslynd og hélt fjölmennar veislur á meðan hún bjó enn í Laugarásnum því henni var í mun að ættingjar og vinir ættu góðar samverustundir. Börn hennar og barnabörn bera ættmóðurinni fagurt vitni, gott fólk og ættrækið.

Nefið á mér er hvorki glæsilegt né grískt, heldur ósköp venjulegt íslenskt nef sem hefur dugað mér ágætlega en ég verð Heddý frænku ævinlega þakklát fyrir allt hrósið, væntumþykjuna og skemmtilegheitin. Dýrmæt minningin lifir.

Sólveig Pálsdóttir.

 

Hitti Herdísi í síðasta sinn í garðveislu í afmæli Magnúsar tengdasonar hennar í lok júlí. Þetta var fallegur dagur. Hún sat úti og ég spurði hvernig hún hefði það. Og hún svaraði: „Ég heyri fuglasöng og sólin skín.“ Og svo kom stóra brosið.

Það var gæfuspor að kynnast Herdísi Tryggvadóttur. Sigga dóttir hennar og ég erum æsku- vinkonur, kynntumst níu ára í Barnaskóla Garðahrepps og upp frá því var ég heimagangur hjá Herdísi og þangað var gott að koma og vera.

Ég fór í mína fyrstu utanlands- ferð með Herdísi, Siggu og Ófa bróður hennar til Spánar 14 ára. Ég var ekki beint að biðja um fræðslu en þannig var að Herdís sagði mér til á mjög eftirminni- legan hátt og tvinnaði þar saman mörgum helstu mikilmennum og hugsuðum heimsins og aldrei gleymi ég Albert Schweitzer. Herdís kunni að fræða og ala upp á þann hátt sem virkaði. Ekki var

síður eftirminnilegt úr þessari Spánarferð hversu mikla athygli Herdís vakti hvar sem hún fór, svo glæsileg, fögur og brosti mót öllum. Svo bættist dillandi hlát- urinn við. Hún fór ekki framhjá neinum.

Annað gæfuspor í lífi mínu tengist einnig Herdísi en í 75 ára afmæli hennar hitti ég eiginmann minn og má því segja að Herdís hafi þarna, eins og áður, verið ör- lagavaldur í lífi mínu. Þegar ég nefndi þetta við hana fyrir nokkr- um árrum, hló hún ánægð við.

Það sýnir göfuglyndi Herdísar og stórhug að hún gaf hátt í þús- und plöntur til gróðursetningar til minningar um fyrrverandi eig- inmann sinn og barnsföður þó að þau hafi skilið á miðjum aldri. Þannig var Herdís í öllu.

Ég kveð þig, elsku Herdís, með ljóði Þorsteins Erlingssonar, Sólskríkjan:

Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,

sem hljómaði til mín úr dálitlum runni. Hún sat þar um nætur og söng þar á grein

svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni.

Og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein –

ó, ef að þú vissir, hvað mikið hún kunni.

Petrína Sæunn Úlfarsdóttir.

 

Eitt af því sem kemur strax upp í hugann þegar ég minnist Herdísar Tryggvadóttur, fyrr- verandi tengdamóður minnar, er hvellur og smitandi hláturinn. Ég minnist þess líka hvað hún tók mér vel við fyrstu kynni. „Komdu sæll og blessaður, og velkominn,“ sagði hún með bros á vör þar sem ég stóð úti fyrir dyrum á Laug- arásveginum. Þegar inn var kom- ið spurði hún mig spjörunum úr eins og títt er um fólk af hennar kynslóð. Mikið ertu með fallegt hár, sagði hún svo upp úr eins manns hljóði, og hló. Það er eins og ljónsmakki og þín höfuðprýði. Þessu gleymi ég seint.

Herdís Tryggvadóttir fór sínar eigin leiðir og datt ýmislegt skondið og skemmtilegt í hug. Hana hafði til dæmis lengi dreymt um að búa í svissneskum fjallakofa. En Sviss var víðsfjarri. Hún dó samt ekki ráðalaus og innréttaði neðri hæðina hjá sér í fjallakofastíl. Á sama tíma fékk hún þá flugu í höfuðið að það hlyti að vera draumi líkast að sofa í vatnsrúmi. Það varð einnig að veruleika.

Svona var Herdís Tryggvadóttir. Hún lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna.

Herdís var löngu skilin þegar leiðir okkar lágu saman og bjó ein. En hún átti hundinn Pedró, sem henni þótti afar vænt um. Hann var iðulega með í för á tíðum gönguferðum hennar um hverfið. Peddi minn, sagði hún jafnan við hundinn, sem hlýddi engu, og afsakaði hann síðan í bak og fyrir.

Svo fæddist Herdís dóttir mín. Hún kom eins og sólargeisli inn í líf ömmu sinnar. Herdís Tryggvadóttir sá ekki sólina fyrir dótturdóttur sinni og nöfnu. Passaði hana frá fæðingu og var vakin og sofin yfir velferð hennar alla tíð. Dóttir mín ólst upp við mikið ástríki ömmu sinnar og samband þeirra langmæðgna var yndislegt. Herdís Stefánsdóttir fer með ómetanlegt veganesti út í lífið úr ranni ömmu sinnar.

Þótt ég hyrfi úr fjölskyldu Herdísar Tryggvadóttur slitnaði þráðurinn aldrei á milli okkar. Herdís dóttir mín batt okkur saman órjúfanlegum böndum. Lengi framan af bauð hún okkur feðginum reglulega í mat til sín. Undir það síðasta tók ég við kefl- inu og sá um matarboðin. Þetta voru ánægjulegar stundir.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Herdísi Tryggvadóttur. Það stafaði birtu frá henni og ég dáðist að æðru- leysi hennar, jafnaðargeði og glaðlyndi. Hún var með stórt hjarta og kenndi mér dýrmæta lexíu. Kynni okkar gerðu mig að betri manni.

Fjölskyldu hennar votta ég mína dýpstu samúð.

Stefán Erlendsson.

 

Ég myndi heldur vilja vera í Reykjavík núna en skrifa um Herdísi úr fjarlægð. En ég reyni að vera með í anda þegar hún er kvödd.

Herdís siglir nú til síns áfanga- staðar. Hún þarf samt ekki að ferðast langt til síns næsta him- neska íverustaðar – hún var næstum komin þangað í lifanda lífi. Og hún mun ekki villast í víð- áttuauðnum alheimsins vegna þess að hún er vön hæstu hæðum í bænum og hugleiðslu. Hún er heldur ekki ókunnug þeim sem búa og byggja himnana. Þeir þekkja hana – hún varð ein af þeim með því að gera jarðneska hluti sem má segja vera him- neska – kraftaverk – með því að hugsa um aðra í vanda, þá sem voru niðurbrotnir, týndir, hrakt- ir, kúgaðir eða auðmýktir.

Læknar geta læknað fólk með því að meðhöndla markvisst veik- indi og sjúkdóma. Heilarar horfa heildrænt á manneskjuna og örva viðnámskraftana. Hæfnin til þess að heila og veita hjálpræði er ekki eins og verkfæri á skurðstofu- bakka sem er beitt vélrænt eftir þörfum. Þessi hæfni er einungis á færi staðfastrar persónu sem ein- setur sér að bjarga lífi og neitar að gefast upp þrátt fyrir mikið andstreymi – með því að biðja af einurð og þrákelkni og stefna að markinu á persónulegan hátt þótt allt standi og mæli gegn því. Svona eins og Benedikt í Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, uppá- haldsbók Herdísar. Hann gerði kraftaverk þegar hann fann kind- urnar sem voru týndar í snjóbyl og kom þeim í skjól. Herdís gerði kraftaverk með því að neita því að láta líf mitt verða banvænum sjúkdómi að bráð. Óbifanlegur styrkur bæna hennar, staða hennar með mér í hjarta sínu, og með því að næra sál mína með himneskum „afurðum“ – náð, kærleika, fyrirgefningu og skiln- ingi – gerði mér kleift að lifa af. Þannig var máttur vonar hennar og trúar og ég er lifandi vitnis- burður um takmarkalausa mögu- leika þeirra.

Herdís breytti mér einhvern veginn og mitt nýja sjálf fékk ekki einungis aukahæfni til þess að lifa, heldur einnig til að sjá eðli hlutanna, að umgangast sérhvert líf af meiri nærgætni, líkt og það væri í hættu, og að koma auga á sjónarhorn sjálfuppljómunar í fólki. Í raun var þetta hagnýt lexía í kristilegri kenningu um ummyndunina. Munið þið þegar Kristur birti sitt sanna guðlega eðli frammi fyrir postulunum og lærisveinunum að þá varð hann að geislandi ljósi sem lýsti að ofan í allar áttir? Þetta var ekki bara venjulegt ljós sem með því að lýsa upp eina hlið hlutar skyggir hina. Þetta var hið guðlega ljós frá Ta- bor-fjalli sem lýsir upp eðli hlut- anna svo þeir verði frumglæði ljóss. Með öðrum orðum, ef mað- ur fær það verkefni að leiða sann- leika hlutanna í ljós getur maður séð að það er ljós í öllum mönn- um, dýrum og öðru í náttúrunni, þ.e. öll náttúruleg fyrirbæri eru í grundvallaratriðum samsett úr orku. Það gefur til kynna djúp- stæða einingu allra náttúrulegra fyrirbæra og tengir kristilega vit- und og umhverfisvitund í huga Herdísar. Sem er enn eitt undra- vert einkenni hennar. En það er fyrir kynslóðir framtíðar að íhuga.

Með djúpri virðingu og þakklæti mun ég varðveita minningu Herdísar svo lengi sem ég lifi.

Lydia Voronina.

Fleiri minningargreinar um Herdísi Tryggvadóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

✝ Herdís Tryggvadóttir

fæddist 29. janúar 1928. Hún lést 15. ágúst 2019. Útför hennar fór fram 23. ágúst 2019.

 

Herdís Tryggvadóttir var gæðakona, í sjón og reynd. Hennar er nú minnst með hlýju og virðingu en umfram allt gleði. Við fyrstu kynni afvopnaði hún okkur, menntaskólavini barna hennar, á sinn fallega og einlæga hátt. Þess vegna þótti okkur öllum vænt um hana. Hún var öðruvísi jarðtengd en hinar mömmurnar; kannski var hún af annarri jörð?

Við vissum að hún hafði verið alin upp við góð efni en þegar við tókum að knýja hjá henni dyra var hún fyrir löngu búin að konvertera úr verðgildum yfir í manngildi – og átti digra sjóði í þeim gjaldmiðli. Umburðarlyndi hennar gagnvart sperriþörf okkar var án fyrirvara og móttökurnar ávallt eins og höfðingja bæri að garði, þó ekki væri fylgt ströngum etikettum um heimsóknartíma. Og kraftaverk mátti það heita að varðhundurinn Pedró skyldi ekki hafa sent okkur nema einu sinni upp á slysavarðstofu í stífkrampasprautu.

Þegar tíminn var kominn á stjórnlaust flug og árin þotin út í buskann – þá náði maður alltaf andanum þegar fundum bar saman á förnum vegi. Þá var hún alveg til í að leyfa manni að þykjast svolítið ennþá – en átti nú oftast sjálf pönslínuna sem gerði þessa stuttu samfundi svo skemmtilega. Og maður skynjaði ávallt hversu stolt hún var – réttilega – af öllu sínu fólki og þakklát fyrir það sem henni var trúað fyrir.

 

Ögmundur Skarphéðinsson.

Herdís Tryggvadóttir var trúkona um leið og hún var baráttukona. Hún er ekki ein um það. Ef hún sá einhvers staðar óréttlæti vildi hún beita sér fyr ir breytingum. Eitt þeirra mála sem hún vann að var bann við limlestingum á kynfærum kvenna sem milljónir kvenna víða um heim hafa mátt þola og þola enn. Sameinuðu þjóðirnar og ýmis alþjóðleg kvennasam- tök höfðu um árabil vakið at- hygli á þessari hryllilegu ómenningu en hér á landi var skilningur lítill framan af. Menn sögðu: þetta kemur okk- ur ekkert við. Það var nú öðru nær. Herdís hóaði saman kon- um úr kvennabaráttunni, kon- um sem höfðu unnið í Afríku og öðrum áhugasömum. Við hófum störf, skrifuðum greinar, héld- um fundi, sýndum heimilda- myndir og herjuðum á þing- menn. Það var Kolbrún Halldórsdóttir sem tók upp málið á þingi en það tók nokkur ár að koma því í gegn. Loks var samþykkt breyting á hegning- arlögum vorið 2005 við mikinn fögnuð okkar sem höfðum þrýst á málið. Ekki veit ég hvort reynt hefur á lögin en það væri fróðlegt að vita. Það sem skipti miklu máli var að fyrirbyggja og að senda skilaboð út í heim- inn.

Á Íslandi eru limlestingar á kynfærum kvenna bannaðar. Herdís átti stóran hlut að máli og ber að þakka henni fyrir það. Blessuð sé minning Herdísar.

Kristín Ástgeirsdóttir.

 

Látin er kær vinkona mín, Herdís Tryggvadóttir. Vinátta okkar hófst fyrir rúmlega 80 ár- um og hefur enzt fram á þenn- an dag. Mér er minnisstætt þegar við Margrét Thors sáum þessar fallegu stelpur, Heddý og Rönnu, að leik á Landakots- túninu, svo fínar og fallegar. Við eignuðumst þarna vinkonur, og sú vinátta hefur staðið með- an þær lifðu, en ég er ein eftir og syrgi þær allar. Heddý var bæði falleg, glaðlynd og einlæg- ur vinur, sem aldrei brást. Hún valdist alls staðar til forystu þar sem hún kom. Ég minnist fjölskyldunnar á Hávallagötu 9 með því góða fólki sem þar bjó. Frú Herdís, móðir Heddýjar, var yndisleg kona. Hún kom oft inn til okkar stelpnanna til að spjalla við okkur og gefa okkur góð ráð. Mér þótti líka vænt um Tryggva föður hennar sem var mér afar góður alla tíð.

Fyrir vináttuna við Heddý og hennar góðu fjölskyldu verð ég ævinlega þakklát. Guð blessi hana Heddý mína og þakkir fyrir að hafa átt hana fyrir vin- konu. Fjölskyldu hennar sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Þorbjörg Pétursdóttir.

 

Mér finnst ég mjög gæfusöm að hafa fengið tækifæri til að kynnast Herdísi Tryggvadóttur. Það gerði ég í gegnum ömmubarn hennar, Maríu Elísabetu. Mig langar til að skrifa nokkur orð um hana sem þakklætisvott fyrir allar fallegu stundirnar sem ég átti með henni og Maríu.

Þegar ég var 10 ára heyrði ég hana segja: „Hver er munurinn á því að deyða manneskju og að láta hana deyja?“ Þessi setning hafði djúpstæð áhrif á mig og ég flýtti mér að skrifa hana í dagbók til að gleyma henni aldrei. Mér fannst Herdís alla tíð og allt til enda óendanlega vitur. Það var alltaf eins og hún vissi aðeins meira um lífsins ráðgátur en annað fólk.

Ég held að hún hafi viljað að við María skildum að það væri ekkert vit í því að taka lífið of alvarlega. Um leið vildi hún að við bærum virðingu fyrir lífinu og fyrir náttúrunni allri, allt frá hinu smæsta til hins stærsta.

Elsku amma Herdís, alltaf uppfull af húmor og hlýju. Ég gleymi aldrei hnausþykku súkkulaðikökunni, hattasafninu og göngutúrum í Laugardalnum. Allt þetta geymi ég í minni mínu eins og fjársjóð. Ég veit að núna er hún komin á stað sem hún hefur aldrei nokkru sinni óttast. Allir sem kynntust henni eru ríkari fyrir vikið og í sannleika sagt get ég ekki hugsað mér fallegri ævi en hennar.

Kristín Halla.

 

Nú hefur elsku Herdís kvatt. Þessi hlýja og hugrakka manneskja sem gaf svo mikið.

Sem lítil stelpa var ég tíður gestur á heimili hennar á Laugarásveginum. Þessar heimsóknir voru alltaf tilhlökkunarefni enda var ekki hægt að hugsa sér meira dekur, fyrir utan hvað Herdís var kát og skemmtileg. Svo mikill húmoristi.

Ég sé hana fyrir mér á dyrapallinum, skælbrosandi með útbreiddan faðminn.

Maður var svo innilega velkominn. Svo var undantekningarlaust rölt niður í búð og keypt eitthvert góðgæti. Heimilishundurinn Pedró fylgdi með, ekkert sérlega spenntur fyrir gestinum, enda vanur óskertri athygli Herdísar. Í göngutúrunum rákumst við á hina og þessa úr hverfinu. Alltaf gaf Herdís sér tíma til að spjalla. Svo einlæg og áhugasöm að ekki var annað hægt en stökkva um borð.

Mér fannst þetta stundum dálítið mikið spjall en seinna áttaði ég mig á gjöfunum. Herdís gladdi fólk. Nærði það með hlýju sinni.

Þær voru margar gönguferðirnar með Pedró. Oft var ullarfatnaður dreginn fram. Manni mátti ekki verða kalt. Á kvöldin beið manns uppábúið bambus- rúm, hlaðið dúnsængum og gjarnan þykkt rúmteppi yfir. Kvöldstundirnar voru notaleg- ar. Þá spjölluðum við um alla heima og geima. Malt og suðu- súkkulaði á náttborðinu. Svo voru lesin ævintýri eða dæmi- sögur þar til svefninn sigraði. Um morguninn var ennþá malt og súkkulaði á náttborðinu og það mátti fá sér að vild, að ógleymdu heita kakóinu. Þetta kunni undirrituð að meta.

Stundum kíktum við í bæinn. Þá var rölt milli búða og sest inn á kaffihús. Herdís brosmild, að sjálfsögðu og heilsaði fólki. Breytti engu hvort hún þekkti til eða ekki. Alltaf svo gaman í bæjarferðunum. Hlý höndin sem leiddi. Handtakið öruggt. Fullur poki af nammi og dóti þegar heim var snúið.

Nú þegar hún er farin verða minningarnar svo dýrmætar. Gæska hennar og tryggð gleymist aldrei. Hvernig hún hlustaði og hjálpaði. Djúpvitur.

Verð henni þakklát alla tíð.

Elsku Herdís, Steini, Ásta, Sigga, Magnús, Ófi, María og börn. Missirinn er mikill. Megi allt sem Herdís gaf lifa áfram í hjarta okkar.

Katla Margrét

 

 

Eitt réttarkerfi fyrir hvítflibba og annað fyrir fátæka

Eitt réttarkerfi fyrir hvítflibba og annað fyrir fátæka

Robert Morgenthau  ríkislögmaður/saksóknari New York ríkis lét af starfi sínu þegar hann var að verða níræður. Hann er nú látinn, 99 ára að aldri. Morgentahu gegndi starfi sínu í baráttunni við glæpi í meira en fjóra áratugi sem saksóknari í New York og ríkislögmaður á því sem svæði sem telst til Manhattan. Hann barðist gegn hvítflibba glæpamönnum á Wall Street og glæpagengjum á götum borgarinnar; spilltum stjórnmálamönnum og óbeislaðri græðgi í viðskiptalífi sem var komin út yfir lögleg mörk. Morgenthau hikaði ekki við að fara út fyrir lögsögu embættis síns þegar hann var að elta hvítflibba glæpamenn og peninga þeirra. Hann ákærði einnig Clark Clifford, lögfræðilegan ráðgjafa fjögurra forseta Bandaríkjanna (Trumans, Kennedys, Johnsons og Carters) og samverkamann hans, Robert Altman, fyrir að hafa þegið 40 milljónir dollara í mútur við að aðstoða banka að ná yfirráðum á fjármálasamsteypu.

Hér er áhugaverð grein í New York Times í morgun um líf og störf þessa manns, sem er fæddur inn í elítu bandarísks samfélags. Hann var í sjóhernum í seinni heimsstyrjöldinni þegar skip hans var skotið niður af þýskum sprengjuvélum. Svamlandi um í sjónum án björgunarvestis segist hann hafa ákallað guð almáttugan og lofað öllu fögru, þ.á m. að koma einhverju góðu til leiðar fengi hann að lifa.

Það var embætti hans sem sakfelldi fimm unga menn úr fátækrahverfi í Harlem (fjóra blökkumenn og einn frá Suður-Ameríku) sem áttu það sammerkt að tilheyra “hinu” réttarríkinu í Bandaríkjunum. Lögmál réttarríkisins voru brotin þvers og kruss á þessum fátæku unglingum sem sakfelldir voru fyrir morð á ungri konu sem var að hlaupa í Central Park seint um kvöld á níunda áratugnum. Þeir fengu harðan refsidóm og sátu inni árum saman. Einn hinna ungu manna, sem hafði náð 16 ára aldri, var settur í fullorðins fangelsi þar sem hann sætti hroðalegri meðferð og kaus fremur vist í einangrun en að þola hitt harðræðið (“When They See Us” þáttaröð á Netflix fjallar um þetta mál). Mörgum árum síðar kom hinn raunverulegi morðingi fram og sagði þá Morgenthau: “Bara að við hefðum haft DNA á þessum tíma”.

Nýleg frétt af handtöku þekkts auðkýfings og kynferðisglæpamanns sem m.a. á heimili á Manhattan sýnir svo ekki verður um villst að tvö réttarkerfi eru í gangi í Bandaríkjunum. Jeffrey Epstein fékk allt aðra meðferð í kerfinu en aðrir barnaníðingar og glæpamenn þegar hann slapp fyrir horn fyrir rúmum áratug með því að gerður var sérstakur samningur við hann. Hann fékk lúxus meðferð – þar sem hann gat verið utan fangelsis 12 stundir á dag sex daga vikunnar eftir að hafa játað á sig kynferðisglæpi. Fórnarlömb hans vissu ekkert um málið þegar það var tekið fyrir 2008. Epstein leiddi barnungar stúlkur undir aðra ríka og valdamikla karla í villum sem hann átti hér og þar og var flogið þangað á einkavél hans sem gekk undir nafninu Lolita Express. Epstein þessi hefur nýlega verið handtekinn aftur eftir að nokkur fórnarlömb hafa stigið fram og nú kannast hvorki Bill Clinton, sem flaug 26 sinnum í vélinni hans, né Donald Trump eða fleiri að hafa (lengur) náin kynni af honum eða barnungum stúlkum á hans vegum.

 

Hvað gerir Trump? Var honum alvara með að þurrka upp spillingarfenið?

Hvað gerir Trump? Var honum alvara með að þurrka upp spillingarfenið?

Óðinn Jónsson bauð mér á morgunvaktina til að ræða Hæstarétt Bandaríkjanna nú þegar Anthony Kennedy dómari við réttinn hefur ákveðið að láta af störfum.

Trump freistar þess að skipa nýjan dómara á kosningaári. Það er engin nýlunda að slíkt sér gert en áhugavert að fylgjast með því hvort Trump verður samkvæmur sjálfum sér þegar hann velur dómaraefnið. Í kosningabaráttunni 2015 hafði hann hátt um þá spillingu sem fylgdi óheftum fjárframlögum til kosningabaráttu.

Anthony Kennedy sem nú lætur af störfum skrifaði rökstuðninginn fyrir niðurstöðu í einum umdeildasta dómi síðari tíma í máli Citizens United v. Federal Election Commission 2010 – þar sem Hæstiréttur tryggði fyrirtækjum og fjármálaöflum tjáningarfrelsi með ófyrirséðum afleiðingum fyrir lýðræðið. Obama kvaðst þá myndu í samstarfi við þingið bregðast við en gerði það ekki! Það liðu sex ár og þá sté Trump fram á sjónarsviðið og kvaðst myndu sporna gegn þeirri þróunn sem fyrrgreindur dómur staðfesti. Nú er að sjá hvort hann skipar framsýnan hugsjónamann eins og Louis Brandeis sem sat í réttinum frá 1916-1932 og beitti sér gegn yfirgangi stórfyrirækja – kannski einn merkasti dómari í sögu Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Hlusta hér.

 

Hefur Guð áhuga á steinrunnu kerfi? (inngangur í leikskrá: Guð blessi Ísland)

Hefur Guð áhuga á steinrunnu kerfi? (inngangur í leikskrá: Guð blessi Ísland)

 

 

 

 

Frá því ræðu forsætisráðherra í sjónvarpi mánudaginn 6. október 2008 lauk með orðunum Guð blessi Ísland og þar til mótmæli á Austurvelli náðu hámarki með bálköstum, bareflum og táragasi hinn 21. janúar 2009 var hið eiginlega hrun innsiglað. Fjármálakerfið var fallið, ríkisstjórninni ekki lengur sætt og tiltrú almennings á stofnunum samfélagsins yrði aldrei söm. Með hverjum nýjum degi höfðu komið fram upplýsingar um það hvernig kaupin gengu fyrir sig bak við tjöldin áður en bankarnir hrundu. Rannsóknarskýrsla Alþingis leiddi síðan í ljós að hér hafði viðgengist mikil spilling þar sem sterkir fjárhagslegir hagsmunir voru samtvinnaðir hinu pólitíska valdi. Orð ritstjóra Morgunblaðsins sem hafði verið í miðju íslensks valdakerfis í hálfa öld áttu eftir að brenna sig inn í þjóðarsálina. Hann lýsti íslensku þjóðfélagi undangenginna áratuga sem ógeðslegu; þar hefðu hvorki ríkt hugsjónir né prinsipp, aðeins tækifærismennska og valdabarátta.

Einkavæðing banka og fleiri ríkisfyrirtækja fyrir og eftir síðustu aldamót skóp sterka auðmenn sem höfðu tögl og hagldir í samfélaginu. Þeir fengu ríkiseignir á silfurfati sem þeir áttu ekki skilið fremur en þjóðin að sitja uppi með afleiðingarnar af slíkri samþjöppun valds og eigna á fárra hendur. Þeir efnuðust  vegna óeðlilega greiðs aðgangs að lánsfé bankanna í krafti eignarhalds eða náinna tengsla en ekki vegna ómældrar eljusemi og dugnaðar. Hugtakið yfir einkavæðingu af þessu tagi er “kleptocracy” eða þjófræði. Peningamennirnir áttu fjölmiðla og þar með máttugasta vopnið til að móta almenningsálitið. Með fjárframlögum sínum gátu þeir haft úrslitaáhrif hverjir voru kjörnir til áhrifa. Pólitískir flokkar kepptu um fjárhagslegan stuðning viðskiptablokka. Menn gengu í stjórnmálaflokka, ekki af hugsjón heldur til að eignast bakland. Kerfi frændhygli var fast í sessi eins og hugtökin “innmúraðir” og “innvígðir” eru til vitnis um. Í þessu klíkusamfélagi var mönnum umbunað með stöðuveitingum; í stjórnsýslu, fjármála- og eftirlitsstofnum, dómstólum, menntastofnunum, ríkisfjölmiðlinum og víðar. Hinum gagnrýnu var ýtt út á jaðarinn. Þannig varð spillingin sjálfbær. Ekkert svigrúm var fyrir rannsóknarblaðamennsku til að fletta ofan af því sem var að eiga sér stað. Auglýsendur studdu fjölmiðla sem studdu kerfið. Langvarandi sjálfs-ritskoðun var innan fjölmiðla, í akademíu og þeim stofnunum sem hefðu átt að veita viðnám.

Samfélagið sem hrundi var sýkt af spillingu og stofnanir þess eins og strá í vindi í hinni alþjóðlegu kreppu, sem geisaði á fjármálamörkuðum árið 2008. Hróp búsáhaldabyltingarinnar á vanhæfa ríkisstjórn endurspegluðu þá tálsýn að ný ríkisstjórn myndi færa kjósendum nýja tíma og nýja siði. Gerð var tilraun til að forma nýjan samfélagssáttmála. Á sama tíma tók vinstri stjórnin allt öðru vísi á skuldum hinna auðugu en hinna efnaminni; og ætlaði þjóðinni að taka á sig icesave-skuldbindingar einkabanka. Stjórn sem á eftir kom var síðan hrakin frá völdum vegna uppljóstrana í Panamaskjölum um að ráðherrar ættu fé í skattaskjólum. Hruns-martröðin hélt áfram og enn ríkir upplausn í þjóðfélaginu sem sér ekki fyrir endann á. Þingkosningar á eins árs fresti eru til vitnis um að ekkert pólitískt afl hefur skýrt umboð frá kjósendum.

Fulltrúalýðræðið á víða um heim undir högg að sækja og almennt vantraust á stofnunum samfélagsins helst í hendur við vitneskju almennings um spillingu og getuleysi stjórnvalda til að snúa við þróuninni í átt frá aukinni misskiptingu auðs. Kjósendum finnst þeir ekki lengur hafa úrslitaáhrif því það skipti litlu máli hver taki við stjórnartaumunum eftir kosningar.

Ríki heims standa frammi fyrir stórfenglegum vandamálum; umhverfisvá, hryðjuverkum, flóttamannastraumi, vélmennum sem munu taka yfir störf fólks á vinnumarkaði og þeirri staðreynd að fjármálaglæpir eru tíðir, peningaþvætti og mun meira fé geymt í skattaskjólum en áður var talið (jafngildi um 15% af vergri landsframleiðslu í Evrópu). Rússnesku olíugarkarnir eru taldir geyma megnið af auði sínum í skattaskjólum. Þeir auðguðust í spilltu einkavæðingarferli eftir hrun kommúnismans og eru síðan grundvöllur nýrrar pólitískrar yfirstéttar. Þríeyki Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur undanfarin ár þrýst á einkavæðingu ríkiseigna í stórskuldugum ríkjum álfunnar, Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Portúgal með þátttöku stórfyrirtækja, tilheyrandi spillingu og klíkuskap. Það er ógn við lýðræðið þegar fjársterkir aðilar notfæra sér tímabundna erfiðleika í samfélögum til að komast yfir ríkiseignir en þannig eru olígarkar að verða ráðandi stétt í stjórnkerfum víða um lönd. Hagfræðingurinn Thomas Picketty benti á það í tímamótaverki 2014 að efnalegur ójöfnuður í Bandaríkjunum er meiri en í nokkru öðru samfélagi, nokkru sinni og nokkurs staðar. Önnur ríki fylgja í kjölfarið. Því má ekki gleyma að stjórnskipun Bandaríkjanna varð til sem andsvar við fámennisstjórn. Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taldi mikilvægt að brýna fyrir auðkýfingum á árlegum fundi í Davos í janúar 2017 að tími væri kominn til að skipta upp eignum og auði, sem hefði færst á alltof fáar hendur. Á sama tíma kom ný skýrsla frá Oxfam sem sýndi að átta menn eiga jafnmikinn auð og helmingur mannkyns. Á Íslandi er ójöfnuður einnig  að aukast á nýjan leik eftir hrun en efnamestu 10 prósentin eiga um tvo þriðju af öllum eignum landsins.

Það er sama hvaða hugtak er notað yfir fámennisstjórnir því  eðli máls samkvæmt byggir tilvist þeirra á því að kæfa niður andóf. Á undanförnum árum höfum við færst nær hinni orwellsku dystópíu þar sem félags- og tæknilegar framfarir þrengja æ meir að frelsi einstaklingsins. Stórfyrirtæki á alþjóðavísu og öfl þeim tengd fylgjast grannt með andófi á netinu og reyna að koma í veg fyrir uppljóstranir. ,,Hugsanalögreglan” kortleggur umferð almennings í netheimum og við berumst hraðar með straumnum þangað sem við ætluðum alls ekki að fara  – í áttina frá friðhelgi einkalífs, réttinum til upplýsingar, tjáningar- og skoðanafrelsis, burt frá þeim pólitísku og borgaralegu réttindum sem alþjóðlegir samningar eftirstríðsáranna áttu að tryggja. Dómstóll Evrópusambandsins hefur m.a s. nýlega staðfest að til sé ,,réttur til að gleyma” og veitt stórfyrirtæki á borð við Google sjálfdæmi í að ákveða hvaða upplýsingar á netinu megi fjarlægja. Þannig er unnt að afmá umfjöllun og staðreyndir, sem ella myndu skerpa sýn fólks á samtímann og söguna.

Fámennsistjórn olígarka, alþjóðlegra stórfyrirtækja og vogunarsjóða á ekkert skylt við þær grunnhugmyndir sem vestræn stjórnskipun frá 18. öld byggir á. Kerfi olígarka með auði þeirra og áhrifum kemur til með erfast. Kerfi sem þolir hvorki stöðuga endurskoðun og gagnrýni, né veitir svigrúm fyrir heilbrigt einkaframtak, félagslegt réttlæti, skoðanafrelsi og friðhelgi einkalífs, á meira skylt við kerfi lénsherra, konunga og keisara fyrri alda en draumsýnina um lýðræði með pólitískum og borgaralegum réttindum.

Í þeirri stöðu sem orðin er í heiminum í dag er ljóst að stjórnkerfi eru flest steinrunnin og hugmyndafræðilega ráðþrota gagnvart aðsteðjandi vandamálum sem varða allt mannkyn. Það hefur gerst áður í sögunni og endað með hruni, í Róm til forna og æ síðan þar sem andlýðræðisleg stjórnvöld hafa sprottið úr spilltum jarðvegi. Baráttan fyrir réttlátu samfélagi er hins vegar á ábyrgð okkar allra og þar megum við aldrei gefast upp því þá er forsendan fyrir tilvist okkar eiginlega brostin.

 

 

Reykjavík, 15. október 2017

Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir