by Herdís Þorgeirsdóttir | 30.10.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Mannréttindadómstóll Evrópu komst í dag að þeirri niðurstöðu að pólsk yfirvöld hefðu brotið á rétti unglingsstúlku. Hún hefði sætt ómannlegri og vanvirðandi meðferð þegar hún reyndi að fara í fóstureyðingu en hún varð þunguð eftir nauðgun. Hún var 14 ára þegar henni var nauðgað.
Dómur þessi var kveðinn upp í deild og er því ekki endanlegur. Taldi dómstóllinn að brotið hefði verið á rétti stúlkunnar til friðhelgi einkalífs síns og fjölskyldu þar sem hún hefði sætt þrýstingi og ofsóknum þegar hún reyndi að fara í fóstureyðingu og í annan stað vegna þess að gerðar hefðu verið opinberar persónulegar upplýsingar um hana. Enn fremur taldi dómstóllinn að brotið hefði verið á rétti hennar til frelsis og mannhelgi og hún hefði sætt ómannlegri og vanvirðandi meðferð.
Málavextir eru þeir að stúlkan (f. 1993) hafði orðið ófrísk í kjölfar nauðgunar og lenti í erfiðleikum þegar hún reyndi að komast í fóstureyðingu; ekki síst vegna óskýrs lagaramma og þess að læknar og hjúkrunarfólk frestuðu ákvörðun og hún varð fyrir ofsóknum. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að stúlkunni hefðu verið gefnar misvísandi og villandi upplýsingar. Hún hefði ekki fengið hlutlæga, læknisfræðilega ráðgjöf. Sagði dómstóllinn að sú staðreynd að fóstureyðingar væru afar umdeildar í Póllandi leysti ekki starfsfólk sjúkrahúsa undan trúnaðarskyldu við þá sem leituðu til þeirra.
Stúlkan þurfti vottorð frá saksóknara um að henni hafi verið nauðgað til þess að hún ætti rétt á því að fá fóstrinu eytt. Í kjölfarið mætti hún margvíslegum hindrunum frá tveimur spítölum, sem hún leitaði til. Yfirlæknir annars spítalans sem er í Lúblin fór með stúlkuna til kaþólsks prests án þess að spyrja hana sjálfa hvort hún vildi hitta prestinn. Í ljós kom að presturinn hafði þegar fengið upplýsingar um ástand hennar og reyndi að fá hana ofan af því að fara í fóstureyðingu. Hann bað hana um farsímanúmerið hennar. Móðir hennar var síðan látin undirrita skjal þess efnis að hún væri þess meðvituð að aðgerðin gæti dregið dóttur hennar til dauða. Að endingu þvertók yfirlæknirinn fyrir að fóstureyðing yrði framkvæmd „á hans deild“ þar sem aðgerðin gengi gegn trúarsannfæringu hans. Gaf spítalinn í kjölfarið út fréttatilkynningu að um að unga stúlkan fengi ekki fóstureyðingu þar. Blaðamönnum sem höfðu samband við spítalann voru gefnar upp persónulegar upplýsingar um stúlkuna. Fjöldi frétta og greina um mál hennar birtust í fjölmiðlum og mál hennar varð tilefni mikilla umræðna á netinu. Í kjölfarið fór stúlkan með móður sinni til Varsjár þar sem hún komst inn á spítala 3. júní 2008. Var henni tjáð þar að hún fengi fóstureyðingu á grundvelli vottorðs saksóknara um að þungunin væri tilkomin vegna nauðgunar og á grundvelli læknisvottorðs en að hún þyrfti að bíða í nokkra daga.
Á meðan fjórtán ára stúlkan beið eftir aðgerðinni tjáði læknir henni að spítalinn sætti miklum utanaðkomandi þrýstingi, fjölda tölvupósta hefði borist þar sem fyrirhuguð fóstureyðing væri fordæmd. Stúlkan fékk einnig sms skeyti frá kaþólska prestinum sem hún hafði hitt í Lúblín og frá ókunnugu fólk sem reyndi að sannfæra hana um að láta ekki framkvæma fóstureyðingu.
Vegna þrýstings á spítalanum og vanmáttar yfirgaf unga stúlkan spítalann 5. júní 2008 í fylgd móður sinnar. Mættu þær þá ofsóknum af hálfu andstæðinga fóstureyðinga og var í kjölfarið fylgt á lögreglustöð þar sem þær sættu yfirheyrslum í margar klukkustundir. Þann sama dag var lögreglunni tilkynnt um ákvörðun fjölskyldudómstóls í Lúblin um að stúlkunni yrði komið fyrir á unglingaheimili sem væri tímabundið úrræði á meðan málaferli stæðu yfir þar sem svipta ætti móður hennar forsjá vegna þess að hún væri að þrýsta á dóttur sína að fara í fóstureyðingu sem hún væri gegn vilja hennar sjálfrar. Lögreglan fór með ungu stúlkuna á unglingaheimili í Lúblin strax eftir yfirheyrslurnar. Daginn eftir var hún flutt á spítala vegna sárra verkja þar sem henni var haldið í viku. Vegna kvörtunar móðurinnar til heilbrigðisráðherra var að endingu heimilað að stúlkan gæti fengið fóstureyðingu í Gdansk sem er í 500 kílómetra fjarlægð frá heimili hennar í Lúblin og var henni komið þangað með leynd. Fóstureyðingin var framkvæmd 17. júní 2008. Réttarhöldum vegna kröfu um að móðirin yrði svipt forsjá var hætt í febrúar 2009 þegar stúlkan hafði borið vitni um að móðir hennar hefði ekki þvingað hana til að fara í fóstureyðinguna. Þá höfðu yfirvöld ákært stúlkuna fyrir samræði við pilt undir lögaldri en sú ákæra dregin til baka nokkrum mánuðum síðar. Saksókn gegn meintum nauðgara var einnig stöðvuð.
Mannréttindadómstóllinn rökstuddi niðurstöðu sína með því að læknisskoðun á stúlkunni, sem var aðeins fjórtán ára, hefði staðfest áverka sem renndu stoðum undir það að hún hefði sýnt líkamlegan mótþróa gegn ofbeldi; hún hefði verið flutt á spítala í viðkvæmu ástandi þar sem hún hefði sætt miklum þrýstingi af hálfu yfirlæknis sem hefði dregið hana á fund prests; bæði hún og móðir hennar hefðu sætt ofsóknum og verið lagðar í einelti; móður hennar hefði verið gert að undirrita samþykki þar sem hún varað var við því að aðgerðin gæti leitt til dauða dótturinnar án þess að nokkur rök væru leidd fyrir þeirri staðhæfingu að fóstureyðing í þessu tilviki væri lífshættuleg. Unga stúlkan hefði verið ofsótt og í stað þess að njóta verndar lögreglu hefði henni verið komið fyrir á unglingaheimili vegna ákvörðunar dómstóls. Þá taldi Mannréttindadómstóllinn það kornið sem fyllti mælinn að unga stúlkan skyldi hafa verið sótt til saka, ákærð um samræði við pilt undir lögaldri á sama tíma og vottorð saksóknara um að þungun hennar stafaði af nauðgun lá fyrir og hún sjálf var fórnarlamb kynferðislegs ofbeldis. Yfirvöld í Póllandi hefðu brugðist og á heildina litið hefði stúlkan sætt ómannlegri og vanvirðandi meðferð.
Mannréttindadómstóllinn taldi það sanngjarnar bætur að pólska ríkið greidd stúlkunni 30 þúsund evrur og móður hennar 15 þúsund evrur í miskabætur og samtals 16 þúsund til beggja vegna málskostnaðar.
©herdis.is
by Herdís Þorgeirsdóttir | 28.10.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Virt grískt tímarit hefur birt lista yfir 2059 bankareikninga í Sviss í eigu viðskiptajöfra og opinberra starfsmanna, þ.á m. forseta þingsins.
Tilgangur birtingarinnar er að sögn tímaritsins að vekja athygli á því hvort innistæðurnar komi fram á skattskýrslum í Grikklandi. Listinn er sagður að upplagi vera sá sami og Christine Lagarde núverandi yfirmaður Alþjóðagjaldeyrisins (þá fjármálaráðherra Frakklands) afhenti gríska fjármálaráðherranum 2010 til að aðstoða grísk stjórnvöld við að koma í veg fyrir gífurleg undanskot frá skatti.
Listanum ku hafa verið lekið til tímaritisins af starfsmanni svissneska bankans. Nokkrum klukkustundum eftir að tímaritið kom út var gefin út ákæra á hendur ritstjóra og útgefanda blaðsins. Hann bendir á að nær væri að ganga að eigendum reikninganna en að gera hann að sökudólgi.
Undanfarið hafa tveir fyrrum fjármálaráðherrar Grikklands komið sér hjá því að svara hver viðbrögð stjórnvalda voru við upprunlega listanum yfir bankareikninga sem Christine Lagarde afhenti þeim.
Ástandið í landinu er eldfimt enda mikill niðurskurður framundan. New York Times birtir umfjöllun um málið og segir að þessi síðasta uppákoma varpi frekari ljósi á tengslin milli kjörinna stjórnvalda og aðila í viðskiptalífi, sem er jarðvegur þeirrar spillingar sem vegur að rótum grísks samfélags. Sýnt þykir að stjórnvöld aðhöfðust ekkert þegar þau fengu listann í hendur.
Tímaritið sem birti listann setti þann fyrirvara með birtingunni að það væri ekki ólöglegt að eiga bankareikninga í Sviss. Listinn væri birtur til að vekja athygli á því hvort innistæðurnar kæmu fram á grískum skattskýrslum. Fljótlega eftir að listinn var birtur var gefinn út ákæra á hendur ritstjóranum fyrir brot á friðhelgi þeirra sem voru á listanum. New York Times segir þeirra að þeirra á meðal sé forseti gríska þingsins sem átt hafi reikning í svissneska bankanum frá 2003 með fyrirtæki í skattaskjóli í Líberiu.
Reuters greinir frá því í dag að birting „Lagarde-listans“ sé olía á eldinn í grísku samfélagi, sem er á barmi gjaldþrots og þar sem stjórnmálamenn eru rúnir trausti; þeir auðugu séu að verða auðugri á sama tíma og hinum verr settu blæði vegna niðurskurðar.
Ritstjórinn er þekktur grískur rannsóknarblaðamaður, Kostas Vaxevanis, og segir hann ákæruna á hendur sér rangláta þar eð spjótin ættu að beinast að þeim sem eru að koma miklulm fjármunum undan skatti og ráðherrunum, sem ekkert aðhöfðust þegar þeir fengu listann í hendur. Það er verið að koma sannleikanum og frjálsri blaðamennsku undir lás og slá, sagði hann í símaviðtali sem hefur farið eins og eldur um sinu um netið.
Sjá umfjöllun Guardian
by Herdís Þorgeirsdóttir | 26.10.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Kínversk stjórnvöld hafa lokað á heimasíðu dagblaðsins New York Times á vefnum eftir að blaðið gerði að umfjöllun auðsöfnun fjölskyldu forsætisráðherra Kína, Wen Jiabo, en samkvæmt fréttinni ráða fjölskyldan og skyldmenni forsætisráðherrans yfir auðæfum að upphæð a.m.k. 2,7 milljörðum bandaríkjadala.
Mörg skyldmenna forsætisráðherrans hafa komist yfir mikil auðæfi eftir að forsætisráðherrans komst til valda, að sögn NYT. Níræð móðir forsætisráðherrans, sem áður var grunnskólakennari, var skráð fyrir fjárfestingu að upphæð 120 milljónir bandaríkjadala fyrir nokkrum árum.
Umfjöllun New York Times hér.
Kortlagning skyldmenna í New York Times.
Sjá frétt Guardian í morgun, 26. október.
Analysis BBC
John Sudworth / BBC News, Shanghai
Often referred to as “Grandpa Wen” by state media, the premier is one of the few senior Chinese politicians with the popular touch, usually the first to appear at the side of victims of earthquakes or other disasters as a kind of consoler-in-chief. But there have long been rumours that his decade in the job has brought more tangible benefits to his immediate family, and now the New York Times has put a figure on it.
The more than $2.7bn in controlled assets reported by the newspaper are held not by the Chinese premier himself, but by his wife, mother, siblings, children, and their in-laws. The figure though may not come as much of a shock to Mr Wen. A WikiLeaks cable dated 2007 quoted a source as saying the premier was “disgusted” by his family’s activities.
But whether he disapproves or not, the investigation shows that much of the wealth has been accumulated in areas of the economy over which he has direct authority. Mr Wen is not the only senior leader over whom that kind of suspicion lingers, but given his position, his public standing and his own championing of the anti-corruption cause, the Times report will be seen by the authorities here as highly sensitive and potentially damaging.
Bloomberg’s website is still being blocked after it published, back in June, a similar expose of the family wealth of the man tipped to be China’s next leader, Xi Jinping. It may be a while before readers in China get to see the New York Times online again.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 24.10.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
24. október 1975 – 24. október 2012
“Ef stúlkum er innprentað að vera öðrum háðar; að hegða sér í samræmi við þær kröfur sem aðrar ófullkomnar mannverur gera til þeirra; og þóknast, með réttu eða röngu, valdinu – hvar endar þetta þá?”
– Mary Wollstonecraft 1759-1797
Að hugsa sjálfstætt og hafa hugrekki til að fylgja sannfæringu sinni er forsenda þess að við getum tryggt jöfn tækifæri.
Sjá grein um Mary Wollstonecraft á Vísindavef Háskóla Íslands.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 22.10.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Er að undirbúa fyrirlestur vegna ráðstefnu í einu af fyrrum Sovétlýðveldunum og því fátækasta af þeim öllum. Samtök kvenlögfræðinga hafa skipulagt ráðstefnuna. Þetta minnsta ríki Mið-Asíu er aðili að öllum helstu alþjóðlegu mannréttindasamningunum; þ. á m. samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Engu að síður benda alþjóðleg mannréttindasamtök (Amnesty International; Human Rights Watch o.fl) á það að mannréttindi eru þarna lítilsvirt; spilling mikil; tjáningarfrelsi fótumtroðið og hátt í helmingur kvenna og stúlkubarna í landinu hefur sætt ofbeldi innan fjölskyldunnar.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 16.10.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Nú hefur Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, stigið fram og segist axla ábyrgð af lélegri öryggisgæslu í sendiráði Bandaríkjanna í Benghazi þar sem sendiherra Bandaríkjanna var myrtur í síðasta mánuði (sjá frétt BBC í morgun). Hún segir að öryggisgæsla sé á hennar ábyrgð ekki Hvíta Hússins og er þetta liður í því að létta ásökunum á hendur Barak Obama en nú standa fyrir dyrum aðrar kappræður hans og hins forsetaframbjóðandans, Mitt Romneys.
Ekkert nýtt að konur axli ábyrgð og alveg ljóst að Hillary Clinton er að styrkja sig mjög í sessi. Ýmsir sjá nú eftir því að hafa ekki veitt henni brautargengi þegar frambjóðandi demókrata til embættis forseta var valinn í aðdraganda forsetakosninganna 2008. Barak Obama hefur valdið vonbrigðum og hinar miklu breytingar, sem hann boðaði þykja ekki vera í sjónmáli.
Ég átti samtal við rússneska kaupsýslumenn sem eru nú búsettir í New York og eru yfir sig hrifnir af Romney – maður sem hefur unnið sig upp og er táknrænn fyrir bandaríska drauminn; segja þeir, þessir menn sem flúðu Sovétríki kommúnismans fyrir rúmum tveimur áratugum. Á sama tíma segja Bandaríkjamenn, sem ég hitti fyrir nokkrum dögum, að ameríski draumurinn sé dauður – forsetakosningarnar nú snúist um tvo kosti, hvorugan ákjósanlegan, enda snúist þetta allt um peninga þegar upp er staðið. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur nýverið úrskurðað að lögaðilar, fyrirtæki, hafi á grundvelli tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar rétt til að ráða úrslitum í kosningum með fjárframlögum sínum; minnir kona á, sem varð á vegi mínum og er ekki spennt fyrir kosningunum. Hún segir Obama sjálfhverfan og þroskaleysi hans komi í ljós þegar hann þarf að tjá sig án „teleprompters“.
Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru grafalvarlegt mál en þær varpa þær einnig ljósi á yfirborðsmennsku stjórnmálanna. Ummæli Rússana um ameríska drauminn segja sína sögu. Þessir menn, sem kannski fæddust á þeim tíma þegar Krúsjeff fór úr öðrum skónum og sló í ræðupúlt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með rússneska babúsku sér við hlið, sem hét Nina – á meðan Bandaríkjamenn horfðu með stjörnur í augum á sinn ameríska draum holdi klæddan í John F. Kennedy og hans glæstu eiginkonu, Jacqueline í Chaneldragt.
Munurinn sem Rússar og Bandaríkjamenn standa frammi fyrir nú er ekki eins sláandi. Vladimir Putin, Mitt Romney og Barak Obama eiga það allir sammerkt að stór og sterk fyrirtæki standa að baki þeim. Ameríski draumurinn er dauður – segja margir Bandaríkjamenn. Draumurinn um hin jöfnu tækfæri er að engu orðinn þegar 1 prósent þjóðarinnar á helming alls auðsins. Hvað eiga þá 2 prósent og hvað er þá eftir handa hinum?
En frambjóðendurnir eru eins og nýstignir út úr vaxmyndasafni Madame Tussaud; spengilegir, með broshrukkur og sumir segja með hæfilegan skammt af hláturgasi áður en þeir ganga inn á vígvöll sjónvarpskappræðna, sem heimsbyggðin fylgist með. Og Nota Bene: Allir karlkyns.
Michelle, elskan, leiðinlegt að geta ekki haldið upp á tuttugu ára brúðkaupsafmælið með þér . . . takk fyrir að vera gift mér . . . lofa þér að halda upp á næsta brúðkaupsafmæli í einrúmi . . . – eitthvað í þessa veru hófst ræða Barak Obama í fyrstu sjónvarpskappræðunum vegna forsetakosninganna. Eins og hundruð milljóna séu þrúguð af áhyggjum yfir því að þau hjón hafi þurft að eyða kvöldinu í sjónvarpssal.
Þessi frambjóðendur hafa ógrynni fjár (talið að kosningarnar í heild kosti um 700 milljarða Bandaríkjadala), þeir hafa ímyndarsmiði á vakt allan sólarhringinn og samt geta þeir/hann ekki gert betur en þetta. Er það af því að teleprompterar hugsa ekki sjálfstætt og af því að ímyndarsmiðir eru jú, bara auglýsingamenn en ekki endilega frumlegir hugsuðir, hvað þá hugsjónamenn?
Þegar grannt er hlustað er minni munur á málflutningi Obama og Romneys en Obama og Hillary Clinton, sem tapaði fyrir honum á sínum tíma. Hillary Clinton talar um peningaöflin. Ég vek athygli á því og bendi kjósendum, hvar sem þeir eru, að hlusta eftir því. Þeir sem ekki minnast á peningaöflin eru á valdi þeirra og það eru ekki þannig frambjóðendur sem koma til með að þjóna lýðræðishugsjóninni um jöfn tækifæri og grundvallarréttindi.
Obama og Romney? Tværi hliðar á sömu mynt?
(Stærstu styrktaraðilarnir í bandarísku forsetakosningunum skv. BBC)