by Herdís Þorgeirsdóttir | 19.03.2022 | ALMANAK
Aðalfundur Feneyjanefndaer Evrópuráðsins sem haldinn var dagana 18. og 19. mars fordæmir innrás Rússa í Úkraínu og harmar mannfall og eyðileggingu af völdum hernaðarofbeldisins.
Á fundinum var kynnt ákvörðun Ráðherranefndar Evrópuráðsins um að Rússneska sambandslýðveldið væri ekki lengur aðili að ráðinu eða frá 16. mars sl. Einnig var kynnt ákvörðun Ráðherranefndarinnar um að meina Hvíta Rússlandi tíma. bundið að taka þátt í aðalfundum Feneyjanefndar. Þá ávarpaði Serhiy Holovaty, fulltrúi í nefndinni af hálfu Úkraíonu fundinn sem hann ekki gat sótt sökum ástandsins.
Á fundi með stjórnlagadómstól Úkraínu í Kieyv í árslok 2019.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 10.12.2021 | ALMANAK
Á desemberfundi Feneyjanefndar Evrópuráðsins (9-11. desember 2021) kynnti Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir, einn höfunda álits um stjórnskipulegar afleiðingar Istanbulssamningsins í Moldóvu. Þetta var svonefnt Amicus Curiae álit sem útleggst sem ráðgjöf veitt dómstól að beiðni hans. Hér var um að ræða beiðni frá forseta Stjórnlagadómstóls Moldóvu um hverjar stjórnskipulegar afleiðingar yrðu af staðfestingu Istanbulsamningsins fyrir Moldóvu en tveir þingmenn í Moldóvu lögðu fram kæru til dómstólsins og drógu í efa að staðfesting sáttmálans stæðist ákvæði stjórnarskrár, ekki síst er varðar rétt foreldra til að hafa áhrif á uppfræðslu barna sinna. Istanbulsamningurinn er samningur Evrópuráðsins frá 2011 um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en 34 af 47 ríkjum Evrópuráðsins hafa staðfest samninginn. Samningurinn hefur mætt vaxandi andstöðu meðal ríkja í mið- og austur-Evrópu sakir víðtækrar skilgreiningar á hugtakinu kyni, sem ekki sé eingöngu líffræðilegt heldur einnig félagsleg hugsmíð.
Samningurinn er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð.
Í mars 2016 náðist fyrsti áfangi í fullgildingu Istanbúlsamningsins hér á landi með gildistöku breytinga á almennum hegningarlögum. Þar eru m.a. var sett í lög ákvæði um heimilisofbeldi, nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir auk breytinga er lúta að lögsögu og fyrningarreglum. Samkvæmt samningnum hafa stjórnvöld einnig skyldur sem kalla á aðgerðir til að fyrirbyggja og veita vernd gegn ofbeldi og hefur síðastliðin ár verið unnið að þeim verkefnum. Skyldur þessar snúa að rekstri kvennaathvarfa, starfrækslu neyðarnúmers, þjónustu við þolendur og meðferðarúrræði fyrir gerendur. Jafnframt hefur þurft að uppfylla skyldur samningsins varðandi þau ákvæði er kveða á um mikilvægi þess að tryggja samráð um þjálfun og endurmenntun fagstétta, mikilvægi forvarna og fræðslu og endurskoðun á verklagi og reglugerðum á grundvelli gildandi laga, meðal annars hvað varðar meðferð mála hjá lögreglu.
Þann 26. apríl 2018 fullgilti Ísland samninginn þegar Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins staðfestingarskjal um fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 3.10.2021 | ALMANAK
Var kölluð í Silfrið þar sem fjallað var um kosningar og eftirmála vegna misbresta í talningu og fleira. Ræddi hvað þyrfti til að kosningar væru gerðar ógildar, viðmið þau sem sett eru fram af Feneyjanefnd til þess að framkvæmd kosninga standist kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur verið lögfestur hér á landi. Lagði meðal annars áherslu á eftirfarandi.
- Kosningar snúast ekki eingöngu um tæknilega útfærslu – heldur er um að ræða grundvallarsamning í stjórnskipuninni á milli borgara og stjórnvalda um hverjir fara með valdið fyrir þeirra hönd.
- Almenna viðmiðið er að ef ágallar hafi ekki áhrif á úrslit þá eigi ekki að ónýta kosningu. Það bíður Alþingis að rannsaka ofan í kjölin hvort annmarkar hafa teflt í tvísýnu vilja kjósenda.
- Stjórnarskráin felur Alþingi endanlegt vald til að úrskurða um lögmæti kosninga.
- Feneyjanefndin hefur lagt til að unnt væri að áfrýja úrskurði löggjafasamkundunanr til dómstóls, t.d. Hæstaréttar sem þá gæti ógilt kosninguna.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 1.10.2021 | ALMANAK
Tók þátt í pallborðsumræðum á visir.is með Sigmari Guðmundssyni alþingismanni og Baldri Þórhallssyni prófessor um nýafstaðnar kosningar, meinta ágalla og möguleg úrræði. Mikilvægt að betrumbæta lagaumhverfi og framkvæmd kosninga en Feneyjanefndin hefur lagt áherslu á það að úrskurðir varðandi kjör og talningu er sérlega viðkvæmt ferli sem verður að vera hægt að áfrýja til dómstóls eða annars óvilhalls og sjálfstæðs aðila í samræmi við alþjóðleg viðmið. Umræðum stjórnaði Óttar Kolbeinsson Proppé.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 9.07.2021 | ALMANAK
Á aðalfundi Feneyjanefndar daga 2. og 3. júlí voru samþykkt tvö álit sem undirrituð vann að. Annað álitið sneri að því hvort breytingar á ýmsum lögum í Rússlandi varðandi svokallaða “foreign agent” löggjöf stæðist alþjóðleg viðmið og mannréttindasamninga sem rússnesk yfirvöld eru skuldbundin að virða. Þetta er þriðja álitið sem Feneyjanefnd lætur frá sér varðandi þessa löggjöf sem þrengir mjög að rétti félagasamtaka og nú með nú með nýjustu lögunum, rétti fjölmiðla og einstaklinga. Fyrri álitin voru samþykkt 2014 og 2016.
Fyrstu “foreign agent”-lögin voru sett 2012 og síðan hafa verið gerðar frekari breytingar sem miða að því að þrengja frelsi félagasamtaka sem hafa notið fjárframlaga erlendis frá. Þeim var fyrst gert skylt með lagabreytingum 2012 að skrá sig sem erlenda útsendara (foreign agent) – sem er mjög neikvæður stimpill og undirgangast opinbera endurskoðun á reikningshaldi. Síðari breytingar á lögunum sneru að fjölmiðlum sem nutu fjárstuðnings erlendis frá.
Umfjöllun um nýtt álit nefndarinnar sem þingmannasamkunda Evrópuráðs kallaði eftir má sjá hér. Meðhöfundar að þessu áliti eru Veronika Bilkova, Angelika Nussberger og Jan Valaers. Feneyjanefndin varaði sérstaklega við fælingarmætti laganna á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi einstaklinga, félagasamtaka og fjölmiðla – og hvatti rússnesk stjórnvöld til að afturkalla ákveðna þætti laganna sem snúa að skyldu til að skrá sig sem erlendendan útsendara og frekari kvöðum og að öðrum kosti að endurskoða heildarlöggjöfina með því að þrengja skilgreininguna á “erlendum útsendara” – sem nú er undirorpið svo víðtækri túlkun að átt getur við einstakling sem fær sendan fjárstyrk frá ættingja í öðru landi. Þá er refsiramminn strangur og langt út fyrir meðalhóf í réttarríki.
Hitt álitið sem ég vann að og samþykkt var á fundinum sneri að nýsettum lögum í Tyrklandi sem ætlað er að stemma stigu við fjármögnun hryðjuverka og dreifingu gereyðingavopna. Lögin bitna þó einna helst á félagasamtökum og leiðum þeirra til fjáröflunar. Meðhöfundar að álitinu eru Pieter van Dijk og Cesare Pinelli.
I
by Herdís Þorgeirsdóttir | 20.03.2021 | ALMANAK, Frá stuðningsfólki
Á aðalfundi Feneyjanefndar hinn 19. mars var samþykkt álit sem Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir fulltrúi í nefndinni samdi ásamt Claire Bazy Malaurie og Martin Kuijer um það hvernig nokkur lagaákvæði, þ.á m í lögum um um fjöldasamkomur sem og hegningarlagaákvæði þar að lútandi samræmist evrópskum viðmiðum um félaga- og tjáningarfrelsi. Þessum lögum hefur verið beitt á friðsamleg mótmæli og félaga í samtökum sem mótmæltu úrslitum forsetakosningana í Hvíta Rússlandi hinn 9. ágúst 2020. Feneyjanefnd álítur lögin koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli í landinu.
Árið 2012 samþykkti Feneyjanefnd álit um lög um fjölda mótmæli og sendi frá sér tillögur sem enn eru í gildi þar sem þeim lögum hefur ekki verið breytt. Herdís var jafnframt einn höfunda 2012 álitsins þar sem þeim tilmælum var beint til stjórnvalda í Hvíta Rússlandi að tryggja bæri rétt einstaklinga til fundafrelsis og í því skyni væri mikilvægt að afnema þann lagaramma sem þá var í gildi (og er enn) að krefjast þess að fá heimild hjá stjórnvöldum til að koma saman opinberlega. Í stað þess væri unnt að setja tilkynninga-skyldu. Jafnframt bæri nauðsyn til að endurskoða öll lagaákvæði sem jafngiltu banni við fundafrelsi og takmörkunum á því hverjir gætur staðið fyrir og skipulagt fundi.