Á desemberfundi Feneyjanefndar Evrópuráðsins (9-11. desember 2021) kynnti Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir, einn höfunda álits um stjórnskipulegar afleiðingar Istanbulssamningsins í Moldóvu. Þetta var svonefnt Amicus Curiae álit sem útleggst sem ráðgjöf veitt dómstól að beiðni hans. Hér var um að ræða beiðni frá forseta Stjórnlagadómstóls Moldóvu um hverjar stjórnskipulegar afleiðingar yrðu af staðfestingu Istanbulsamningsins fyrir Moldóvu en tveir þingmenn í Moldóvu lögðu fram kæru til dómstólsins og drógu í efa að staðfesting sáttmálans stæðist ákvæði stjórnarskrár, ekki síst er varðar rétt foreldra til að hafa áhrif á uppfræðslu barna sinna. Istanbulsamningurinn er samningur Evrópuráðsins frá 2011 um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en 34 af 47 ríkjum Evrópuráðsins hafa staðfest samninginn. Samningurinn hefur mætt vaxandi andstöðu meðal ríkja í mið- og austur-Evrópu sakir víðtækrar skilgreiningar á hugtakinu kyni, sem ekki sé eingöngu líffræðilegt heldur einnig félagsleg hugsmíð.

Samningurinn er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð.

Í mars 2016 náðist fyrsti áfangi í fullgildingu Istanbúlsamningsins hér á landi með gildistöku breytinga á almennum hegningarlögum. Þar eru m.a. var sett í lög ákvæði um heimilisofbeldi, nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir auk breytinga er lúta að lögsögu og fyrningarreglum. Samkvæmt samningnum hafa stjórnvöld einnig skyldur sem kalla á aðgerðir til að fyrirbyggja og veita vernd gegn ofbeldi og hefur síðastliðin ár verið unnið að þeim verkefnum. Skyldur þessar snúa að rekstri kvennaathvarfa, starfrækslu neyðarnúmers, þjónustu við þolendur og meðferðarúrræði fyrir gerendur. Jafnframt hefur þurft að uppfylla skyldur samningsins varðandi þau ákvæði er kveða á um mikilvægi þess að tryggja samráð um þjálfun og endurmenntun fagstétta, mikilvægi forvarna og fræðslu og endurskoðun á verklagi og reglugerðum á grundvelli gildandi laga, meðal annars hvað varðar meðferð mála hjá lögreglu.

Þann 26. apríl 2018 fullgilti Ísland samninginn þegar Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins staðfestingarskjal um fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.