Vara við beitingu hegningarlaga vegna dreifingu falsfrétta

Vara við beitingu hegningarlaga vegna dreifingu falsfrétta

Feneyjanefnd hefur sent frá sér álit sem fékk flýtimeðferð að beiðni eftirlitsnefndar þings Evrópuráðsins.  Álitið fjallar um drög að nýju ákvæði í tyrkneskum hegningalögum varðandi dreifngu falsfrétta. Samkvæmt drögunum varðar slíkt  eins til þriggja ára fangelsi og ef slík dreifing er nafnlaus hækkar refsingin um helming. Feneyjanefnd varar við því að þessi drög verði að lögum enda fara þau á skjön við tjáningarfrelsið eins og það er verndað með 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Varar nefndin við pólitískum afleiðingum þess verði ákvæðið að lögum því sjálfs-ritskoðun í landinu muni aukast að mun. Pólitísk umræða á undir högg að sækja vegna ótta almennings sem og blaðamanna, aðgerðasinna og stjórnarandstæðinga við afleiðingar þess að tjá sig. Það er ekki síst mikilvægt  að standa vörð um rétt fólks til að tjá sig nú í aðdraganda kosninga í landinu næsta sumar. Herdís er annar höfundur álitsins af hálfu Feneyjanefndar en málið er nú til umræðu á þingi Evrópuráðsins og umrædd drög rædd í tyrkneska þinginu í þessari viku.  Álitið hvetur tyrknesk stjórnvöld til að falla frá því að samþykkja þessi drög – telur vægari úrræði standa til boða auk þess sem tyrknesku hegningalögin búa yfir öðrum ákvæðum sem taka á dreifingu upplýsinga sem ógna almannaöryggi. Sjá álitið hér.

Viðtal í Fréttablaðinu vegna friðarverðlauna Nóbels

Viðtal í Fréttablaðinu vegna friðarverðlauna Nóbels

Mannréttindalögmaðurinn Dr. Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir fagnar því að friðarverðlaun Nóbels í ár hafi farið til hvítrússneska andófsmannsins Ales Bjaljatskí. Tilkynnt var um að Bjaljatskí hlyti verðlaunin á föstudaginn en hann situr nú í fangelsi í Hvíta-Rússlandi vegna andófsaðgerða sinna gegn einræðisstjórn Alexanders Lúkasjenkó forseta. Bjaljatskí deilir verðlaununum með rússneskum og úkraínskum mannréttindasamtökum, Memorial og Miðstöð borgaralegra réttinda.Viðtal í Fréttablaðinu um friðarverðlaun Nóbels í ár.

„Þetta er virt alþjóðleg viðurkenning og hvatning til þeirra sem hafa lagt líf sitt að veði og sýnt óbilandi hugrekki í áranna rás. Með þessu móti er andófsmönnum sýndur stuðningur og stjórnvöldum bent á að alþjóðasamfélagið fylgist með framvindu mála og gleymir ekki þeim sem standa í fremstu víglínu mannréttindabaráttu – raunverulegri baráttu upp á líf og dauða sem kostar stöðugar persónulegar fórnir. Þarna er undirstrikað það sem Feneyjanefndin hefur í áranna rás lagt áherslu á – að kröftug gagnrýni á valdhafa er nauðsynlegt aðhald í lýðræðis- og réttarríki – vernd og viðhald réttlátrar stjórnskipunar er í þágu einstaklinganna en ekki valdhafa – þeir eiga að vera í þjónustu fólksins en ekki drottnarar þess.“

 

Mannréttindi, samfélagsmiðlar og lýðræði

Mannréttindi, samfélagsmiðlar og lýðræði

Hinn 15. september talaði Dr. Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir af hálfu Feneyjanefndar á alþjóðlegri ráðstefnu Stjórnlagadómstóls Lettlands í Riga. Tilefni fundarins var 100 ára afmæli stjórnarskrár landsins og 25 ára afmæli dómstólsins. Efni fundarins laut að vernd lýðræðis á grundvelli stjórnskipunar – og helstu áskoranir. Forseti Lettlands flutti ávarp sem dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu, stjórnlagadómstól Þýskalands, Dómstól Evrópusambandsins og Herdís sem Varaforseti Feneyjanefndar um grundvallarréttindi og internetið.

Á meðfylgjandi mynd eru dómari Finnlands við Mannréttindadómstól Evrópu, dómari við stjórnlagadómstól Úkraínu, Herdís og forseti Lettlands.

 

 

 

 

 

Með Inetu Ziemale – en við vorum báðar með framsögur um svipað efni. Hún er mikil fræðikona og nú dómari við dómstól Evrópusambandsins í Luxembourg en gegndi áður stöðu dómara við Mannréttindadómstólinn í Strassbourg fyrir Lettland. Hún er gift Guðmundi Alfreðssyni prófessor.

 

 

Meðfylgjandi mynd er af Serhyi Holovaty, forseta Stjórnlagadómstóls Úkraínu og Herdísi Kjerulf Þorgeirsdóttur, varaforseta Feneyjanefndar. Sjá hér umfjöllun um ráðstefnuna á heimasíðu Stjórnlagadómstóls Úkraínu.

Varhugaverð fjölmiðlalög í Azerbaijan

Varhugaverð fjölmiðlalög í Azerbaijan

Talaði fyrir áliti á Feneyjanefndarfundi um ný fjölmiðlalög í Azerbaijan sem þrengja verulega að frelsi blaðamanna, bloggara og sjálfstæði fjölmiðla. Í ofanálag við lög sem þegar hafa verið sett er fjölmiðlum gert ókleift að sinna hlutverki sínu sem varðhundur almennings.
Nýju lögin fara gegn evróhttps://www.coe.int/…/-/venice-commission-plenary-underwaypskum viðmiðum um tjáningarfrelsi og leggur Feneyjanefnd til að þeim verði ekki hrundið í framkvæmd. Álitið var samþykkt einróma.

https://www.coe.int/en/web/freedom-expression/-/joint-opinion-of-the-venice-commission-and-dgi-on-law-on-media-of-azerbaijan-adopted

 

 

Munur á hatursorðræðu og öflugri pólitískri umræðu

Munur á hatursorðræðu og öflugri pólitískri umræðu

Viðtal í Vísi um hatursorðræðu í tilefni af fréttaumfjöllun síðustu daga.

 

Hatursorðræða er tilfinningaþrungið hugtak og ekki til almenn, viðtekin skilgreining á því í alþjóðalögum. Það verður að túlka hugtakið hatursorðræðu mjög þröngt og gera greinarmun á því hvað flokkast undir öfluga pólitíska umræðu og hatursorðræðu, sem er til þess falin að leiða til ofbeldis gagnvart þeim sem hún beinist að, oft jaðarsettum hópum sem eiga undir högg að sækja. Slík hatursorðræða nýtur ekki verndar tjáningarfrelsis. Mörk tjáningarfrelsis í pólitískri umræðu eru hins vegar mjög víð.

Öflug pólitísk umræða er forsenda þess að lýðræðislegt samfélag þrífist og slík umræða nýtur sérstakrar verndar í þágu lýðræðis og þroska hvers einstaklings. Stjórnvöldum ber að tryggja þetta frelsi og eingöngu setja því skorður með lögum sem þjóna lögmætum markmiðum og brýna nauðsyn ber til í lýðræðislegu samfélagi.

Vernd tjáningarfrelsis nær ekki eingöngu til upplýsinga og skoðana sem njóta velþóknunar heldur einnig til þeirra sem móðga, misbjóða og hneyksla fólk því lýðræðið byggir á víðsýni og umburðarlyndi og að margvíslegar skoðanir fái að heyrast. Tjáningarfrelsið snýst ekki eingöngu um rétt fólks til að tjá sig heldur einnig um rétt almennings til að móttaka alls konar skoðanir og upplýsingar.

Fólk verður að geta tjáð sig um pólitísk málefni án ótta við valdhafa og þeir síðarnefndu verða að þola harðvítuga gagnrýni um störf sín. Pólitíkusar eru útsettir fyrir hatrammar árásir, ekki síst á samfélagsmiðlum. Telji þeir vegið að æru sinni verður að skoða ummælin út frá hagsmunum almennings um opna umræðu um pólitík. Það er varasamt að ásaka fólk um hatursorðræðu og fæla það þannig frá  þátttöku í pólitískri umræðu. Valdhafar geta lent í vandræðum verði þeir uppvísir að eða ásakaðir um hatursorðræðu – en það kann hins vegar að vera erfitt fyrir þá sem eru við völd að saka umbjóðendur eða almenning um hatursorðræðu í sinn garð. Þorgeir Þorgeirsson rithöfundur hlaut fyrir nokkrum áratugum dóm fyrir skrif sín um meint lögregluofbeldi og fór með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Hann hafði fengið dóm fyrir skrif sín um meint lögregluofbeldi þar sem hann kallaði lögreglumenn ,,óðar skepnur í einkennisbúningum“, rudda og sadista sem væru að fá útrás fyrir afbrigðilegar hneigðir.

Mannréttindadómstóllinn taldi að íslensk stjórnvöld hefðu brotið á rétti rithöfundarins til tjáningar því sakfellingin hefði verið til þess fallin að fæla frá opinni umræðu um mikilvæg mál sem varða almenning. Þannig þurftu venjulegir lögreglumenn sem áttu enga aðkomu að málinu, sem Þorgeir fjallaði um, að sætta sig við gífuryrði um starfsstétt sína sem margir í dag myndu krefjast að væri flokkað undir hatursorðræðu.  Stjórnmálamenn, embættismenn, aðrir opinberir starfsmenn, stórfyrirtæki og aðrir sem hafa með ákvörðunum sínum áhrif á almannahag, þurfa að þola harkalega gagnrýni um störf sín í þágu opinnar pólitískrar umræðu.