Mannréttindalögmaðurinn Dr. Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir fagnar því að friðarverðlaun Nóbels í ár hafi farið til hvítrússneska andófsmannsins Ales Bjaljatskí. Tilkynnt var um að Bjaljatskí hlyti verðlaunin á föstudaginn en hann situr nú í fangelsi í Hvíta-Rússlandi vegna andófsaðgerða sinna gegn einræðisstjórn Alexanders Lúkasjenkó forseta. Bjaljatskí deilir verðlaununum með rússneskum og úkraínskum mannréttindasamtökum, Memorial og Miðstöð borgaralegra réttinda.Viðtal í Fréttablaðinu um friðarverðlaun Nóbels í ár.

„Þetta er virt alþjóðleg viðurkenning og hvatning til þeirra sem hafa lagt líf sitt að veði og sýnt óbilandi hugrekki í áranna rás. Með þessu móti er andófsmönnum sýndur stuðningur og stjórnvöldum bent á að alþjóðasamfélagið fylgist með framvindu mála og gleymir ekki þeim sem standa í fremstu víglínu mannréttindabaráttu – raunverulegri baráttu upp á líf og dauða sem kostar stöðugar persónulegar fórnir. Þarna er undirstrikað það sem Feneyjanefndin hefur í áranna rás lagt áherslu á – að kröftug gagnrýni á valdhafa er nauðsynlegt aðhald í lýðræðis- og réttarríki – vernd og viðhald réttlátrar stjórnskipunar er í þágu einstaklinganna en ekki valdhafa – þeir eiga að vera í þjónustu fólksins en ekki drottnarar þess.“