by Herdís Þorgeirsdóttir | 4.02.2019 | Almanak
Forsvarsmenn helstu stofnana Evrópuráðs sátu fund með framkvæmdastjóra Evrópuráðsins í höfuðstöðvum þess í Strassborg hinn 4. febrúar þar sem farið var yfir stöðu mála. Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir sat fundinn af hálfu Feneyjanefndar sem fyrsti varaforseti nefndarinnar en Feneyjanefnd er ráðgefandi aðili fyrir öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins auk 14 annarra ríkja.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 19.01.2019 | Fréttir
Mjög áhugaverð sýning Þjóðleikhússins Dansandi ljóð byggð á nokkuð mögnuðum ljóðum Gerðar Kristnýjar í leikgerð Eddu Þórarinsdóttur var frumsýnd 18. janúar í Þjóðleikhússkjallaranum. Í verkinu er sögð ævisaga konu frá fæðingu til fullorðinsára og túlka leikkonurnar Bryndís Petra Bragadóttir, Helga E. Jónsdóttir, Margrét Kristín Sigurðardóttir (Fabúla), Júlía Hannam, Rósa Guðný Þórsdóttir, Sólveig Hauksdóttir, Vilborg Halldórsdóttir og Þórey Sigþórsdóttir, líf hennar, ástir og örlög í ljóðum, dansi og tónlist, sem Margrét Kristín Sigurðardóttir (Fabúla) hefur samið og flytur. Dansandi ljóð er “ljóðasaga” sem Edda Þórarinsdóttir leik- og söngkona hefur samið og byggir hún á ljóðum úr bókum Gerðar Kristnýjar Guðjónsdóttur Ísfrétt, Launkofa, Höggstað og Ströndum. Magnaður flutningur hjá þessum glæsilegu leikkonum – að túlka með dýpt þessi ljóð.

Búningar og leikgerð eru eftir Helgu Björnsson sem hlaut Grímuna fyrir búninga sína í Íslandsklukkunni. Danshöfundar eru Ásdís Magnúsdóttir og Ingibjörg Björnsdóttir.
Verkið var frumsýnt fyrir fullum sal og dúndrandi lófaklappi í lokin. Óhætt að mæla með þessari sýningu sem er listræn upplifun.
Dauðinn er endapunktur verksins – ljóð Gerðar Kristnýjar um dauðann:
Veisla
Dauðinn er
dama á rauðum skóm
Hún veður
inn í skápa
nær í nýþveginn dúk
og dekkar borð
puntar með postulíni
Dauðinn gefur ekki
þumlung eftir
Hún bræðir
súkkulaðiplötu í potti
og hringir í
vini mína
Hún breytir um rödd
til að blekkja þá
og býður þeim heim
Þeir koma
einn af öðrum
dáist að tertunum
og trakteringunum
og skónum sem
skildir voru eftir
by Herdís Þorgeirsdóttir | 9.12.2018 | Almanak
Rakst á Jeremy Corbyn leiðtoga breska Verkamannaflokksins í Mexíkóborg. Hann var við innsetningu nýs forseta landsins þar sem hann var sérstakur heiðursgestur. Nýi forsetinn, Andres Manuel Lopez Obrador er vinstri maður og populisti sem hefur heitið þjóðinni því að ráða niðurlögum mikillar spillingar í Mexíkó; draga úr vaxandi ójöfnuði og fátækt sem er mikil.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 29.11.2018 | Almanak

Flutti fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu í Mexíkó hinn 29. nóvember 2018 á vegum kosningadómstóls landsins (Federal Electoral Tribunal) um þátttöku kvenna í stjórnmálum.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 22.11.2018 | Almanak

Skemmtileg tilviljun að tvær íslenskar konur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Herdís Þorgeirsdóttir voru meðal aðal fyrirlesara á ráðstefnunni. Hér á mynd ásamt Grétu Gunnarsdóttur sendiherra sem starfar með Ingibjörgu í Varsjá.
Í tilefni af 70 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, fyrstu alþjóðlegu stefnuyfirlýsingarinnar sem samþykkt var á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 10. desember 1948 var haldin alþjóðleg ráðstefna í Samarkand í Uzbekistan í mið-Asíu 22.-23. nóvember 2018 og sú fyrsta sinnar tegundar. Ráðstefnuna sóttu m.a. varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og fleiri fulltrúar alþjóðlegra stofnana. Svo skemmtilega vildi til að tveir aðal fyrirlesarar í sama panel voru þær Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forstjóri Mannréttindastofnunar OSCE í Varsjá og Herdís Þorgeirsdóttir fyrsti varaforseti Feneyjanefndar Evrópuráðsins.

Með Michael Möller öðrum æðsta yfirmanni Sameinuðu þjóðanna og Nataliu Gherman, fulltrúa framkvæmdastjóra SÞ í mið-Asíu.
Mannréttindayfirlýsing S.Þ. markaði ákveðin tímamót og varð grunnur að Mannréttindasáttmála Evrópu og Samningi SÞ um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi. Eleanor Roosevelt sem var einn af aðalhvatamönnum þess að að útbúa yfirlýsinguna kallaði hana Magna Carta alls mannkynst. Mannréttindayfirlýsingin er ekki lagalega bindandi en hefur öðlast fastan sess í hinu alþjóðlega réttarkerfi um hvað séu eðlileg viðmið í vernd mannréttinda.
Frumkvæði að því að halda ráðstefnuna í hinni fornu og fögru borg Samarkand átti forseti Uzbekistan, Shavkat Mirziyoyev á allsherjarþingi SÞ fyrir ári síðan. Þannig vilja Uzbekar marka sér stöðu sem leiðandi á sviði mannréttinda í mið-Asíu.