Tilkynning Herdísar Þorgeirsdóttur um framboð til embættis forseta Íslands 30. mars 2012

Tilkynning Herdísar Þorgeirsdóttur um framboð til embættis forseta Íslands 30. mars 2012

herdís tilkynnir forsetaframboðKjör forseta Íslands fer fram laugardaginn 30. júní. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins hefur sitjandi forseti ákveðið að sækjast eftir endurnýjuðu umboði – fimmta kjörtímabilið í röð. Þessi ákvörðun hans er umdeild.

Því hefur verið haldið fram að það sé nánast ómögulegt að fara gegn sitjandi forseta. Teflt er fram ýmsum fælingarástæðum, þar á meðal óheyrilegum kostnaði. Fáum sé því kleift að bjóða sig fram– nema með stuðningi fjársterkra aðila.

Í kjölfar þess að íslenska fjármálakerfið hrundi haustið 2008 átti sér stað vitundarvakning um ábyrgð og hlutverk hins almenna borgara að stuðla að framgangi lýðræðisins. Það kviknaði von hjá mörgum um gagngerar breytingar. Umdeild ákvörðun sitjandi forseta hefur slegið á þær væntingar og orðið til þess að ég hef fengið hvatningu um að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Þeir sem kalla eftir framboði mínu eiga það sammerkt að deila hugsjónum mínum um virkara lýðræði og aukin mannréttindi. Í rannsóknum mínum hef ég fjallað um þá hættu sem lýðræði og mannréttindum stafa af nánum tengslum stjórnmála, peningaafla og fjölmiðla. Ég hef gagnrýnt þöggun og ótta við valdhafa, sem kæfa nauðsynlega umræðu í samfélaginu og halda því í fjötrum sérhagsmunagæslu.

***

Ég hef kallað til þessa blaðamannafundar til að tilkynna þá ákvörðun mína að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Framboð mitt byggir á því að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin og það er undirstaða réttlætis og lýðræðis. Völdin eiga að koma frá okkur fólkinu og þau ber að nota í okkar þágu.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar er grundvallarregla íslenskrar stjórnskipunar. Í stjórnarskránni er forseta Íslands falið vald til að virkja þann rétt. Málskotsrétturinn er öryggisloki, sem ber að beita af varfærni, en þjóðin þarf jafnfamt að geta treyst því að forseti Íslands hafi burði til að beita þessum rétti ef þörf krefur.

***

Mér finnst að allt sé til vinnandi til að gefa kjósendum kost á að fylkja sér að baki þeim hugmyndum sem framboð mitt byggir á. Í framboði mínu felst ákveðin tilraun fyrir lýðræðið, að láta á það reyna hvort fólkið í landinu – vilji það styðja mig til embættis forseta Íslands – sé máttugra en fjármálaöflin – sem hafa skekkt grundvölll lýðræðisins.

Í mínum huga leikur enginn vafi á því að forseti Íslands gegnir mikilvægu hlutverki sem talsmaður þjóðarinnar en hvorki sérhagsmuna né sérstaks hóps innan hennar.

Á þjóðinni hvílir farg. Hún hefur áhyggjur af fjármálum sínum og framtíð. Í landinu ríkir óvissa.

Þjóðin hefur aldrei þurft meira á því að halda en nú að forseti Íslands sé öflugur málsvari mannréttinda og lýðræðis. Ég er óhrædd á þeim vettvangi og tel að forseti sem leggur áherslu á þær hugsjónir muni starfa í sátt við þjóðina.

 

Þakka ykkur fyrir.

 

 

Hrokafullt upphaf hrunsins eða… aldrei andlega virk þjóð?

ÍSLENSKA efnahagshrunið ber svipuð einkenni og hrun Weimar-lýðveldisins í Þýskalandi í heimskreppunni um 1930 en það stóð þá frammi fyrir mesta efnahagsvanda nokkurs vestræns ríkis.

Weimar var sligað af stríðsskuldum í kjölfar Versalasamninganna sem Þjóðverjar kölluðu nauðungarsamninga. Weimar-ríkisstjórnin fékk á sig stimpil landráðamanna. Eftir hrunið kom Hitler, uppgangur nasismans og hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar. Úr þeim rústum reis Evrópuráðið byggt á markmiðunum um lýðræði, mannréttindi og réttarríki.Íslensk stjórnskipun á að heita lýðræðisleg. Í grunninn byggir hún á þeirri göfugu hugsun sem lá að baki frönsku stjórnarbyltingunni og sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna og var vegsömun á einstaklingsfrelsi, borgaralegum réttindum, trúnaðarskyldum valdhafa við þegna, pólitískri ábyrgð, upplýsingu og mikilvægi tjáningarfrelsis í framgangi lýðræðislegs samfélags.
Höfuðeinkenni stjórnskipunar okkar eru þrígreining ríkisvaldsins, vernd grundvallarmannréttinda, þingræðisreglan og sú grundvallarskoðun að ríkisvaldið eigi upptök hjá þjóðinni. Eru þessi einkenni óræk hér?Sjálfstæði dómstóla hefur oft verið dregið í efa og umboðsmaður Alþingis bent á að skort hafi forsvaranleg vinnubrögð ráðherra við skipan dómara. Samkvæmt þingræðisreglunni ber ríkisstjórn ábyrgð á gerðum sínum og er undir eftirliti kjörinna fulltrúa á Alþingi. Ríkisstjórn er skylt að segja af sér, ef þingið vottar henni vantraust. Slík áhrif hafa óbreyttir þingmenn ekki, hvorki á stjórnarstefnu né stjórnarframkvæmdir. Ávarpið „háttvirtur“ hljómar sem öfugmæli. Það er erfitt að fylgja stjórnarskránni og vera trúr sannfæringu sinni ef þingmaður er skuldbundinn fjárhagslegum bakhjarli.
Á Íslandi er flokksræði þar sem pólitískir flokkar hafa keppt um stuðning viðskiptablokka. Menn ganga í stjórnmálaflokka ekki af hugsjón heldur til að eignast bakland og tryggja eigin framtíð. Íslenskt samfélag er klíkusamfélag þar sem frami veltur oftar á velvild ráðamanna, hvort sem er í stjórnmálum eða viðskiptum, en hæfi og getu. Mönnum hefur verið umbunað fyrir pólitíska hollustu með stöðuveitingum og refsað að sama skapi ef þeir eru eigi auðsveipir með því að setja þá út á jaðarinn. Hér hefur ekki verið í tísku að tala eða skrifa gagnrýnið um valdhafa. Skynsamir en einnig skammsýnir menn hafa áttað sig á því að það borgar sig að þegja. Þöggun og þýlyndi hefur einkennt íslenskt samfélag.
Höfundur Frelsisins, John Stuart Mill, talaði um „andlega ánauð“ (mental slavery) í ritinu sem fjallar um mikilvægi tjáningarfrelsis. Það er slíkur andlegur þrældómur sem skapar kjöraðstæður fyrir spillta stjórnarhætti. Í slíku andrúmslofti getur einstaka hugsuður þrifist, sagði John Stuart Mill – „en aldrei andlega virk þjóð“.
Frjálshyggjan hér var ekki frjálslyndari en svo að hana mátti ekki gagnrýna. Efnahagsstjórnin var ekki einu sinni laissez-faire – frjálslynt afskiptaleysi af markaði – heldur samspil kjörinna stjórnvalda og markaðsráðandi aðila. Einkavæðing ríkisfyrirtækja sem átti að draga úr skuldum ríkissjóðs með því að stuðla að einstaklingssparnaði og auknum viðskiptum með hlutabréf varð að „einkavinavæðingu“ þar sem fáir útvaldir fengu almenningseignir á afar hagstæðum kjörum. Slík „einkavæðing“ hafði átt sér stað í Rússlandi skömmu áður og þá haft eftir formanni einkavæðingarnefndar að spilltir kaupsýslumenn „stælu og stælu og næstum því öllu“ en það myndi jafnvel skila sér í heilbrigðara viðskiptalífi en gömlu ríkiseinokuninni þegar upp væri staðið. Í kjölfarið myndi réttarríkið dafna og félagslegt réttlæti aukast í öllu þessu frelsi. Einn þeirra sem efaðist var Josef Stieglitz, aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði frá árinu 1997 predikað stjórnfestu þegar leitað var til hans af einhverjum af 185 aðildarríkjum sjóðsins um ráðgjöf eða fjárhagslega aðstoð. Hugtakið stjórnfesta tekur til stjórnarþátta í ríki og samspili þeirra og efnahagslífsins í heild. Spilling er þrengra hugtak, oft skilgreind sem misnotkun á opinberu valdi í þágu einkahagsmuna.
Íslenska einkavæðingin var í anda þeirrar rússnesku – gráðug, ófagleg og spillt. Í einkavæðingarferlinu var ekki fylgt þeim meginreglum sem átti að gera í upphafi heldur pólitískum helmingaskiptareglum sem marka hrokafullt upphaf hrunsins. Til að hnykkja á því má minna á að þegar Landsbankinn var seldur fóru dýrmætar þjóðargersemar með í pakkanum án þess að um hið mikla málverkasafn væri sérstaklega samið. Það bara gleymdist. Er það táknrænt dæmi um skort á eftirliti. Íslenskir stjórnmálamenn varða veg sinn Kröflum.
Á þessum uppgangstíma nýfrjálshyggjunnar skyldi sá guð einn vegsamaður sem ríkið virti. Sá krafðist engra fórna annarra en að einstaklingar treystu stjórnvöldum í blindni, grilluðu á kvöldin og drykkju rauðvín, ynnu og versluðu þess á milli. Neysla var boðorð númer eitt. Ekki að spilla ungviðinu með gagnrýnisröddum fremur en Sókrates forðum sem hlaut dauðadóm fyrir að neita að falla fram og tilbiðja guði ríkisins.
Peningamenn áttu fjölmiðla og þar með máttugasta vopnið til að móta almenningsálitið. Stærri ríkisstjórnarflokkurinn stjórnaði ríkisútvarpinu/sjónvarpinu með pólitískt skipuðum útvarpsráðum og pólitískum mannaráðningum. Svigrúmið fyrir gagnrýni var sem „stormur í vatnsglasi“ þar sem ekki mátti bera brigður á heilbrigði „kerfisins“. Afstaðan fólst í því í hvers liði maður var. Þetta er andrúmsloft andlegrar ánauðar, sjálfsritskoðunar og skoðanakúgunar.
Þegar neyðarlögin voru sett var staðfest að hér ríkir neyðarástand – afleiðing langvarandi spillingar. Hví að kalla hlutina öðrum nöfnum? Í spilltum kerfum er ekki krafist pólitískrar ábyrgðar. Þar er ekkert gagnsæi. Með spilltum valdhöfum er ekki eingöngu átt við þá sem hafa komist til valda í fyrrum nýlendum Afríku og heimurinn þekkir sem hálfgerð skrímsli, drifin áfram af sjúklegum hégóma og grægði. Spilltur valdhafi getur líka verið jafn utangátta og „meinlaus“ og María Antoinette í frönsku stjórnarbyltingunni, sem átti að hafa sagt banhungruðum lýðnum að borða bara kökur fyrst ekki var til brauð. Það er hægt að valda miklum skaða, ekki aðeins með athöfnum sínum heldur einnig athafnaleysi.
Alþingismenn hafa sjálfir viðurkennt vanmátt sinn, ekki gagnvart almenningi, heldur ríkisstjórninni og hennar vald virðist runnið frá guði ríkisins, sem fyrr er getið. Frumuppspretta ríkisvaldsins sem samkvæmt nútímalegri stjórnskipun á að liggja í sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar – virðist ekki eiga djúpar rætur í íslenskri stjórnskipun. Forsenda sjálfsákvörðunarréttar þjóðar er að hún hafi náð ákveðnu þroskastigi, sagði John Stuart Mill. Þjóð sem er fær um að stjórna sér sjálf er upplýst og virk ella sættir hún sig við Mugabe, Idi Amin, Kim Il Sung og vestræn skyldmenni þeirra.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun hafa sett stjórnvöldum pólitíska afarkosti, sem skilyrði fyrir lánveitingu, sem mun íþyngja ungum og öldnum um ókomna tíð. Engin lán myndu fást nema þjóðin öll yrði látin axla skuldbindingar af starfsemi einkafyrirtækja, sem flestir vita þó að kunna að reynast okkur um megn. Um hvað verður samið og hverjir eru skuldbundnir? Er verið að hneppa komandi kynslóð/ir í fjötra? Hvar liggur pólitísk ábyrgð? Eru þeir sem eru nú að margra mati sjálfskipaðir í forsvari að bjarga einhverju öðru en eigin skinni?
Við stöndum á tímamótum. Við blasir efnahagslegt hrun og pólitískt ef ekki stjórnskipulegt skipbrot. Við vitum nú að ábyrgð valdhafa í pólitík og viðskiptum er hvorki þeim ljós né okkur. Við berum hins vegar öll ábyrgð á börnum þessa lands og okkur ber að standa vörð um líf þeirra og framtíð. Höfum við heimild til að hneppa þau í skuldafjötra vegna yfirgengilegrar óráðsíu fullorðinna manna og vanrækslu eftirlitsaðila og kjörinna valdhafa? Er það síður óheiðarlegt að gera það sem er rangt vegna þess að það eru ekki skráð viðurlög? Það stendur hvergi skrifað í stjórnarskrá okkar að hver ný kynslóð sé tryggð gegn óráðsíðu og spillingu þeirrar kynslóðar sem á undan er gengin. En réttlætir það að gengið sé á rétt uppvaxandi og komandi kynslóða? Thomas Jefferson, einn höfunda stjórnarskrár Bandaríkjanna, varpaði þessari spurningu fram árið 1813. Eigum við að bíða lengi eftir svari? Mitt svar er nei.

Höfundur er prófessor og varaforseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga (EWLA).

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. janúar, 2009

Engin þjóð beygir sig undir lög sem ógna öryggi hennar . . .

Fámenn þjóð á hjara veraldar stendur ein andspænis voldugum nágrannaríkjum, þjóðum sem hún til langs tíma hefur álitið vinaþjóðir. Þessari þjóð sem háð hefur harða lífsbaráttu á mörkum hins byggilega heims í meira en þúsund ár er gert að kokgleypa samning um óviðráðan­legar skuldir sem kunna að gera út af við efnahagslegt sjálfstæði hennar og skerða grundvallarréttindi þeirra sem áttu engan þátt í að stofna til þeirra. Skuldir sem urðu til í útrás fjármálafyrirtækja, sem uxu ríkinu yfir höfuð þegar þau tóku þátt í darraðardansi óheftrar markaðshyggju.

Íslenska ríkið hafði gengið til samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir með undirritun EES-samningsins 1993, sannfært um að evrópskt efnahagssvæði myndi stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda eins og segir í inngangsorðum samningsins. Þar áréttuðu þessi ríki náin samskipti sín, sameigin­legt gildismat frá fornu fari og evrópska samkennd.

Bretar og Hollendingar eru stofnaðilar að Evrópuráðinu og ásamt Íslendingum í hópi fyrstu Evrópuþjóðanna til að undirrita Mannréttindasáttmála Evrópu 1950. Á rústum síðari heimsstyrjaldarinnar strengdu þessar þjóðir heit um að virða mannréttindi, lýðræði og réttarríki.

Þegar lagður var grunnurinn að stofnun Evrópuráðsins 1949 sagði Winston Churchill forsætisráðherra Breta að þessi ríki hefðu ekki tekið höndum saman gegn öðrum kynþáttum eða þjóðum heldur gegn kúgun og harðstjórn sem birtist í alls konar dulargervum. „Við verðum að hefja okkur yfir hömlulausar, eigingjarnar hvatir sem hafa sundrað þjóðum Evrópu og breytt þeim í rústir,” sagði hann. Nú sextíu árum síðar stöndum við andspænis tveimur voldugum þjóðum sem í bandalagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru að gera atlögu að íslenskum almenningi, börnum okkar og framtíð. Þær krefjast þess að stjórnvöld geri samninga fyrir hönd barna okkar og barnabarna, samninga sem munu bera fámenna þjóð ofurliði. Bretar eru komnir langan veg frá þeim hugsjónum sem birtast í ræðu Churchills eftir stríð og minna má Hollendinga á óráðsíu og sífelld gjaldþrot Rembrandts. Sem betur fer voru skuldunautarnir ekki utanlands því þá hefðu meistaraverkin verið flutt úr landi.

Er það skylda okkar að greiða fyrir þessa reikninga? Ef svarið er afdráttarlaust já hví hræðast þessar þjóðir dómstólaleiðina eða alþjóðlegan gerðardóm? Hví ganga þessar þjóðir á skjön við þann grunn, sem Evrópusambandið byggir tilverurétt sinn á sem eru hin sameiginlegu gildi Evrópu? Ef þær gera það þá liðast Evrópusambandið í sundur. Evrópusambandið með sinn innri markað og markmið um hagsæld hefur staðfest með breytingum á Rómarsáttmálanum að virðing fyrir grundvallarréttindum er forsenda fyrir því að annað gangi, líka fjármálamarkaðir. Bandalag var lykilorðið í stofnun Evrópubandalagsins.

Minni á orð Roberts Schumans, eins af stofnendum Evrópuráðsins og kola- og stálbandalagsins, forvera Evrópubandalagsins, manns sem skildi út á hvað evrópsk samvinna ætti að ganga, ekki út á „hernaðarbandalag og ekki aðeins út á efnahagslegu einingu heldur fyrst og fremst út á hið siðmenntaða bandalag í víðtækasta skilningi þess orðs.” Forystumenn Evrópuríkja sem nota eða nýta sér tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að kúga fámenna þjóð eru komnir svo langt frá þeim stórhuga mönnum sem stofnuðu Evrópuráðið, þeirri siðmenntuðu hugsun sem þar réði för, að þeir eiga meira sameiginlegt með rústunum en hugmyndinni um réttar­ríkið og virðingu fyrir mannréttindum. Sú leið sem hér hefur verið farin sýnir að fleira hefur skemmst í alþjóðavæðingu viðskipta en fjárhagslegir hagsmunir. Forystumenn þessara þjóða eru að koma fram við íslensku þjóðina af fádæma óvirðingu.

Íslenska þjóðin stofnaði ekki til þessara skulda. Hvaðan kemur henni skyldan til að greiða skuldir sem einkaaðilar stofnuðu til eftir að bankarnir fóru úr ríkis­eigu? Einkavæðing fyrirtækja og afnám miðstýringar og reglna var fylgifiskur alþjóðlegra viðskipta og fjármagnsflæðis yfir landamæri. Stjórnvöld kváðust vera að draga úr eigin áhrifum með því að gefa markaðinum svigrúm. Þær voru lágværar raddirnar – einstakra fræðimanna, sem bentu á hættur þessarar þróunar þar sem stórfyrirtæki myndu vaxa ríkjum yfir höfuð – fjármálareglur fylgdu ekki ógnvænlegri hnattvæðingu sem studd var af Alþjóðagjaldeyris­sjóðnum og Alþjóðaviðskiptastofnunni sem hafa vanrækt að gefa því gaum hvaða samfélagslegu áhrif framganga þeirra hefur á samfélög.

Setning Evróputilskipana sem var liður í að mynda sameigin­legan markað fyrir banka- og verðbréfaþjónustu innan EB áttu að koma á samræmdum reglum og eftirlitskerfi sem ætlað var að efla öryggi fjármálaþjónustu, verjast kerfisáhættu, auka neytendavernd og stuðla að skilvirkum og samkeppnishæfum markaði á þessu sviði. Stofnaður var tryggingarsjóður innistæðueigenda með lögum 98/1999 og skyldu aðildarfyrirtæki ekki bera ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins umfram lögbundin framlög til hans.

Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður hafa bent á sterk lögfræðileg rök um að íslensku þjóðinni beri ekki að endurgreiða þeim innistæðueigendum sem lögðu inn í útibú íslensku bankanna fyrir hrunið. Þeim rökum hefur ekki verið hnekkt. Þeir benda á að ríkisábyrgð verði ekki til úr engu. Til þess að ríkisábyrgð stofnist þarf afdráttarlausa lagaheimild sem ekki er til staðar nú vegna tryggingarsjóðsins.

Það má benda á atriði sem veikja stöðu íslenskra stjórnvalda, eins og skort á eftirliti með útibúum erlendis; yfirlýsingar ráðamanna í samtölum í miðju fátinu þegar hér verður kerfishrun og neyðarlög eru sett. En skuldbindur slíkt komandi kynslóðir? Ríkisábyrgð verður ekki til í samtölum manna á milli. Setning hryðjuverkalaga á íslenskan banka er einnig stórfellt álitamál í þessu samhengi. Þessi álitaefni æpa á meðferð dómstóla eða óháðra úrskurðaraðila.

Þetta eru þó ekki aðeins lögfræðileg álitaefni, þau snúast einnig um pólitík en fyrst og síðast um siðferði í samskiptum á milli þjóða. Einn þekktasti lögspekingur 20. aldarinnar, Louis Henkin, sagði að alþjóðalög vikju alltaf fyrir þjóðarhagsmunum. Engin þjóð beygir sig undir lög sem ógna öryggi hennar og sjálfstæði. Þjóðir gera samninga sín á milli og grundvallarregla í þjóðarétti er að samninga beri að virða. En ekki nauðasamninga. Ekki samninga sem er fyrirséð að ekki er hægt að standa við. Icesave-samningarnir eru eins og Versalasamningarnir þar sem sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar, Bandaríkin, Bretar og Frakkar sömdu um þær stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar skyldu borga án þess að Þjóðverjar kæmu að þeim samningum.

Með þessum samningum er gerð aðför að einstaklingum sem byggja þetta land til frambúðar. Öryggi íslensku þjóðarinnar og sjálfstæði er ógnað. Forsvarsmenn þessara ríkja setja inn í samninginn að þeim verði gert kleift að gera fjárnám í eigum íslensku þjóðarinnar ef hún getur ekki staðið í skilum. Ásælast forsvarsmenn þessara nágrannaþjóða náttúruauðlindir okkar? Hve langt eru þeir ekki komnir frá þeim hugsjónum sem evrópsk samvinna byggir á? Hvar er evrópska samkenndin? Vilja þeir að ungir Íslendingar yfirgefi landið sitt þannig að því blæði? Vilja þeir hneppa næstu kynslóð í fjötra skulda? Vilja þeir draga niður lífskjör heillar þjóðar til framtíðar? Vilja þeir Gullfoss, Geysi og Þingvelli? Við myndum aldrei gera kröfu um Shakespeare og Rembrandt. Á maður að trúa því að eftir 60 ár af evrópsku samstarfi þá standi aðeins ein evrópsk þjóð með íslensku þjóðinni – og hún er enn fámennari.

Við getum þráttað endalaust um að setning neyðarlaga eða að gallar í evópskri löggjöf hafi kallað yfir saklausa þjóð ábyrgð. Á meðan blæðir okkur út. Þessar voldugu þjóðir treysta sér ekki til að fara dómstólaleiðina eða kalla á úrskurð óháðra aðila utan lögsögu hlutaðeigandi ríkja. Þó er ljóst að hin lögfræðilegu álitaefni snúast ekki um tæknilegar útfærslur á lagaákvæðum heldur grundvallarspurningar í þjóðarétti.

Hví taka þessar þjóðir þá ekki allt eignasafnið sem á að duga langleiðina fyrir Icesave-innistæðunum og láta áhættuskiptin eiga sér stað hér og nú? Þær hafa mannafla og aðstöðu til að gera sem mest úr þessum eigum innan sinnar lögsögu. Þessar fjölmennu evrópsku þjóðir þurfa ekki að óttast að með því móti bresti stíflan og enginn muni lengur taka mark á Evrópusambandinu og að hinn innri markaður muni hrynja. Ábyrgð þeirra er mikil. Nú reynir á hvort þar eru stjórnspekingar í ætt við þá sem hófu evrópska samvinnu upp úr rústum mikilla hörmunga fyrir meira en hálfri öld. Raunveruleg stjórnkænska er að þora að gera hið ómögulega og takast það. Lymska er heigulsháttur. Íslendingar efast sumir hvort þeir eigi, svo vitnað sé í Shakespeare „að þreyja þolinmóðir í grimmu éli af örvum ógæfunnar eða vopn grípa mót bölsins brimi og knýja það til kyrrðar.” Hvorugt kann góðri lukku að stýra – hvorki fyrir Íslendinga né fyrir evrópska samvinnu. Voldugar evrópskar þjóðir hafa í hendi sér framtíð evrópskrar samvinnu. Ef hún hefst á atlögu gegn fámennri þjóð með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru það váleg tíðindi fyrir framtíð Evrópu.

Höfundur er prófessor og doktor í lögum frá lagadeildinni í Lundi.

 Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. júní 2009

Umfjöllun um grein Herdísar Þorgeirsdóttur

Hon kan bli ny president i Island

Hon kan bli ny president i Island

Grein sem birtist í Sydsvenskan eftir Fredrik Danelius

Trots att Island är ett av de fem nordiska länderna är intresset för landet och dess politik lågt i Sverige. Landet ligger väl i lite fel del av världen. Att den isländska befolkningen inte är mycket större än Malmös bidrar säkert också.
Men kanske ökar intresset efter att en kvinna med doktorsexamen från Lunds universitet nyligen annonserade att hon satsar på att utmana den sedan länge sittande statschefen Olafur Ragnar Grimsson vid sommarens presidentval.
Herdís Thorgeirsdóttir beskrivs nu som den starkaste utmanaren. Hon är 56 år, jurist, statsvetare och fyrabarnsmor. Hon var verksam vid juridiska institutionen och Raoul Wallenberg-institutet i Lund på 1990-talet där hon skrev sin doktorsavhandling om journalistikens och pressfrihetens villkor.
Island har en lång tradition av starka kvinnor inom det politiska livet. Vissa menar att den går tillbaka till de gamla fiskarsamhällena där kvinnorna skötte byangelägenheterna medan männen var ute på sjön och fiskade. Landets mest kända kvinna inom politiken på senare år är Vigdís Finnbogadóttir som var president mellan 1980 och 1996.
Herdís Thorgeirsdóttir bryter emot en modern isländsk tradition när hon kandiderar emot den sittande presidenten. Det normala i republiken Island har varit att man låter den sittande presidenten omväljas utan debatt och valkampanjer om denne inte avböjer att kandidera för en ny fyraårsperiod. Men inför sommarens presidentval ser det ut att bli annorlunda.
En handfull kandidater har redan visat intresse. Förutom Herdís Thorgeirsdóttir har bland annat den populära TV-personligheten Thora Arnasdóttir sagt att hon överväger att ställa upp. Att det verkar bli ett presidentval med flera kandidater har medfört viss kritik. En del har menat att det innebär ett slöseri med skattebetalarnas pengar om man inte väljer om den sittande presidenten utan valkampanj.
Herdís Thorgeirsdóttir har kritiserat denna tradition. Hon har beskrivit sin kandidatur som ett demokratiskt experiment. Vid den presskonferens i Reykjavik där hon annonserade sin kandidatur förklarade hon att hon ville ställa frågan om det inom isländsk politik överhuvudtaget är möjligt att med begränsade ekonomiska resurser utmana en sittande president.
En fråga som det tvistas om är i vilken grad presidentposten skall vara ceremoniell och i vilken mån politisk. Enligt den isländska författningen har presidenten huvudsakligen icke-politiska uppgifter. Men presidenten har också möjlighet att lägga in veto mot lagförslag antagna i alltinget. Under sin hittills sextonåriga presidentperiod har Olafur Ragnar Grimsson flyttat fram presidentämbetets politiska roll. Han har bland annat tydligt markerat sin negativa inställning till ett isländskt närmande till EU. På en presskonferens nyligen fick Herdís Thorgeirsdóttir frågan om hon tänkte följa i Grimssons spår om hon blev vald. Hon svarade diplomatiskt att hon principiellt inte ville utesluta möjligheten att underkänna lagar antagna i alltinget men att presidenten bör vara försiktig med att använda denna möjlighet.
Under den isländska finanskrisen klarade sig president Grimsson inte utan kritik. Han associeras i hög grad med etablissemanget som drev Island till ekonomisk kris. Samtidigt har han fått respekt för att han bidrog till att reda upp de problem som uppstod på ett bra sätt. Hans väljarbas finns bland den isländska medelklassen. Han stöds av män i högre grad än av kvinnor och har en större del anhängare på landsbygden än i Reykjavik.
En opinionsundersökning som nyligen gjorts på Island visar att flera än två tredjedelar av islänningarna tycker att det är dags för Grimsson att lämna över till en ny kraft. Sista dag för att anmäla kandidatur är den 25 maj. Det isländska presidentvalet äger rum den 30 juni. Kommer vi då att få se en juris doktor från Lund som president för ett land för första gången?
Fredrik Danelius
Måndag 9 april 2012

Jónas Kristjánsson um framboð til embættis forseta

Jónas Kristjánsson 9. apríl 2012

Þóra með almannafylgið

Atkvæðagreiðsla DV um fylgi forsetaframbjóðenda er ekki marktæk samkvæmt fræðireglum skoðanakannana. Eigi að síður gefur hún grófa vísbendingu um, að Þóra Arnórsdóttir ein geti fellt Ólaf Ragnar Grímsson. Hún hefur karisma, sem fellur að almennum kjósendum. Herdís Þorgeirsdóttir hefur líka karisma, en það er meira yfirstéttar, karisma dugnaðar og sjálfstrausts. Hún yrði frábær forseti. En það verður Þóra einnig. Alvöru kannanir munu senn leiða í ljós, að Þóra nýtur fylgis nánast helmings þjóðarinnar. Segir mér, að Herdís skuli draga vonlítið framboð sitt til baka. Verður annars óvinafagnaður.