Andlátstilkynning

Þorgeir Þorsteinsson 

Þorgeir Þorsteinsson, fyrrverandi sýslumaður og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli, fæddist í Hermes á Búðareyri við Reyðarfjörð 28. ágúst 1929. Hann lést 27. nóvember 2013.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Jónsson, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Héraðsbúa, sonur Jóns Bergssonar, bónda á Egilsstöðum, og Margrétar Pétursdóttur, og Sigríður Þorvarðardóttir Kjerúlf húsfreyja, dóttir Þorvarðar Kjerúlf, læknis og alþingismanns, og Guðríðar Ólafsdóttur Hjaltested.

Systkini Þorgeirs: Þorvarður Kjerúlf, fv. bæjarfógeti og sýslumaður á Ísafirði (látinn), Margrét húsfreyja (látin); Jón, fv. yfirlæknir. Fósturbróðir: Ólafur H. Bjarnason (látinn).

Þorgeir lauk cand. juris-prófi frá Háskóla Íslands 1956. Hann var fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1956-1959. Hann var aðalfulltrúi hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli frá 1959-1974 er hann var skipaður lögreglustjóri og svo sýslumaður frá 1992. Hann sinnti einnig dómarastörfum áður en aðgreint var á milli framkvæmdar- og dómsvalds við slík embætti. Þorgeir starfaði við lögreglustjóra- og síðar sýslumannsembættið á þeim tíma sem bandarískt herlið var á Keflavíkurflugvelli.

Þorgeir hlaut viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal Officer of the British Empire og sambærilega orðu frá Þýskalandi.

Þorgeir var virkur í uppbyggingu golfíþróttarinnar og einn af stofnfélögum Golfklúbbs Suðurnesja. Hann tók virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins eins og hann átti ættir til.

Þorgeir var tvíkvæntur. Fyrri eiginkona hans var Herdís Tryggvadóttir, f. 1928, dóttir Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns og Herdísar Ásgeirsdóttur. Börn þeirra eru: 1) Herdís, lögfræðingur, f. 1954. Fyrri eiginmaður: Stefán Erlendsson, dóttir þeirra: Herdís, f. 1987. Seinni eiginmaður: Bragi Gunnarsson. Þau skildu. Börn þeirra: María Elísabet, f. 1993, Gunnar Þorgeir, f. 1994, og Hörður Tryggvi, f. 1997. 2) Þorsteinn, hagfræðingur, f. 1955. Eiginkona hans er Ásta Karen Rafnsdóttir og börn þeirra: Ásta Sólhildur, f. 1991, Ásgeir Þór, f. 1994, og Herdís Aþena, f. 1996. 3) Sigríður heimspekingur, f. 1958. Eiginmaður hennar er Magnús Diðrik Baldursson. Dóttir þeirra: Elísabet, f. 1986. 4) Ófeigur Tryggvi læknir, f. 1960. Eiginkona hans er María Heimisdóttir. Synir þeirra: Tryggvi, f. 1991, og Gísli, f. 1998.

Dóttir Þorgeirs og Jóhönnu Andreu Lúðvígsdóttur er Katla Margrét leikkona, f. 1970. Eiginmaður hennar er Jón Ragnar Jónsson. Synir þeirra: Bergur Hrafn, f. 1997, og Egill Árni, f. 2008.

Seinni kona Þorgeirs var Kristín Sveinbjörnsdóttir en þau skildu. Stjúpsonur hans,sonur Kristínar og Magnúsar Blöndals Jóhannssonar tónskálds, frænda Þorgeirs, er Marínó Már lögreglumaður, f. 1971. Eiginkona hans er Sonja Kristín Sverrisdóttir og börn þeirra: Kristján Jökull, f. 2002, og Laufey Kristín, f. 2004. Dóttir Sonju Kristínar og stjúpdóttir Marínós: Elísa Ósk, f. 1991.

Útför Þorgeirs Þorsteinssonar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 12. desember 2013, og hefst kl. 13.

 

Þorgeir tengdafaðir minn var eftirminnilegur maður. Hann var mikill á velli, glæsimenni með ljúfa en virðulega framkomu. Hann átti ákaflega farsælan starfsferil hjá sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli, fyrst sem fulltrúi, síðar sem lögreglustjóri og sýslumaður. Börnin hans og barnabörnin voru þó það sem hann var stoltastur af í sínu lífi.

Í löngu starfi sem lögreglustjóri og sýslumaður tókst hann á við mörg erfið og viðkvæm mál af festu og myndugleik en jafnframt af ljúfmennsku og lítillæti. Hann hampaði aldrei sínum þætti á þessu sviði enda hógvær maður. Hann var ófeiminn við að taka afstöðu og standa með sinni sannfæringu þó það gæti vissulega tekið á. Umhyggja hans fyrir starfsmönnum sínum hélst í hendur við faglegan metnað hans fyrir hönd embættisins og hlutverks þess í samskiptum við almenning og varnarliðið. Fyrir störf sín hlaut hann ýmsar viðurkenningar, m.a. nafnbótina »Officer of the British Empire«. Björgun lítils drengs frá drukknun í Njarðvíkurhöfn á sjöunda áratugnum var afrek sem hann talaði lítið um en gladdist yfir, líklega meira en flestu öðru.

Þorgeir var glaðlyndur og hlýr maður sem naut þess að vera umkringdur börnum, barnabörnum, frændum og vinum. Hann var ákaflega fróður um eigin ætt og lagði sig fram um að kynna sér ættir annarra. Hann var frændrækinn og fylgdist alltaf vel með sínu fólki hvar sem það var statt hverju sinni.

Þorgeir las mikið meðan sjónin entist og hafði sérstakan áhuga á sögu Evrópu og Bandaríkjanna, svo og á sögu heimsstyrjaldarinnar síðari enda var honum herseta bandamanna á Reyðarfirði í barnsminni. Hann hafði oft ferðast um Frakkland og hélt sérstaklega upp á franska sögu og menningu og raunar allt sem franskt var. De Gaulle var hans maður og Renault hans bíll, alveg þangað til hann keypti sér Benz. Um þau skipti mátti helst ekki ræða. Hann fylgdist vel með pólitík innanlands og utan og Framsóknarflokkurinn var hans flokkur fram á síðasta dag. Þorgeir var einn af stofnendum Golfklúbbs Suðurnesja. Hann spilaði golf meðan heilsan leyfði og naut þar góðs félagsskapar ekki síður en íþróttarinnar sjálfrar.

Það voru forréttindi að fá að ferðast með Þorgeiri, jafnt heima á Íslandi sem erlendis. Ég fékk að njóta þessara forréttinda næstum á hverju sumri frá því við kynntumst fyrst fyrir aldarfjórðungi. Hann var einstaklega fróður um staðhætti og sögu landsins alls, en Austfirðir áttu alltaf sérstakan sess í hans huga. Hann gat rakið ábúendur á hverjum bæ í marga ættliði, þekkti hvern stein og kunni ógrynni af sögum af svæðinu. Þar átti hann líka marga góða frændur og vini sem hann ræktaði samband sitt við alla tíð. Það var eins og hann ætti alltaf heima þar þó hann hefði flutt þaðan sem unglingur. »Nú fer ég í mannheima« sagði Þorgeir þegar hann ætlaði austur á firði. Þetta orðalag lýsir Þorgeiri vel – hann lagði ekki illt til nokkurs manns og vildi hvers manns götu greiða.

Ég þakka Þorgeiri ljúf kynni. Blessuð sé minning góðs manns.

María Heimisdóttir.

Ég man ljóslifandi þegar þú birtist í dyragættinni, hávaxinn í ljósum frakka, mjög tignarlegur með virðuleg brún augun. Ég stökk upp um háls þér og sagði »Þorgeir.« Viðbrögð mín komu þér á óvart en þú tókst þessu með bros á vör og faðmaðir mig að þér. Þar með var ísinn brotinn. Þetta var árið 1976 og þarna hittumst við í fyrsta sinn. Ég var 5 ára gamall. Ekki leið á löngu þar til við mamma fluttum til þín í Grænásinn og ég kallaði þig pabba Þorgeir í fyrsta sinn. Ég man hvað þér þótti vænt um það.

Það streymdi mikil hlýja frá þér til mín og mömmu og þú varst óþreytandi við að fræða okkur um ýmsa veraldlega hluti. Þú varst mjög stoltur af uppruna þínum enda varstu Austfirðingur og framsóknarmaður í húð og hár. Ekki má gleyma þeim gríðarlega áhuga þú hafðir á öllu því sem tengdist Frakklandi og franskri menningu. Stundum þegar vel lá á þér kyrjaðir þú fyrir mig franska þjóðsönginn. Ég man ekki hvort mér fannst vandræðalegra framburðurinn eða söngröddin en það skipti ekki máli. Þú varst mjög stoltur og hátíðlegur og mér datt ekki í hug að skemma augnablikið.

Þú kynntir okkur mömmu fyrir golfíþróttinni og fyrir það verð ég þér ævinlega þakklátur. Það voru forréttindi að alast upp í Leirunni þar sem mér var skutlað á morgnana með skrínukost og kakómalt í brúsa og svo sóttur fyrir kvöldfréttirnar.

Við áttum margar góðar stundir fyrir framan sjónvarpið í Grænásnum þar sem við tefldum kvöld eftir kvöld og oftar en ekki vannst þú. En ég man að einu sinni hafði ég sigur og þér var alls ekki skemmt. Þetta var óvænt heimaskítsmát. Þú misstir einbeitinguna eitt augnablik og ég gekk á lagið. Ég var gríðarlega ánægður með sjálfan mig þá og mamma sem var stödd inni í eldhúsi hrökk til við fagnaðarlætin í mér.

Svo liðu árin og fórum við að eiga okkar innbyrðis rimmur. Ástæðan var fyrst og fremst bara ein. Bakkus félagi þinn var farinn að taka stóran toll af heimilislífinu og hafa djúpstæð áhrif á samband ykkar mömmu. Á unglingsárum mínum reyndi ég að leiða sjúkdóm þinn hjá mér en það var ekki alltaf auðvelt. Okkur var þó oftast vel til vina.

Það var svo rétt eftir áramótin 1993 að þú spurðir mig hvort ég hefði ekki áhuga á að koma og starfa í lögreglunni um sumarið. Ég lét tilleiðast og þar hef ég verið síðan. Við það kynntist ég alveg nýrri hlið á þér. Þú varst orðinn yfirmaður minn og það var mér ómetanleg og holl reynsla í alla staði. Ég tók strax eftir því hversu mikið traust þú barst til þinna manna og mjög einbeittur að vilja liði þínu allt hið besta.

Nú seinni árin hittumst við því miður sjaldan og ekki voru mörg samtölin okkar á milli, nú eða heimsóknir. Þú ítrekaðir við mig margoft að þú værir lítið fyrir að eiga frumkvæði og taka upp símtól og það, vinur minn, áttum við sameiginlegt.

Síðasta skiptið sem ég hitti þig heimsótti ég þig á Dalbrautina. Þú varst þar að spila við félaga þína og náðum við ekki að spjalla mikið saman þá. En ég man að ég bara settist við hliðina á þér og horfði lengi vel á þig og sá að þér leið vel. Það var nóg fyrir mig. Ég kyssti þig á ennið og kvaddi.

Kæri pabbi Þorgeir, ég kveð þig með söknuði og þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Ég á þér mikið að þakka.

Þinn

Marinó Már Magnússon (Mási).

Þorgeir föðurbróðir minn var yngstur fimm systkina sem ólust upp í Hermes, hinu mannmarga heimili foreldra hans á Reyðarfirði. Meðal minna fyrstu bernskuminninga er þegar ég var sendur reglulega úr Reykjavík til sumardvalar austur á Reyðarfjörð til afa og ömmu í Hermes, á árunum eftir stríð og uppúr 1950. Afi var með töluverðan búskap meðfram erilsömu starfi kaupfélagsstjóra auk þess að vera iðulega oddviti á þessum árum. Þorgeir var þá einn sinna systkina sem enn voru í heimahúsum á sumrin, en hann stundaði laganám á vetrum. Mörg sumur ók hann vörubíl hjá kaupfélaginu, sem var draumur allra ungra manna á Reyðarfirði í þá daga, við flutning á varningi til bænda á Héraði. Einnig þurfti að sinna heyskap og öðrum bústörfum. Var þá oft mikið líf í tuskunum ekki síst þegar frændsystkini komu í heimsókn eða til sumardvalar. Þorgeir var mjög góður í fótbolta og var hann stundaður öll kvöld. Hann gerði mikið að því að þjálfa okkur unglingana í hlaupum og öðrum íþróttum og sérstaklega hafði hann gaman af því að etja okkur strákunum saman að reyna krafta okkar.

Þorgeir var 12 ára gamall þegar breski herinn gekk á land á Reyðarfirði 1. júní 1941 og setti þar niður aðalbækistöðvar sínar á Austurlandi. Voru þar hátt á annað þúsund hermenn þegar mest var. Hér urðu meiri og sneggri umskipti í lífi íbúanna en annars staðar á landinu á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Má jafnvel fullyrða að þessi innrás hafi umturnað meir lífi fólks hér en önnur innrás sem varð 60 árum síðar við byggingu álversins. Nærvera og samskipti við herinn hafði gríðarleg áhrif á íbúana og ekki hvað síst á unglingana sem voru alltaf að sniglast í kringum hermennina og voru margir fljótir að ná tökum á enskunni. Herinn var í 2-3 ár, fyrsta árið breskur og síðan amerískur. Vera má að þessi reynsla Þorgeirs hafi haft áhrif á að eftir nám varð hann fulltrúi og síðar lögreglustjóri á Keflavíkurvelli og átti allan sinn starfsaldur í samskiptum við varnarliðið og ameríska herinn. Þorgeir kom nánast á hverju ári austur og alltaf varð hann að fara á Reyðarfjörð og æskustöðvarnar. Fjörðinn sem hann dáði svo mjög með sín tignarlegu og fjölbreyttu fjöll, varð að finna nálægð þeirra og kraftinn sem þeim fylgir og hamrabeltunum og þykku blágrýtislögunum sem einkenna fjöllin hér líklega með öflugri og skýrari hætti en annars staðar á landinu. Hitta frændur, vini og kunningja og rifja upp fyrri tíð og fylgjast með þeirri stórkostlegu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað á síðustu árum.

Þorgeir kom í sumar á ættarmót Egilsstaðaættarinnar sem haldið var á Héraði. Þá skrapp ég með hann í heimsókn á Reyðarfjörð. Við sátum í veðurblíðunni með ölglas í hendi og nutum í síðasta sinn saman útsýnisins, rifjuðum upp örnefni og heiti á fjöllunum og dásömuðum fegurð fjallahringsins. Varð mér þá hugsað til þess er segir í fornu kvæði að »römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til« og hve sérstaklega vel það átti við Þorgeir frænda minn.

Blessuð sé minning hans.

Einar Þorvarðarson.

Vinur minn og frændi Þorgeir Þorsteinsson, fv. sýslumaður og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli, er látinn.

Með Þorgeiri er genginn góður drengur, sérstæður og skemmtilegur persónuleiki.

Þorgeir var fæddur á Reyðarfirði 28. ágúst 1929, sonur hjónanna Þorsteins Jónssonar kaupfélagsstjóra á Reyðarfirði og konu hans Sigríðar Þorvarðardóttur Kjerúlf, yngstur fjögurra barna þeirra.

Við Þorgeir vorum bræðrasynir og höfum þekkst og verið nánir félagar frá bernsku.

Mér er það ennþá sérstaklega minnisstætt þegar ég sem lítill strákur kom fyrst á Reyðarfjörð og hitti Þorgeir. Hann stjórnaði þar stórum hópi stráka á mismunandi aldri í ýmsum leikjum og framkvæmdum af mikilli snilld en þó af hæversku sem sannkallaður foringi. Allir leituðu eftir og hlýddu leiðsögn hans, jafnvel þeir sem voru talsvert eldri. Hann kom einnig oft og dvaldi á Egilsstöðum á sumrin og brölluðum við þá ýmislegt ásamt frænda okkar Jóni Péturssyni, síðar héraðsdýralækni á Egilsstöðum.

Haustið þegar Þorgeir var 13 ára og ég 14 hófum við nám í Menntaskólanum á Akureyri. Við leigðum okkur herbergi saman í Ægisgötu, neðst á Oddeyrinni, þaðan var langur gangur upp í skóla og þurftum við að hlaupa upp kirkjutröppurnar oft á dag. Við sáum um okkur sjálfir að öllu leyti og þóttumst orðnir fullorðnir menn. Þetta var samt ekki tekið gilt af öllum, m.a. þótti okkur ótækt hve margar bíómyndir voru bannaðar innan 16 ára. Þorgeir dó þó ekki ráðalaus, hann brást við þessum vanda í skyndi, keypti sér frakka og »Battersbý«-hatt og leit þá út eins og Hollywood-leikari þess tíma og það dugði stundum til.

Þorgeir var strax mikill heimsborgari, fylgdist með öllu, fréttum og dagblöðum, stefnum og stjórnmálum, var ákaflega minnugur og fróður, las mikið, allt nema námsbækurnar, honum dugði að fylgjast með í tímum og lesa fyrir próf.

Hann var gamansamur og skemmtilegur og varð því mjög vinmargur, og var það fram á síðustu stund. Þorgeir hafði gaman af að spjalla og rökræða um allt milli himins og jarðar, m.a. pólitík og var dyggur samvinnu- og framsóknarmaður alla sína tíð.

Þorgeir var mjög ættrækinn og lagði sig fram um að halda sambandi við frændfólk sitt, einnig við bernskustöðvarnar, Reyðarfjörð, og fólkið þar eða íbúa þaðan sem fluttir voru á höfuðborgarsvæðið. Eftir menntaskóla skildi leiðir okkar Þorgeirs um hríð. Ég fór til útlanda til náms en hann í Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. juris-prófi 1956. Síðan varð hann fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði og sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu frá 1956-1959 og var aðalfulltrúi hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli frá 1959-1974 er hann var skipaður lögreglustjóri og síðan sýslumaður frá 1992 og gegndi því starfi til starfsloka með reisn og sæmd.

Börnum og fjölskyldu Þorgeirs votta eg samúð mína.

Blessuð sé minning þín, vinur.

Ingimar Sveinsson.

Kynslóðir koma og kynslóðir fara. Frændur og frænkur hverfa á braut við hið hinsta kall en eftir sitja minningar sem eftirlifendur geyma og verða um leið hluti af okkur. Minningin um Þorgeir Þorsteinsson frá Hermes á Reyðarfirði, föðurbróður okkar, mun lifa skær og hlý.

Austfirðingur, framsóknarmaður, lögfræðingur, lögreglustjóri og Kjerúlf. Ef Þorgeir hefði átt að lýsa sér sjálfur hefði upptalningin verið á þessa leið. Kaupfélagsstjórasonur að austan, fæddur í upphafi kreppunnar miklu þegar samvinnuhugsjónin sannaði gildi sitt, hlaut að verða liðsmaður þeirra Hermanns og Eysteins. Annar heimanmundur Þorgeirs, góðar gáfur og námshæfileikar, leiddu hann í MA og síðan í laganám við Háskóla Íslands. Fyrsta starf eftir embættispróf í lögum setur iðulega kúrsinn í starfsferlinum. Þorgeir byrjaði sem fulltrúi hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 1956 og við tók rúmlega 40 ára ferill með þeim starfsframa sem »lög gera ráð fyrir« þegar í hlut á jafnhæfur og glæsilegur maður eins og Þorgeir var en hann varð lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli 45 ára að aldri. Lögsagan var hið sameiginlega yfirráðasvæði íslenska ríkisins og mesta herveldis heimsins, varnarsvæðið á Miðnesheiði með íbúafjölda á við stóran kaupstað. Telja verður að Þorgeir hafi verið einstaklega vel í stakk búinn til að gegna þessu ábyrgðarmikla starfi. Samskipti við herinn og framkvæmd íslenskra laga og réttargæsla íslenskra þegna gagnvart stórveldinu krafðist í senn lipurðar og myndugleika svo reisnar Íslands væri gætt með sæmd. Hér kom austfirski uppruninn sér vel þar sem lotning fyrir orðum og borðum hefur aldrei keyrt um þverbak.

Í takt við tíðarandann fluttu börnin úr Hermes suður til mennta og starfa og bjuggu þau flest um tíma og oft samtímis á Þórsgötu 5. Húsið hafði Sigríður Kjerúlf, yndisleg amma okkar og móðir Þorgeirs, fengið í arf eftir móður sína Maddömu Guðríði, seinni konu séra Magnúsar Blöndal langafa okkar sem jafnframt var fósturfaðir Sigríðar. Húsið varð því nokkurs konar útibú frá Hermes fyrir sunnan. Þorgeir og Herdís fluttu í íbúðina á móti foreldrum okkar 1954, þá nýgift. Eins og margir lýstu því þá var það »brúðkaup aldarinnar«. Þar hallaðist ekki á gjörvileikann. Næsta víst er að sambýlið á Þórsgötunni á árunum 1943-1955 á sinn þátt í því hve tengsl systkinanna úr Hermes urðu náin á lífsleiðinni. Þorgeir ávarpaði aldrei móður okkar öðru vísi en með orðunum »Begga mín«. Við þóttumst líka eiga hlut í Þorgeiri og öll ungmennin í fjölskyldunni löðuðust að þessum glæsilega, glaðværa og skemmtilega frænda. Vinsældir hans meðal okkar bræðra og systur okkar voru slíkar að foreldrar okkar gátu á tímabili ekki farið út að skemmta sér nema Doddi passaði. Í upprifjun þessara æskuminninga ber aldrei skugga á nafn Þorgeirs Þorsteinssonar.

Þorgeir hafði til að bera austfirska reisn og höfðingslund og skilur við lífið rétt eins og hann lifði því, með reisn. Við kveðjum kæran frænda með virðingu og söknuði.

Eggert, Guttormur og Þorsteinn Ólafssynir.

Hjónabandi Herdísar föðursystur minnar og Þorgeirs Þorsteinssonar lauk um það leyti sem ég fór að muna eftir mér að ráði. Engu að síður hefur nálægð hans ætíð verið sterk og ég vil minnast hans í örfáum orðum. Þorgeir var glæsimenni, skemmtilegur og skarpgreindur með »glimt í øjet« eins og faðir minn heitinn hefði orðað það en pabba var alltaf hlýtt til fyrrum mágs síns. Seinni árin hitti ég Þorgeir eingöngu við stór tímamót í lífi barna hans eða barnabarna. Nú síðast í vor þegar tvær dótturdætur hans fögnuðu námsáföngum og stolt afans leyndi sér ekki. Þrátt fyrir nokkur þreytumerki vegna Elli kerlingar sýndi hann áhuga á högum mínum og minntist góðra stunda.

Fyrir nokkru hittumst við, börn systkinanna af Hávallagötu, og skoðuðum saman gamlar myndir. Þar á meðal voru einstaklega fallegar myndir sem teknar voru af ömmu Herdísi og afa Tryggva, börnum þeirra og tengdabörnum á sumarferðalagi um Hérað og Reyðarfjörð upp úr miðri síðustu öld. Veðrið er eins og best gerist á þessum slóðum, steikjandi hiti og glampandi sól. Það fer ekki á milli mála af hve mikilli gleði og reisn Þorgeir kynnir sveitina sína fyrir tengdafjölskyldu sinni né hve myndarlegt æskuheimili hans var. Þorgeir var af kynslóð foreldra minna. Kynslóð sem nú er óðum að hverfa. Hann var maður sem ég hef einhvern veginn alltaf þekkt en þekkti þó aldrei í raun. Börnum hans og fjölskyldum þeirra sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Sólveig Pálsdóttir.

Sýslumaðurinn hefur kvatt. Vinur minn, Þorgeir Þorsteinsson, hefur lokið jarðvist sinni eftir skammvin veikindi. Þorgeir var um árabil mjög þekkt nafn í íslenskri stjórnsýslu vegna umfangsmikilla og mikilvægra embættisstarfa á Varnarsvæðinu á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli, þar á meðal sem innlent yfirvald gagnvart herliði Bandaríkjanna á svæðinu. Yfirmenn hersins báru mikla virðingu fyrir Þorgeiri og var hann ætíð ávarpaður af þeim sem »Mr. Judge«.

Þorgeir kunni vel að meta hið góða og fagra í lífinu, ekki síst glæsilegar konur. Hann áleit sig vera gæfumann í einkalífi, þrátt fyrir tvo hjónaskilnaði. »Sá sem á heilbrigða og dugandi afkomendur – hann er sannarlega gæfumaður« sagði hann, og átti þar við sjálfan sig. Hafði ég eitt sinn orð á því við hann að hans afkomendur væru ekkert venjulega glæsilegir og framúrskarandi í þjóðfélaginu. Þá svaraði vinur minn: »Ég hef líklega verið góður til undaneldis.«

Síðustu árin þyngdist gangan í lífi Þorgeirs, ekki síst vegna hrakandi sjónar. Eru nokkur ár frá því að hann var úrskurðaður »lögblindur«, en þó hafði hann áfram bærilega ratsjón. Af þeirri ástæðu gat hann ekki um árabil notið afþreyingar við lestur eða sjónvarp. Meðal annars af þeirri ástæðu leitaði hann eftir dægradvöl og félagsskap síðdegis með spjallvinum á völdum veitingastöðum. Var hann gjarnan einn þekktasti og virtasti fastagesturinn og var sannarlega litið á hann sem »Grand old man«. Af mörgum þessara félaga hans var hann gjarnan nefndur Sýslumaðurinn – með stóru essi.

Þorgeir hélt reisn sinni og sjálfstæði til æviloka, og skildi við lífið án langvarandi sjúkralegu. Þannig slapp hann við þau örlög, sem hefðu ekki verið honum að skapi, að verða ósjálfbjarga og veslast upp í löngu veikindastríði. Það er þakkarvert. »Farðu með gát vinur« var ætíð kveðja hans til mín. Sannur höfðingi er horfinn af sviðinu, sem skilur eftir sig góðar og dýrmætar minningar. Blessuð sé minning Þorgeirs Þorsteinssonar.

Hermann Sveinbjörnsson.

Það er með miklum trega sem ég skrifa þessi minningarorð um vin minn, velgjörðamann og fyrrum yfirmann Þorgeir Þorsteinsson sem lést eftir stutta legu 84 ára að aldri. Fundum okkar Þorgeirs bar fyrst saman er ég sótti um starf við embætti hans á Keflavíkurflugvelli á tíunda áratugnum. Þorgeir er ógleymanlegur öllum sem honum kynntust. Mikill á velli. Mikill í lund, þó hann færi vel með það þann tíma sem við þekktumst. Undir yfirborðinu sem hann reyndi stundum að hafa hrjúft sló heitt og stórt hjarta. Þorgeir var heimsmaður, embættismaður af gamla skólanum, karlremba með auga fyrir kvenlegri fegurð. Hann var lífsnautnamaður, naut sín vel við góða máltíð eða með vín á skál. Það var nánast fastur liður að bera saman hádegismatseðilinn í Flugstöðinni og á Varnarsvæðinu. Síðan var valið á milli þess að fara uppí Stöð eða í Ástandið eins og hann orðaði það. Ef Flugstöðin varð fyrir valinu var ævinlega endað á því að »flaðra upp um Tollinn«. Hann sagði mér einhvern tíma að líklega væri hann villimaður því honum þætti betra að snæða austan Rínar þar sem skammtarnir væru almennilegir. Ég sagðist vera samskonar villimaður. Þorgeir var ævinlega vel til fara, klæddur eins og enskur Lord. Hann lagði einnig nokkuð uppúr því að menn væru vel til fara í starfi hvort sem þeir voru einkennisklæddir eður ei. Skömmu eftir að hann lét af störfum kom hann við í Grænásnum og hitti undirritaðan þar fyrir klæddan í jakkaföt en í bol nokkuð fínum. Hann spurði þá: »Eruð þið hættir að hafa um hálsinn hér?« Eftir að hafa hlustað á útskýringar um hversu þægilegur klæðnaður þetta væri lét hann sér fátt um finnast og sagði við þriðja mann sem stóð við hliðina á okkur: »Hann hefði nú ekki komist upp með þetta hjá mér.«

Það fór ævinlega vel á með okkur sem kannski sést best á því að við vorum sammála um að við hefðum viljað að samstarf okkar hefði hafist fyrr og staðið lengur. Það var vandi okkar að spila á spil í hádeginu og skiptast á skoðunum um hvorir væru merkilegri Eskfirðingar eða Reyðfirðingar. Honum var í nöp við tölvur og vildi frekar skrifa handrit að bréfum sínum. Hann hélt þétt um fjárhag embættisins og var lítt gefið um lausatök. Sagði þá gjarnan ef menn heimtuðu óvænt útgjöld: »Það er auðvelt að vera örlátur á annarra manna fé.« Þorgeir var fjölgreindur, talaði m.a. frönsku þegar þörf krafði. Hann var hafsjór af fróðleik um mannkynssögu. Þekkti vel sögu Napóleons og Bismarcks og vitnaði í báða. Tilsvörin voru stundum ótrúlega skemmtileg og eftirminnileg. Það eiga allir sem kynntust Þorgeiri að minnsta kosti eina góða sögu um leiftrandi tilsvör og hvernig hann lét enga eiga hjá sér hvorki háa né lága. Ég er þakklátur fyrir kynni mín af Þorgeiri, velvilja hans í minn garð og vináttuna sem við áttum. Síðasta spjallið áttum við í sumar eftir kosningarnar. Hann gladdist yfir árangrinum og átti ekkert nema góðar óskir mér til handa. Ég votta fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð og bið vini mínum blessunar á nýjum vegum.

Þorsteinn Sæmundsson.

Þorgeir Þorsteinsson, lögreglustjóri og sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, er látinn, 84 ára gamall. Leiðir okkar lágu fyrst saman vorið 1972 er ég hóf störf í ríkislögreglunni á Keflavíkurflugvelli, en Þorgeir var þá aðalfulltrúi Björns Ingvarssonar lögreglustjóra. Árið 1974 var Þorgeir skipaður lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli, en stuttu áður hafði ég hafið störf í lögreglunni í Keflavík. Í janúar árið 1990 lágu leiðir okkar Þorgeirs saman á ný, en þá var ég skipaður yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og starfaði með Þorgeiri allt þar til hann fór á eftirlaun haustið 1999.

Þorgeir var vandaður embættismaður á sérstökum og fjölmennum vinnustað, en embættið var stofnað vegna komu Bandaríska varnarliðsins til Íslands 1951. Þorgeir var lengi vel allt í senn sakadómari, tollstjóri og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli og heyrði embættið undir utanríkisráðuneytið.

Ég minnist Þorgeirs með virðingu og hlýhug. Hann gat verið hrjúfur á yfirborðinu, eins og oft var með embættismenn á þessum tíma, en Þorgeir var hjartahlýr og góður drengur og sýndi það gjarnan þegar einhverjir áttu í erfiðleikum.

Oft er sagt að feigum verður ekki forðað, né ófeigum í hel komið. Hér er lítið dæmi um slíkt. Þorgeiri var boðið að fara ásamt yfirmönnum varnarliðsins með þyrlu til Hvalfjarðar. Hvorki Björn Ingvarsson, þáverandi lögreglustjóri, né Þorgeir sem var staðgengill hans komust í þessa ferð. Fyrst hafði Birni verið boðið, en hann komst ekki og þá hafi verið leitað til Þorgeirs en hann komist ekki heldur. Þann 1. maí 1965 hrapaði þessi þyrla sunnan við Kúagerði upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd. Fimm varnarliðsmenn voru um borð og fórust allir.

Þorgeir var mikill framsóknarmaður. Hann fylgdist mjög vel með öllum stjórnmálum, bæði innlendum og erlendum. Hann var vel lesinn og fróður um menn og málefni. Þær voru oft fjörugar umræðurnar á kaffistofunni þegar menn tókust á um hin ýmsu álitamál. Þorgeir hafði mikinn áhuga á Frakklandi og var mjög vel að sér í franskri menningu.

Þorgeir var mikill áhugamaður um golfíþróttina og var einn af stofnendum Golfklúbbs Suðurnesja árið 1964 og lék sjálfur golf fram yfir sjötugt. Þorgeir var góður golfari, beinn á braut og baneitraður í stutta spilinu. Til marks um hæfileika hans þá var hann lengi með um 7 í forgjöf, þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að leika golf fyrr en eftir þrítugt.

Eðli máls samkvæmt myndast sérstök tengsl milli lögreglustjóra og yfirlögregluþjóns í lögregluliði eins og á Keflavíkurflugvelli. Það komu oft upp erfið mál, bæði lögreglumál og ekki síður starfsmannamál. Flest þessara mála leysti Þorgeir farsællega. Ég er lánsamur að hafa hitt Þorgeir á þessum árum og notið handleiðslu hans og ekki síður fyrir að hafa kynnst þessum skemmtilega og fróða manni.

Við hjónin sendum börnum Þorgeirs, aðstandendum og vinum hans, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Óskar H. Þórmundsson, yfirlögregluþjónn.

Meðal þess farareyris sem skólavist unglingsárnna fær okkur í hendur eru þau vináttubönd sem knýtast millum skólasystkina og verða mörg hver að þeim gildum sem eru okkur einna dýrmætust og birtugjafar til hinsta dags. Þorgeir Þorsteinsson sem nú er kvaddur var skólabróðir okkar um árabil við Menntaskólann á Akureyri og samstúdent vorið 1949. Nemendur við MA komu hvaðanæva af landinu og tengdust því hver öðrum með ýmsum hætti fremur en bæjarbúum sem þó voru viðmótsgóðir gagnvart þessum aðkomnu unglingum þótt þeir þyrftu stundum að sýna þeim umburðarlyndi.

Þorgeir var upprunninn á Búðareyri við Reyðarfjörð þar sem hann ól bernsku sína hjá upplýstum foreldrum, sem voru frammámenn í héraði og góðum systkinum. Framsóknarflokkurinn var á þessum árum nær einráður um pólitíska hugmyndafræði í byggðarlögum þar eystra og fór Þorgeir ekki varhluta af þeirri hreyfingu, var hann óbilandi fylgismaður flokksins alla ævi. Í dagfari Þorgeirs ríkti mikið jafnaðargeð en væri efast um ágæti framsóknarmanna mátti búast við gneistaflugi og vildu menn síður verða fyrir þeirri hrinu.

Þorgeir samlagaðist skólastarfinu vel og bar virðingu fyrir kennurum MA og anda skólans. Rækt var lögð við hinar klassísku námsbrautir menntaskólanna en Sigurður Guðmundsson og Þórarinn Björnsson fylgdu eftir stefnu móðurmálsverndar og upphafinni heiðursmannahugsjón. Þorgeir var næmur á þessa leiðarvísa skólameistaranna, hann átti létt með nám og þurfti ekki að leggja hart að sér. Fas hans og viðmót aflaði honum velvildar kennara og nemenda og væntumþykju margra. Við sem fylltum þann hóp sem mest var í fylgd með Þorgeiri áttum margar glaðar stundir og urðum ekki uppiskroppa með umræðuefni því Þorgeir var vel heima á mörgum sviðum. Hann var afar vel að sér í sögu en einnig í landafræði og lagði hann okkur til margan molann úr þessum fræðum. Það kom engum á óvart að Þorgeir, sem var maður rökfastur, skyldi leggja fyrir sig lögfræði í háskóla. Hann gat sér gott orð sem sýslumaður og lögreglustjóri á Suðurnesjum og kom honum þá einnig til góða hið farsæla brjóstvit sem mótaði alla hans framgöngu. Dómar hans þóttu vel grundaðir og var ekki hrundið á æðri dómstigum. Þorgeir blandaði geði við samferðamenn einkum við spilaborð og á golfvelli. Hann náði góðri leikni í þessum íþróttum einsog flestu því sem hann tók sér fyrir hendur.

Seinni árin var Þorgeir einbúi og virtist kunna því allvel, hann hélt sambandi við kunningja og vini við spilaborðin og lengi vel gerði hann sér ferð á einhvern grasvöllinn þar sem menn leika golf. Þegar við nú sjáum á bak skólabróður og vini syrtir að. Þorgeir var með gjörvulegustu mönnum og okkur öllum hugþekkur í hvívetna, hann er nú farinn til fundar við þau mörgu skólasystkin sem gengin eru, við hin sitjum eftir hljóð. Afkomendur Þorgeirs mega vel við una að eiga auð hugstæðra minninga. Börn hans vel menntuð og rík að hæfileikum litast nú um í föðurtúni, þau hafa hlotið þar arf sem mölur og ryð fá ei grandað.

Emil Als og Birgir J. Jóhannsson.

Þorgeir Þorsteinsson varði lunganum úr starfsævi sinni í gæslu laga og réttar á Keflavíkurflugvelli. Hann hóf þar störf 1959 þrítugur að aldri sem aðalfulltrúi lögreglustjórans, varð sjálfur lögreglustjóri 1974 og sýslumaður 1992 og gegndi svo sýslumannsembættinu allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1999.

Keflavíkurflugvöllur var á þessum árum innan skilgreindra varnarsvæða samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna en þau lutu lengst af yfirstjórn utanríkisráðherra. Lögreglustjóraembættið og seinna sýslumannsembættið heyrðu því undir utanríkisráðuneytið og átti Þorgeir því um áratugaskeið mikið og náið samstarf við varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins.

Flotastöðin í Miðnesheiði var á sinni tíð eitt af stærstu sveitarfélögum landsins þar sem ýmsar áskoranir risu í samskiptum íslenskra starfsmanna á flugvallarsvæðinu við varnarliðsmenn og skyldulið þeirra. Þorgeir lagði ávallt áherslu á lipra og greiða úrlausn allra mála og á örugglega stóran þátt í hversu vandræðalítið sambýlið við varnarliðið yfirleitt var.

Eftir því sem árin liðu jókst umfang borgaralegs flugs um Keflavíkurflugvöll og 1987 náðist loks sá langþráði áfangi að skilja það að umtalsverðu leyti frá starfsemi varnarliðsins með opnun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Undir forystu Þorgeirs gegndu lögreglustjóraembættið og síðar sýslumannsembættið mikilvægu hlutverki í að skapa íslensku millilandaflugi nútímastarfsskilyrði.

Samskipti ráðuneytisins við Þorgeir voru alltaf í föstum skorðum eins og ég kynntist sjálfur þegar ég hóf störf á varnarmálaskrifstofu fyrir bráðum 17 árum. Hlutunum var komið fyrir með einföldum en skilvirkum hætti. Sjálfsagt hefur það borið við að stundum væru skiptar skoðanir um skipulag og verklag en sjaldnast riðu menn feitum hesti frá því að reyna ráðskast með sýslumann. Gat þá stundum hvesst en eftirmál voru engin og ávallt jafngott að sækja Þorgeir heim á skrifstofuna í Grænási.

Að leiðarlokum þakkar utanríkisráðuneytið Þorgeiri Þorsteinssyni, lögreglustjóra og sýslumanni, fyrir áratugalangt samstarf og happadrjúg samskipti og vottar fjölskyldu hans hina dýpstu samúð.

Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri.

Þorgeir Þorsteinsson, lengst af lögreglustjóri og sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, var um margt merkilegur maður. Þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir og ég tók við af honum átti hann stundum erfitt með að sleppa takinu af gamla starfinu. Ég lagði mig því fram um að bjóða hann velkominn í heimsóknir á gömlu starfsstöðina sína, sem hann þáði, og eyddum við löngum stundum í spjall og kynntumst nokkuð vel.

Starfsævi Þorgeirs var samofin miklum breytingatímum í íslensku þjóðfélagi og það embætti sem hann stýrði lengstum var einskonar »ríki í ríkinu«. Stjórnsýsla Varnarsvæðanna var mjög sérstök og heyrði sem kunnugt er undir utanríkisráðuneytið. Þótt sambúðin við Varnarliðið hafi verið góð á yfirborðinu voru minniháttar árekstrar milli þessara tveggja menningarheima sem mættust á Varnarsvæðunum algengari en margir hugðu. Ör skipti yfirmanna hjá Bandaríkjamönnum þýddu að stöðugt þurfti að »skóla þá til« en það gat verið þolinmæðisverk. Þar naut Þorgeir sín vel. Hann var stoltur maður og hafði sinn stíl á því hvernig átti að »eiga við Kanana«. Það hlýtur að vera góður vitnisburður um hans embættisverk að sjaldan spurðist þessi núningur við Varnarliðið út. Hann hafði ýmis ráð við að róa Bandaríkjamennina ef honum fannst þeir æsa sig um of. Eitt þeirra var að senda þeim langt og flókið bréf á íslensku með mörgum lagatilvitnunum. Hann vissi að það tók þá tíma að þýða bréfið og átta sig á efnisinnihaldinu. Þessi tími nægði oft til að róa málið og »deilan« leystist farsællega.

Þorgeir var embættismaður af gamla skólanum og óhætt að segja að hann hafi haft sinn sjálfstæða stíl. Það er ekki víst að embættismenn í dag hafi sama svigrúm og hann hafði við sínar embættisfærslur. Hann var skarpgreindur, það fór ekki milli mála, og hafði hlýja og góða nærveru.

Það veitti mér oft mikla ánægju að lesa gömul skjöl og sjá efnistök hans. Margir þættir samskipta Íslands við Varnarliðið hafa verið lítt skráðir. Þar er frá mörgu að segja og eiga eflaust góðar sögur af Þorgeiri og hans embættisverkum eftir að eignast framhaldslíf þegar sú saga verður skráð.

Ég votta fjölskyldu Þorgeirs samúð og óska þeim Guðs blessunar.

Jóhann R. Benediktsson.

http://www.minningargrein.is/2013/12/14/thorgeir-thorsteinsson-minningargreinar/