Fundur með Lukashenko forseta Hvíta Rússlands

Fundur með Lukashenko forseta Hvíta Rússlands

Hinn 31. maí sl. var fyrsta varaforseta Feneyjanefndar Evrópuráðsins boðið á fund með forseta Hvíta Rússlands, Alexander Lukashenko í forsetahöllinni (Palace of Independence) í Minsk ásamt forsetum og varaforsetum stjórnlagadómstóla Rússlands, Kasakstan, Aserbaijan og Lettlands. (Síðastnefndu stöðunni gegnir Ineta Ziemele, fyrrum dómari við Mannréttindadómstól Evrópu en eiginmaður hennar er Dr. Guðmundur Alfreðsson sem er löngu þekktur á alþjóðavettvangi sem sérfræðingur í réttindum minnihlutahópa).

Fundurinn með forseta Hvíta Rússlands var sérstakur að því leyti að boðið kom fyrirvaralaust þar sem ofangreindir aðilar voru á fundi með Stjórnlagadómstól Hvíta Rússlands í Minsk, sem á sama tíma fagnaði 25 ára afmæli sínu.

Forsetinn lagði mikið upp úr því að hitta fulltrúa Feneyjanefndar eins og kom fram í fjölmiðlum enda stendur ríkið frammi fyrir ýmsum ögrunum á alþjóðavettvangi. Feneyjanefndin hefur á þrjátíu ára ferli sínum náð einstökum árangri í samskiptum við ríki (sérstaklega í Austur Evrópu) um framfarir á sviði stjórnskipunar með breytingu á stjórnarskrá sem og almennum lögum – og nýtur almenns trausts sem ráðgefandi aðili.

Erindi Herdísar Þorgeirsdóttur, fyrsta varaforseta Feneyjanefndar á fundinum með stjórnlagadómstólnum var að ræða réttarríkið þar sem réttindi einstaklingsins eiga að vera í forgrunni en ekki réttur stofnana og embætta á vegum ríkisins. Stjórnskipun sérhvers ríkis sem vill kenna sig við þá stjórnskipunarhefð sem varð til með frönsku stjórnarbyltingunni 1789 og stofnun Bandaríkja Norður-Ameríku er  að viðurkenna að valdið sé komið frá fólkinu; að grundvallar mannréttindi séu undirstaða réttarríks og þau bindi löggjafa, framkvæmdarvald og dómsvald í öllum sínum verkum. Stjórnskipun snýst því ekki fyrst og fremst um skipulag ríkisvaldsins heldur um hagsmuni borgaranna, grundvallarréttindi þeirra og frelsi einstaklingsins.

Á fundinum með Alexander Lukashenko talaði Herdís um réttarríkið og mannréttindi en vísaði einnig til sögunnar um Þorvald víðförla sem fór til Hvíta Rússlands eftir að hafa verið gerður brottrækur frá Íslandi í lok 10. aldar. Þar hafði Þorvaldur Koðránsson gert tilraun til að boða kristna trú án árangurs (ásamt þýskum biskupi) en uppskar háð landa sinna og varð tveimur að bana í kjölfarið. Þorvaldur fór síðan til Hvíta Rússlands, borgarinnar Polotsk sem þá var Mekka kristinnar trúar, reisti þar klaustur og lagði sitt af mörkum til þeirrar sögu sem síðar varð. Herdís talaði við Lukashenko um mikilvægi mannréttinda í réttarríki þar sem einstaklingur ætti að vera í forgrunni fremur en skipan ríkisvaldsins – hið síðara þjónar hinu fyrra en ekki öfugt. Hún ræddi réttinn til lífs en dauðarefsingar viðgangast enn í Hvíta Rússlandi og er það ástæðan fyrir því að ríkið fær ekki fulla aðild að Evrópuráðinu eða Feneyjanefndinni. Hún ræddi einnig tjáningarfrelsið og nauðsyn þess að í hverju ríki þrifist kröftug opinber umræða þar sem stjórnvöld yrðu að þola harða gagnrýni (án þess að bregðast við eins og Þorvaldur víðförli með vígaferlum) en ekkert væri hættulegra lýðræðinu en sljóir eða óvirkir borgarar sem létu sig engu varða gang mála á opinberum vettvangi.

Sjá hér frétt af heimasíðu Feneyjanefndar.

 

https://belarus24.by/en/news/president/a-lukashenko-belarus-interested-in-experience-of-foreign-countries-in-constitutional-law/

 

Jafnlaunavottun – skrif fyrir ráðstefnu á vegum ESB

Jafnlaunavottun – skrif fyrir ráðstefnu á vegum ESB

Þess var farið á leit við mig af austurrísku ráðgjafafyrirtæki  í apríl sl. að ég skrifaði grein um tilurð kerfis jafnlaunavottunar á Íslandi og ræddi kosti þess og galla vegna fyrirhugaðs námskeiðs sem halda skyldi á vegum framkvæmdastjórnar Esb. í lok  maí í Reykjavík og yrði pappírinn lagður til grundvallar umræðu. Þátttakendur á námskeiðinu komu víðsvegar að frá Evrópu. Sjá hér pappírinn.

 

Discussion paper_IS 2019

Meðfylgjandi myndir eru teknar á Tengslanets-ráðstefnunum, sem ég stóð fyrir á Bifröst á fyrsta áratug þessarar aldar og voru gífurlega fjölsóttar. Á efri myndinni er Ingibjörg Þorsteinsdóttir (síðar dómari við héraðsdóm Reykjavíkur). Hún kynnti á ráðstefnunni 2004 hugmynd um jafnréttiskennitölu fyrirtækja og varð það grunnurinn að því sem þróaðist út í að verða jafnlaunavottun.

 

Viðmiðunarreglur fyrir Umboðsmenn

Viðmiðunarreglur fyrir Umboðsmenn

Á aðalfundi sínum hinn 15. mars sl. samþykkti Feneyjanefnd Evrópuráðsins 25 grundvallarviðmið til verndar embættum umboðsmanna en mörg þeirra hafa sætt ítrekuðum ofsóknum á undangengnum árum. Embætti umboðsmanna eru mikilvæg í lýðræðisríkjum; þjónusta þeirra  þeirra stendur til boða þeim einstaklingum sem eiga ekki kost á því að fara með umkvörtunarefni sín í samskiptum við stjórnsýsluna fyrir dómstóla. Umboðsmenn geta aðhafst að eigin frumkvæði ef misbrests verður vart í stjórnsýslunni eða gegn meintum mannréttindabrotum og gegna því mikilvægu hlutverki andspænis stjórnvöldum sem verða að þola gagnrýni. Umboðsmenn standa á milli stjórnsýslu og borgara og eru því í lykilstöðu til að leiðrétta það sem miður fer. Viðmiðunarreglurnar sem Feneyjanefndin samþykkti til verndar og framgangi stofnana umboðsmanna “Feneyja-viðmiðin” eru ítarlegasti gátlisti sem gerður hefur verið í þágu þessara mikilvægu stofnana fyrir almenning og lýðræðið og embætti umboðsmanna í um 140 löndum heims komu að verkinu með ráðleggingum. Formaður vinnuhóps Feneyjanefndarinnar var Jan Helgesen fyrrum prófessor við lagadeild Oslóarháskóla og fulltrúi í Feneyjanefnd Evrópuráðsins um langt skeið. Umsjón með verkinu af hálfu starfsfólks Feneyjanefndar hafði Caroline Martin.

FENEYJA-VIÐMIÐIN (THE VENICE PRINCIPLES)

Jan Helgesen

 

Caroline Martin

Fulltrúar frá alþjóðlegum samtökum umboðsmanna sátu fundinn.

Fjárframlög til félagasamtaka

Fjárframlög til félagasamtaka

Þrír skýrsluhöfunda: Herdís Þorgeirsdóttir, Richard Clayton og Sarah Cleveland.

Á aðalfundi sínum hinn 15. mars sl. samþykkti Feneyjanefnd Evrópuráðsins nýja skýrslu um fjárframlög til félagasamtaka sem unnin var af hópi sérfræðinga sem eru fulltrúar í nefndinni: Herdísi Þorgeirsdóttur, Richard Clayton, Söru Cleveland, Veroniku Bilkova, Martin Kuijer og Pieter Van Dijk. Skýrslan er unnin að beiðni aðalframkvæmdastóra Evrópuráðsins 2016 sem vildi leggja línur fyrir ráðherranefnd Evrópuráðsins um hvaða viðmið ætti að hafa í huga þegar settar væru reglur í þágu gagnsæis um fjárframlög. Það er skýr niðurstaða nefndarinnar í þessari nýju úttekt að ekki megi setja félagasamtökum skorður með sama hætti og stjórnmálaflokkum eða lobbyistum, sem oft hafa mikið fjármagn til umráða til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í stjórnkerfinu. Þeir sérfræðingar sem unnu ofangreinda skýrslu hafa með einum eða öðrum hætti komið að öllum úttektum nefndarinnar á félagafrelsi undanfarin ár; þ.á m. áliti um lagasetningu í Rússlandi þar sem félagasamtök sem þáðu fjárframlög erlendis frá voru sett í hóp með útlendum ,,agentum” (svokölluð foreign agent law) og þeim voru settar verulegar skorður. Líkt var upp á teningnum í Kyrgystan. Í Ungverjalandi vildu stjórnvöld auka upplýsingaskyldu félagasamtaka vegna fjárframlaga sem og í Rúmeníu.

Sjá hér nánar um málið.

Jeremy Corbyn við innsetningu nýs forseta Mexíkó í embætti

Jeremy Corbyn við innsetningu nýs forseta Mexíkó í embætti

Rakst á Jeremy Corbyn leiðtoga breska Verkamannaflokksins í Mexíkóborg. Hann var við innsetningu nýs forseta landsins þar sem hann var sérstakur heiðursgestur. Nýi forsetinn, Andres Manuel Lopez Obrador er vinstri maður og populisti sem hefur heitið þjóðinni því að ráða niðurlögum mikillar spillingar í Mexíkó; draga úr vaxandi ójöfnuði og fátækt sem er mikil.