by Herdís Þorgeirsdóttir | 1.10.2021 | Almanak
Tók þátt í pallborðsumræðum á visir.is með Sigmari Guðmundssyni alþingismanni og Baldri Þórhallssyni prófessor um nýafstaðnar kosningar, meinta ágalla og möguleg úrræði. Mikilvægt að betrumbæta lagaumhverfi og framkvæmd kosninga en Feneyjanefndin hefur lagt áherslu á það að úrskurðir varðandi kjör og talningu er sérlega viðkvæmt ferli sem verður að vera hægt að áfrýja til dómstóls eða annars óvilhalls og sjálfstæðs aðila í samræmi við alþjóðleg viðmið. Umræðum stjórnaði Óttar Kolbeinsson Proppé.

by Herdís Þorgeirsdóttir | 9.07.2021 | Almanak
Á aðalfundi Feneyjanefndar daga 2. og 3. júlí voru samþykkt tvö álit sem undirrituð vann að. Annað álitið sneri að því hvort breytingar á ýmsum lögum í Rússlandi varðandi svokallaða “foreign agent” löggjöf stæðist alþjóðleg viðmið og mannréttindasamninga sem rússnesk yfirvöld eru skuldbundin að virða. Þetta er þriðja álitið sem Feneyjanefnd lætur frá sér varðandi þessa löggjöf sem þrengir mjög að rétti félagasamtaka og nú með nú með nýjustu lögunum, rétti fjölmiðla og einstaklinga. Fyrri álitin voru samþykkt 2014 og 2016.
Fyrstu “foreign agent”-lögin voru sett 2012 og síðan hafa verið gerðar frekari breytingar sem miða að því að þrengja frelsi félagasamtaka sem hafa notið fjárframlaga erlendis frá. Þeim var fyrst gert skylt með lagabreytingum 2012 að skrá sig sem erlenda útsendara (foreign agent) – sem er mjög neikvæður stimpill og undirgangast opinbera endurskoðun á reikningshaldi. Síðari breytingar á lögunum sneru að fjölmiðlum sem nutu fjárstuðnings erlendis frá.
Umfjöllun um nýtt álit nefndarinnar sem þingmannasamkunda Evrópuráðs kallaði eftir má sjá hér. Meðhöfundar að þessu áliti eru Veronika Bilkova, Angelika Nussberger og Jan Valaers. Feneyjanefndin varaði sérstaklega við fælingarmætti laganna á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi einstaklinga, félagasamtaka og fjölmiðla – og hvatti rússnesk stjórnvöld til að afturkalla ákveðna þætti laganna sem snúa að skyldu til að skrá sig sem erlendendan útsendara og frekari kvöðum og að öðrum kosti að endurskoða heildarlöggjöfina með því að þrengja skilgreininguna á “erlendum útsendara” – sem nú er undirorpið svo víðtækri túlkun að átt getur við einstakling sem fær sendan fjárstyrk frá ættingja í öðru landi. Þá er refsiramminn strangur og langt út fyrir meðalhóf í réttarríki.
Hitt álitið sem ég vann að og samþykkt var á fundinum sneri að nýsettum lögum í Tyrklandi sem ætlað er að stemma stigu við fjármögnun hryðjuverka og dreifingu gereyðingavopna. Lögin bitna þó einna helst á félagasamtökum og leiðum þeirra til fjáröflunar. Meðhöfundar að álitinu eru Pieter van Dijk og Cesare Pinelli.
I
by Herdís Þorgeirsdóttir | 20.03.2021 | Almanak, Frá stuðningsfólki
Á aðalfundi Feneyjanefndar hinn 19. mars var samþykkt álit sem Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir fulltrúi í nefndinni samdi ásamt Claire Bazy Malaurie og Martin Kuijer um það hvernig nokkur lagaákvæði, þ.á m í lögum um um fjöldasamkomur sem og hegningarlagaákvæði þar að lútandi samræmist evrópskum viðmiðum um félaga- og tjáningarfrelsi. Þessum lögum hefur verið beitt á friðsamleg mótmæli og félaga í samtökum sem mótmæltu úrslitum forsetakosningana í Hvíta Rússlandi hinn 9. ágúst 2020. Feneyjanefnd álítur lögin koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli í landinu.
Árið 2012 samþykkti Feneyjanefnd álit um lög um fjölda mótmæli og sendi frá sér tillögur sem enn eru í gildi þar sem þeim lögum hefur ekki verið breytt. Herdís var jafnframt einn höfunda 2012 álitsins þar sem þeim tilmælum var beint til stjórnvalda í Hvíta Rússlandi að tryggja bæri rétt einstaklinga til fundafrelsis og í því skyni væri mikilvægt að afnema þann lagaramma sem þá var í gildi (og er enn) að krefjast þess að fá heimild hjá stjórnvöldum til að koma saman opinberlega. Í stað þess væri unnt að setja tilkynninga-skyldu. Jafnframt bæri nauðsyn til að endurskoða öll lagaákvæði sem jafngiltu banni við fundafrelsi og takmörkunum á því hverjir gætur staðið fyrir og skipulagt fundi.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 24.01.2021 | Almanak
Í tilefni af 30 ára afmæli Feneyjanefndar, nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum, var gefin út bók, sem var að berast – með fjölda greina um stjórnskipun og mannréttindi. Myndin sýnir upphafið á mínu framlagi, sem fjallar um olígarka, óheft vald þeirra sem er stjórnskipulegt áhyggjuefni.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 11.12.2020 | Almanak
Dagana 11. og 12. desember sl. var aðalfundur Feneyjanefndar haldinn í gegnum netið. Þar kynnti Herdís drög að áliti sem hún er einn af höfundum að um átta meginreglur sem fylgja þarf til að tryggja grundvallar mannréttindaskuldbindingar í aðdraganda kosninga (Principles for a Fundamental Rights Compliante Use of the Digital Technologies in Electoral Processes). Sjá hér.

by Herdís Þorgeirsdóttir | 4.12.2020 | Almanak
Var með framsögu af hálfu Feneyjanefndar á fundi í Moskvu á vegum Stofnununar um samanburðarlögfræði sem heyrir undir stjórnvöld í Rússlandi. Efni fundarins var þróun á vettvangi stjórnskipunar í Rússlandi sem á alþjóðavettvengi. Erindi mitt fjallaði um mikilvægi þess að stjórnskipun byggði á grundvelli lýðræðis, réttarríkis og mannréttinda; að almenningur sem stjórnarskrágjafinn hefði aðkomu að mótun stjórnskipunar og breytingum á stjórnarskrám.

Ásamt Taliyu Khabrievu sem veitir forstöðu Lagastofnun um samanburðarlögfræði í Moskvu. Hún er þekktur lögfræðingur og hefur starfað með mér í Feneyjanefndinni um árabil. Myndin er tekin í Moskvu 2014.