Mynd frá Minsk af fundi með Lukashenko

Mynd frá Minsk af fundi með Lukashenko

 

Var að berast þessi mynd frá Minsk sem tekin var eftir fund með Alexander Lukashenko forseta Hvíta Rússlands sem ég fór á sem fulltrúi Feneyjanefndar Evrópuráðsins – fékk tækifæri til að ræða við hann um mikilvægi mannréttinda í réttarríki þar sem einstaklingur ætti að vera í forgrunni fremur en skipan ríkisvaldsins – hið síðara þjónar hinu fyrra en ekki öfugt. Ræddi réttinn til lífs en dauðarefsingar viðgangast enn í Hvíta Rússlandi og er það ástæðan fyrir því að ríkið fær ekki fulla aðild að Evrópuráðinu eða Feneyjanefndinni. Ræddi einnig tjáningarfrelsið og nauðsyn þess að í hverju ríki þrifist kröftug opinber umræða þar sem stjórnvöld yrðu að þola harða gagnrýni en ekkert væri hættulegra lýðræðinu en sljóir eða óvirkir borgarar sem létu sig engu varða gang mála á opinberum vettvangi. Hin konan á myndinni er Inete Ziemele fyrrum dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Aðrir eru æðstu dómarar við stjórnlagadómstóla í ríkjum A-Evrópu og mið-Asíu. Lengst t.h. er varaforseti stjórnlagadómstóls Rússlands.

European Equality Law Review: Hefnd með einelti

European Equality Law Review: Hefnd með einelti

Ákvæði 27. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 leggur bann við uppsögn þess sem fer fram á leiðréttingu á kjörum eða öðru broti á jafnréttislögum. Þetta kallast á ensku “protection from victimisation”. Skrifaði grein að beiðni ESB í fyrstu útgáfu European Equality Law Review 2019 þar sem ég fer ofan í saumana á þessu máli – ekki síst með tilliti til þess að oft snýst hefnd gegn kröfu um leiðréttingu upp í einelti á vinnustað.

Bianca Jagger

Bianca Jagger

Á alþjóðlegri ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi í London dagana 10. og 11. júlí sl. var einn gestana Bianca Jagger en hún er velgjörðarsendiherra Evrópuráðsins í baráttunni gegn dauðarefsingum. Bianca Jagger var á árum áður eitt “heitasta celeb” samtímans þegar hún var gift stórstjörnunni Mick Jagger í Rolling Stones. Þau gengu í hjónaband í St. Tropez á Ríveríunni árið 1974 og var brúðkaupið í heimsfréttunum þar eð Mick Jagger var þá þegar orðinn goðsögn. Eignuðust þau dótturina Jade en hjónabandið entist ekki nema í nokkur ár. Hér má sjá umfjöllun um feril Biöncu Jagger en hún er fyrir margra hluta sakir merkileg manneskja og ein af þeim fyrstu til að nota stjörnustatus sinn til að vinna að mannréttindamálum. Hún ólst upp í Managua, Nicaragua þar sem hún fæddist hinn 2. maí 1945. Faðir hennar yfirgaf fjölskylduna og bjó hún ásamt systkinum við lítil efni hjá einstæðri móður. Síðar fékk hún styrk til að fara í nám í stjórnmálafræði við Sorbonneháskólann í París.

Eftir að hjónabandi hennar og Mick Jagger lauk en þá var Bianca orðin víðfræg – fór hún ásamt nefnd frá Bandaríkjaþingi í flóttamannabúðir í Honduras. Í þeirri för varð hún vitni að því þegar 40 flóttamannamönnum var smalað saman til aftöku til El Salvador. Með ekkert annað að vopni en myndavélar eltu Bianca og hópurinn hennar dauðasveitina og þegar þau voru komin í návígi við hana gerðu þau hróp að skotmönnum sem vopnaðir vour M16 rifflum: Þið verðið að drepa okkur öll!  Hinir vopnuðu menn staðnæmdust, hugsuðu sinn gang, tóku myndavélarnar af Jagger og félögum og létu fórnarlömbin laus. — Þannig segir Bianca Jagger að hún hafi áttað sig á því hvernig hún gæti notað frægð sína öðrum til framdráttar. Þetta atvik markaði tímamót í hennar lífi og síðan þá, undanfarna fjóra áratugi hefur hún helgað sig baráttunni fyrir mannréttindum.

 

 

Alþjóðleg fjölmiðlaráðstefna í London

Alþjóðleg fjölmiðlaráðstefna í London

Talaði af hálfu Feneyjanefndar á alþjóðlegri fjölmiðlaráðstefnu í London 10. og 11. júlí sl. Fjallaði um öryggi blaðamanna; réttinn til lífs og tjáningar og sagði frá starfi Feneyjanefndar þ.á m. áliti sem ég og fleiri unnum. Þingmannasamkunda Evrópuráðsins fór þess á leit við Feneyjanefnd í október 2018 að nefndin ynni álit um ástand stjórnskipunar í landinu en fyrirspurnin kom í kjölfar skýrslu á vegum þingsins um hrottalegt morð á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia hinn 16. október 2017. Hún hafði verið að rannsaka spillingarmál nátengd stjórnvöldum, þ.á m. peningaþvætti, skattaskjól o.fl. Daphne Caruana Galizia var sprengd í loft upp nokkra metra frá heimili sínu í Valetta, höfuðborg Möltu. Skömmu eftir að beiðnin barst frá Evrópuráðsþinginu kom beiðni frá dómsmálaráðherra Möltu um að Feneyjanefnd skilaði áliti um stjórnskipun á Möltu, sjálfstæði dómstóla og stöðu réttarríkisins í hnotskurn. Rannsókn á morðinu hefur dregist á langinn og stjórnvöld á Möltu sætt harðri gagnrýni. Á undnafjörnum tveimur árum hafa nokkrir blaðamenn sem hafa verið að rannsaka spillingsrmál verið myrtir – í hjarta Evrópu, þ.á m. í Slóvakíku þar sem ungur blaðamaður og kærasta hans voru myrt í ársbyrjun 2018.  Fjallaði Herdís um skyldu stjórnvalda til að rannsaka morð af þessu tagi sérstaklega og þ.á m. í ljósi tengsla umfjöllunar blaðamannana og þeirra sem skipulagt hafi morðin því ekki sé nóg að benda á einhverja augljósa “leigumorðingja”.

 

Sjá ræðu Herdísar hér: https://www.venice.coe.int/webforms/events/?id=2792

Ráðstefnan var haldin að undirlagi utanríkisráðherra Bretlands  Jeremy Hunt og utanríkisráðherra Kanada, Chrystia Freeland. Jeremy Hunt skipaði mannréttindalögfræðinginn Amal Clooney sem sérlegan talsmenn fjölmiðlafrelsis fyrir Breta fyrr á þessu ári og var Clooney með framsögu á fundinum í London.

Sjá hér umfjöllun á vef Blaðamannafélags Íslands.

 

 

 

 

 

https://www.press.is/is/um-felagid/utgefid-efni/frettir/sterk-stofnanaumgjord-gegn-skadleysi-af-glaepum-gegn-bladamonnum?

Fundur með Lukashenko forseta Hvíta Rússlands

Fundur með Lukashenko forseta Hvíta Rússlands

Hinn 31. maí sl. var fyrsta varaforseta Feneyjanefndar Evrópuráðsins boðið á fund með forseta Hvíta Rússlands, Alexander Lukashenko í forsetahöllinni (Palace of Independence) í Minsk ásamt forsetum og varaforsetum stjórnlagadómstóla Rússlands, Kasakstan, Aserbaijan og Lettlands. (Síðastnefndu stöðunni gegnir Ineta Ziemele, fyrrum dómari við Mannréttindadómstól Evrópu en eiginmaður hennar er Dr. Guðmundur Alfreðsson sem er löngu þekktur á alþjóðavettvangi sem sérfræðingur í réttindum minnihlutahópa).

Fundurinn með forseta Hvíta Rússlands var sérstakur að því leyti að boðið kom fyrirvaralaust þar sem ofangreindir aðilar voru á fundi með Stjórnlagadómstól Hvíta Rússlands sem á sama tíma fagnaði 25 ára afmæli sínu.

Forsetinn lagði mikið upp úr því að hitta fulltrúa Feneyjanefndar eins og kom fram í fjölmiðlum enda stendur ríkið frammi fyrir ýmsum ögrunum á alþjóðavettvangi. Feneyjanefndin hefur á þrjátíu ára ferli sínum náð einstökum árangri í samskiptum við ríki (sérstaklega í Austur Evrópu) um framfarir á sviði stjórnskipunar með breytingu á stjórnarskrá sem og almennum lögum – og nýtur almenns trausts sem ráðgefandi aðili.

Erindi Herdísar Þorgeirsdóttur, fyrsta varaforseta Feneyjanefndar á fundinum með stjórnlagadómstólnum var að ræða réttarríkið þar sem réttindi einstaklingsins eiga að vera í forgrunni en ekki réttur stofnana og embætta á vegum ríkisins. Stjórnskipun sérhvers ríkis sem vill kenna sig við þá stjórnskipunarhefð sem varð til með frönsku stjórnarbyltingunni 1789 og stofnun Bandaríkja Norður-Ameríku er  að viðurkenna að valdið sé komið frá fólkinu; að grundvallar mannréttindi séu undirstaða réttarríks og þau bindi löggjafa, framkvæmdarvald og dómsvald í öllum sínum verkum. Stjórnskipun snýst því ekki fyrst og fremst um skipulag ríkisvaldsins heldur um hagsmuni borarana, grundvallarréttindi þeirra og frelsi einstaklingsins.

Á fundinum með Alexander Lukashenko talaði Herdís um réttarríkið og mannréttindi en vísaði einnig til sögunnar um Þorvald víðförla sem fór til Hvíta Rússlands eftir að hafa verið gerður brottrækur frá Íslandi í lok 10. aldar. Þar hafði Þorvaldur Koðránsson gert tilraun til að boða kristna trú án árangurs (ásamt þýskum biskupi) en uppskar háð landa sinna og varð tveimur að bana í kjölfarið. Þorvaldur fór síðan til Hvíta Rússlands, borgarinnar Polotsk sem þá var Mekka kristinnar trúar, reisti þar klaustur og lagði sitt af mörkum til þeirrar sögu sem síðar varð. Herdís talaði við Lukashenko um mikilvægi mannréttinda í réttarríki þar sem einstaklingur ætti að vera í forgrunni fremur en skipan ríkisvaldsins – hið síðara þjónar hinu fyrra en ekki öfugt. Hún ræddi réttinn til lífs en dauðarefsingar viðgangast enn í Hvíta Rússlandi og er það ástæðan fyrir því að ríkið fær ekki fulla aðild að Evrópuráðinu eða Feneyjanefndinni. Hún ræddi einnig tjáningarfrelsið og nauðsyn þess að í hverju ríki þrifist kröftug opinber umræða þar sem stjórnvöld yrðu að þola harða gagnrýni (án þess að bregðast við eins og Þorvaldur víðförli með vígaferlum) en ekkert væri hættulegra lýðræðinu en sljóir eða óvirkir borgarar sem létu sig engu varða gang mála á opinberum vettvangi.

 

https://belarus24.by/en/news/president/a-lukashenko-belarus-interested-in-experience-of-foreign-countries-in-constitutional-law/