
Myndir frá liðnum tíma . . .

Pabbi sjötugur og mamma í stuði. Þau voru löngu skilin þarna en létu það ekki stoppa sig í að vera áfram “fjölskylda”. Á myndinni eru systkini mín og Elísabet, dóttir Siggu systur.

Með samstarfskonum úr forsetaframboðinu 2012. Frá vinstri Marta B. Helgadóttir, Herdís, Anna Laufey Sigurðardóttir, Dögg Pálsdóttir og Guðný Oddsdóttir.

Á fundi í Tajkistan, haustið 2015. Forseti landsins, Emomali Rahmon fyrir miðju á mynd, var með framsögu. Hann hefur verið við völd frá því 1994, þ. á m. á tímum borgarastyrjaldar þar sem 100 þúsund manns féllu. Hann kleif metorðastigann í gegnum gamla sovéska kerfið og kommúnistaflokkinn. Gífurlega valdamikill.

Þarna er ég níu til tíu ára. Myndin er tekin á Laufásvegi hjá ömmu og afa Evu frænku minnar og jafnöldru.

Fannst svo smart að vera með slæðu á ákveðnu tímabili. Hér með mömmu og systkinum. Hef hnýtt slæðu á Siggu systur svo hún væri líka í tískunni.

Með Gunnar Þorgeir nýfæddan og yndislega ljósmóður mér við hlið, 15. október 1994. Engar konur finnst manni mikilvægari en ljósmæður.

Með lífverði forseta Ítalíu. Stjórn Feneyjanefndar átti fund með forseta landsins, Napolitano sem var að verða níræður í október 2014. Lífvörðurinn er ákaflega hávaxinn enda frá Svartfjallalandi.

Forsetaframboð 2012. Talaði um peninga í pólitík, mannréttindi og lýðræði. En það þurfti Bernie Sanders til (2016) að fólk færi að hlusta. Hef skrifað, talað og rannsakað tengsl fjármagns við fjölmiðla og pólitík í meira en 20 ár.

Með mömmu, Herdísi Tryggvadóttur og Siggu systur (Sigríður prófessor í heimspeki við HÍ) á Þingvöllum. Við sitjum á leiði Jónasar Hallgrímssonar – skáldsins og náttúruverndarsinnans.

Geng til fundar við ríkissaksóknara í Tyrklandi í janúar 2016 undir vökulu auga Kemal Atatürk, föður allra Tyrkja. Blaðamenn eru miskunnarlaust sóttir til saka fyrir skrif sín um pólitík í Tyrklandi um þessar mundir.

Yngsti bróðirinn skírður, Ófeigur Tryggvi í fanginu á mömmu. Sigga með perlufesti í fanginu á pabba; Steini í jakka með bindi og ég ábúðafull elsta systir á 7. ári.

Ungur blaðamaður á Morgunblaðinu. Hafði stundað nám í blaðamennsku á Fleet Street í London. Fannst ekkert skemmtilegra en að skrifa, skrifa, skrifa.

Sem nýkjörin forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga afhendi ég Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, penna eftir að hann flutti ræðu á ársþingi EWLA í Brussel 2010. Hann sagðist hafa vakað alla nóttina við að skrifa ræðuna.

Með forseta hæstaréttar Brasilíu, Ricardo Levandowski. Hann var á Fletcher School of Law í Boston eins og ég en útskrifaðist áður. Hæstiréttur Brasilíu úrskurðaði haustið 2015 að fjármögnun stórfyrirtækja í kosningum færi gegn stjórnarskrá landsins.

Bauð bandaríska metsöluhöfundinum Barböru Ehrenreich á síðustu tengslanets-ráðstefnuna sem ég stóð fyrir árið 2010. Hún starfaði huldu höfði sem lágt sett þjónustustúlka á ódýrum matsölustað um langt skeið þegar hún skrifaði bók um þá sem minna mega sín.

Með framsögu á fundi sem varaforseti Feneyjanefndar. Mér á vinstri hönd er Guido Raimondi, nýkjörinn forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.

Hef unnið í að yfirfara lagasetningu í Rússlandi á sviði mannréttinda. Hér í rigningu á Rauða torginu í september 2013.

Var skipuð í stjórn Evrópsku lagaakademíunnar 2012. Hér ásamt annarri stjórnarkonu, Diana Wallis frá Bretlandi.

Þegar ég var hálfs árs fór ég með foreldrum, móðursystkinum og mökum þeirra að heimsækja föðurforeldrana og fjölskylduna fyrir austan. Myndin er væntanlega tekin af afa Tryggva Ófeigssyni, útgerðamanni en á henni er ég með ömmu Herdísi Ásgeirsdóttur og ömmu Sigríði Þorvarðardóttur Kjerúlf og afa Þorsteini Jónssyni, kaupfélagsstjóra. Þau bjuggu í Hermes á Reyðarfirði. Mikill vinskapur var með öfum mínum.

Fyrsta tengslanets-ráðstefnan sem ég skipulagði sem prófessor við lagadeildina á Bifröst 2004. Vinsælasta ráðstefna til valdeflingar fyrir konur, sem haldin var um langt árabil.

Með Maríu Elísabetu, Herdísi, Hörð Tryggva og Gunnar Þorgeir um það leyti sem ég varði doktorsritgerð mína við lagadeildina í Lundi 2003. Ein með fjóra krakka sem urðu himinlifandi þegar það verk var frá.

Bauð Germaine Greer, einni þekktustu kvenréttindakonu heims á tengslanets-ráðstefnu 2006. Hún er beinskeytt með afbrigðum.