Til stuðningsmanna

 

Kæru öll,

Vil þakka ykkur sem studduð framboð mitt og málstað. Ykkur, sem ég hitti og spjallaði við á kosningamiðstöðinni, sendi ég sérstaka kveðju og þakkir. Einnig þakka ég þeim sem skrifuðu eða studdu framboðið með öðrum hætti.

Það er dýrmæt reynsla að taka þátt í kosningum og ég er afar þakklát ykkur, sem hafið verið gjöful á tíma, vinnuframlag og hvatningu.

Þið fylgduð ekki framboði fjöldans heldur framboði sem byggði m.a. á gagnrýni á spillingu og öflin að baki henni. Ísland hefur þegar beðið afhroð vegna spillingar en vegna fólks eins og ykkar er von um að við getum endurreist betra samfélag á rústum þess gamla með áherslum á að virkja lýðræðisvitund borgara og þátttöku í opinberri umræðu.

Óska ykkur alls hins besta og þakka enn og aftur fyrir stuðninginn.

Herdís

Sjá umfjöllun um framboð Herdísar í viðskiptablaði Svenska Dagbladet

Grein um Herdísi í Mbl. á kjördag

Viðtal við N4 á Akureyri á ferð um landið

Ólafur Mixa læknir: “Drottningin Herdís”

Ólafur Mixa læknir: “Drottningin Herdís”

ólafur mixaEftifarandi grein eftir Ólaf Mixa lækni birtist í Morgunblaði á kjördegi, laugardagin 30. júní: “Stundum hefur mér fundist að Íslendingar hafi illilega misst af bestu lögunum til að senda í Evrovisonlagakeppnina og úrslitin sannað það. Nú finn ég í aðdraganda forsetakosninga til svipaðrar kenndar. Í kjöri er allt hið mesta ágætisfólk. Skoðanakannanir virðast leiða í ljós að meirihlutafylgi beinist mest að tveimur af þeim sex frambjóðendum sem í kjöri eru. Eru þeir kallaðir turnar. Eins og hrókarnir á skákbretti. Hrókar eru sterkir skákmenn. Geta farið geyst í beinni línu í allar höfuðáttir. En þarna liggur meinið. Menn virðast gleyma því að fyrir miðju tafli sendur drottning sem er mun hreyfanlegri og getur brunað bæði beint og á ská og því enn öflugri skákmaður.

Það væri dapurlegt ef landsmenn létu það tækifæri úr hendi rakna að hefja slíka drottningu til virðingar. Herdís Þorgeirsdóttir ber í sér funa hugsjónamannsins. Eldheitur lýðræðissinni. Yfirlýstur andstæðingur spillingar, þjóðfélagslegs misréttis, ofbeldis peningaafla og stórfyrirtækja og hefur ekki legið á þeim skoðunum. Og ekki síst er hún virk baráttumanneskja fyrir mannréttindum um víðan heim og hefur aflað sér víðtæka reynslu í alþjóðastarfi á þeim vettvangi. Hún er skýrmæltur málsvari heiðarleika og gagnsæi í opinberu lífi. Staðföst og trú sinni sannfæringu, að ekki beri að gera sig á neinn hátt háðan peningavaldi að því marki að hún hafnar fjárframlögum og öðrum gylliboðum frá fyrirtækjum. Hefur aldrei skipað sér í flokkspólitískar viðjar, frjáls, sjálfri sér samkvæm, hugrökk og laus við tækifærismennsku og skrumkennda auglýsingamennsku. Opnar nú bókhald sitt, eins og eðlilegt er. Sú staðreynd að flestir hinna frambjóðendanna þumbast við þungir á brún við að gera hið sama segir meira en mörg orð um viðhorf þeirra og breytni gagnvart opnu lýðræði. Er þar eitthvað, sem best er að láta um kyrrt liggja um sinn?

Herdís hefur til brunns að bera gáfur, víðsýni, menntun og reynslu til að ljá sannfæringu styrk og festu. Innan lögfræðinnar hefur hún lagt stund á alþjóðastjórnmál, einkum mannréttindamálefni, m.a. á vegum opinberra stofnana í Evrópu. Þar er hún formaður Evrópusambands kvenlögfræðinga. Hún hefur stundað fræðimennsku hér? og erlendis, kennt sem prófessor alþjóðarétti. Þessi bakgrunnur og sú virðing sem hún nýtur og víðtæk sambönd getur gert henni kleyft að láta til sín taka á sviði lýðræðisþróunar og mannréttinda sem glæsilegur fulltrúi íslenskra gilda á alþjóðavettvangi.

Íslendingar hafa oft haft þá tilhneigingu að hnussa við akademískum andblæ í þjóðfélagslegri umræðu eða val á forystu. Frekar þótt koma til fólks sem er ?alþýðlegt?, kemur inn í bæ og fær sér molakaffi og skrafar við húsfreyjuna í eldhúsinu. Eða til einhvers sem í raun er þegar orðinn notalegur húsvinur fyrir tilstilli fjölmiðla.

Herdís Þorgeirsdóttir slær ekki um sig né hreykir sér hátt vegna þekkingar sinnar. Hún hefur í ræðu og riti haldið á lofti andófi gegn ofbeldi peningavalds og spillingar í þágu aukins lýðræðis og gegnsæi. Andmæli hennar hafa ekki alltaf vakið hrifningu meðal ráðamanna. Hún er blátt áfram en stefnuföst og svarar ekki hálfkveðnum vísum, margfróð, reynslurík, hnyttin. Og ekki ætti að styggja hve glæsileg hún er. Hún hefur þjóðhöfðingjafas. Það væri skaði ef við misstum af henni eins og einhverju Evróvisionlagi.”

Höfundur er læknir.

http://www.mbl.is/mm/mogginn/blad_dagsins/netgrein.html?art_id=142029

Verið hugrökk!

Verið hugrökk

Þessar forsetakosningar eru mikilvægar. Atkvæði þitt getur ráðið því hvort við kveðjum Ísland hruns og forheimskunar; Ísland útrásarvíkinga og vitleysu; ástand þar sem sumir urðu vellauðugir í bólu; bólu sem við flest og börnin okkar verða að greiða dýru verði með sköttum, vöxtum og verðtryggingu.
Við stöndum á tímamótum og það er í okkar höndum að ákveða hvernig samfélag við viljum endurreisa á rústum hrunsins. Það þarf hugrekki til að segja: hingað og ekki lengra. Það þarf hugrekki til að standa gegn þeim virkjum sem peningaöflin reisa með ítökum sínum í pólitík og pressu sem síðan hafa jafnvel áhrif á prófessora og ritfæra penna. Skyldi því nokkurn undra að almenningur sé áttaviltur.

Ekki vera hrædd.

Valdið kann að virðast ógnvekjandi. Valdið byggir á ótta og það byggir á þöggun. Valdið treystir því að enginn þori að andmæla þeim boðskap sem það lætur út ganga; á vinnustaðnum og í fjölmiðlunum. Valdið treystir því að allir dásami það einum rómi og í því felst það. Valdið hæðir og spottar þann sem fer gegn því en það þorir ekki að horfast í augu við hann. Valdið er lúmskt og lævíst og það notar aðrar aðferðir en heiðarleika, heilindi og sannleika þótt það
skreyti sig með alls konar merkimiðum þegar á þarf að halda.

Verið hugrökk.

Hugrekki er kjarni þess að vera frjáls. Tjáningarfrelsið sem er verndað í flestum stjórnarskrám og öllum alþjóðlegum mannréttindasamningum er frelsið til að hafa skoðun og tjá hana án ótta um afkomu sína.
Valdinu stendur ekki meiri ógn af nokkru en skoðanafrelsi sem jafnvel dregur lögmæti þess í efa. Þá sendir valdið út varðhunda sína og segir urrdan bítt‘ann.
Jafnvel kletturinn Pétur brást lærimeistara sínum á ögurstundu af því að hann óttaðist hið veraldlega vald. Hann afneitaði vináttu sinni við Jesú þrisvar þá sömu nótt og Jesú var svikinn. Dæmi um þöggun valdsins.
Hugrekkið felst í því að fylgja samvisku sinni og treysta á það réttlæti sem er jafnvel ofar réttlæti þessa heims – en sá sem fylgir samvisku sinni og sannfæringu hann er frjáls í hjarta sínu – um hann flæðir vellíðan líkt og endorfín í líkama hlaupara – hann verður andlega sterkur á meðan þýlyndið framkallar þunga og slen þess hvers sál er í fjötrum ótta og þöggunar.

Viljum við vera frjálsir borgarar sem tjáum skoðanir okkar án ótta eða erum við þegnar þýlyndis, þrælar óttans. Því fleiri sem fylla fyrri hópinn því meiri líkur á að kraftmiklir borgarar nái tökum á lýðræðinu eins og hlauparar sem skara fram úr því þunglamalega hlassi sem valdið byggir tilvist sína á.

Kjósum af sannfæringu. Valdið er í okkar höndum.

Björn Bjarnason um forsetakosningarnar 2012

Björn Bjarnason um forsetakosningarnar 2012

björn bjarnasonEins og augljóst hefur verið frá því að Ólafi Ragnari snerist hugur og hann ákvað að bjóða sig fram að nýju bar hann sigur úr býtum í forsetakosningunum.

Ég hef ekki fylgst náið með baráttunni. Hætti að horfa umræðuþáttinn í sjónvarpinu í gær, leiðinlega var haldið á stjórn hans. Of mikil áhersla á neikvæða þætti. Þetta yfirbragð stuðlaði að lélegri kjörsókn.

Herdís Þorgeirsdóttir sagði réttilega í sjónvarpsþætti í kvöld að tilfinningin hefði orðið sú að stjórnarandstæðingar legðust á sveif með Ólafi Ragnari en stjórnarsinnar Þóru. Við það tók að fjara undan Þóru auk þess sem Ólafur Ragnar sló hana út af laginu strax og hann hóf kosningabaráttu sína.

http://www.bjorn.is/dagbok/nr/6362