by Herdís Þorgeirsdóttir | 12.08.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Nýlega benti umboðsmaður heilsugæslunnar í Svíþjóð á ýmsa annmarka sem fylgja einkavæðingu stofnana fyrir eldri borgara í kjölfar hneykslismála, sem upp komu vegna slæmrar meðferðar á fullorðnu fólki.
Sænskir fjölmiðlar hafa flutt fréttir af því hvernig fyrirtæki, sem rekur stofnanir fyrir eldri borgara hefur sett gróðann af rekstrinum á oddinn, góð laun og bónusa fyrir stjórnendur í stað þess að sinna þörfum þeirra sem búa á stofnununum.
Benti umboðsmaðurinn á að þessir eldri borgarar væru ekki að njóta áhyggjulauss ævikvölds. Réttindi þeirra væru brotin með margvíslegum hætti. Þeim væri hvorki sýnd hlýja né virðing og fagmennsku í umönnun þeirra væri stórlega ábótavant.
Flestir vilja verða gamlir en enginn vill vera gamall og alls ekki ef viðhorfin hér að ofan verða ríkjandi.
Margir af eldri kynslóðinni, hvort sem er hér eða annars staðar, voru aldir upp við það að taka ekki að sér verk nema að geta sinnt þeim sómasamlega. „Yfir litlu varstu trúr og yfir mikið mun ég setja þig“ var boðskapurinn – enginn yrði góður skipstjóri nema að hafa verið góður háseti.
Í græðgis- og neysluvæðingu undafarinna áratuga hefur þessum boðskap verið snúið á hvolf. Menn eru oft og iðulega settir yfir mikið óháð verðleikum. Af hverju skyldi það vera hægt? Vegna þess að aðrir axla ábyrgð af því sem fer úrskeiðis þegar hæfileikalausir eða óábyrgir einstaklingar eru settir i stöður sem þeir valda ekki.
Dæmin blasa alls staðar við. Íslendingar súpa seyðið af vitleysunni í kringum einkavæðingarferli bankanna um ókoma tíð. Nafngiftin andverðleikasamfélagið hefur fest sig í sessi. Menn eru skipaðir út og suður án þess að vera hæfir. Flokksskírteini vegur oft þyngra en prófskírteinið. Engum dytti í hug að skipa landsliðið í fótbolta út frá flokksskírteinum. En þegar tapinu er hvort eð er velt yfir á almenning skipta hæfnissjónarmið minna máli.
Hér hefur þróast það sem ég kalla „fyrirtækja-flokksræði“ – óformlegt bandalag fjársterkra hagsmunaðila og stjórnmálamanna þar sem ítök í fjölmiðlum skipta miklu. Í samfélagi sem er stýrt með þessum hætti dafna óæskilegir eiginleikar mannlegrar breytni. Þótt fólk skynji órétt og finni lyktina af spillingu þegir það af því að þeir sem ljóstra upp um slíkt eru „jaðraðir“ – settir út á jaðarinn og oft sæta þeir þaðan einelti frá varðhundum kerfisins. Ungu konurnar í Pussy Riot , sem íslenska „kerfið“ tekur nú upp á arma sína – voru að hrópa út á jaðrinum. Þær voru að andmæla kerfi þar sem pólitískt vald byggir á peningaöflum.
Samkennd, ein af forsendum siðaðs samfélags, blómstrar ekki í „fyrirtækja-flokksræði“. Þeir sem hagnast á því fyrirkomulagi tímabundið verða einhvern tíma gamlir eins og sænsku fórnarlömbin á stofnunum, sem rekin eru af bíræfnum aðilum. Þeir sem hagnast á vondu kerfi verða fórnarlömb þess síðar. Sama hver á í hlut.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 11.08.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Mitt Romney kynnir varaforsetaefni sitt, Paul Ryan. Hingað til hafa 44 gegnt stöðu forseta – allt karlar og 47 gegnt stöðu varaforseta – allt karlar.
Konur eru 157 milljónir í Bandaríkjunum en karlar 151.8 milljónir. Konur eru 58,6 % af vinnuaflinu en um 1% ráða yfir 43% alls auðs í Bandaríkjunum.
Paul Ryan er 42 ára – vill draga úr skattlagningu á þá ríku og og draga úr útgjöldum til velferðarmála. Hann hefur setið á þingi síðan hann var 28 ára og hefur enga reynslu úr viðskiptalífinu en er formaður fjárlaganefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Hver sem niðurstaða kosninganna verður eru Bandaríkin í ógöngum. „Við munum endurreisa Bandaríkin sem stórveldi“ sagði Ryan við útnefninguna.
Um 7,5 milljón kvenna búa við sára örbirgð og rúm 40% einstæðra mæðra í Bandaríkjunum búa við fátækt.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 6.08.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Leo Tolstoy. Myndin er tekin 1908 tveimur árum áður en hann dó.
7. ágúst 2012
Hvað eiga presturinn og mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King (1929-1968), frelsishetja Indverja Mathma Gandhi (1869-1948) og rússneski rithöfundurinn Leo Tolstoy (1828-1910) sammerkt? Jú, hugsjónina um að þjóna mannkyni í baráttu fyrir réttlæti með friðsamlegri andstöðu og borgaralegri óhlýðni. Martin Luther King tók upp baráttuaðferðir Gandhis um friðsamleg mótmæli og borgaralega óhlýðni – en Gandhi varð fyrir áhrifum af Leo Tolstoy og skrifaði honum eftir að hann las bók hans Guðsríki er innra með yður. Þar segir Tolstoy að allt hugsandi fólk verði að taka afstöðu um hvort það ætli að feta þrönga veginn og berjast fyrir réttlæti. Tolstoy benti einnig á hvernig valdhafar hafa lag á því að láta fólkið sjálft verða þátttakendur í því að viðhalda þeim ójöfnuði og óréttlæti sem viðgengst – þannig að hinir undirokuðu eru farnir að beita sjálfa sig harðræði —- þegar fólk samsamar sig með skoðanakúgun mætti það minnast þess að Jesú gekk inn í helgidóminn í Jersúsalem og tók að reka út þá sem voru að selja þar og kaupa og hratt um borðum víxlaranna . . . húsið sem átti að vera bænahús höfðu þeir gert að ræningjabæli.
Að gagnrýna spillingu og stöðuga viðleitni þeirra sem eru við völd að viðhalda ríkjandi ástandi – er ekki borgaraleg óhlýðni heldur borgaraleg skylda.
Mathma Gandhi og Martin Luther King.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 3.08.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Fjölmiðlajöfurinn Rubert Murdoch íhugar að styðja Boris Johnson [borgarstjóra í Lundúnum] til að taka við af David Cameron [forsætisráðherra Breta] sem formaður Íhaldsflokksins. Þannig hefst frétt í breska blaðinu Guardian í gær, 2. ágúst.
Ég minni á að Tony Blair, þáverandi formaður Verkamannaflokksins, komst til valda sem forsætisráðherra Breta vorið 1997 fyrir tilstuðlan Ruberts Murdoch, sem beitti blaði sínu the Sun gegn því að Tony Blair myndi ekki láta verða af lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum sem til stóð þá vegna vaxandi uggs um áhrif fjölmiðlajöfra á pólitíska umræðu og almenna skoðanamótun. Um þessi tengsl vissu ýmsir um strax í upphafi (sjá bók mína Journalism Worthy of the Name (útg. 2005), bls. 352 – en þau eru fyrst núna að vekja almenna athygli samanber umfjöllun Guardian. Enda var það lengi vel illa þokkað að hafa orð á ítökum fjársterkra aðila í fjölmiðlum og stjórnmálum – og er enn, því miður!
Lance Price fyrrum almannatengill Blair kallar Rubert Murdoch 24. ráðherrann í ríkisstjórn Blair. (Guardian 28. maí 2012).
Alastair Campell sem var blaðafulltrúi Tony Blair frá 1997 til 2003 segir í dagbókarskrifum sínum að Rubert Murdoch hafi gengið í lið með bandarískum stjórnvöldum til að hraða þátttöku Breta í Írakstríðinu en hann hafi beitt Tony Blair miklum þrýstingi viku áður en breska þingið samþykkti að senda herlið til Írak í mars 2003 (Guardian 15. júní 2012).
Enn eitt dæmið um ógnvænleg áhrif sem fjársterkir aðilar hafa á stjórnvöld í gegnum fjölmiðla – en slík valdbeiting var rauði þráðurinn í doktorsritgerð minni 2003 og bók sem kom út hjá Kluwer Law International 2005.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 30.07.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Grein birt í Morgunblaðinu 28. júlí 2012
Fyrr á árinu spurði ég mann með mikil umsvif um afstöðu hans til Evrópusambandsaðildar. Hann svaraði hreinskilnislega að það væri skárra að una við spillinguna í nærumhverfinu á Íslandi en að verða fyrir barðinu á henni frá Brussel.
Spilling, hvort sem hún ræður ríkjum hér eða í Brussel, er óviðunandi. Henni má líkja við það ástand sem fékk Matthías Jochumson til að yrkja Volaða land 1887 eftir að hafa jarðsett föður fjögurra barna sem hafði dáið úr hungri. Ísinn var landfastur og ekki hægt að róa út. Árferðið var ægilegt og þúsundir flúðu landið. Matthías gerði sig að skotmarki sinnar tíðar með því að verja fátæklingana sem fóru. Nú, 2012, flýja auðmenn landið – margir þeirra sem högnuðust á bólunni fyrir hrun hlaupa í skjól á tímum þar sem mörg ríki Evrópu eru á bjargbrún gjaldþrots. Mikil auðæfi eru falin í skattaskjólum og milljarðar afskrifaðir hjá flokksgæðingum á meðan aðrir berjast í bökkum, einstaklingar, fyrirtæki, heilsugæsla og velferðarþjónusta.
Evrópa – ein mínúta til miðnættis
Í þýska Spiegel er grein um það hve ástandið er orðið alvarlegt í Evrópu; almenningur fljóti sofandi að feigðarósi nú þegar klukkuna vantar eina mínútu í miðnætti. Evrópusambandið er komið út á bjargbrúnina; Grikkland á barmi gjaldþrots, Spánn, Portúgal og Írland skjögrandi með bankakerfið í öndunarvél og efnahagshorfur Þjóðverja, Hollendinga og Lúxemborgara eru ekki lengur stöðugar heldur neikvæðar. Ástandið í sautján ríkjum evrusvæðisins hefur áhrif á útflutning þeirra ríkja sem eiga þar í viðskiptum, þar á meðal Ísland í ofanálag við slæma skuldastöðu. Hrynji evrusvæðið gætir afleiðinganna í efnhagskerfinu á heimsvísu.
Evrópusambandið var sett á laggirnar á sjötta áratug síðustu aldar til að koma í veg fyrir að hörmungar síðari heimsstyrjaldar endurtækju sig. Erfiðleikarnir stigmagnast og stjórnvöld standa ráðþrota frammi fyrir hinum stóra vanda. Hagfræðingar kalla eftir róttækri endurskipulagningu til að koma í veg fyrir efnahagslegt afhroð og pólitíska upplausn. Um leið er varað við því að afleiðingar af þeirri fjármálapólitík sem leiddi til hrunsins verði settar á herðar almennings.
Mörgum verður tíðrætt um ástandið í Weimarlýðveldinu og hvernig bankakreppan í upphafi fjórða áratugar leiddi til uppgangs fasisma í Evrópu. Ýmis teikn eru á lofti; atvinnuleysi er gífurlegt, gjáin milli þinga og þjóða dýpkar og kröfur verða háværari um bjargvætti í gervi sterkra leiðtoga. Spurt er hve lýðræðisleg samfélög þoli mikinn ójöfnuð og varað er við pólitískum afleiðingum hans og upplausn samfélaga.
Nýafstaðnar forsetakosningar endurspegla á vissan hátt þennan tíðaranda. Turnarnir tveir voru annars vegar framboð stjórnarandstöðu sem höfðaði til þeirra óöruggu sem töldu sitjandi forseta mótvægi við ríkisstjórnina og hins vegar framboð fyrirhruns-aflanna í Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki sem vilja sporna gegn því að forsetaembættið verði valdameira.
Er sterkur leiðtogi svarið?
Umræður um beitingu málskotsréttarins og ummæli um að Bessastaðir yrðu síðasta stoppistöðin gegn yfirgangi þingsins minna á umræður í Weimar-lýðveldinu um þörfina á sterkum leiðtoga á síðustu dögum þingræðis. Einn helsti stjórnmála- og lögspekingur í Weimar-lýðveldinu var Carl Schmitt. Hann tók sér stöðu með íhaldsöflunum og skrifaði ritgerð um að foringinn gætti réttarins (Der Führer schutzt das Recht) þar sem hann lagði fræðilegan grundvöll að hugmyndum um raunverulegan lýðræðissinnaðan einvald til leysa úr því öngþveiti sem ríkti í Weimar-lýðveldinu. Schmitt taldi að slíkur leiðtogi gæti sameinað og beint hagsmunum þjóðarinnar í farveg fyrir ákvarðanatöku og ef þjóðin (das Volk) fylkti sér að baki honum væri árangurinn tryggður.
Þegar Schmitt setti hugmyndir sínar fram var hann ekki með Hitler og uppgang plebeískra öfgaafla í huga. Hann gekk þó til liðs við Nasistaflokkinn eins og heimspekingurinn Martin Heidegger. Hvorugur þreifst þó vitsmunalega í þeim félagsskap. Nú kallast þýski stjórnmálaprófessorinn Herfried Münkler á við kenningar Schmitt. Hann hefur undanfarin ár haldið þeirri skoðun á lofti að lýðræðið sé ekki svarið í þeim efnahagsþrengingum og stöðu sem upp er komin í Evrópu. Hann heldur því fram að lýðræðislegar stofnanir séu gengnar sér til húðar og í raun búi ríki ekki við lýðræði heldur flokksræði miðstéttarinnar sem gangi ekki upp. Hann bendir á vantraust ungu kynslóðarinnar á stjórnmálastéttinni enda hafi hún ekki reynst vandanum vaxin.
Á sama tíma og Alþingi Íslendinga nýtur innan við 10 prósent trausts skammtar þingheimur sér sjálfur hlunnindi og bíður svo eftir tillögum um nýja stjórnarskrá þar sem völd þingsins á kostnað Bessastaða-stoppistöðvarinnar verði tryggð.
Ástandið er ekki bara tragískt, það er líka farsakennt – hér og þar. Hvað er til ráða? spyr Münkler. Að losa sig við þá sem eru við völd og kjósa aðra í þeirra stað. Hverju breytir það? Kosningar tryggja ekki að við fáum hæfa ríkisstjórn. Munkler skefur ekki af hlutunum og segir að við þær félagslegu, efnahagslegu og pólitísku aðstæður sem eru uppi nú geti lýðræði ekki þrifist. Herfried Münkler er virtur fræðimaður í Þýskalandi og óttast margir að þessi viðhorf hans endurspegli þá þróun sem stjórnkerfi víða eru að sigla í átt að.
Münkler hefur rétt fyrir sér að því leyti til að stjórnmálamenning er á lágu stigi eins og hjá okkur »fyrir« hrun. Almenningur var andvaralaus og lýsing Matthísar viðeigandi: – »þorskhausa land – kviðflatta kútmagastía«.
Lýðræði er alltaf svarið!
Það er einnig rétt að flokksræði miðstéttarinnar er ekki lausn á vandanum. En það gengur ekki upp að kasta hugmyndinni um lýðræði og mannréttindi fyrir róða og afhenda fámennum valdakjarna örlög þjóða. En bíddu við! Hvar eru völdin í dag? Þau eru hjá fámennum fjármálaklíkum. Þar liggur hundurinn grafinn en ekki í þeirri staðreynd að flokksræði miðstéttarinnar er orðið hrákasmíð. Af hverju minnist prófessor Herfried Münkler ekki á það?
Lýðræði þrífst ekki við ákveðnar efnahagslegar og pólitískar aðstæður – þar sem tengslin milli peningaafla, fjölmiðla og stjórnvalda ógna grundvallarmannréttindum. Aðstæður sem ala af sér stjórnmálamenningu »þorskhausa« eru ekki jarðvegur fyrir lýðræðislega ákvarðanatöku. Eina von Evrópu í dag er ekki blóðug bylting, ekki samþjöppun valds í sterkum leiðtoga heldur almenn vitundarvakning. Allt annað er afturför.
Höfundur er lögmaður og sérfræðingur á sviði mannréttinda
Sjá nýja grein í Spiegel (6. ágúst 2012) þar sem Mario Monti forsætisráðherra Ítalíu, hefur valdið uppnámi meðal þýskra stjórnmálamanna þar sem hann hvetur til þess að þjóðþing ríkja á evrusvæðinu afsali sér valdi til að auðveldara verði að veita einstökum evru-ríkjum neyðaraðstoð. Hann hvetur til þess að ríkisstjórnir geti aðhafst án aðkomu þjóðþinganna og þykja tillögur hans ólýðræðislegar. Í greininni hér fyrir ofan sem birtist í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku benti ég á að þessi sjónarmið Monti, sem hafa nú valdið miklu uppnámi, eru fyrir þó nokkru farin að láta á sér kræla sbr. skrif prófessors Herfried Münkler – en ég bendi einnig á í þessari grein að þessar hugmyndir eiga rætur að rekja til kenninga eins helsta lögspekings Weimar lýðveldisins, Carl Schmitt en nasistar tóku hann upp á arma sína.
(Grein sem birtist í Morgunblaðinu á miðopnu þann 28. júlí 2012).
by Herdís Þorgeirsdóttir | 19.07.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Birti aftur pistil sem ég skrifaði á kjördag
Þessar forsetakosningar eru mikilvægar. Atkvæði þitt getur ráðið því hvort við kveðjum Ísland hruns og forheimskunar; Ísland útrásarvíkinga og vitleysu; ástand þar sem sumir urðu vellauðugir í bólu; bólu sem við flest og börnin okkar verða að greiða dýru verði með sköttum, vöxtum og verðtryggingu.
Við stöndum á tímamótum og það er í okkar höndum að ákveða hvernig samfélag við viljum endurreisa á rústum hrunsins. Það þarf hugrekki til að segja: hingað og ekki lengra. Það þarf hugrekki til að standa gegn þeim virkjum sem peningaöflin reisa með ítökum sínum í pólitík og pressu sem síðan hafa jafnvel áhrif á prófessora og ritfæra penna. Skyldi því nokkurn undra að almenningur sé áttaviltur.
Ekki vera hrædd.
Valdið kann að virðast ógnvekjandi. Valdið byggir á ótta og það byggir á þöggun. Valdið treystir því að enginn þori að andmæla þeim boðskap sem það lætur út ganga; á vinnustaðnum og í fjölmiðlunum. Valdið treystir því að allir dásami það einum rómi og í því felst það. Valdið hæðir og spottar þann sem fer gegn því en það þorir ekki að horfast í augu við hann. Valdið er lúmskt og lævíst og það notar aðrar aðferðir en heiðarleika, heilindi og sannleika þótt það skreyti sig með alls konar merkimiðum þegar á þarf að halda.
Verið hugrökk.
Hugrekki er kjarni þess að vera frjáls. Tjáningarfrelsið sem er verndað í flestum stjórnarskrám og öllum alþjóðlegum mannréttindasamningum er frelsið til að hafa skoðun og tjá hana án ótta um afkomu sína.
Valdinu stendur ekki meiri ógn af nokkru en skoðanafrelsi sem jafnvel dregur lögmæti þess í efa. Þá sendir valdið út varðhunda sína og segir urrdan bítt‘ann.
Jafnvel kletturinn Pétur brást lærimeistara sínum á ögurstundu af því að hann óttaðist hið veraldlega vald. Hann afneitaði vináttu sinni við Jesú þrisvar þá sömu nótt og Jesú var svikinn. Dæmi um þöggun valdsins.
Hugrekkið felst í því að fylgja samvisku sinni og treysta á það réttlæti sem er jafnvel ofar réttlæti þessa heims – en sá sem fylgir samvisku sinni og sannfæringu hann er frjáls í hjarta sínu – um hann flæðir vellíðan líkt og endorfín í líkama hlaupara – hann verður andlega „fit“ á meðan þýlyndið framkallar þunga og slen þess hvers sál er í fjötrum ótta og þöggunar.
Viljum við vera frjálsir borgarar sem tjáum skoðanir okkar án ótta eða erum við þegnar þýlyndis, þrælar óttans. Því fleiri sem fylla fyrri hópinn því meiri líkur á að kraftmiklir borgarar nái tökum á lýðræðinu eins og hlauparar sem skara fram úr því þunglamalega hlassi sem valdið byggir tilvist sína á.
Kjósum af sannfæringu. Valdið er í okkar höndum.