by Herdís Þorgeirsdóttir | 14.02.2013 | PISTLAR & FRÉTTIR
Tjáningarfrelsið er mikilvægast allra réttinda en það nær ekki til stórfyrirtækja, sem beita fjármagni í pólitík til að ná töglum og högldum í samfélaginu.
— Ronald Dworkin um dóm hæstaréttar Bandaríkjanna Citizens United v. FEC í janúar 2010 –dóm sem hann sagði réttilega ógna lýðræðinu þar eð stórfyrirtækjum væri þar játað frelsi á grundvelli tjáningarfrelsis til að nota fjármagn að vild til kynningar á frambjóðendum.
(Ronald Dworkin (1931-2013), einn þekktasti og virtasti fræðimaður á sviði mannréttinda og stjórnskipunar látinn.)
14. febrúar 2013
by Herdís Þorgeirsdóttir | 10.02.2013 | PISTLAR & FRÉTTIR
Menntamálaráðherra Þýskands, Annette Schavan, hefur sagt af sér í kjölfar þess að Heinrich Heine-háskólinn í Dusseldorf dró til baka doktorsgráðu hennar vegna ritstuldar. Karl-Theodor Zu Guttenberg, þá varnarmálaráðherra Þýskalands var einnig tilneyddur til að segja af sér árið 2011 þegar uppvíst varð um ritstuld hans við smíði doktorsritgerðar sinnar. Það er álíka neyðarlegt fyrir menntamálaráðherra að verða uppvís að ritstuldi og ef kæmi í ljós að fjármálaráðherra væri með peningana sína í skattskjólum. Sýnt þykir að Annette Schavan notaði kerfisbundið efni frá öðrum við samningu doktorsritgerðar sinnar. Slíkt þykir óboðlegt í samfélagi þar sem menntun er í hávegum höfð og því fylgir fræðileg og fagleg ábyrgð að hafa doktorsnafnbót.
Að axla ábyrgð er hluti af þeirri stjórnfestu sem er kjölfesta þess að lýðræðið geti þrifist. Stjórnmálamenn verða samkvæmt því að gangast við alvarlegum yfirsjónum sem og aðrir sem gegna háum opinberum stöðum. Höfundar bandarísku stjórnarskrárinnar voru sér þess mjög meðvitaðir að ein frumforsenda þess að unnt væri að byggja upp lýðveldi væri sú að þeir sem færu með völd í umboði fólksins væru „dyggðugir“ –annað væri ávísun á spillingu.
Stjórnfesta þar sem menn axla ábyrgð hefur ekki einkennt íslenskt samfélag. Bankahrunið var afleiðing ábyrgðarleysis og pólitískrar spillingar; samfélags þar sem menn og konur vinna kerfisbundið í klíkum að því að komast að kjötkötlum. Þegar ný ríkisstjórn tók við eftir hrun var það ein af tillögum forsætisráðherra að setja starfsmenn stjórnsýslu á námskeið í stjórnfestu og láta draga upp siðareglur svo að þeir sem gegndu opinberum störfum áttuðu sig á hvar mörkin lægju. Hér er engin forsaga um riddaramennsku og „noblesse oblige“ – þ.e. að þeir sem gegna virðingarstöðumum átti sig á því að vandi fylgir vegsemd hverri – að „heiður“ og „sómi“ kalla á ríka ábyrgðarkennd gagnvart samfélaginu.
Það grefur undan réttarríkinu þegar það viðgengst að sneiða hjá reglum og ábyrgð. Það grefur undan lýðræðinu þegar forystan setur sjálfa sig í forgrunn og hagsmuni almennings í aftursætið.
Því eru það góð skilaboð til umheimsins þegar ráðherrar í Þýskalandi segja af sér vegna ritstuldar.
10. febrúar 2013
by Herdís Þorgeirsdóttir | 7.01.2013 | PISTLAR & FRÉTTIR
Grískur tímaritaútgefandi og blaðamaður, Kostas Vaxevanis, skrifar grein í New York Times á þrettándanum undir heitinu – Rotna gríska fámennisklíkan (Greece’s Rotten Oligarchy). Þar segir hann gríska lýðræðið í molum. Eftir fall herforingjastjórnarinnar 1974 varð til einhverskonar bastarður af útþynntu lýðræði þar sem fólk hafði kosningarétt og rétt til að mótmæla á opinberum vettvangi. Fámenn klíka hafði hins vegar áfram tögl og hagldir.
“Hin fámenna klíka manna í viðskiptum sem gætu ekki þrifist án fyrirgreiðslu stjórnvalda en þykjast vera sjálfstæðir frumkvöðlar í ólgusjó markaðsaflanna . . .”
Hann segir að þrátt fyrir mikla umfjöllun um ömurlegt ástand grísku þrenginganna liggi margt ósagt. Kreppan hafi kallað fram átök um hagsmuni og hugmyndafræði þar sem tekist sé á um hið opinbera og velferðarkerfið. Já, í Grikklandi er hið opinbera kerfi í lamasessi, segir greinarhöfundur, af því að undanfarna áratugi hafa stjórnvöld mannað opinbera geirann með stuðningsmönnum alveg óháð hæfni þeirra. Aðalvandinn varðandi stjórnkerfið er þó hin fámenna klíka manna í viðskiptum sem gætu ekki þrifist án fyrirgreiðslu stjórnvalda en þykjast vera sjálfstæðir frumkvöðlar í ólgusjó markaðsaflanna. Þessir aðilar „múta“ stjórnvöldum (lesist: greiða í kosningasjóði) og uppskera feita fyrirgreiðslu. Þeir hinir sömu eru að jafnaði með sterk ítök í fjölmiðlum og geta því þaggað niður umfjöllun um hátterni sitt. Sumir hafa keypt fótboltalið til að tryggja sér almennar vinsældir og slá ryki í augu fjöldans til að fela „hvítflibbaglæpina“ sína.
“Almenningur er ekki upplýstur um það hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni þar sem sjónvarpsstöðvum, dagblöðum og fjölmiðlum á netinu er stjórnað af þessari klíku úr viðskiptum og pólitík . . .”
Greinarhöfundur tekur dæmi af spillingunni. Árið 2011 hafi þáverandi fjármálaráðherra og núverandi formaður jafnaðarmannaflokksins, Pasok, átt frumkvæði að nýjum lögum um eignaskatt, sem þjóni hagsmunum auðugasta hluta þjóðarinnar. Þessi sami stjórnmálamaður átti einnig frumkvæði að lögum sem drógu úr ráðherraábyrgð.
Svona spilling hefur viðgengist í Grikklandi um langt árabil, segir greinarhöfundur. Almenningur er ekki upplýstur um það hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni þar sem sjónvarpsstöðvum, dagblöðum og fjölmiðlum á netinu er stjórnað af þessari klíku úr viðskiptum og pólitík.
“Eina vonin í stöðunni er að almenningur rísi upp gegn sjónhverfingum og spillingu . . .”
Greinarhöfundur rifjar einnig upp annað dæmi um spillingu, sem ég hef minnst á hér áður, en það er svokallaður Lagarde-listi. Árið 2010 afhenti þáverandi fjármálaráðherra Frakka og nú yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðins, Christine Lagarde, grískum stjórnvöldum lista með nöfnum tvö þúsund grískra ríkisborgara sem áttu innistæður í svissneskum bönkum. Þetta gerði Lagarde til að auðvelda grískum stjórnvöldum að koma upp um skattsvik. Grísk stjórnvöld aðhöfðust hins vegar ekki. Tveir fyrrum fjármálaráðherrar lýstu því m.a. yfir í gríska þinginu að þeim væri ekki kunnugt um þennan lista. Í millitíðinni fóru ýmsir fjölmiðlar offari „í smjörklípum“ með því að draga fram nöfn nokkurra einstaklinga til að fela hinn ljóta veruleika að stór hópur auðugra Grikkja reyndi að komast hjá því að greiða skatta á meðan örvæntingarfullir fátæklingar rótuðu í ruslinu eftir fæði.
“Afhverju þögðu fjölmiðlar?”
Þegar greinarhöfundur birti Lagarde-listann í tímaritinu Hot Doc, sem hann gefur út, í október sl. var hann handtekinn og ákærður fyrir brot á friðhelgi einkalífs. Valdhafar urðu ekki ánægðir þegar hann var sýknaður – svo nú hefur honum verið birt önnur ákæra á öðrum en óljósum forsendum, segir hann í greininni. Þá segir hann að aðrir grískir fjölmiðlar hafi þagað um allt ferlið – Lagarde-listann, birtinguna í Hot Doc, handtöku hans og sýknu. Fjölmiðlar utan Grikklands fjölluðu um málið sem stórfrétt.
Afhverju þögðu fjölmiðlar í Grikklandi? Jú, segir greinarhöfundur, vegna þess að Lagarde-nafnalistinn afhjúpaði þá staðreynd að spillt klíka, sem þykist heita „lýðræðislegir valdhafar“ og aðilar með umsvif í skattaskjólum, vinir og skyldmenni pólitíkusa, bankamenn og fjölmiðlaeigendur, sem athafna sig á svörtum markaði, gefa lítið fyrir lýðræðishugsjónina.
“Ný smjörklípa, einum karli fórnað til að bjarga og viðhalda hinu spillta kerfi . . .”
Eftir að útgefandinn hugrakki birti Lagarde-listann í tímaritinu sínu brugðust stjórnvöld á engan hátt við. Fjármálaráðherrann sem yfirgaf embætti sitt nokkrum mánuðum áður hafði tekið CD diskinn með nöfnunum með sér þegar hann gekk út úr ráðuneytinu og skilaði honum ekki aftur fyrr en sú pínlega staða kom upp að eftirmaður hans í embætti þurfti að svara fyrirspurn New York Times um listann í október s.l. og sagðist aldrei hafa séð hann. Ráðherrann sem hafði stungið diskinum í vasann var ekki látinn svara fyrir það né fór mál hans fyrir rannsóknarnefnd þingsins.
Listinn var síðan birtur í nýrri útfærslu, segir greinarhöfundur, og var þá búið að fjarlægja nöfn skyldmenna fyrrum fjármálaráðherra frá 2009-2011 af listanum. Sá ráðherra hefur verið rekinn úr jafnaðarmannaflokknum og þarf nú að svara rannsóknarnefnd þingsins. Það vofir jafnvel yfir honum að vera sviptur þinghelgi og ákærður. Ný smjörklípa, segir höfundur, einum karli fórnað til að bjarga og viðhalda hinu spillta kerfi.
“Blaðamenn verða að sporna gegn sjálfs-ritskoðun og endurheimta þá hugdirfsku sem þarf til að sinna skyldum varðhundar almennings . . .”
Greinarhöfundur segir að betur og betur sé að koma í ljós hvað margt er rotið í Grikklandi á barmi gjaldþrots, sem grísk stjórnvöld reyna að forða með aukinni skattpíningu hinna efnaminni. Helmingur ungra Grikkja er atvinnulaus og hagkerfið er sem lamað. Fólk er jafnvel svangt og nýnasistaflokknum, Gullinni dögun vex ásmegin þar eð örvæntingarfull alþýða þarf útrás fyrir reiði sína í garð þeirra sem hafa ráðið för.
Greinarhöfundur segir að eina vonin í stöðunni sé sú að almenningur rísi upp gegn sjónhverfingum og spillingu. Blaðamenn verða að sporna gegn sjálfs-ritskoðun og endurheimta þá hugdirfsku sem þarf til að sinna skyldum varðhundar almennings. Stjórnvöld verði að endurlífga hina forn-grísku lýðræðishugmynd í stað þess að reyna að jarða þá lifandi, sem segja sannleikann.
Finnst ykkur þetta hljóma kunnuglega?
by Herdís Þorgeirsdóttir | 29.11.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Nú er rifjað upp í netheimum að í byrjun mars 2012 var sett á laggirnar á Facebooksíða sem hét Betri valkost á Bessastaði; sjá umfjöllun Viðskiptablaðsins hér. Þar er m.a. greint frá því að margir hafi verið skráðir í hópinn á síðunni að þeim forspurðum. Herdís Þorgeirsdóttir var í hópi þeirra sem var skráð þarna inn án þess að leitað væri eftir samþykki hennar en nafn hennar sem hugsanlegs frambjóðanda hafði verið í umræðunni. Á síðunni voru óformlegar vinsældakannanir og margir létu í ljósi skoðanir um mögulega frambjóðendur, oft gáleysislega en einnig á rætinn og lítilsvirðandi hátt. Þarna fengu menn smjörþefinn af því sem koma skyldi ef til framboðs kæmi. Síðunni um “Betri valkost á Bessastöðum” var lokað um leið og kosningabaráttan var komin í gang enda kom fljótlega í ljós að hér var stuðningsfólk eins frambjóðanda að verki og stofnun síðunnar virtist liður í fyrirhuguðu framboði. Stjórnendur síðunnar (sjá meðfylgjandi mynd) voru enda yfirlýstir stuðningsmenn framboðs Þóru Arnórsdóttur í kosningunum.
Svala Jónsdóttir einn aðstandenda hópsins um “Betri valkost á Bessastaði”, þá starfsmaður á lögfræðiskrifstofu í Reykjavík, hafði samband við Herdísi 8. mars 2012 og sagðist hafa stofnað þennan hóp á Facebook. Hún spurði hvort Herdís vildi taka þátt í skoðanakönnun þar sem teflt væri fram nöfnum einstaklinga sem höfðu verið í umræðunni í sambandi við hugsanlega forsetaframbjóðendur. Hún sagðist vera kanna hug þeirra sem mældust hafa fylgi samkvæmt óformlegum skoðanakönnunum á þessari síðu. Enginn yrði hafður með í könnun sem ekki vildi þar vera. Herdís kvaðst ekki vilja vera með í slíkri könnun og hefði það ekkert að gera með áform hennar. Hún vildi einfaldlega ekki taka þátt í könnun á þessu stigi með þessum aðilum enda borðleggjandi að sá aðili sem Svala studdi, og kom vel í ljós þegar kosningabarátta var formlega hafin, var með öflugt forskot, landsþekkt vegna stöðu sinnar hjá Ríkissjónvarpinu í Kastljósinu oft í viku og í þættinum Útsvari á hverjum föstudegi (þar til rúmri viku eða hálfum mánuði áður en framboð hennar var kynnt). Aðstandendur síðunnar notuðu það síðan gegn Herdísi að hafa ekki viljað vera með í skoðunkönnun sem þeir stóðu að. Var þá þegar ljóst að þetta var ekki óvilhallur hópur, enda fór Svala Jónsdóttir, sem og fleiri stjórnendur síðunnar, mikinn á Facabook í aðdraganda kosninganna og voru sum óspör í rætnum athugasemdum í garð framboðs Herdísar, sem þeir virtist standa sérstakur stuggur af þrátt fyrir að fylgi mældist lítið í skoðanakönnunum.
Það var yfirlýst markmið þessa hóps að koma með mótframboð gegn Ólafi Ragnari Grímssyni enda ljóst eins og Egill Helgason bendir hér á að forsetinn átti öfluga andstæðinga í röðum Samfylkingar og Vinstri Grænna í kjölfar þess að hann vísaði í tvígang Icesave samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Herdís var ekki í hópi andstæðinga sitjandi forseta þótt hún færi í framboð. Eins og fram kom í málflutningi hennar í kosningabaráttunni kvað hún hann að ýmsu leyti hafa verið framúrskarandi forseta, ekki síst í ljósi þess að hann virkjaði 26. grein Stjórnarskrárinnar í þágu beins lýðræðis og stóð sig mjög vel í að verja hagsmuni Íslendinga á alþjóðavettavangi í kjölfar Icesave. Herdís Þorgeirsdóttir var einna fyrst til að vara við samningum um Icesave í grein í Fréttablaðinu 20. júní 2009, löngu áður en málið kom inn á borð Forseta Íslands enda svaraði hún því aðspurð í kosningabaráttunni að hún myndi einnig hafa vísað Icesave í þjóðaratkvæði.
Forsetakosningarnar 2012 voru hápólítískar kosningar þar sem stjórnmálaflokkar fylktu liði að baki tveimur frambjóðendum; sitjandi forseta annars vegar og Þóru Arnórsdóttur hins vegar. Á þetta benti hinn ágæti fjölmiðlamaður Egill Helgason í skrifum sínum. Hann velti einnig fyrir sér frammistöðu fjölmiðla í þessu samhengi: “Maður hefði haldið að Herdís Þorgeirsdóttir ætti að geta haft meira fylgi, en fjölmiðlarnir hafa að mestu sniðgengið hana. Hún virðist ekki eiga mikið innhlaup þar. En það er greinilega mikil þekking á fjölmiðlum og almannatengslum samankomin í framboði Þóru. Herferðin þar sem undirskriftum var safnað um síðustu helgi bar vott um það – má í rauninni segja að þá hafi aðrir sem voru í framboðshugleiðingum verið hræddir burt”.
Það var nokkuð ljóst frá byrjun að fjölmiðlar voru hlutdrægir í kosningabaráttunni, kom strax í ljós í umfjöllun DV og nærmyndum, sem þeir birtu af frambjóðendum. Í nærmynd um Herdísi var samantekt á neikvæðum ummælum sem höfð voru eftir nafnleysingjum. Þegar Herdís tilkynnti um framboðið sat á fremsta bekk fréttamaður RUV sem var í stuðningsmannaliði eins frambjóðandans ásamt öðrum fréttamanni sem einnig var í sama stuðningsliði. Það var ljóst að baráttan yrði fyrir margra hluta sakir ekki sanngjörn, sér í lagi þar sem aðal keppinautur sitjandi forseta kom beint af vettvangi Ríkisútvarpsins, ein vinsælasta sjónvarpskona landsins, sem naut þess forskots að vera á skjá í sjónvarpi allra landsmanna þar til nokkrum dögum áður en hún kynnti framboð sitt. Hún hafði verið í Kastljósinu, helsta fréttatengda þætti sjónvarpsins og Útsvari. Margir starfsmenn útvarps og sjónvarps lágu ekki á skoðunum sínum og stuðningi við hana. Sakir þessa var ljóst að önnur framboð gátu vart treyst því að umræðan yrði málefnaleg og lýðræðisleg á vettvangi Ríkisútvarpsins. Sjá hér. Í framvindunni var ofangreint sjónarmið staðreynt.
Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi skýrði frá því opinberlega þegar leið á kosningabaráttuna að haft hefði verið samband við hann og hann verið beðinn að draga framboð sitt til baka. Sjálf lét Herdís ógert að segja frá miður ánægjulegu símtali sem aðila nákomnum henni barst í upphafi kosningabaráttunnar eftir að fyrstu skoðanakannanir sýndu lágt fylgi við aðra en sitjandi forseta og framboð Þóru.
Í lok maí fékk Herdís send símaskilaboð frá manni sem starfar á auglýsingastofu. Herdís svaraði ekki skilaboðum mannsins en taldi að hann myndi hafa samband við kosningastjóra hennar ef erindið væri brýnt. Hann hringdi síðar í aðila henni nákominn, sem hann er kunnugur sjálfur. Benti hann á að Herdís mældist það lág í skoðanakönnunum að best væri fyrir hana að draga framboð sitt til baka ella yrði henni “stútað” með rógsherferð, (“ef hún hættir núna getur hún komist hjá því að vera stútað“); menn væru á launum og þetta stefndi í ógeð; (“Betra að hætta núna áður en þetta stefnir í ógeð”); staðan væri “game over” fyrir Herdísi. Þetta sagði hann í símtalinu og var skráð eftir honum. Maður þessi sagði í lok kosningabaráttunnar á FB síðu sinni hinn 29. júní 2012 eftir sjónvarpsþátt með frambjóðendum á RÚV:
Sem einn umsjónaraðili auglýsinga fyrir Þóru Arnórsdóttur vil ég segja: Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar um fjármál framboðsins, umfang auglýsinga og uppruna framlaga til þess eru viðurstyggð. Óhróður, vísvitandi lygi, rógburður og óblandað ógeð. Ég tek fram að ég starfaði við framboð Ólafs Ragnars Grímssonar 1996 og hafði aðgang að gögnum um fjármögnun þess. Þetta er hreinn og óblandaður óheiðarleiki.
Hér fjallar Egill Helgason um þessa vefsíðu 10. apríl 2012.
Hér fjallar Egill um að fjölmiðlar hafi sniðgengið Herdísi Þorgeirsdóttur. Hún virðist ekki eiga mikið innhlaup þar.
Hér fjallar Egill Helgason um skoðanakönnun hópsins sem stóð að síðunni um “Betri valkost á Bessastaði”.
Laugardagur 24.03.2012 – 16:01 – Ummæli ()
Hópur sem er að leita að frambjóðanda gegn Ólafi Ragnari Grímssyni lét Capacent gera könnun á forsetaefnum fyrir sig. Niðurstðurnar munu vera svohljóðandi.
Ólafur Ragnar trónir langefstur – þó ekki með nema 33,9 prósent.
Í öðru sæti er Þóra Arnórsdóttir, hún er með 14,5 prósent.
Elín Hirst kemur í þriðja sæti með 7,8 prósent
Salvör Nordal er með 7,3 prósent.
Páll Skúlason með 7,0 prósent.
Steán Jón Hafstein með 6 prósent.
Og Þórólfur Árnason með 5,1 prósent og Ari Trausti Guðmundsson með 5 prósent.
Svarhlutfallið var 62,8 prósent – það vekur athygli – en úrtakið var 1346 manns.
http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2012/04/13/fjolmidlaslagur/?fb_comment_id=fbc_10150679636851896_23259852_10150680372331896#f246ffb0f
Egill Helgason 10. apríl 2012
Þriðjudagur 10.04.2012 – 10:09 – Ummæli ()
Það er mikið deilt um það núna hvort framboð Þóru Arnórsdóttur sé á vegum Samfylkingarinnar eða Evrópusinna. Einum þeirra sem hefur haldið þessu fram, Páli Vilhjálmssyni, er úthúðað á internetinu eins og hann sé fábjáni eða þaðan af verra. Það lýsir miklu óþoli – og er áhyggjuefni.
Framboðið er ekki á vegum Samfylkingarinnar eða stjórnarflokkanna – en það á upptök sín þar. Fólk úr Samfylkingunni hefur í langan tíma verið í dauðaleit að kandídat sem gæti fellt Ólaf Ragnar, það var mikið þrýst á Rögnu Árnadóttur að fara í framboð, hún kærði sig ekki um það á endanum. Svo var stofnuð vefsíða þar sem voru tilnefndir kandídatar og loks var efnt til skoðanakönnunar. Niðurstaðan í þessu var að Þóra væri sterkasti kandídatinn.
Að baki þessu ferli stóð fólk sem langflest er í Samfylkingunni og stuðningsliði ríkisstjórnarinnar. Það hefur svo gerst að Þóra hefur víðari tilhöfðun en bara inn í raðir stuðningsmanna stjórnarinnar – sem hvort sem er fer mjög fækkandi. Ef hún liti bara út eins og agent stjórnarflokkanna myndi hún seint geta náð fjöldafylgi.
Það er hins vegar ljóst að Samfylkingarfólk mun telja það mikinn sigur fyrir sig að fella Ólaf Ragnar Grímsson. Það leggur fæð á hann vegna synjunarinnar í Icesavemálinu – það var í raun hún sem gerði út um möguleika stjórnarinnar til að halda trausti og vinsældum. Það sér að mál sem flokkurinn hefur beitt sér sérstaklega fyrir eru að klúðrast, sérstaklega þó ESB aðildin. Það verður viss huggun að fá forseta sem er skaplegri en Ólafur Ragnar – en það vegur varla upp á móti á vonbrigðunum sem felast í því að stjórninni, með fyrsta forsætisráðherra Samfylkingarinnar, er að mistakast að gera þær stóru breytingar á samfélaginu sem kveðið var á um í stjórnarsáttmála, og því að fylgi flokksins er hrunið.
Staðreyndin er nú samt sú að í sögu lýðveldisins hefur skipt frekar litlu máli hver er forseti – nema sá sé tilbúinn að beita valdi sínu eins og Ólafur Ragnar hefur gert. Hann er umdeildur maður, Ólafur, en þó sá forseti sem fær langmest pláss í sögubókunum. Við erum að fara inn í forsetakosningar þar sem við vitum eiginlega ekki hvað við fáum yfir okkur, viljum við forseta sem beitir málskotsréttinum oft, sjaldan eða aldrei?
Og í hvaða málum þá?
Það er stóreinkennileg staða þegar kosið er í slíkt embætti að það velti í raun á geðslagi frambjóðandans hvernig hann beitir valdi sínu.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 6.11.2012 | PISTLAR & FRÉTTIR
Lúthersk afstaða (birtist m.a. í Passíusálmunum): hlýðni við réttlátt yfirvald, óhlýðni við óréttlátt vald! Hallgrímur Pétursson var ekki eingöngu trúarskáld. Hann var svarinn andstæðingur valdníðslu og hroka.
Fyrir rúmu ári flutti Obama ræðu í minningu Martin Luther King og talaði í anda hans um réttlæti andspænis græðgi og óeðlilegum völdum stórfyrirtækja í samfélögum sem vilja kenna sig við lýðræði . . . “Those with power and privilege will often decry any call for change as divisive. They’ll say any challenge to the existing arrangements are unwise and destabilizing. Dr. King understood that peace without justice was no peace at all.”
Jafnvel eftir að Martin Luther King hafði fengið friðarverðlaun Nóbels var hann ofsóttur; rægður af aftaníossum valdsins. Rógurinn hafði áhrif á hans eigið fólk; fátækt blökkufólk sem átti allt undir breytingum, eins og Obama bendir á í ræðunni.
Án réttlætis er enginn friður – sjá ræðu hér.
Passíusálmarnir (27. sálmur (5))
Vei þeim dómara, er veit og sér,víst hvað um málið réttast er,vinnur það þó fyrir vinskap manns að víkja af götu sannleikans.