by Herdís Þorgeirsdóttir | 7.12.2014 | Mannréttindi & pólitík
Þegar núverandi páfi tók við embætti vorið 2013 líkti hann kaþólsku kirkjunni við sjúkrahús á vígvelli. Fyrirrennari hans, hinn þýski Benedikt XVI var fyrsti páfinn í sex aldir sem sagði af sér. Hann orkaði ekki að berjast áfram gegn spillingu, yfirhylmingu og kynferðisglæpum sem höfðu brennimerkt kaþólsku kirkjuna.
“Holdsveiki páfadómsins”
Þá kom þessi maður; fyrsti páfinn sem kemur frá Suður-Ameríku og er úr reglu Jesúíta, með próf í efnafræði, heimspeki og guðfræði og vann sem ungur maður sem dyravörður í næturklúbbi; hann tók sér nafnið Frans og sendi þar með þau skilaboð til umheimsins að hann væri að taka Frans frá Assisi sér til fyrirmyndar. Hann vildi hvorki gullhring né rauða páfaskó, var vanur að ferðast í strætó og vildi opna kirkjuna fyrir þeim hrjáðu og smáðu.
Frans frá Assisi sem uppi var á árunum 1181-1226 er verndardýrlingur dýranna og sá dýrlingur innan kaþólsku kirkjunnar sem þykir hafa komist næst Jesú Kristi í líferni sínu; vegna samsömunar og samúðar með þeim fátæku og útskúfuðu, en hann er einhver dáðasta persóna í allri trúarsögunni.
Þau vandamál sem blöstu við á tíma Frans frá Assisi eru enn við lýði: stríð, fátækt, spilling valdastétta, félagsleg útskúfun og aukið bil á milli þeirra sem búa við allsnægtir og hinna sem búa við örbirgð. Frans frá Assisi, sonur auðugs silkikaupmans, fékk vitrun rúmlega tvítugur og helgaði líf sitt hinum fátæku. Hann bað engan um fé og lét aldrei söfnunarbauk ganga. Boðskapur hans var einfaldur: Græðgi veldur þjáningu bæði hjá fórnarlömbum sem sökudólgum. Sinnuleysi þeirra sem stöðugt sanka að sér kemur í bakið á þeim sjálfum. Græðgi er tortímandi afl; siðferðilega, félagslega og andlega. Frans frá Assisi leit ekki upp til valdamanna. Hann fór fótgangandi til Rómar. Þegar hann kom í Vatíkanið upplifði hann spillinguna, græðgina, auðsöfnunina, valdafíknina og innantóma tilvist. Páfinn, Innocensíus III., varð hneykslaður á því hvernig þetta fátæka, auma mannkerti leyfði sér að finnast slíkt ríkidæmi vera í andstöðu við kristnina.
Páfinn sagðist fá kraft og hugljómun frá Frans frá Assisi enda ætti boðskapur hans erindi í nútímanum. Sagt er að Frans frá Assisi hafi orðið fyrir vitrun árið 1204 þá rúmlega tvítugur. Kristur á að hafa birst honum og sagt: Frans, Frans farðu og gerðu við hús mitt sem þú sérð að er að hruni komið – alveg eins og kaþólska kirkjan sem þessi nýi páfi var að taka við. Hann sá Vatíkanið sem sjálf-miðað og laust úr tengslum við umheiminn og öll hans stóru vandamál. Hann talaði um “holdsveiki páfadómsins”.
Þegar hann var settur inn í embætti bað hann fólkið að biðja fyrir sér. Vandamálin voru risavaxin, gegnumspillt kirkja sem var orðin veraldleg og volg í afstöðunni. Á einu og hálfu ári hefur þessum páfa tekist að vekja athygli út um allan heim fyrir að þora að tala um stórfelld pólitísk og efnahagsleg vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Rödd hans hljómar um heimsbyggðina og veitir innblástur stjórnmálamönnum og forystumönnum alþjóðastofnana sem hafa verið smeykir við að tjá sig um nákvæmlega þessi sömu vandamál.
Með því að gera þennan páfa að umtalsefni hér í íslensku þjóðkirkjunni á aðventunni er ég ekki að taka undir sjónarmið kaþólskunnar heldur að vekja athygli á tvennu; að það þarf að opna kirkjuna fyrir nákvæmlega þessari umræðu og að kirkjan á ekki að vera hrædd við að vera slíkur vettvangur. Hún á að vera skjól þeim röddum sem eru annars þaggaðar.
Gagnrýni á þjóðkirkjuna
Einn þekktasti, núlifandi rithöfundur Íslendinga sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrsta sunnudaginn í aðventu að kirkjan höfðaði ekki til almennings af því að þar væru engar lífrænar hugmyndir. Guðbergur Bergsson sagði að það væri ekki nóg að kalla inn konur í prestastétt ef þær fengju bara fólk til að koma í kirkju til að syngja við kertaljós. Það sem felst í þessum orðum er að ef að kirkjan á að gegna veigamiklu hlutverki í samfélaginu, ef hún á að vera vegurinn, sannleikurinn og lífið þá þarf hún að vera vörn hinum kúgaða og vígi á neyðartímum, eins og segir í Biblíunni.
Eru slíkir tímar? Spyrjið páfann í Róm. Hann er 77 ára, með eitt lunga og hikar ekki við að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur. Hann er kominn með viðurnefnið Páfi fólksins langt út fyrir raðir kaþólikka vegna þess að hann tekur á raunverulegum vandamálum samtímans. Hann felur sig ekki á bak við fíkjublöð einstakra vinsælla málaflokka. Hann skreytir sig ekki með slagorðum sem þegar eru viðtekin. Hann bendir á ógnirnar sem öllum samfélögum stafa af vaxandi ójöfnuði, ítökum fjármálaafla og yfirþjóðlegra stórfyrirtækja, sem er löngu vaxin flestum þjóðríkjum yfir höfuð.
Kirkjan getur ekki staðið þegjandi álengdar ef mannréttindi eru fyrir borð borin, ef sannleikurinn er traðkaður í svaðið og óréttið fær að grassera óáreitt. Fór ekki Jesú inn í musterið og rak út peningamennina.
í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar var lúterstrúarpresturinn Martin Niemüller öflugur í andstöðu sinni við Hitler og uppgang nasismans. Hann var handtekinn og var í fanga- og þrælkunarbúðum í sjö ár. Niemüller sagði þýsku mótmælendakirkjuna hafa átt þátt í uppgangi nasmismans og verið samseka í ofsóknum og fjöldamorðum með því að standa hjá aðgerðarlaus . . . Hann sagði þessi fleygu orð sem síðan er oft vitnað í til að undirstrika mikilvægi þess að þegja ekki yfir óréttlæti.
- Fyrst handtóku þeir sósíalista; ég var ekki sósíalisti og mótmælti því ekki.
- Næst réðust þeir að verkalýðshreyfingunni; ég tilheyrði henni ekki og gerði því ekkert.
- Þá réðust þeir gegn Gyðingunum; ég aðhafðist ekki af því að ég var ekki Gyðingur.
- Síðan komu þeir og tóku mig; þá var enginn eftir til að koma mér til hjálpar.
Þöggun
Eins og sagan af Martin Niemüller sýnir þá þarf mikið hugrekki til að fara gegn ríkjandi öflum. Aðhald er öllum valdhöfum nauðsynlegt. Leiðarljós okkar stjórnskipunar eru lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Undirstaða allra annarra mannréttinda er tjáningarfrelsið, rétturinn til að segja skoðun sína.
Í aldanna rás hafa stjórnmálaheimspekingar varað við því að því meira sem valdið er því meiri er hættan á valdníðslu. Og ef enginn fer gegn valdníðslunni þá heldur hún óhindruð áfram. Þögnin er nánasti vinur alræðisins, harðstjórnarinnar og kúgunarinnar. Sá sem fer með mikið vald vill eðli máls samkvæmt útiloka andóf. Það breytir engu hvaða merkimiða pólitískir valdhafar skreyta sig með. Í kommúnismanum var allt andóf barið niður og eftir hrun hans, þar sem nýtt alræði byggir á samþættingu hins pólitíska valds og fjármálaafla, hafa stjórnvöld á þessum sömu slóðum vakið athygli heimsbyggðar með framgöngu sinni gagnvart gagnrýnisröddum.
Fjölmiðlar sem eiga að vera varðhundar almennings eru víðast hvar undir sömu sök seldir. Þeir eru í eigu fjársterkra aðila sem hafa tögl og hagldir – og sterk ítök í stjórnmálum. Út um allt kerfið og í flestum ríkjum heims eru menn og konur að ritskoða sig. Það að vera opinskátt gagnrýninn kallar á að vera settur út á jaðarinn, a.m.k. úr kerfi valdhafanna sem gjarnan réttlæta skoðanakúgun með því að ákveðnar skoðanir séu ógn við þjóðarhagsmuni.
Fólk þarf ekki að verða mjög fullorðið til að átta sig á því að beina brautin er mun þægilegri en vegurinn sem Jesú talaði um. Þegar Jesú sagði “ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” áttuðu lærisveinarnir sig ekki á því hvaða veg hann var að tala um. Símon Pétur spurði hann hvert hann væri að fara af því að hann vildi fylgja honum og leggja líf sitt í sölurnar fyrir hann. Jesús svaraði: Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig. Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar.
Pétur var mannlegur. Hann var hræddur. Eftir að Jesú var handtekinn flýðu allir lærisveinarnir (Markús 14:50) en Pétur fylgdi honum álengdar. Hann horfði upp á mennina hrækja á Jesú og slá hann eftir að hafa dæmt hann sekan. Pétur óttaðist um líf sitt; hann var ekki tilbúinn á þessari stundu að verða fyrir sömu ofsóknum og Jesú. En Jesús hafði áður aðvarað lærisveina sína að menn yrðu framseldir og teknir af lífi vegna hans nafns og þeir myndu framselja hver annan og hata. Þetta er saga mannkyns, óttinn verður oft sannleikanum yfirsterkari. Oftast þurfa valdhafar ekki að þagga niður í fólki, það sér um það sjálft. Að standa einn, hæddur, spottaður, ofsóttur er flestum um megn eins og Pétri forðum. Það er einn skiljanlegasti þáttur mannlegs eðlis að vera varkár andspænis ógn. Þetta vissi Jesú og hann bað fyrir Pétri; að trú hans myndi ekki þrjóta og að hann myndi styrkja aðra þegar hann væri snúinn við. Veikleiki Símons Péturs Jónassonar og mistök voru einn þáttur í því að styrkja hann. Jesú sagði við hann: Þú ert Pétur, kletturinn og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. (Mattheus 16:17).
Kirkjan sem klettur sameini rödd sína þeirra sem enga hafa
Við notum orðið klettur um einhvern sem aldrei bregst. Það eru ekki freskurnar í loftinu, gullið og hinn mikilfenglegi arkitektúr sem gerir kirkju að kletti – það er hlutverkið sem hún gegnir eða á að gegna . . . að þjóna sannleikanum; vera farvegur fyrir réttlæti og raddir þeirra sem minna mega sín.
Hér er ekki verið að gera lítið úr starfi kirkjunnar. Hins vegar er hægt að sjá fyrir sér hvernig kirkjan á víðsjárverðum tímum þar sem viðurkennt er að trúnaðarbrestur hefur orðið milli almennings annars vegar og kjörinna stjórnvalda, fjölmiðla og háskólasamfélags hins vegar, gæti gengið í endurnýjun lífdaga. Þá er ekki átt við að markaðssetja eigi kirkjunam heldur að kirkjan nái sér á strik eins og Pétur eftir að hann afneitaði Jesú og verði öðrum styrkur – raunverulegur klettur fyrir trú, von og kærleika.
Íslenska þjóðkirkjan hefur haldið sig fyrir utan pólitísk deilumál . En það vaknar sú spurning hvort kirkjan þurfi ekki að endurskoða þá afstöðu og þá bendi ég aftur á hvað páfinn er að gera til að ganga veginn nær Jesú Kristi, veginn í átt að sannleikanum og lífinu.
Áður en fundur G20 ríkjanna hófst í nóvember s.l. bað páfinn leiðtoga 20 stærstu hagkerfa heims um að gleyma ekki öllum þeim mannslífum sem pólitískar og tæknilegar ákvarðanir bitna á. Og hann talar ekki um fátækt eins og einhvern fjarlægjan ósóma heldur brýnir hann fyrir umheiminum að það þurfi að breyta innviðum samfélaganna til að draga úr fátæktinni og ójöfnuðinum. Hann bendir á flennifyrirsagnir fjölmiðla þegar hlutabréf lækka í verði en í flestum ríkjum Evrópu – og hvað þá annars staðar – deyr fólk á götum úti úr kulda, vosbúð og hungri án þess að það þyki fréttnæmt. Milljónir ungra kvenna, manna, stúlkna og drengja eru seld mansali í kynlífsþrælkun og þeir ríku hafa aldrei verið ríkari en þeir eru í dag á meðan eymd hinna fátæku vex. Börnin í dag eiga ekki sömu tækifæri og við höfðum. Er það ekki hlutverk þjóðkirkjunnar okkar að opna umræðuna, gefa röddum byr sem fá ekki hljómgrunn út í þjóðfélaginu. Ef kirkjan kallar eftir þátttöku almennings í þessari umræðu gæti hún verið í betri aðstöðu til þess en nokkur önnur stofnun í samfélaginu.
Aftur vík ég að páfanum sem hefur gert þröngsýni lagahyggjunnar að umræðuefni. Jesú spurði faríseana hvort það væri leyfilegt að lækna veikan mann á hvíldardegi. Það var fátt um svör. “Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea þá komist þér aldrei í himnaríki”, sagði Jesú.
Ég vona að kirkjan hiki ekki heldur stígi fram og umvefji það samfélag sem hún vill þjóna, sameini sína rödd þeirra sem enga hafa. Kærleikur og réttlæti eiga að ráða för en ekki bókstafur og blind lagahyggja.
(Ræða Herdísar Þorgeirsdóttur í Áskirkju, annan sunnudag í aðventu, 7. desember 2014)
by Herdís Þorgeirsdóttir | 27.10.2014 | Mannréttindi & pólitík
Hér er fyrirlestur sem ég flutti um dóm dómstóls Evrópusambandsins í máli Google gegn Spáni.
file:///Users/herdisthorgeirsdottir/Downloads/CDL-JU%25282014%2529014-e%20(1).pdf

by Herdís Þorgeirsdóttir | 19.06.2014 | Mannréttindi & pólitík
Enginn af rithöfundum Viktoríutímans þekkti eins kjör fátækra í borgum og Charles Dickens. Hann bjó á Doughtystræti í Lundúnum og ráfaði oft um um götur borgarinnar að næturlagi. Þar hafa orðið til fyrirmyndir að mörgum af hans helstu sögupersónum. Sem barn vann hann í verksmiðju þegar foreldrar hans voru í skuldafangelsi. Síðar stofnaði Dickens heimili fyrir fátækar konur sem áttu hvergi höfði sínu að halla. Þar var hann allt í öllu, útvegaði það sem þær þurftu.
Dagur sem kenndur er við kvenréttindi er merkingarlaus ef baráttumálin eru ekki í tengslum við kjarna vandans, vaxandi misskiptingu og aukna fátækt; kvenna, barna og karla.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 27.05.2014 | Mannréttindi & pólitík
Boðskapur Frans frá Assisi á erindi við nútímann. Hann beindi sjónum að þeim fátæku og kallaði eftir félagslegu réttlæti. Þau vandamál sem við blöstu á hans tíma eru enn við lýði: styrjaldir, fátækt, spilling valdastétta, félagsleg útskúfun og aukið bil milli allsnægta og örbirgðar.
Frans frá Assisi tilheyrði þeim fátækustu. Hann vann sem daglaunamaður. Hann bað engan um fé og lét aldrei söfnunarbauk ganga.
Boðskapur hans var einfaldur: Græðgi veldur þjáningu bæði hjá fórnarlömbum sem sökudólgum.
Sinnuleysi þeirra sem stöðugt sanka að sér kemur í bakið á þeim sjálfum.
Græðgi er tortímandi afl; siðferðilega, félagslega og andlega.
Frans frá Assisi leit ekki upp til valdamanna. Hann fór fótgangandi til Rómar. Þegar hann kom í Vatíkanið og upplifði spillinguna þar með eigin augum var hann hávær í gagnrýni sinni á græðgina, auðsöfnunina, valdafíknina og innantóma tilvist. Páfinn, Innocensíus III., varð hneykslaður á því hvernig þetta fátæka, auma mannkerti leyfði sér að segja að kirkjan væri í andstöðu við kristnina.
Það eru ýmsir tortryggnir í garð núverandi páfa sem hefur tekið Frans frá Assisi sér til fyririrmyndar og segja hann lýðskrumara. Enginn forvera hans á páfastóli hefur þorað að taka upp nafnið Frans. Páfinn veit að með því að taka upp nafn Frans frá Assisi, sem var félagslegt “drop-out” á 13. öld, er hann að kalla eftir pólitískum áherslum á aukið réttlæti. Frans frá Assisi var sonur auðugs silkikaupmanns sem lifði í vellystingum praktuglega uns hann venti sínu kvæði í kross, 24 ára gamall, yfirgaf fjölskyldu, auð og frama.
Páfinn í Róm hefur hent á haugana sérsmíðuðu rauðu páfaskónum, gylltu skikkjunum og bróderaða fatnaðinum. Hann er að reyna að vekja athygli á því sem skiptir máli.
Datt þetta í hug nú í innantómu fjargviðri í aðdraganda kosninga. Það er óneitanlega svolítið skondið þegar Páfinn í Róm er orðinn eftirtektarverðari fyrir skoðanir en flestir frambjóðendur og fylgismenn þeirra.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 11.05.2014 | Mannréttindi & pólitík

Sigur Conchitu Wurzt frá Austurríki í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 10. maí varpaði ljósi á þann veruleika að það er ekki hægt að flokka alla einstaklinga í kven- eða karlkyn við fæðingu. Víðast hvar eru þau réttindi að vera óflokkaður eftir kyni heldur sem „millikyn“ ekki viðurkennd.
Alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð samkynhneigðra og transfólks er hinn 17. maí. Þá mun kastljósinu væntanlega víða beint að þeim fordómum sem fólk af „millikyni“ sætir en það hugtak nær yfir það sem læknar fyrr á tímum kölluðu tvíkynjung (e. hermaphrodite), einstakling með æxlunarfæri beggja kynja.

Væntingarnar um hvort barn sé drengur eða stúlka við fæðingu og sú skýra staða sem mótast af því hvers kyns maður er upp frá því veldur einstaklingum af millikyni erfiðleikum og jafnvel mikilli þjáningu. Samfélagið hleypir engum upp með það að flokka sig ekki í karl eða konu. En einstaklingar af millikyni eru öðruvísi en hvort kyn fyrir sig hvað varðar litninga, líffærafræði og kynkyrtla. Það er því brot á mannréttindum þeirra að þurfa að flokka sig eftir kyni sem þeir tilheyra ekki með réttu.
Þar sem foreldrar, sem eignast börn af millikyni eru oftast ekki áttaðir á eðli máls eru þeir oft fljótir að samþykkja að framkvæmd sé aðgerð til að „leiðrétta“ kyn barnsins. Slíkar aðgerðir þjóna fyrst og fremst útlitskröfum en eru almennt ekki læknisfræðilega nauðsynlegar. Þar sem þær eru oft gerðar á litlum börnum er unnt að líta svo á að búið sé að brjóta varanlega á grundvallarrétti einstaklings sem hefur ekki veitt upplýst samþykki fyrir því að utaðankomandi aðilar ákvarði kyn þess fyrir lífstíð.

Aðgerðir, sem miða að því að „leiðrétta“ kyn; hvort sem um er að ræða skurðaðgerðir eða aðra læknisfræðilega eða sálfræðilega meðferð, geta haft stórskaðleg andleg áhrif á einstakling. Meðferðin tekur langan tíma og algengir líkamlegir fylgikvillar fylgja oft í kjölfar skurðaðgerða. Það kyn sem einstaklingi er úthlutað með læknisfræðilegri „aðstoð“ er síðan oft ekki í samræmi við sjálfsmynd og tilfinningalíf einstaklingsins.
Þá benda nýjar upplýsingar til þess að læknisfræðileg gögn, bæði um tölfræði og aðgerðir á einstaklingum séu ekki aðgengileg, ekki einu sinni fólki sem slík aðgerð var framkvæmd á.
Aðgerðir, sem miða að því að leiðrétta kyn taka ekki mið af rétti millikyns-einstaklinga til sjálfs-ákvörðunar og réttarins til líkamlegra heilinda/ástands, sem fellur undir friðhelgi einkalífs (8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu). Líkami manneskju er hluti af einkalífinu og það að ekki sé hróflað við tilfinningalífi hennar (manneskjunnar) er einnig þáttur af því að njóta friðhelgi einkalífs.
Samþykki foreldra fyrir kyn-leiðréttingu barns, sem hefur hvorki líkamlegan þroska né burði til að taka ákvörðun sjálft, er ekki í samræmi við þá meginreglu barnaréttar – að það sem er er barninu fyrir bestu – skuli ávallt hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir, sem varða börn (sbr. t.d. aðgerðir á kynfærum stúlkubarna). Aðgerðir á kynfærum barna sem eru óafturkræfar eru brot á mannréttindum.
Nú fer í hönd tími endurskoðunar á löggjöf víða varðandi flokkun einstaklinga eftir kyni í opinberum gögnum (fæðingarvottorð, vegabréf o.s.frv.). Í nóvember 2013 tóku gildi lög í Þýskalandi, sem hafa það í för með sér að nýr reitur er kominn í fæðingarvottorðin – þriðji reiturinn auk karlkyns og kvenkyns – fyrir foreldra barna sem eru ekki með “skýr kyn-ákvarðandi einkenni”. Áður höfðu foreldrar viku til að ákveða hvort kynið skyldi velja til skráningar og í kjölfarið var framkvæmd aðgerð á barninu. Þýskaland er eina ríkið, mér vitanlega, sem hefur sett lög af þessu tagi.
Vænti þess að það, sem flokkast réttilega undir friðhelgi einkalífs; skapgerð, tilfinningalíf, kyn, kynhneigð, líkamsstarfsemi og aðrir þættir sem einkenna einstaklinga án þess að valda öðrum skaða, andstætt t.d. ofbeldisfullri hegðun, verði virtir í löggjöf og framkvæmd hennar enda stór verkefni sem bíða okkar allra að leysa – í þágu okkar allra – og skipta meira máli en líkamsstarfsemi, tilfinningalíf, kynhneigð, kynlíf eða áhugaleysi um kynlíf og annað sem fellur undir einkalíf og ógnar á engan hátt almannahagsmunum.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 9.05.2014 | Mannréttindi & pólitík

Kæru samstúdentar,
Fallegu unglingar sem genguð inn í steinsteypta gráa byggingu við rætur Öskjuhlíðar haustið 1970; nýja menntaskólann við Hamrahlíð.
Feimnu unglingar.
Bjartsýnu unglingar – ekki vissum við hvað lífið bæri í skauti sér.
Óöruggu unglingar – sumir farnir að reykja í steintröppunum eftir viku. Aðrir slógu um sig með frösum – Kommúnistaávarpið var ritið sem vitnað var í.
Kæru samstúdentar; þegar litið er til baka er það þetta sem við eigum sameiginlegt:
- Væntingarnar sem við höfðum þetta haust þegar nútíma Ísland var enn fremur ungt, einfalt og saklaust eins og við sjálf.
- Upplifun af kennurum, samverustundir í hléum í Norðurkjalla eða fyrir framan sjoppuna Sómalíu, skólaböllin, þar sem freistingarnar voru til að falla fyrir þeim og skólaferðalögin . . .
- Og síðan þessi ferð í gegnum lífið. Tilveran er undarlegt ferðalag.
Þegar við spegluðum okkur í framtíðinni sáum við hana út frá þeim veruleika sem við þekktum haustið 1970 – það voru aðeins liðin 25 ár frá lokum síðari heimsstyraldar.
Reykjavík var engin fjölmenningarborg:
- skóbúð á Laugaveginum auglýsti að skólaskór væru sendir í póstkröfu
- Í Morgunblaðinu voru heilu síðurnar með myndum af brúðhjónum – sem var árnað heilla – normið var mjög skýrt – aðeins var vitað var um tvo homma í Reykjavík og eina fræga lesbían var Saffo sem uppi var 6 öldum fyrir Krist.
- Lög unga fólksins voru spiluð einu sinni í viku í Ríkisútvarpinu – Elvis Presley var enn í fullu fjöri í Las Vegas og Bítlarnir komu þetta haust með lagið The Long and Winding Road
- franskar og kokteilsósa voru gourmet fæði þessa tíma – og enginn var í heilsurækt!
- Reykjavík var örugg borg á sama tíma og Baader Meinhoff-gengið var að ræna banka í Berlín
Það var engin leið að sjá fyrir tæknivædda framtíðina, tölvurnar, snjallsímana – samfélagsmiðlana – hjónabönd samkynhneigðra – fjölmenningarsamfélagið – hvað þá feminismann á tíma þar sem kynferðisleg áreitni í garð kvenna var einnig normið.
Á þessum tíma sem liðinn er höfum við skautað öfganna á milli . . . hugsa sér að unglingarnir sem margir héldu sig vera mikla byltingarmenn og marxista (lýsi eftir þeim nú) skuli vera orðin eldri kynslóðin í heimi þar sem ójöfnuður hefur aldrei verið meiri – ekki frá lokum 19. aldar – m.a. s. hægri flokkar í Evrópu og Bandaríkjunum tala um þörfina á að taka á spillingu og rjúfa tengsl peningavalds og pólítíkur.
Kæru olnbogabörn kerfisins: tilvist okkar í Hamrahlíðinni markaðist af því að við tilheyrðum aldrei raunverulega 68 kynslóðinni ( erum ekki það gömul) né fjöldaframleiðslunni í áfangakerfinu.
Við vorum hluti af þessu gamla og hluti af þessu nýja. Hippaímyndin var vinsælust og það var pottþétt að vitna í Marx. Pípureykjandi lið talaði um sögulega efnishyggju; og að hjónabandið væri ekkert annað en opinber skækjulifnaður . . .
Ungir feministar nútímans hefðu upplifað bullandi kvenfyrirlitningu í skólanum á köflum – en það er önnur saga.
Svo gengum við út í sumarið 1974, tókum þátt í fyrstu þingkosningunum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan sigur en Marx-Lenínistar fengu 121 atkvæði – öll úr Hamrahlíðinni. Lengra náðu ekki áhrif olnbogabarnanna.
Þau hafa ekki gert sig gildandi á hinum pólitíska vígvelli.
Veit ekki um marga frambjóðendur úr hópi olnbogabarna – veik útgáfa af Ástþóri stendur hér – olnbogabörnin hafa ekki farið á þing eða í ríkisstjórn. Þau hafa haslað sér völl á öðrum sviðum – og brillerað eins þeim einum er lagið – bæði leynt og ljóst –
Úr þessum hópi hafa komið bestu læknar þjóðarinnar, dómarar, fjölmiðlafólk, lögmenn, arkitektar, hagfræðingar, bókmenntafólk, músíkantar, fólk í viðskiptum og ferðaiðnaði, kennarar, embættismenn – og ég held vegna reynslu okkar sem olnbogabarna – þá séum við flest frábærir og skilningsríkir foreldrar . . .
Olnbogabörnin væru ekki það sem þau eru í dag hefðu þau ekki notið maka sinna –þeirra maka sem ekki gáfust upp í hjónaböndum með olnbogabörnum – því olnbogabörnin eru svolítið spes eins og ég hef áður vikið að. Þess vegna verður að hrósa sérstaklega þeim einstöku mökum sem hafa þraukað og sitja hér nú.
Við sem urðum flugfreyjur sumarið eftir stúdentspróf fengum smjörþef af hinum stóra heimi – minnist auglýsingar í glansriti með löngum, dömulegum sígarettum og slagorðið var:
You have come a long way baby!
Það er nákvæmlega málið. Þetta hefur verið löng ferð, kæru olnbogabörn. Eins og segir í ljóðinu Hótel Jörð eftir Tómas Guðmundsson – þar sem við erum gestir og hótel okkar jörðin:
En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl
þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða.
En við sem ferðumst eigum ei annars völ,
það ER ekki um fleiri gististaði að ræða.
Olnbogabörnin eru þrautseig. Seiglan hefur skilað þeim langt. Þau hafa upplifað eitt mesta efnahagshrun sögunnar sem var ekki síður hrun á siðferðilegum og pólitískum gildum. En þar voru olnbogabörnin engir sérstakir gerendur.
Ekkert olnbogabarn er mér vitanlega í kladda sérstaks saksóknara – eða blaðrandi frá sér allt vit í rannsóknarskýrslum Alþingis . . .
Og þegar ég lít yfir hópinn og farinn veg sé ég ekki einstaklinga í stöðugri keppni um að krækja sér í bestu bitana. Mörg hafa látið sér það lynda að vera utan hringiðu óáreitt og spök.
Hvað sem því líður stöndum við nú á tímamótum. Við getum ekki lengur verið í hlutverki olnbogabarnana. Við erum að eldast og verðum að gera okkur meira gildandi – svo ég grípi í orðfæri fyrrum prófessors sem er alltaf að vinna forsetakosningar!
Hvað dettur ykkur í hug? Einn af okkar kynslóð; frumkvöðullinn Steve Jobs sagði að maður ætti bara að gera það sem hugur manns stæði til.
Af því að ég þekki ykkur – veit ég hvað þið eruð að hugsa núna. Bendi bara á að það er búið að taka frá herbergi hér við hliðina ef einhver skyldi verða ofurölvi. Ég lendi ekki þar í kvöld af því að ég er á bakvakt fyrir fyrir Lögmannafélagið þennan sólarhring – ef eitthvert ykkar skyldi loks komast í kast við lögin.
Elsku samstúdentar: takk fyrir það liðna – góða skemmtun og bjarta framtíð!
(Ræða Herdísar Þorgeirsdóttur á stúdentsafmæli 1974 árgangsins frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, 9. maí 2014).


