by Herdís Þorgeirsdóttir | 8.05.2025 | Fólk
Þessi nýja vefsíða hefur verið uppfærð í samvinnu við Helgu Óskarsdóttur vefhönnuð. Hún hefur auk vefhönnunar starfað við miðlun á vettvangi myndlistar, er sjálf myndlistarkona með fjölbreyttan bakgrunn í listum. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Gerrit Rietveld Akademíuna í Amsterdam og Chelsea College of Art í London, þaðan sem hún lauk MA gráðu í myndlist.
Helga er með diplómu í kennsluréttindum frá Listaháskóla Íslands og hefur einnig stundað nám í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Á ferli sínum hefur Helga sinnt margvíslegum verkefnum tengdum listum og miðlun, þar á meðal rekið Týsgallerí, fjölfeldisútgáfuna Multis og vefritið Artzine.is, sem fjallar um samtímalist á Íslandi. Auk þessa hefur hún starfað sjálfstætt við vefsíðugerð fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Sjá: vefir.helgaoskars.com
by Herdís Þorgeirsdóttir | 7.05.2025 | Fólk
Á 101 á vorkvöldi í lok Covid þar sem sjómaður Huldu Hákon stendur og horfir yfir glæsilegt barsvæðið: Með listamönnunum Jóni Óskari og Huldu Hákon og vinum þeirra: Nonna Tryggva, Halldóri Birni Runólfssyni, Signýju Eiríksdóttur og Margréti Auðuns. Sjómaðurinn stendur í þeirri meiningu að næsta bylting verði fullkomin, eins og stendur á hjálmi hans.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 6.05.2025 | Fólk
Kveðja mín til Gianni Buquicchio þegar hann lét af embætti forseta Feneyjanefndar árið 2021. Ég starfaði við hlið hans sem varaforseti frá 2013 allt til ársins 2023 með einu tveggja ára hléi.
Gianni Buquicchio: A lasting legacy for the Venice Commission
The first thing that struck me about Gianni was his professionalism, how he masterfully manages to create a mutually respectful atmosphere with his close attention to detail and adherence to necessary etiquette rules without being rigid.
Gianni is a world class diplomat. Under his leadership the Venice Commission has become the most successful advisory body of the Council of Europe and beyond – often giving states directions that they normally would not follow – forthright and based on vision. Gianni is outspoken and respectful at the same time. His passion for the ideals of democracy, human rights and the rule of law is genuine although tempered with political realism.
One does not need to know Gianni well to realize that he is an exceptionally warm, wise and energetic person with a great sense of humor. Gianni is a good man. He greets everyone with a smile and has the character not to distinguish between people. He knows better. His style has left a lasting legacy for the Venice Commission.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 13.09.2022 | Fólk
Af Facebook síðu Herdísar Kjerulf Þorgeirsdóttur:
Ég kemst ekki að fylgja Guðbjörgu Þorvarðardóttur dýralækni síðasta spölinn í dag. Við vorum bræðradætur. Hún var nokkrum árum eldri en ég – úr fjölmennum, stórmyndarlegum systkinahópi. Gauja ólst upp á Kiðafelli í Kjós en í minningunni tengi ég hana Unni afasystur minni Jónsdóttur, sem einnig var hestakona og mikill karakter. Gauja skar sig strax úr fjöldanum. Það gustaði um hana í bókstaflegri merkingu. Röddin hennar var sterk og kraftmikil – það var undirliggjandi hlátur í henni. Minning poppar upp af gráleitum laugardagsmorgni á menntaskólaárunum þar sem ég gekk niður Bankastrætið á leið í Eymundsson. Reykjavík var engin stórborg á þessum árum, fremur gróðurlaus og hugmyndasnauð, fannst manni. Þetta var á þeim árum sem hippamenning blómstraði, penar konur að reykja pípur í mussum án þess að maður yrði var við háværa hugmyndafræði. Aðeins tveir hommar voru þekktir í bænum – annar vann í tóbaksbúð og hinn á hárgreiðslustofu. Sappho var eina lesbían sem vitað var um. Öllum bar að hlýða tíðarandanum, vera steyptir í sama mótið, vera eins, vera í mussum. Þarna sem ég gekk í eigin þönkum niður Bankastrætið, og ekki í hippafötum, skransar snögglega leigubíll í brekkunni og við kveður rödd sem kallar nafn mitt eins og kraftmikill hvirfilbylur ólgandi af hlátri: Gauja frænka kannski rúmlega tvítug með flösku í leigubíl fyrir hádegi á laugardegi . . . ekki dæmigert fyrir nokkurn á þessum tíma nema einhverja kalla í kaupstaðaferð eða sjóara í landi. Þarna var hún í vaðstígvélum og lopapeysu með ljósrauðleitt hárið og stóran spékopp eins og íslensk útgáfa af Línu langsokk nýkomin úr siglingu í Suðurhöfum. Lína langsokkur sem vippaði hesti upp með annarri hendinni. Minning sem ég hef aldrei gleymt og fær mig alltaf til að brosa. Gauja varð farsæll dýralæknir, rak Dýralæknastofu Dagfinns á Skólavörðustíg um langt árabil og hrókur alls fagnaðar í lífinu. Blessuð sé minning eftirminnilegrar frænku. Innilegar samúðarkveðjur til Juliette konu hennar og minna góðu frændsystkina.

Æviágrip – yfirlit
Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Hún lést 28. ágúst síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona Guðbjargar er Juliette Marion f. 2.5.1960. Guðbjörg Anna var dóttir hjónanna Önnu Einarsdóttur, húsmóður (4.11.1921–11.11.1998) og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar (24.11.1917–30.8.1983), síðar sýslumanns á Ísafirði. Þau skildu. Anna giftist síðar Hjalta Sigurbjörnssyni (8. 7.1916–12.11.2006) bónda á Kiðafelli í Kjós og þar var Guðbjörg upp alin frá fimm ára aldri. Alsystkini Guðbjargar Önnu eru: Einar f. 16.3.1944; Sigríður, f. 3.8.1948; Margrét, f. 22.11.1949; og Þorsteinn, f. 10.8.1955. Hálfsystkini Guðbjargar sammæðra eru: Þorkell Gunnar f. 30.3.1957; Sigurbjörn f. 10.6.1958; Kristín Ovell f. 5.4.1961; og Björn f. 4.8.1963. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður f. 9. 2.1947; Þórunn, f. 18.8.1955; Dagbjört Þyri, f. 19.3.1958; Ólína Kjerúlf, f. 8.9.1958 og Halldóra Jóhanna Kjerúlf, f. 23.11.1959. Fóstursonur Guðbjargar Önnu er Kjartan Tumi Biering f. 31.10.1973. Guðbjörg Anna útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri 1968. Hún varð stúdent frá MT (Menntaskólanum við Tjörnina) 1971 og dýralæknir frá KVL (Den Kongelige Veterinær og Landbohøjskole) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn 1981. Eftir námið í Danmörku vann hún í eitt ár við slátureftirlit sauðfjár í Invercargill á Nýja Sjálandi. Lauk síðan masternámi í röntgenlækningum dýra í Sidney í Ástralíu 1983. Guðbjörg Anna var héraðsdýralæknir í Strandasýslu með búsetu á Hólmavík til margra ára. Síðar gegndi hún sama starfi á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Um aldamótin söðlaði hún um og setti á stofn eigin stofu, Dýralæknastofu Dagfinns, að Skólavörðustíg 35 í Reykjavík, þar sem hún starfaði alla tíð síðan. Guðbjörg Anna var virk í félagsmálum og lét víða til sín taka á því sviði. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands 2009–2015 og sat um skeið í samninganefnd BHM fyrir Dýralæknafélagið.

by Herdís Þorgeirsdóttir | 26.08.2022 | Fólk
Eiríkur Guðmundsson leit á David Bowie, einn mesta tónlistarsnilling 20. aldarinnar, sem eins konar sálufélaga. Bowie var engin venjuleg poppstjarna heldur fjölhæfur listamaður, eiginlega náttúruafl sem mótaði tíðarandann með víðtækum áhrifum sínum, langt út fyrir svið tónlistarinnar. Hann var innblástur fyrir fólk á sviði lista, fræðimennsku, tísku og pólitíkur og fyrir hina jaðarsettu með „androgynous“ útliti sínu og öllum þeim öðrum sjálfum sem hann notaði í listsköpun sinni. Skáld, hugsuður og andlega leitandi. Eiríkur, útvarpsmaður, fræðimaður, rithöfundur, næmur á fólk og skarpgreindur, tengdi við þessa afburðasnjöllu veröld Bowies vitsmunalega og tilfinningalega.
Árið sem Eiríkur fæddist var tímamótaverk Bowies, Space Oddity, frumflutt á sama tíma og fyrsta geimfarið landaði mönnum á tunglinu. BBC bannaði spilun lagsins vegna textans um geimfarann Major Tom, sem missti jarðsamband og hvarf út í geiminn – en það var spilað samt! Annað sjálf Bowies sem heillaði Eirík var Ziggy Stardust, geimveran sem notaði útvarp til að koma boðskap um von til mannkyns andspænis miklum hamförum.
Eiríkur var ekki passívur aðdáandi Bowies, sem lýsti tónsmíðum við leitina að Guði. Held að leitin að hinu andlega og þráin eftir æðra réttlæti hafi verið sá kjarni í listsköpuninni sem gerði það að verkum að Bowie, með öllum sínum öðrum sjálfum, varð eins konar annað sjálf Eiríks – sem útvarps- og fjölmiðlamanns.
Með pistlum sínum í útvarpi kom hann við kaunin á valdhöfum og áhrifafólki. Afleiðingar þess taka sinn toll. Eiríkur var ekki vellauðug og heimsfræg rokkstjarna sem gat ögrað samtímanum – heldur starfsmaður á ríkisstofnun sem er hugsanlega á köflum hallari undir kerfishugsun en þau háleitu markmið að vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu og mismunandi skoðana.
Það vakti ekkert annað fyrir Eiríki en að kalla eftir betra samfélagi – þannig dró hann upp einfalda mynd af Bolungarvík æsku sinnar, þar sem pabbi hans var kennari, móðir hans ljósmóðir, útgerðarmaðurinn í plássinu vel liðinn og bræður hans „allt góðir menn“.
Man fyrst eftir Eiríki haustið 1993 á ritstjórn Heimsmyndar í Aðalstræti 4 þar sem hann stóð álengdar, dökkhærður, fallegur, feiminn og athugull. Í júní 2012 sendi hann mér skilaboð um að hann og mamma hans myndu koma á kosningaskrifstofuna á kjördag. Engin von um sigur en Eiríkur áttaði sig á inntaki framboðsins.
Viðbrögðin við ótímabærum dauða Eiríks sýna hvað hann snerti marga persónulega með velvilja sínum og að það munaði um rödd hans á hinum opinbera vettvangi. Eiríkur gaf og gaf af sjálfum sér.
Í lagi Bowies Soul Love er fjallað um móður sem syrgir son er féll í stríði. Við móður Eiríks langar mig að segja: Sonur þinn var hugrakkur og færði persónulegar fórnir fyrir hugsjón sína um betri heim – en kveikurinn sem stjórnaði brunanum í lífskertinu hans var á margföldum hraða.
Við Kolbein Orfeus langar mig að segja: Nafnið sem hann gaf þér felur í sér þá von að framferði þitt í lífinu verði svo fagurt að þú hrífir aðra með þér.
Við Vöku, bræður hans og þau sem elskuðu hann vitna ég í nýleg skilaboð frá Eiríki með ljóðlínu Jónasar Hallgrímssonar: Andi Guðs á mig andi, ugglaust mun ég þá huggast.
Kveð Eirík, vin minn, með orðum Bowies til Major Tom áður en geimferðin hefst: Megi kærleikur Guðs umvefja þig.
Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir.

by Herdís Þorgeirsdóttir | 26.07.2022 | Fólk
Í dag barst sú harmafregn frá Vilnius að fyrrum fulltrúi í Feneyjanefndinni og dómari við stjórnlagadómstól Litháen, Gediminas Mesonis væri látinn. Hann var fæddur í Vilnius 9. nóvember 1968. Hann varð doktor í lögum árið 2000 en áður en hann lagði stund á lögfræði lærði hann efnafræði.
Félagar í Feneyjanefnd eru harmi slegnir vegna sviplegt fráfalls óvenju greinds og góðs manns. Hann var sérfræðingur í stjórnskipunarrétti. Á vettvangi Feneyjanefndar vann aðallega að málum tengdum félagafrelsi í austur Evrópu og dómstólum í löndum Mið-Asíu.
Persónulega minnist ég einstaklega góðs og glaðværs manns með mikla kýmnigáfu . Mér er það ógleymanlegt þegar við ræddum tilurð máls sem síðar fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu varðandi auglýsingu þar sem sjálfur Jesús Kristur var í gallabuxum (Sekmadienis Ltd. v. Lithuania). Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að litháísk stjórnvöld hefðu gerst brotleg við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með því að skerða tjáningarfrelsi fyrirtækis sem notaði auglýsingar sem sýndu trúarlegar persónur eins og Jesú Krist í gallabuxum. Litháískir dómstólar töldu sig vera að verja rétt trúaðra sem gengi í þessu tilviki framar tjáningarfrelsi auglýsanda.
Sjálfur hafði hann húmor fyrir þessu máli og ég heyri enn hláturinn þegar við ræddum um það. Enda var hann maður sem virtist ekki taka sig eða aðra of hátíðlega.
Sorglegt þegar gott fólk fer of snemma.
https://www.venice.coe.int/webforms/events/?id=3370
