Fjölmiðlafrelsi í Hvíta Rússlandi

Fjölmiðlafrelsi í Hvíta Rússlandi

Herdís Þorgeirsdóttir var með framsögu um fjölmiðlafrelsi í Minsk, Hvíta Rússlandi en ráðstefnan var á vegum stjórnlagadómstóls landsins og sátu hana bæði fulltrúar stjórnvalda, alþjóðastofnana og mannréttindasamtaka. Á myndinni eru ásamt fulltrúum frá Evrópuráðinu, dómarar við stjórnlagadómstólinn í Hvíta Rússlandi, þ.á m. forseti dómstólsins Grigory Vasilevich.

 

Ályktun Tengslanets ráðstefnunnar 2004

Ályktun Tengslanets ráðstefnunnar 2004

Um 130 konur tóku þátt í kvennaráðstefnu á Bifröst sem bar yfirskriftina Völd til kvenna
Jafnréttismál í ýmsu ljósi voru rædd á kvennaráðstefnu á Bifröst í síðustu viku. Góður rómur var gerður að ráðstefnunni og ákveðið að halda aðra eins að ári.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, deildarforseti lögfræðideildar Viðskiptaháskólans á Bifröst, varpaði fram þeirri hugmynd á kvennaráðstefnu sem haldin var á Bifröst í síðustu viku að reglulega yrðu teknar saman svonefndar kynjakennitölur fyrirtækja, þ.e. tölur sem mældu árangur fyrirtækja í jafnréttismálum. Þær tölur yrðu síðan notaðar í baráttunni fyrir auknum hlut kvenna á vettvangi atvinnulífsins. Konur myndu með öðrum orðum beita neytendavaldi sínu og beina viðskiptum sínum frá þeim fyrirtækjum sem hefðu t.d. fáar eða engar konur í æðstu stjórnunarstöðum.

Þessi hugmynd hlaut góðar undirtektir á ráðstefnunni, sem bar yfirskriftina: Völd til kvenna – tengslanet. Um 130 konur tóku þátt í ráðstefnunni, sem haldin var að frumkvæði dr. Herdísar Þorgeirsdóttur. Í ályktun sem samþykkt var undir lok ráðstefnunnar er skorað á stjórnendur íslenskra fyrirtækja “að taka þegar til við að leiðrétta rýran hlut kvenna í stjórnum og æðstu stjórnunarstöðum innan fyrirtækjanna.” Bent er á konur hafi aflað sér menntunar og reynslu sem atvinnulífið hafi ekki efni á að vannýta með þeim hætti sem nú er gert. “Þátttakendur á ráðstefnunni munu fylgjast náið með árangri fyrirtækja í átt að jafnri stöðu kynjanna og munu beita sér fyrir því að upplýsingar um árangur einstakra fyrirtækja verði birtar opinberlega að ári.”

Fjöldi erinda var haldinn á ráðstefnunni. Gestafyrirlesari var Nadine Strossen, forseti Réttindasamtaka Bandaríkjanna. Kom m.a. fram í máli hennar að hópur kvenna í Bandaríkjunum hefði haft frumkvæði að því að birta reglulega upplýsingar um hlut kvenna í stjórnun stórra fyrirtækja. Sagði hún að það framtak hefði vakið mikla athygli. Það hefði orðið til þess að hvetja fyrirtæki til þess að rétta hlut kvenna.

Vannýtt auðlind

Í erindi Ingibjargar Þorsteinsdóttur, sem vitnað var til hér á undan, kom fram að það væri kunnara en frá þyrfti að segja hve fáar konur skipuðu æðstu stjórnunarstöður fyrirtækja hér á landi. “Ef við gefum okkur þær forsendur að konur séu jafnhæfar körlum til að gegna stjórnunarstöðum er alveg ljóst að fyrirtæki í landinu eru að vannýta þá auðlind sem konur eru.” Bætti hún því við að þetta verðskuldaði út af fyrir sig verulega athygli og rannsóknir.

Ingibjörg kynnti því næst hugmynd sína um kynjakennitölur fyrirtækja. Sagði hún að með slíkum tölum væri t.d. hægt að benda á hlutfall kvenna í stjórnun fyrirtækja. Væri til dæmis ein kona í tíu manna stjórn fyrirtækis væri kynjakennitalan 1/10. Þar með væri stjórnarstuðull fyrirtækisins fundinn, þ.e. hann væri 1/10. Síðan mætti finna fleiri stuðla, til dæmis stuðul sem sýndi hlutfall kvenstjórnenda í samanburði við hlutfall kvenstarfsmanna innan fyrirtækisins. Með þessum tölum mætti líka fylgjast með því hvort jafnréttisáætlun fyrirtækis væri í reynd komið í framkvæmd. Lagði hún til að konur eða samtök þeirra tækju sig til og gerðu þessar kynjakennitölur opinberar með reglulegu millibili. “Með þessum hætti erum við að gera þessa stöðu [kvenna] sýnilegri,” sagði hún.

Ingibjörg lagði jafnframt til að konur notuðu þessar kynjatölur til að hafa áhrif á stöðu kvenna með því að beita valdi sínu sem neytendur. “Við eigum að beita okkur á þeim sviðum þar sem við höfum vald,” útskýrði hún. “Við getum látið þetta hafa áhrif á hegðun okkar. Til dæmis hætta að skipta við banka eða fyrirtæki sem hafa engar konur í sinni stjórn.” Ítrekaði hún að konur ættu að nýta samtakamátt sinn og neytendaval til að bæta stöðu sína.

Upplýsingar skipta miklu máli

Nadine Strossen fór yfir stöðu kvenna í Bandaríkjunum og sagði að þær öfunduðu margar hverjar íslenskar konur. Til dæmis af fæðingar- og foreldraorlofinu og dagvistunarmálum. Hún upplýsti að bandarískar konur stæðu þeim íslensku langt að baki á mörgum sviðum. Nefndi hún m.a. hlut kvenna í stjórnmálum. Til dæmis væri hlutfall kvenna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings 14% “þrátt fyrir að við erum helmingur kjósenda,” sagði hún.

Strossen sagði að í Bandaríkjunum væri ekki einasta munur á stöðu kynjanna heldur væru upplýsingar um þann mun misvísandi; margir gerðu sér til dæmis ekki grein fyrir því hver staða kvenna væri í raun og veru. Hún lagði þó áherslu á að með því að leiðrétta hinar misvísandi upplýsingar mætti leiðrétta kynjamismuninn. Upplýsingar væru með öðrum orðum mikilvægt tæki í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.

Strossen tók dæmi um hvernig koma mætti upplýsingum um mismunandi stöðu kynjanna á framfæri við almenning. Nefndi hún launabil kynjanna í því sambandi. Sagði hún að hópur í Bandaríkjunum, sem hefur það að markmiði að jafna launamun kynjanna, hefði bent á að launabilið væri 23%; þ.e. konur ynnu sér að jafnaði inn 77 cent fyrir hvern þann dollara sem karlar ynnu sér inn.

Upplýsti hún að umræddur hópur hefði staðið fyrir svokölluðum jafnlaunadegi á ári hverju, en það væri sá dagur sem venjuleg kona hefði náð að vinna sér inn laun venjulegs karls frá árinu á undan. “Jafnlaunadagurinn var 20. apríl árið 2004 en það var sá dagur sem venjuleg kona hafði náð launum venjulegs karls á árinu 2003,” útskýrði hún. Tók hún fram að dagurinn hefði vakið athygli og að hann væri dæmi um það hvernig nota mætti upplýsingar, í þessi tilviki um launamun kynjanna, til að benda á ójöfnuð.

Viðtal í Fréttablaðinu

FJÖLMIÐLAR Herdís Þorgeirsdóttir, doktor í lögum og sérfræðingur í tjáningarfrelsi fjölmiðla, segir að líta verði til lögvarinna réttinda fjölmiðlafyrirtækja þegar tekin er ákvörðun um lagasetningu um eignarhald. „Fjölmiðill sem lögaðili nýtur verndar rétt eins og einstaklingur samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindasáttmála Evrópu. Nýleg dómaframkvæmd staðfestir þau efnahagslegu lögmál sem dagblöð eru háð en þeim má ekki setja sömu skorður til dæmis varðandi leyfisveitingu eins og ljósvakamiðlum. Fyrsta grein Mannréttindasáttmálans kveður skýrt á um það að stjórnvöldum beri skylda til að tryggja öllum innan sinnar lögsögu þau réttindi sem eru varin í Sáttmálanum,“ segir Herdís. Hún bendir einnig á að réttur útgefenda til að stýra pólitískri stefnu blaða sé sérstaklega varinn í þýsku stjórnarskránni. Hún segir að fjölmiðlar og starfsmenn þeirra njóti aukinnar verndar hvað varði tjáningarfrelsi en einnig séu lagðar á herðar þeim skyldur um að upplýsa almenning um mál sem varða almannahagsmuni. „Það er almennt viðurkennt að stjórnskipulegt vægi fjölmiðlafrelsis gangi framar pólitískum og efnahagslegum hagsmunum og það er viðurkennt bæði af Mannréttindadómstól Evrópu sem Hæstarétti Bandaríkjanna í ótal málum varðandi fjölmiðla,“ segir hún. Hún segir að í nýlegu máli hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að þótt tjáningarfelsið væri mikilvægt þyrfti einnig að taka tillit til eignarréttarins. Herdís segir að fjölmiðlafyrirtæki þurfi að ákveðnu leyti að lúta öðrum lögmálum en annar fyrirtækjarekstur. „Þeim eru lagðar skyldur á herðar, eigendum ekki síður en blaðamönnum, á sama tíma. Það væri ósanngjarnt að ætlast til þess að aðilar í einkarekstri væru að færa persónulegar fórnir,“ segir hún. „Hins vegar eru í gildi lög um eignarhald á fjölmiðlum þar sem víða annars staðar og þykir ekki brjóta í bág við stjórnarskrá,“ segir hún. „Niðurstaða minnar doktorsrannsóknar er sú að á meðan fjölmiðlar eru háðir velvilja við- skiptalegra afla og pólitískra sé skynsamlegra að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði með því að löggilda starf blaðamanna og setja lög um starfssemi fjölmiðla þannig að þeir ræki þær skyldur sem þeim eru settar og hægt sé að neyta þess réttar ef þörf krefur,“ segir Herdís Þorgeirsdóttir. thkjart@frettabladid.is

Fyrirlestur til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur

Fyrirlestur til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur

vigdís

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum stóð fyrir ráðstefnunni Dialogue of Cultures í samvinnu við rektor Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytið, menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg. Mary Robinson fyrrum forseti Írlands var einn af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar. Hinn þekkti sjónvarpsmaður Magnús Magnússon  og rithöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir fluttu ræðu til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur í hátíðarkvöldverði. Dr. Herdís Þorgeirsdóttir flutti erindi í málstofu: The International Press and the Western World View.