FJÖLMIÐLAR Herdís Þorgeirsdóttir, doktor í lögum og sérfræðingur í tjáningarfrelsi fjölmiðla, segir að líta verði til lögvarinna réttinda fjölmiðlafyrirtækja þegar tekin er ákvörðun um lagasetningu um eignarhald. „Fjölmiðill sem lögaðili nýtur verndar rétt eins og einstaklingur samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindasáttmála Evrópu. Nýleg dómaframkvæmd staðfestir þau efnahagslegu lögmál sem dagblöð eru háð en þeim má ekki setja sömu skorður til dæmis varðandi leyfisveitingu eins og ljósvakamiðlum. Fyrsta grein Mannréttindasáttmálans kveður skýrt á um það að stjórnvöldum beri skylda til að tryggja öllum innan sinnar lögsögu þau réttindi sem eru varin í Sáttmálanum,“ segir Herdís. Hún bendir einnig á að réttur útgefenda til að stýra pólitískri stefnu blaða sé sérstaklega varinn í þýsku stjórnarskránni. Hún segir að fjölmiðlar og starfsmenn þeirra njóti aukinnar verndar hvað varði tjáningarfrelsi en einnig séu lagðar á herðar þeim skyldur um að upplýsa almenning um mál sem varða almannahagsmuni. „Það er almennt viðurkennt að stjórnskipulegt vægi fjölmiðlafrelsis gangi framar pólitískum og efnahagslegum hagsmunum og það er viðurkennt bæði af Mannréttindadómstól Evrópu sem Hæstarétti Bandaríkjanna í ótal málum varðandi fjölmiðla,“ segir hún. Hún segir að í nýlegu máli hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að þótt tjáningarfelsið væri mikilvægt þyrfti einnig að taka tillit til eignarréttarins. Herdís segir að fjölmiðlafyrirtæki þurfi að ákveðnu leyti að lúta öðrum lögmálum en annar fyrirtækjarekstur. „Þeim eru lagðar skyldur á herðar, eigendum ekki síður en blaðamönnum, á sama tíma. Það væri ósanngjarnt að ætlast til þess að aðilar í einkarekstri væru að færa persónulegar fórnir,“ segir hún. „Hins vegar eru í gildi lög um eignarhald á fjölmiðlum þar sem víða annars staðar og þykir ekki brjóta í bág við stjórnarskrá,“ segir hún. „Niðurstaða minnar doktorsrannsóknar er sú að á meðan fjölmiðlar eru háðir velvilja við- skiptalegra afla og pólitískra sé skynsamlegra að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði með því að löggilda starf blaðamanna og setja lög um starfssemi fjölmiðla þannig að þeir ræki þær skyldur sem þeim eru settar og hægt sé að neyta þess réttar ef þörf krefur,“ segir Herdís Þorgeirsdóttir. thkjart@frettabladid.is