Umfjöllun um bók Herdísar

 

Bók Herdísar Þorgeirsdóttur, “Journalism Worthty of the Name” er á lista Oxford University Press yfir helstu bækur á sviði tjáningarfrelsis.

Gagnrýnir bloggarar á sviði tónlistar, bókmennta, kvikmynda, menningar, tækni og stjórnmála fjalla m.a. um nýútkomna bók um frelsi fjölmiðla 2005 (Freedom of the Press 2005: A global survey of media independence) og mæla á síðunni sérstaklega með nokkrum nýútkomnum bókum, þ.á.m. “Journalism Worthy of the Name” eftir Herdísi Þorgeirsdóttur (útg. Brill/ Martinus Nijhoff. 2005). Nýlega vísaði prófessor Jan Rosen við lagadeildina í Stokkhólmsháskóla í niðurstöður Herdísar Þorgeirsdóttur á ráðstefnu Evrópskra sjónvarpstöðva EBU um höfundarrétt í Barcelona  (Quo vadis copyright?). Þess má jafnframt geta að bókin er að verða uppseld hjá forlaginu og ný prentun á leiðinni, sem þykir ágætt þegar fræðibækur eiga í hlut. Bækur útgefnar hjá alþjóðlegu forlagi eins og Brill fara á söfn víða um heim og upplagið er oft miðað við að duga í slíka dreifingu en samkvæmt þessum fréttum er almenn eftirspurn eftir bókinni erlendis.

Að lokum má geta þess að væntanlegt er í útgáfu nú í október rit Herdísar Þorgerisdóttur á sviði barnaréttar (Commentary on the United Nations Convention on the Rights of the Child , Volume 13 Article 13: The Right to Freedom of Expression ).

Áhrif tengslanets: Breytingar á lögum um hlutafélög

Áhrif tengslanets: Breytingar á lögum um hlutafélög

domkirkja_althingi

Morgunblaðið greinir frá því í dag að á síðasta degi sumarþings hafi verið samþykkt tillaga Jónínu Bjartmarz um breytingu og viðbót við hlutafélagalög: “Við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skal tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.” Jónína segist fallast á þau rök í bili hvað varðar einkageirann að þar hljóti augu manna að opnast fyrr eða síðar gagnvart þeim tækifærum sem þátttaka kvenna skapar og að hún verði sjálfsögð. “En mér finnst lagasetning sjálfgefin gagnvart opinberum hlutafélögum,” segir hún í viðtali við Önnu Pálu Sverrisdóttur blm. Mbl. sem sat ráðstefnu Tengslanets III. Áhrifa ráðstefnunnar gætir þegar og alveg óhætt að fullyrða að sú ályktun sem þar var samþykkt um lagasetningu á jöfnun kynja í hlutafélögum skráðum í Kauphöll Íslands verður áfram í umræðunni (sbr. viðtöl við nýráða kvenstjórnendur hjá Sjóvá í viðskiptablaði Mbl. 15. júní: “Lög um kynjahlutföll engin lausn” og viðtal við Valgerði Sverrisdóttur ráðherra í hádegisfréttum RÚV 14. júní um lagasetningu til að jafna kynjahlutföll sbr. ályktun Tengslanets III, sem er lesin í upphafi fréttar.)

 

Konur finna hjá sér þörf fyrir samstöðu

Konur finna hjá sér þörf fyrir samstöðu

Screen Shot 2017-01-14 at 15.21.23TÆPLEGA fjögur hundruð konur taka þátt í þriðju tengslanetsráðstefnunni „Völd til kvenna“ sem fram fer á Bifröst í dag, en ráðstefnan var sett við rætur Grábrókar í gær. Aðspurð segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst og skipuleggjandi ráðstefnunnar, skráninguna hafa farið fram úr sínum björtustu vonum og ljóst megi vera að Tengslanetið sé óumdeilanlega öflugasta ráðstefna ársins í íslensku viðskiptalífi, en þátttakendur koma líkt og fyrri árin úr öllum þjóðfélagshópum. „Tengslanetið er að springa út eins og blóm og ég held að ástæðan sé sú að konur finna hjá sér þörf fyrir samstöðu, að við hefjum okkur upp yfir hversdagslegan ágreining og gerum okkur grein fyrir því að við þurfum ekki að vera sammála um leiðir, en við erum sammála um markmið,“ segir Herdís og tekur fram að greinilegt sé að konur séu að átta sig á því að þær geti haft raunverulega mikil áhrif og völd ef þær standi saman. „Og þær geta eingöngu haft þessi áhrif og fengið þessi völd ef þær standa saman,“ segir Herdís og leggur áherslu á að Tengslanetið endurspegli allt samfélagið. Líkt og fyrri árin var ráðstefnan sett við rætur Grábrókar í gær þar sem þátttakendur voru blessaðir af séra Halldóru Þorvarðardóttur, prófasti í Fellsmúla, eftir að Hafdís Jónsdóttir, betur þekkt sem Dísa í World Class, hafði hitað upp fyrir fjallgönguna, en á tindi gígsins ræddi skáldkonan Þórunn Valdimarsdóttir við viðstadda. Að sögn Herdísar felst mikill kraftur í því að byrja ráðstefnuna með þessum hætti. „Þarna er því um að ræða tengingu við náttúruna, almættið, hinn innri mann og við hverja aðra, sem skilar sér í því að við komum endurnýjaðar til baka.“

Á eftir að blása nýja lífi í umræðuna

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er einn fremsti femínisti okkar tíma, rithöfundurinn og prófessorinn dr. Germaine Greer. Aðspurð segist Herdís sannfærð um að innlegg Greer á ráðstefnunni muni skila miklu inn í umræðuna hérlendis. „Þetta er mögnuð kona. Hún er svo ákveðin, greind, hreinskiptin, djúpvitur og byltingarkennd í hugsun. Hún hefur haft mikil áhrif á mig þessa örfáu daga sem hún hefur dvalist hér á landi,“ segir Herdís og segist örugglega ekki ein um þá upplifun. „Ég efast ekki um að hún muni kveikja upp í umræðunni hérlendis og blása í hana nýju lífi,“ segir Herdís og nefnir sem dæmi umræðu Greer þess efnis að ekki sé nóg að konur sækist eftir jafnfrétti til þess að verða eins og systur í jakkafötum heldur til að verða konur á sínum eigin forsendum. „Þetta er í raun kvenfrelsisbarátta, ekki bara jafnréttisbarátta,“ segir Herdís að lokum.