domkirkja_althingi

Morgunblaðið greinir frá því í dag að á síðasta degi sumarþings hafi verið samþykkt tillaga Jónínu Bjartmarz um breytingu og viðbót við hlutafélagalög: “Við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skal tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.” Jónína segist fallast á þau rök í bili hvað varðar einkageirann að þar hljóti augu manna að opnast fyrr eða síðar gagnvart þeim tækifærum sem þátttaka kvenna skapar og að hún verði sjálfsögð. “En mér finnst lagasetning sjálfgefin gagnvart opinberum hlutafélögum,” segir hún í viðtali við Önnu Pálu Sverrisdóttur blm. Mbl. sem sat ráðstefnu Tengslanets III. Áhrifa ráðstefnunnar gætir þegar og alveg óhætt að fullyrða að sú ályktun sem þar var samþykkt um lagasetningu á jöfnun kynja í hlutafélögum skráðum í Kauphöll Íslands verður áfram í umræðunni (sbr. viðtöl við nýráða kvenstjórnendur hjá Sjóvá í viðskiptablaði Mbl. 15. júní: “Lög um kynjahlutföll engin lausn” og viðtal við Valgerði Sverrisdóttur ráðherra í hádegisfréttum RÚV 14. júní um lagasetningu til að jafna kynjahlutföll sbr. ályktun Tengslanets III, sem er lesin í upphafi fréttar.)