Á aðalfundi Feneyjanefndar 23. og 24. júní samþykkti nefndin sautján álit sem lutu að lagasetningu í átta ríkjum: Armeníu, Bosníu Hersegóvínu, Georgíu, Haiti, Kyrgyzstan, Moldóvu, Montenegro og Póllandi. Ég vann að tveimur þessara álita, sem bæði varða félagafrelsi og tjáningarfrelsi. Því miður er það svo að mörg ríki reyna, með umdeildum lagasetningum, að stemma stigu við öflugri pólitískri umræðu og andófi, sem getur virkað sem súrefni fyrir lýðræðið en það getur aldrei þrifist á þegjandi samþykki almennings sama hverju fram vindur. Á fundinum talaði ég m.a. fyrir áliti um fyrirhuguð lög í Kyrgyzstan sem gera róg og móðganir refsiverðar og fela aðila innan stjórnsýslunnar vald til að úrskurða um slíkt en ekki dómstólum beint, jafnvel þótt þau sem ættu að hafa móðgast hafi ekki farið fram á slíkt. Fælingarmáttur slíkra laga elur á sjálfs-ritskoðun meðal almennings og kemur í veg fyrir að hinn almenni borgari fái upplýsingar sem geta skipt sköpum fyrir opna, pólitíska umræðu.