Ólík sýn á mannréttindi

Ólík sýn á mannréttindi

povertyTogstreita markaðar og réttarríkis II (úr greinarflokki sem birtist upphaflega í Morgunblaðinu í janúar / febrúar 2006).

Á mismunandi afstaða Hæstaréttar Bandaríkjanna og Mannréttindadómstóls Evrópu til athafnaskyldu ríkisins í því að verja grunnréttindi einstaklinga rætur í ólíkum pólitískum hefðum?

Úr þeim kræklótta viði sem mannkyn er gert verður aldrei smíðað neitt beint, sagði Kant og mætti álykta af því að lítið svigrúm væri fyrir “heimsrétt” eða alþjóðavæðingu réttarríkisins í þeim skilningi “að stuðla að stjórnmálalegu, félagslegu og efnahagslegu réttlæti”, eins og Alþjóðanefnd lögfræðinga vill skilgreina réttarríkið (í ofanálag við hina sígildu skilgreiningu, sem rætt var um hér á sama vettvangi síðasta sunnudag). Höfundar Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna töldu þau sannindi augljós þegar árið 1776 að allir menn séu fæddir jafnir og gæddir af skapara sínum óafsalanlegum réttindum til lífs, frelsis og hamingjuleitar. Þessi stjórnmálayfirlýsing, full af fögrum fyrirheitum, virðist ekki endurspegla veruleikann nú tvö hundruð og þrjátíu árum síðar.

 

Í vikunni sem leið var haldin ráðstefna á vegum Evrópuráðsins í Strasbourg með þátttöku 32 Evrópuríkja og Bandaríkjanna (fulltrúa 123 borga) um barnæsku, uppvöxt og þarfir þeirra sem byggju í fátækrahverfum og hvort gæða mætti líf slíkra barna nýrri von og tækifærum. Í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna fyrir síðasta ár eru birtar nokkrar hörmulegar staðreyndir um áhrif fátæktar á börn. Barnæskan er meira en tíminn sem líður og fólk bíður eftir að verða fullorðið. Fátækt og fylgifiskar hennar hafa ekki aðeins líkamleg áhrif á börn heldur er hún líka meginorsökin fyrir því að mannkynið er svona kræklótt.

Á ríkið að vernda börn gegn misþyrmingum?

Ég spurði einn af yfirmönnum fangelsismála í landinu hvort sýn hans á samfélagið hefði ekki breyst við að kynnast því ógæfufólki, sem væri stöðugt í fangelsum (og sumir virðast síbrotamenn af því að þeir eiga ekki í önnur hús að venda). Hann svaraði að hann hefði áttað sig á að krumlur ógæfunnar læstu klóm sínum í fólk strax á unga aldri þegar hann sem ungur fulltrúi bæjarfógeta hefði verið sendur til að gera lögtak hjá fólki og “vanrækt, hlandblaut börnin” hefðu horft á hann társtokknum augum. Þrátt fyrir góðan ásetning með lagasetningu – og sjálfan Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (1989) sem öll ríki heims hafa fullgilt (nema Bandaríkin og Sómalía) þarf ekki að líta langt yfir skammt til að átta sig á því að þeir sem fást við skýringu laga líta gjarnan svo á að þarna séu kræklóttir kvistir, sem eigi aldrei eftir að vaxa beint. Þessu bera sumir dómar og rökstuðningur fyrir þeim vitni.

Í máli Z og fleiri gegn Bretlandi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu árið 2001, voru málavextir þeir að fimm ung systkin höfðu verið vanrækt og þeim misþyrmt andlega og líkamlega af foreldrum sínum án þess að “kerfið” kæmi þeim til bjargar. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að yfirvöld í Bretlandi hefðu brugðist þessum börnum með því að vernda þau ekki gegn alvarlegri, langvarandi vanrækslu og misþyrmingum, þar sem engin virk úrræði hefðu verið til staðar. Bresk stjórnvöld voru dæmd til að greiða börnunum skaðabætur og miskabætur en þegar kom að rökstuðningi fyrir síðasta þættinum fær fólk á tilfinninguna að það sé komið inn í 19. aldar samfélag ójafnaðar, sem Charles Dickens lýsti í frægum skáldverkum sínum. Hrollvekjan verður raunveruleg þegar dómendur leggja kalt mat á skaða- og miskabætur til hinna “skemmdu” barna. Það er ljóst að líkur á því að þau verst förnu eigi nokkurt almennilegt líf fyrir höndum eru litlar sem engar. Ekki er talið að elsti drengurinn verði nokkru sinni vinnufær og honum voru því dæmdar skaðabætur upp á 50 þúsund pund fyrir atvinnulausa ævina sem hann á framundan. Ævi hans var metin á um sex milljónir ísl. króna (ein til tvenn mánaðarlaun íslensks stórforstjóra). Ekki góður starfslokasamningur það.

Ef þú, lesandi góður, heldur að verra geti það ekki orðið þá leyf mér að benda á dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna í febrúar 1989 í máli DeShaney gegn Winnebago County. Árið 1984 fannst fjögurra ára drengur, Joshua DeShaney, í dauðadái með varanlegan heilaskaða af völdum höfuðáverka sem faðir hans olli með langvarandi barsmíðum. Félagsmálayfirvöld brugðust ekki við þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir vegna misþyrminganna og var barnið ekki tekið frá föðurnum, sem hafði fengið forsjá þess við skilnað. Hæstiréttur Bandaríkjanna þurfti í þessu máli að úrskurða hvort vanræksla ríkisins í að vernda litla drenginn gegn ofbeldi á heimilinu væri brot á því ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar sem segir að ríki megi ekki taka líf, frelsi eða eignir án heimilda í lögum. Taldi rétturinn að fyrst ríkið sjálft hefði ekki staðið að misþyrmingunum nyti barn ekki verndar gegn ofbeldi á vettvangi einkalífsins. Í séráliti sagði William Brennan, sem sat í Hæstarétti Bandaríkjanna í næstum fjóra áratugi (1956-1990) að leggja mætti að jöfnu við stjórnarskrárbrot annars vegar vanrækslu í að vernda fólk gegn ofbeldi og hinu að yfirvöld stæðu fyrir slíku sjálf. Það er líka ofbeldi ef ríkið vanrækir skyldur sem það hefur, sagði hann. “Ég get ekki fallist á að stjórnarskráin okkar sé skeytingarlaus andspænis slíku aðgerðarleysi,” sagði hinn aldni og virti dómari.

Thelma Ásdísardóttir og systur hennar, sem nýlega vöktu alþjóð til vitundar um hvað slíkt sinnuleysi hefur í för með sér skilja örugglega hvað við er átt. Og það gera væntanlega fleiri.

Sérstaða Íslands varðandi réttarframkvæmd

Við lögleiðingu Mannréttindasáttmála Evrópu var tekin sú sérstaka ákvörðun að verjast ásælni hins erlenda valds með sérstöku ákvæði í 2. grein laganna, sem tekur fram að úrlausnir mannréttindanefndarinnar, mannréttindadómstólsins og ráðherranefndar Evrópuráðsins séu ekki bindandi að íslenskum rétti. Mun þetta ákvæði ekki eiga sér hliðstæðu við lögleiðingu sáttmálans í öðru aðildarríki. Engu að síður voru rökin fyrir lögfestingu þau að tryggja réttarstöðu einstaklinga hér á landi. Breyting á mannréttindakafla stjórnlaganna sjálfra ári síðar þjónaði sama tilgangi án þess að hægt sé að fullyrða að almenn afstaða til ríkisvaldsins hafi verið að breytast.

 

Í athugasemdum við frumvarp til laga um Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 segir að til “að efna skuldbindingar sínar, sem fylgja aðild að Mannréttindasáttmálanum, verða ríkin, sem í hlut eiga, að haga löggjöf, stjórn- og dómsýslu sinni þannig að ofangreind réttindi séu virt. Í vel flestum atriðum eru þessi réttindi þess eðlis að þau beinast að ríkjunum sjálfum sem bera þá skyldurnar sem svara til réttindanna. Réttindin eru aðeins í undantekningartilvikum þess efnis að skyldur falli á einstaklinga eða samtök þeirra. Í raun má því segja að þegar rætt er um mannréttindi samkvæmt þessum sáttmála sé í meginatriðum átt við frelsisréttindi einstaklinganna til að haga lífi sínu, skoðunum og athöfnum að eigin vild án þess að eiga á hættu afskipti eða íhlutun ríkisins. Þessi afmörkun á hugtakinu mannréttindi eða eðli þeirra er í samræmi við viðtekinn skilning á því.”

Það er erfitt að fallast á þessa afmörkun á hugtakinu í ljósi 1. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem segir að ríkið verði að tryggja öllum innan sinnar lögsögu þau réttindi sem eru í Sáttmálanum. Þá hafa margir fræðimenn sýnt með óyggjandi hætti fram á athafnaskyldu ríkja í að tryggja efndir þeirra réttinda sem í sáttmálanum eru, ekki síst á grundvelli dómaframkvæmdar.

Staða mannréttinda í stjórnarskrám ríkja afhjúpar á vissan hátt ríkjandi pólitíska afstöðu þótt varast beri að draga of miklar ályktanir um réttarvitund þegnanna eða stjórnvalda of orðalagi ákvæðanna einna saman. Borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi áttu ekki upp á pallborðið í fyrrverandi ríkjum Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Þar var aftur á móti meiri áhersla á efnahagsleg og félagsleg réttindi sem stjórnvöld vestrænna ríkja vildu meina að kæmu sem afleiðing af hinu borgaralega frelsi. Þó fer víðsfjarri að um slíkt hafi ríkt einhugur og því til staðfestingar er svonefnd Vínaryfirlýsing 1993 þar sem 171 ríki á heimsráðstefnu um mannréttindi lýstu því yfir að “öll mannréttindi séu algild, óaðskiljanleg, hvert öðru háð og innbyrðis tengd”. Sú formlega samstaða sem birtist í þessari yfirlýsingu kann að vera dulið yfirvarp yfir langvarandi ágreining um raunverulega stöðu félagslegra og efnahagslegra réttinda. Eru þau mikilvægari hinum sígildu borgaralegu frelsisréttindum eða eru þau aðeins pólitískt viðmið (ekki raunveruleg réttindi í skilningi laga) um réttlátt/réttlátara samfélag sem kallar á íhlutun stjórnvalda með tilheyrandi skerðingu á frelsi einstaklinga?

Stríðið gegn fátækt?

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur svarað þessari spurningu með því að segja að engin vatnsheld skil séu á milli þessara réttinda í raun og veru af þeim sökum að þau eru innbyrðis tengd, óaðskiljanleg og hvert öðru háð. Í tímamótadómi í máli Airey gegn Írlandi árið 1979, snerist málið um það hvort bágstödd fjögurra barna móðir, Jóhanna Airey, sem sóttist eftir skilnaði frá ofbeldisfullum eiginmanni, ætti rétt á gjafsókn samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmálans um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Dómstóllinn kvað upp úrskurð sinn og sagði að írska ríkið hefði brotið á rétti Jóhönnu Airey með því að veita henni ekki gjafsókn og rökstuddi niðurstöðu sína m.a. með því að mörg hinna pólitísku og borgaralegu réttinda fælu í sér efnahagslegar og félagslegar kröfur. Það eitt að túlkun ákvæðanna leiddi til slíkrar niðurstöðu ætti ekki að standa í vegi fyrir því að dómarar kvæðu upp þannig úrskurð enda ekki vatnshelt skilrúm á milli ákvæða samningsins og félagslegra og efnahagslegra réttinda.

Þór Vilhjálmsson, þá dómari við Mannréttindadómstólinn, skilaði séráliti í Airey sem er lýsandi fyrir “íhaldssama dómaframkvæmd” eða þrönga skilgreiningu á valdi dómstóla til að leysa úr ágreiningi um réttindi og skyldur manna að lögum. Þór sagði að hugmyndirnar að baki Mannréttindasáttmála Evrópu og orðalag ákvæðanna gæfi skýrt til kynna að hann tæki til annarra vandamála en þeirra sem við blöstu í þessu máli. Hann tók fram að sér þætti það miður, og urðu ummælin fleyg, en stríðið gegn fátækt myndi ekki vinnast með rúmri túlkun á Mannréttindasáttmála Evrópu.

Evrigenis dómari sem einnig skilaði séráliti var ekki sammála þeirri niðurstöðu dómsins að óþarfi væri að skoða hvort um brot á jafnræðisreglunni væri að ræða í samhengi við réttinn til réttlátrar málsmeðferðar en Jóhanna Airey hélt því fram að henni hefði verið mismunað á grundvelli bágs efnahags. Hann benti á að orðið að njóta réttinda í skilningi jafnréttisreglu Mannréttindasáttmálans tæki til allra aðstæðna sem kynnu að koma upp allt frá því að vera meinað að njóta réttinda til fullrar holdtekju réttindanna í réttarkerfinu.

Athafnaskylda stjórnvalda

Kenningin um athafnaskyldu stjórnvalda þykir nú staðfest með dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sérstaklega hin síðari ár. Samanburðurinn á afstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu annars vegar og Hæstaréttar Bandaríkjanna hins vegar hvað varðar skyldur stjórnvalda til að vernda borgara gegn ofbeldi eða brotum af hálfu einkaaðila er liður í þeirri þróun sem nú á sér stað í alþjóðavæðingu réttarríkisins. Það er athyglisvert að velta fyrir sér hinni ólíku útkomu í máli vesalings bresku barnanna og bandaríska drengsins sem var í dauðadái eftir barsmíðar föður síns. Hvað veldur? Frank Michelman, lagaprófessor í Harvard, segir að svarið liggi í mismunandi pólitískum kúltúr, þ.e. samfélagshyggju annarsvegar eða einstaklingshyggju hinsvegar – fremur en mismunandi stjórnskipun. Og hugsanlega þeirri staðreynd að Evrópubúar séu ekki orðnir stjórnarskrárvanir með sama hætti og Bandaríkjamenn. Þeir sjái stjórnarskrána enn þá í rómantísku ljósi! Hvað sem því líður er hlutfall barna undir fátæktarmörkum, samkvæmt skýrslu Barnahjálpar SÞ frá 2005, yfir 20% í Bandaríkjunum og Mexíkó en undir 3% í Danmörku og Finnlandi. Noregur er eina landið þar sem barnafátækt er afar lág og næstum hverfandi. Hins vegar hefur fátækt meðal barna aukist í 17 af 24 OECD ríkjum undanfarin ár. Helstu ástæður eru áherslur í samfélaginu (Hamingjuleit samtímans – ólíkt sjálfstæðisyfirlýsingunni frá 1776: ofurforstjórar + ofurlaun = ofurfyrirsætur?), ástandið á vinnumarkaði og stefna stjórnvalda. Það eru því aðrar breytur sem ber að skoða en rómantíkin í þessu samhengi. Barnafátækt í auðugum ríkjum grefur undan jafnrétti, tækifærum og sameiginlegum gildum. Aðgerðir til að stemma stigu við þessu ástandi eru því prófsteinn á þessi ríki og íbúa þeirra, þ.e. hvort hugur fylgi máli í lögfestingu mannréttinda og óðinum til réttarríkis eða hvort þetta sé eins og draumur á Jónsmessunótt.

(Grein í Morgunblaðinu 5. febrúar 2006. Höfundur er prófessor við lagadeildina á Bifröst.)

Ummæli lögmanns um dómara varin

Ummæli lögmanns um dómara varin

oliver morice

 

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu komst að þeirri niðurstöðu 23. apríl s.l. að frönsk stjórnvöld hefðu brotið tjáningarfrelsisákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu (10. gr) og ákvæðið um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar (6. gr.) í máli Morice gegn Frakklandi.

Málið Morice gegn Frakklandi laut að sakfellingu lögmannsins, Oliver Morice, sem ákærður var fyrir meiðyrði vegna ummæla í grein í Le Monde í garð dómara sem voru að rannsaka lát dómarans, Bernhard Borrel. Lík Borrel fannst í nálægð við borgina Djibouti árið 1995 og var það að hluta til brunnið. Lögreglurannsókn leiddi til þess að litið var á dauða dómarans sem sjálfsmorð. Hann hefði sjálfur borið eld að líkama sínum. Ekkja hans, Elisabet Borrel, vefengdi niðurstöðuna og taldi að hann hefði verið myrtur. Málið var opnað aftur og dómarar hófu að rannsaka málið á nýjan leik. Lögmaður ekkjunnar vefengdi hlutleysi rannsóknardómaranna í blaðagreininni í Le Monde eftir að áfrýjunardómstóll í París hafði tekið málið úr höndum þeirra, sem höfðu verið skipaðir til að rannsaka málið. Dómararnir kvörtuðu undan ærumeiðingum og í  kjölfarið var gefin út ákæra á hendur lögmanninum og hann síðan fundinn sekur um ærumeiðingar.

Lögmaðurinn taldi að  brotið hefði verið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar við meðferð málsins fyrir dómi í Frakklandi, þar sem einn dómaranna hefði þegar lýst yfir stuðningi við dómarann, sem lögmaðurinn gagnrýndi. Hann taldi jafnframt að tjáningarfrelsi sitt hefði verið skert með ólögmætum hætti. Deild Mannréttindadómstóls Evrópu komst einróma að þeirri niðurstöðu í júlí 2013 að réttur lögmannsins til réttlátrar málsmeðferðar hefði verið brotinn en  frönsk stjórnvöld hefðu hins vegar ekki brotið á rétti hans til tjáningar. Ummæli lögmannsins í garð dómaranna í greininni í Le Monde hefðu verið móðgandi og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á dómskerfinu. Frönsk stjórnvöld hefðu því ekki farið á skjön við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með því að sakfella lögmanninn fyrir ærumeiðingar.

Ástæða þótti til að visa málinu til yfirdeildar dómstólsins sem nú hefur komist að þeirri niðurstöðu að þær skoðanir, sem lögmaðurinn, Morice, birti í greininni hafi verið reistar á nægum rökum. Hann hafi ekki farið yfir leyfileg mörk tjáningarfrelsis þar sem mikilvægir almannahagsmunir hefðu verið í húfi, þ.e. spurning um það hvernig réttarkerfið virkaði. Frönsk stjórnvöld hafi þar með brotið á rétti lögmannsins til tjáningar með því að finna hann sekan um ærumeiðingar með ummælum sínum.

Yfirdeildin kvað þó lögmönnum ekki veitt sama svigrúm og blaðamönnum til tjáningar um þessi efni þar sem þeir stæðu ekki utan réttarkerfisins eins og blaðamenn í þeim gagngera tilgangi að upplýsa almenning. Þvert á móti  væru lögmenn hluti af réttarkerfinu sem aðilar að dómsmálum og verjendur.

Prinsinn og fanginn

Prinsinn og fanginn

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Genf eru glæsileg bygging. Úr kaffiteríunni er óviðjafnanlegt útsýni yfir Genfarvatn og þar yfir gnæfir snævi þakinn tindur Mont Blanc. Inni í kaffiteríunni stendur maður sem einhvern veginn passar ekki inn í umhverfið, þar sem jakkafataklæddir diplómatar eru á spani. Hann er grannvaxinn og tekinn í andliti, fölur og ef maður væri næmur skynjaði maður einhverja óvenjulega birtu í kringum hann. Hann hefur sætt harðræði og pyntingum og verið í öryggisfangelsi, eins og helstu “óvinir ríkisins”, frá 2011.herdis og ales bialatski mars 2015 

 

Portrait of HRH Prince Zeid, HC Designate (and passport photos)Á sama tíma er maður á efri hæð hússins að flytja ræðu. Yfirmaður mannréttindamála Sameinuðu þjóðanna hrífur salinn með sér þegar hann ræðir þá áráttu valdhafa að þagga niður andóf og þar sem ástandið er verst fangelsa þeir andófsfólk fyrir rangar sakir, pynta það og jafnvel drepa. Það drýpur af honum elegansinn enda er hann prins þótt ekki megi nota slíkan titil um yfirmann hjá alþjóðastofnun. Athygli allra beinst að  Zeid Ra’ad Al Hussein, sem tók við þessu mikilvæga embætti í september 2014. Í föðurætt er hann af Hashemita-konungsfjölskyldunni af Írak og Sýrlandi en móðir hans er af sænskum aðalsættum. Hann er vel menntaður, vel máli farinn, vel kvæntur, vel klæddur og með fallega framkomu.

Yfir sig hrifnir fundargestir ganga út af fyrirlestrinum og enginn tekur eftir föla manninum í kaffiteríunni. Hann er fæddur um líkt og leyti og prinsinn, upp úr 1960 en í Sovétríkjunum og ólst upp við allt aðrar aðstæður. Á meðan Zeid prins var í einkaskóla í Englandi, síðar við John Hopkins-háskólann í Bandaríkjunum og lauk loks doktorsnámi í Cambridge – var Ales Bialiatski að alast upp í alræðisríki þar sem fólk hélt að allt myndi horfa til betri vegar með hruni kommúnismans.

 

ales

Ales var öflugur í andófi gegn sovéskum stjórnvöldum á 8. áratug. Hann hafði lokið námi í bókmenntum og gat leigt íbúð í Minsk (í Hvíta Rússlandi) fyrir sig, eiginkonu og son þeirra með aðstoð móður sinnar sem hafði selt jarðaber og gat því lánað þeim fyrir leigunni. Tengdafaðir hans var meðlimur í sovéska kommúnistaflokknum og leist ekkert á þennan tengdason sem kom heim í rifnum frakka eftir að hafa lent í átökum við lögregluna í mótmælum. Hann sá hvaða framtíð beið hans. Ales Bialiatski var í eðli sínu andófsmaður. Hann myndi berjast fyrir mannréttindum sama hvaða merkimiða stjórnkerfið bæri svo fremi að þeim væri ábótavant. Ástandið batnaði ekki þegar kerfi kommúnismans féll. Ekki frekar en í dýraríki Orwells; rangláti, drykkfelldi andstyggilegi húsbóndinn vék fyrir svínum sem fóru fljótlega að standa upprétt á tveimur fótum og haga sér eins og alvöru mannskepnur. Hvíta Rússland varð sjálfstætt lýðveldi 1991 eftir hrun Sovétríkjanna.

Human rights activist Ales Belyatsky sits in a guarded cage in a courtroom in MinskAles var öflugur í baráttu fyrir mannréttindum og stofnaði mannréttindasamtök sem sættu ofsóknum af hálfu stjórnar Alexander Lukashenko sem komst til valda í Hvíta Rússlandi 1994.

Kosningasvik voru viðhöfð í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 1996 og sagði Feneyjanefndin í áliti að stjórnarskrá landsins væri ólögmæt, hún virti ekki lágmarks lýðræðisleg viðmið þar sem hvorki væri virt meginreglan um aðgreiningu ríkisvaldsins eða réttarríkið.

Lukashenko er enn við völd og Hvíta Rússland er eina ríkið í allri Evrópu sem hefur verið meinuð aðild að Evrópuráðinu (þar sem eru 47 aðildarríki) frá 1997. Ástandið í landinu er bágborið efnahagslega og félagslega. Samfélaginu öllu er haldið í heljargreipum ótta almennings og spillingar valdakjarnans; öll lýðræðisleg umræða er kæfð, andófsmenn fangelsaðir, pyntaðir eða skotnir.

Feneyjanefndin hefur farið yfir margvíslega löggjöf í Hvíta Rússlandi á undanförnum árum til að kanna hvort hún stæðist alþjóðleg og evrópsk viðmið um mannréttindi, lýðræði og réttarríki. Ég hef unnið í mörgum af þessum álitum og þannig kynntist ég af afspurn örlögum Ales Bialiatski. Þeim örlögum sem hann var í gær að lýsa fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf.

Hann lýsti því hvernig honum var haldið án dóms og laga í fangelsi árum saman og jafnframt hvernig þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu hefði komið því til leiðar að hann var loks látinn laus síðastliðið sumar. Hann sagði frá því hvernig baráttufólki fyrir mannréttindum er þrýst út á jaðarinn og það einangrað svo enginn heyri raddir þess og valdhafar geti áfram svínbeygt fjöldann.

Hann lýsti því hvernig fólki sem berðist fyrir réttlátara samfélagi væri haldið niðri, hvernig því væri ógnað beint og óbeint; fyrst væri það rógborið og orðstír þess eyðilagður; það sætti jafnframt líkamlegum árásum; það byggi við skort; það sætti stöðugu eftirliti og njósnum; það væri drepið, hyrfi sporlaust; sætti gerræðislegri frelsisviptingu og væri fangelsað án réttlátrar málsmeðferðar. Hann lýsti því hverning mannréttindasamtökum væri haldið niðri; þeim gert ókleyft að starfa með lögum sem samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum eiga að hlúa að félagafrelsinu en ekki fótum troða það.

Hann sagði að svigrúm borgaralegs andófs væri að minnka á heimsvísu. Nú væri heimurinn í áfalli vegna morðsins á á stjórnarandstæðingnum rússneska Boris Nemtsov en ótölulegur fjöldi einstaklinga sætti ofsóknum fyrir skoðanir sínar án þess að umheimurinn fengi nokkru sinni vitneskju um það. Morð Boris Nemtsov er í sviðsljósinu og kallar á svör; rétt eins og fangelsun Alex Bialiatski vakti athygli þeirra sem fylgjast með mannréttindum og pólitík.  Ales Bialiatski var sæmdur Vaclav Havel-verðlaunum Evrópuráðsins 2013 og hefur fengið ótal fleiri viðurkenningar fyrir baráttu sína.

Það var merkileg reynsla að hitta Ales Bialiatski í eigin persónu fyrir tilviljun í Genf. Ég hef haft póstkort með mynd af honum sem dreift var til að vekja athygli á aðstæðum hans á skrifborðinu mínu í nokkur ár – til að minna mig á ástand svo margra í Hvíta Rússlandi. Svo gekk ég fram hjá honum án þess að átta mig og sneri við og talaði við hann.

Á leiðinni út á flugvöll í Genf var samferðamanni mínum tíðrætt um ræðu Zeid Ra’ad Al Hussein sem hann þekkir persónulega og hafði mörg orð um það hve hann væri vel áttaður á kjarna vandans í mannréttindamálum samtímans. Mér var á sama tíma hugsað til mannsins sem ég hafði hitt í nokkrar mínútur með augu sem endurspegluðu svo mikla lífsreynslu, dýpt dýflissunnar. Það var einhver helgi yfir honum.

Minningarorð um Rannveigu Tryggvadóttur 1926-2015

Minningarorð um Rannveigu Tryggvadóttur 1926-2015

systkin hávallagötu 1930Það er vart hægt að ímynda sér fallegri barnahóp en á ljósmynd eftir Kaldal í kringum 1930. Þetta eru börn Herdísar Ásgeirsdóttur og Tryggva Ófeigssonar. Elstur er Páll Ásgeir í matrósafötum, næst er Jóhanna, síðan Rannveig og þá Herdís en systurnar þrjár eru fæddar með rúmu árs millibili. Anna, sú yngsta, fæddist 1935 en það ár flutti fjölskyldan af Vesturgötu 32 í nýbyggt fúnkishús á Hávallagötu 9. Þar fengu systurnar stórt herbergi, alltaf kallað systraherbergið. Systurnar voru oft taldar upp í einni runu: Hanna, Ranna, Heddý, Anna. Í herberginu var stór “ottoman” sem Ranna og Heddý deildu. Heddý var myrkfælin og fékk að sofa fyrir innan Rönnu sem taldi aldrei eftir sér að fara framúr með henni á nóttunni og fylgja henni á baðherbergið. Kærleiksríka systrasambandið sem þarna myndaðist hélst alla tíð.

Þær léku sér við sömu vinina á Landakotstúninu; Möbbu dóttur Ólafs Thors, Obbu dóttur Péturs Magnússonar, Denna síðar forsætisráðherra, Clausen-bræðurna og Matthías Johannessen sem seinna lýsti því í viðtali að allir hefðu verið skotnir í dætrum Tryggva Ófeigssonar.

Þær útskrifuðust saman stúdentar úr Versló og þegar Ranna gifti sig lét Heddý mála af henni portrett til að innsigla væntumþykju sína í hennar garð. Alla tíð voru þær að miðla hvor annarri; Heddý glaðværð og hlátri, Ranna fróðleik og góðum ráðum til yngri systur sinnar.

Börnin sín eignuðust þær á svipuðum tíma; Ranna eignaðist Valgeir 1952, Evu 1954, Herdísi 1955, Rannveigu 1958 og Tryggva 1960. Heddý eignaðist sín fjögur á sömu árum og Ranna sín fjögur yngri. Fjölskyldurnar höfðu náinn samgang alla tíð. Hallvarði manni Rönnu og Þorgeiri manni Heddýar var vel til vina. Elstu dætur sínar skírðu systurnar saman og Heddý lét m.a.s. eftir Rönnu á síðustu stundu að skíra dóttur sína (undirritaða) Herdísi (átti að heita Sigríður) svo að Ranna gæti skírt sína Evu að ósk föðurömmunnar á Laufásvegi. Þær munaði aldrei um að gera hvor annarri greiða.

Í minningunni kemur upp mynd af Rönnu frænku í sunnudagsheimsókn á sjöunda áratugnum. Hún er að segja Heddý frá því hvað hún hafi lesið fróðlega grein í Time eða Newsweek. Íhaldskona af gamla skólanum, jafnvel meira í ætt við John Locke en frænda sinn Jón Þorláksson. Hún trúði á einstaklingsfrelsi og einkaframtakið en var einnig meðvituð um þær samfélagslegu skyldur sem því fylgdu að farnast betur. Hún mátti ekkert aumt sjá og öllum vildi hún gefa það sem hún gat. Ekki gekk hún hart eftir að rukka leigu hjá ungum leigjendum sem voru í kjallaranum hjá henni. Hún var alla tíð með fókusinn á þá sem minnst máttu sín í samfélaginu. Henni var umhugað um málefni ungra kvenna, einstæðra mæðra og barna. Oft fannst manni hún fanatísk en það sem skiptir máli þegar upp er staðið er að hún hafði einlægan áhuga á þjóðfélagsmálum, var góðviljuð og greind hugsjónakona. Hún var í eðli sínu fræðimanneskja og naut sín því vel í sambandi við síðari mann sinn, Örnólf Thorlacius. Hún var viðkvæm sál, listræn, alvörugefin og klettur þeim sem á þurftu að halda.

Systir hennar, Heddý, er sannfærð um að lúðrasveit taki á móti Rönnu í himnaríki því þannig eiginleika hafi hún sýnt í verki í þessari jarðvist.

Votta Örnólfi eftirlifandi manni Rönnu frænku og kærum frændsystkinum mínum innilega samúð.

Herdís Þorgeirsdóttir

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/06/andlat_rannveig_tryggvadottir/

ranna bjútí

Tjáningafrelsi í frumskógi

Tjáningafrelsi í frumskógi

charlie hebdo sex slavesHugleiðingar í kjölfar hryðjuverkanna á Charlie Hebdo

Þegar ég var að skrifa doktorsritgerð um tjáningafrelsi fjölmiðla og sjálfs-ritskoðun við lagadeild háskólans í Lundi undir lok síðustu aldar var mér boðið að taka þátt í spennandi ráðstefnu í Stokkhólmi þar sem aðalfyrirlesari var Salman Rushdie. Einn af forsprökkum ráðstefnunnar var Arne Roth sem þá hafði verið sagt upp sem ritstjóra sænska stórblaðsins Dagens Nyheter vegna umfjöllunar um eigendavald og sjálfs-ritskoðun. Sterk fyrirtækjasamstæða átti blaðið og sá sína sæng út breidda. Á tólftu stundu var ráðstefnunni þó aflýst þar sem hótun hafði borist um hryðjuverkaárás. Þetta litla dæmi varpar ljósi á vanda opinnar, gagnrýninnar umræðu í samtímanum; Salman Rushdie varð heimsfægur þegar Ayatollah Khomeini, æðsti leiðtogi Írans, lýsti því yfir að Rushdie væri réttdræpur vegna bókar sinnar Sálmar Satans; Arne Ruth var fórnarlamb fjármálaafla í fjölmiðlum og fælingarmáttur ógnarinnar um hryðjuverkaárás hafði náð tilgangi sínum.

Enginn á rétt á því að vera ekki móðgaður

páfinn í charlie hebdoÞegar hryðjuverkaárásin var gerð á háðsádeilublaðið Charlie Hebdo hinn 7. jan s.l. og átta menn á ritstjórninni myrtir, ritstjóri þess og teiknarar, hrökk evrópskur umheimur við og óttaslegnir ráðamenn sýndu samstöðu með grundvallarmannréttindum í fjöldagöngu í París. Salman Rushdie sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að skopmyndir hefðu alltaf verið ein leið tjáningar gegn harðstjórn, óheiðarleika og heimsku. Fólk yrði að þola að trú þess væri gagnrýnd, hædd og ekki sýnd virðing, rétt eins og aðrar hugmyndir. Enginn ætti rétt á því að verða ekki móðgaður.

Jótlandspósturinn fældur frá frekari umfjöllun

Voðaverkin í París voru túlkuð sem aðför að tjáningarfrelsinu því þeim væri ætlað að fæla aðra frá að skopast að Múhameð spámanni. Enda kom á daginn að alþjóðleg stórblöð ætluðu ekki að taka áhættuna á að endurbirta skopmyndir Charlie Hebdo. Ritstjóri Jótlandspóstins, sem vakti alþjóðlega athygli vegna birtinga skopmynda af Múhameð spámanni árið 2005, birti leiðara eftir árásina á Charlie Hebdo þar sem hann staðfesti að Jótlandspósturinn hefði látið undan ógninni (aðalteiknarinn hefur verið undir stöðugri lögregluvernd vegna morðhótana); sverðið væri sterkara en penninn og þeir ætluðu ekki að fórna lífi sínu á altari háðsádeilu. Birting myndanna á sínum tíma hafði margvíslegar afleiðingar; óeirðir brutust út og margir létu lífið. Þá stóðu dönsk fyrirtæki frammi fyrir viðskiptabanni í ríkjum múslima og því voru stórfelldir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Jótlandspósturinn hefur ekki farið varhluta af þrýstingi úr viðskiptalífinu um að láta af háðsádeilum á Islam. Útflutningur til Mið-Austurlanda dróst í kjölfarið saman um 50% og dönsk fyrirtæki eru sögð hafa tapað um 170 milljónum dala á nokkurra mánaða tímabili. Upphafleg réttlæting Jótlandspóstsins fyrir birtingu skopteikninga af Múhameð spámanni var að vinna yrði bug á sjálfs-ritskoðun blaðamanna. Ákæruvaldið vildi ekki höfða mál gegn Jótlandspóstinum á grundvelli dönsku hegningarlaganna, sem banna guðlast, á þeirri forsendu að umfjöllunin varðaði almanna hagsmuni og nyti því verndar tjáningarfrelsisins eins og það er t.d. verndað með 10 gr Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ekki sama samstaða með blaðamönnum sem fjalla um spillingu heima fyrir

Woerth Sarko BettencourtÞað eru margar leiðir til að ýta undir sjálfs-ritskoðun inn á fjölmiðlum. Þetta vita blaðamenn út um allan heim en á síðasta ári, 2014, voru meira en 60 blaðamenn drepnir, margir fyrir skrif um spillingu og mannréttindabrot. Aðrir hafa verið settir á bak við lás og slá; pyntaðir eða þeim er stefnt fyrir meiðyrði þar sem miskabætur eru svo háar að þeir eiga sér ekki viðreisnar von, eða þeir eru einfaldlega reknir og missa lífsviðurværi sitt. Forystumenn í stjórnmálum gráta ekki endilega örlög þeirra enda hafa margir þessara blaðamanna gengið nærri þessum ráðamönnum sjálfum. Einn þeirra er blaðamaður Le Monde sem nú er undir lögregluvernd vegna morðhótana í garð sín og fjölskyldu sinnar. Hann fjallaði um fjármálatengsl Sarkosy fyrrum forseta Frakklands við L’Oreal Bettencourt samsteypuna og fleiri spillingarmál. Sarkosy var einn þeirra sem tók þátt í samstöðugöngunni ásamt ráðamönnum ríkja sem hafa margt á samviskunni gagnvart blaðamönnum og tjáningarfrelsi þeirra.

Blaðakonan Anna Politkovskaya sem þekkt varð í Rússlandi fyrir gagnrýni á stjórnvöld og skrif um spillingu var myrt fyrir nokkrum árum – og fullyrt að stjórnvöld stæðu á bak við ódæðið. Ritstjóri í austurhluta Úkraníu sem stýrði blöðum sem gefin voru út á rússnesku og talið er að hafi verið í haldi á vegum stjórnvalda fannst látinn í skógi s.l. sumar og líkaminn illa farinn eftir pyntingar.

Ástandið í fjölmiðlum hörmulegt víða í ríkjum Evrópuráðs

anna politÞess vegna minna samtök blaðamanna sem kalla sig fréttamenn án landamæra á að það hefur lítið upp á sig að samsama sig eingöngu með Charlie Hebdo og gleyma öllum hinum blaðamönnunum, bloggurunum og skopmyndateiknurunum sem eru að fjalla um viðkvæm málefni.

Ástandið í fjölmiðlun er vægast sagt hörmulegt víða í ríkjum Evrópuráðs þrátt fyrir aukna réttarvernd og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem pólitísk ádeila nýtur sérstakrar verndar enda blaðamönnum skylt að miðla áfram upplýsingum og hugmyndum sem varða almannahag og í þeim tilgangi heimilt að ganga langt með ýkjum, jafnvel rangfærslum og gífuryrðum ef það er liður af mikilvægri samfélagslegri umræðu sem almenningur á rétt á að móttaka. Tjáningarfrelsið í tengslum við lýðræðislega stjórnarhætti er túlkað rúmt; það má móðga fólk, hneyksla það og koma róti á huga þess en slíkar eru kröfur umburðalyndis, víðsýni og fjölhyggju sem slík samfélög eiga að byggja á.

Skopteiknari sakfelldur í Frakklandi

Þó taldi Mannréttindadómstóll Evrópu rétt að sakfella teiknara í Frakklandi sem gerði grín að árásinni á tvíburaturnana með skopmynd tveimur dögum eftir að hún átti sér stað 9. september 2001. Teiknarinn var ákærður fyrir að hampa hryðjuverkum vegna meðfylgjandi texta sem sagði: “Okkur hefur öll dreymt um þetta . . . Hamas lét verða af því”. Hann sagði teikninguna framlag sitt í pólitískri og listrænni ádeilu og andúð á Bandaríkjunum og teikningin af árásinni ætti að sýna í skoplegu ljósi hnignun bandarískrar heimsvaldastefnu. Dómstóllinn sagði að teikningin gerði meira en að sýna hnignun bandarískrar heimsvaldastefnu af því að hún vegsamaði tortímingu þessa stórveldis og vísaði dómstóllinn þá til myndatextans sem hann sagði sýna stuðning teiknarans við hryðjuverkamennina. Sakfelling teiknarans hefði því verið réttmæt og sekt sem hann hefði verið dæmdur til að greiða ekki verið úr hófi.

Tvískinningur Charlie Hebdo?

grande mosqueeFyrir nokkrum árum stefndu múslimasamtök í Frakklandi Charlie Hebdo fyrir kynþáttafordóma  og sökuðu blaðið um að hafa sett samasemmerki á milli Islam og hryðjuverka. Charlie Hebdo var sýknað af frönskum dómstólum á þeirri forsendu að hér væri ekki um árás á Islam að ræða heldur á hryðjuverkamenn sem væru múhameðstrúar og teikning af Múhameð spámanni með sprengju í túrbaninum þyrftu að skoðast í samræmi við efnistök blaðsins sem væri beint gegn trúarlegum öfgum.

Árið 2008 var einn af blaðamönnum Charlie Hebdo rekinn vegna skrifa sem sögð voru fela í sér fordóma gagnvart Gyðingum en í greininni gerði hann grín að Jean, syni Sarkosy forseta Frakklands, sem hann sagði taka gyðingatrú vegna metnaðar þar sem hann var að kvænast konu úr auðugri gyðingafjölskyldu. Blaðamaðurinn vann síðan dómsmál gegn Charlie Hebdo á grundvelli ólögmætrar uppsagnar.

Islamófóbíu verður að skoða í samhengi við ástandið í álfunnipoverty

Gagnrýni á efnistök Charlie Hebdo beinist að því að blaðið sýni tvískinnung með því að gera valdalausa múslima að skotspæni enda jarðvegurinn móttækilegur fyrir slíku háði. Nokkrum dögum fyrir voðaverkin 7. janúar s.l. birtust fréttir af fjöldamótmælum gegn Islamvæðingu í Þýskalandi en þar sem í Frakklandi fer andúð á Islam vaxandi. Þannig að háðsádeilur á Islam, sem hafa verið réttlættar sem þáttur af lýðræðislegri veraldarhyggju, njóta stuðnings fjölda íbúa víða í Evrópu. Aukna andúð á Islam eða islamófóbíu verður að skoða í samhengi við ástandið í álfunni eins og slóvenski heimspekingurinn Slavoj Zizek bendir á. Hann vitnar í ummæli Marx Horkheimir sem sagði á uppgangsárum nasismans að ef menn forðast að gagnrýna kapítalismann ættu þeir að steinþegja um fasismann.

Útskúfun úr mannlegu samfélagihomeless

Annar merkur hugsuður, pólski félagsfræðingurinn Zigmunt Bauman, sem upplifað hefur miklar hræringar í veraraldarsögunni á 20. öld, síðari heimsstyrjöldina, helförina og stalínismann, bendir í þessu samhengi á það hvernig reiðin beinist nú að fjölmiðlum þar eð þeir hafi svo mikil áhrif á almenna skoðanamótun. Dauðarefsingin “fatwa” sem Khomeini gaf út fyrir 18 árum síðan er enn að verki og viðbrögð vesturlanda með fjölmenningar-afstöðunni séu yfirborðsleg þar sem þau séu ekki tilbúin til að meðtaka grunngildi Islam og öfugt. Hann bendir á hvernig stjórnkerfi vestrænna ríkja eru að molna að innan; þverrandi traust á milli kjörinna leiðtoga og almennings og eins írónískt og það hljómar vitnar þessi róttæki fræðimaður máli sínu til stuðnings í Frans páfa, sem eins og ég hef áður fjallað um – er stiginn inn á hið pólitíska svið en það hefur verið hertekið af fjármálaöflum sem þurfa í raun ekki að standa ábyrg gjörða sinna gagnvart almenningi með sama hætti og hin kjörnu stjórnvöld sem ýmsir eru að átta sig á að ráða ekki ferðinni í raun. Fjármagnsöflin eru blind á mannlega eymd.

thou shalt not killPáfinn bendir á hvernig boðorðið þú skalt ekki morð fremja undirstriki réttinn til lífs og þetta boðorð eigi við um ríkjandi efnahagsumhverfi ójöfnuðar og útrýmingar sem sé að ganga að fólki dauðu. Lögmál frumskógarins gildi í samkeppnisumhverfi nútímans þar sem þorri fólks sé útilokaður frá þátttöku, settur út á jaðarinn án atvinnu, án möguleika, án undankomu. Litið sé á manneskjuna sem neysluvarning, sem síðan megi henda. Ekki eigi lengur við að tala um arðrán eða kúgun heldur útskúfun úr mannlegu samfélagi þar sem þeir sem verða undir eru álitnir drasl eða úrhrök.

Þetta er frumskógurinn sem menn virðast ekki sjá fyrir trjánum og hamast áfram að benda á tréin án þess að átta sig á villu síns vegar.

 ©

Erindi flutt hjá Rotarý, föstudaginn 16. janúar 2015 .