Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Genf eru glæsileg bygging. Úr kaffiteríunni er óviðjafnanlegt útsýni yfir Genfarvatn og þar yfir gnæfir snævi þakinn tindur Mont Blanc. Inni í kaffiteríunni stendur maður sem einhvern veginn passar ekki inn í umhverfið, þar sem jakkafataklæddir diplómatar eru á spani. Hann er grannvaxinn og tekinn í andliti, fölur og ef maður væri næmur skynjaði maður einhverja óvenjulega birtu í kringum hann. Hann hefur sætt harðræði og pyntingum og verið í öryggisfangelsi, eins og helstu “óvinir ríkisins”, frá 2011.herdis og ales bialatski mars 2015 

 

Portrait of HRH Prince Zeid, HC Designate (and passport photos)Á sama tíma er maður á efri hæð hússins að flytja ræðu. Yfirmaður mannréttindamála Sameinuðu þjóðanna hrífur salinn með sér þegar hann ræðir þá áráttu valdhafa að þagga niður andóf og þar sem ástandið er verst fangelsa þeir andófsfólk fyrir rangar sakir, pynta það og jafnvel drepa. Það drýpur af honum elegansinn enda er hann prins þótt ekki megi nota slíkan titil um yfirmann hjá alþjóðastofnun. Athygli allra beinst að  Zeid Ra’ad Al Hussein, sem tók við þessu mikilvæga embætti í september 2014. Í föðurætt er hann af Hashemita-konungsfjölskyldunni af Írak og Sýrlandi en móðir hans er af sænskum aðalsættum. Hann er vel menntaður, vel máli farinn, vel kvæntur, vel klæddur og með fallega framkomu.

Yfir sig hrifnir fundargestir ganga út af fyrirlestrinum og enginn tekur eftir föla manninum í kaffiteríunni. Hann er fæddur um líkt og leyti og prinsinn, upp úr 1960 en í Sovétríkjunum og ólst upp við allt aðrar aðstæður. Á meðan Zeid prins var í einkaskóla í Englandi, síðar við John Hopkins-háskólann í Bandaríkjunum og lauk loks doktorsnámi í Cambridge – var Ales Bialiatski að alast upp í alræðisríki þar sem fólk hélt að allt myndi horfa til betri vegar með hruni kommúnismans.

 

ales

Ales var öflugur í andófi gegn sovéskum stjórnvöldum á 8. áratug. Hann hafði lokið námi í bókmenntum og gat leigt íbúð í Minsk (í Hvíta Rússlandi) fyrir sig, eiginkonu og son þeirra með aðstoð móður sinnar sem hafði selt jarðaber og gat því lánað þeim fyrir leigunni. Tengdafaðir hans var meðlimur í sovéska kommúnistaflokknum og leist ekkert á þennan tengdason sem kom heim í rifnum frakka eftir að hafa lent í átökum við lögregluna í mótmælum. Hann sá hvaða framtíð beið hans. Ales Bialiatski var í eðli sínu andófsmaður. Hann myndi berjast fyrir mannréttindum sama hvaða merkimiða stjórnkerfið bæri svo fremi að þeim væri ábótavant. Ástandið batnaði ekki þegar kerfi kommúnismans féll. Ekki frekar en í dýraríki Orwells; rangláti, drykkfelldi andstyggilegi húsbóndinn vék fyrir svínum sem fóru fljótlega að standa upprétt á tveimur fótum og haga sér eins og alvöru mannskepnur. Hvíta Rússland varð sjálfstætt lýðveldi 1991 eftir hrun Sovétríkjanna.

Human rights activist Ales Belyatsky sits in a guarded cage in a courtroom in MinskAles var öflugur í baráttu fyrir mannréttindum og stofnaði mannréttindasamtök sem sættu ofsóknum af hálfu stjórnar Alexander Lukashenko sem komst til valda í Hvíta Rússlandi 1994.

Kosningasvik voru viðhöfð í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 1996 og sagði Feneyjanefndin í áliti að stjórnarskrá landsins væri ólögmæt, hún virti ekki lágmarks lýðræðisleg viðmið þar sem hvorki væri virt meginreglan um aðgreiningu ríkisvaldsins eða réttarríkið.

Lukashenko er enn við völd og Hvíta Rússland er eina ríkið í allri Evrópu sem hefur verið meinuð aðild að Evrópuráðinu (þar sem eru 47 aðildarríki) frá 1997. Ástandið í landinu er bágborið efnahagslega og félagslega. Samfélaginu öllu er haldið í heljargreipum ótta almennings og spillingar valdakjarnans; öll lýðræðisleg umræða er kæfð, andófsmenn fangelsaðir, pyntaðir eða skotnir.

Feneyjanefndin hefur farið yfir margvíslega löggjöf í Hvíta Rússlandi á undanförnum árum til að kanna hvort hún stæðist alþjóðleg og evrópsk viðmið um mannréttindi, lýðræði og réttarríki. Ég hef unnið í mörgum af þessum álitum og þannig kynntist ég af afspurn örlögum Ales Bialiatski. Þeim örlögum sem hann var í gær að lýsa fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf.

Hann lýsti því hvernig honum var haldið án dóms og laga í fangelsi árum saman og jafnframt hvernig þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu hefði komið því til leiðar að hann var loks látinn laus síðastliðið sumar. Hann sagði frá því hvernig baráttufólki fyrir mannréttindum er þrýst út á jaðarinn og það einangrað svo enginn heyri raddir þess og valdhafar geti áfram svínbeygt fjöldann.

Hann lýsti því hvernig fólki sem berðist fyrir réttlátara samfélagi væri haldið niðri, hvernig því væri ógnað beint og óbeint; fyrst væri það rógborið og orðstír þess eyðilagður; það sætti jafnframt líkamlegum árásum; það byggi við skort; það sætti stöðugu eftirliti og njósnum; það væri drepið, hyrfi sporlaust; sætti gerræðislegri frelsisviptingu og væri fangelsað án réttlátrar málsmeðferðar. Hann lýsti því hverning mannréttindasamtökum væri haldið niðri; þeim gert ókleyft að starfa með lögum sem samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum eiga að hlúa að félagafrelsinu en ekki fótum troða það.

Hann sagði að svigrúm borgaralegs andófs væri að minnka á heimsvísu. Nú væri heimurinn í áfalli vegna morðsins á á stjórnarandstæðingnum rússneska Boris Nemtsov en ótölulegur fjöldi einstaklinga sætti ofsóknum fyrir skoðanir sínar án þess að umheimurinn fengi nokkru sinni vitneskju um það. Morð Boris Nemtsov er í sviðsljósinu og kallar á svör; rétt eins og fangelsun Alex Bialiatski vakti athygli þeirra sem fylgjast með mannréttindum og pólitík.  Ales Bialiatski var sæmdur Vaclav Havel-verðlaunum Evrópuráðsins 2013 og hefur fengið ótal fleiri viðurkenningar fyrir baráttu sína.

Það var merkileg reynsla að hitta Ales Bialiatski í eigin persónu fyrir tilviljun í Genf. Ég hef haft póstkort með mynd af honum sem dreift var til að vekja athygli á aðstæðum hans á skrifborðinu mínu í nokkur ár – til að minna mig á ástand svo margra í Hvíta Rússlandi. Svo gekk ég fram hjá honum án þess að átta mig og sneri við og talaði við hann.

Á leiðinni út á flugvöll í Genf var samferðamanni mínum tíðrætt um ræðu Zeid Ra’ad Al Hussein sem hann þekkir persónulega og hafði mörg orð um það hve hann væri vel áttaður á kjarna vandans í mannréttindamálum samtímans. Mér var á sama tíma hugsað til mannsins sem ég hafði hitt í nokkrar mínútur með augu sem endurspegluðu svo mikla lífsreynslu, dýpt dýflissunnar. Það var einhver helgi yfir honum.