Baráttan gegn spillingu og auðræði

Baráttan gegn spillingu og auðræði

Baráttan gegn spillingu, auðræði og ójöfnuði

Baráttan gegn spillingu, auðræði og ójöfnuði

 

iowa sanders young peopleKjörstjórn í Iowa þurfti að lýsa því yfir að Hillary Clinton hefði sigrað Bernie Sanders í forvali demókrata í fylkinu svo naumur var sigurinn. Í raun var um jafntefli að ræða þar sem brot úr prósenti skildi þau að.

Bernie Sanders  kom, sá og sigraði. Eins og hann benti á í kjölfar úrslitanna hafði hann enga pólitíska maskínu á bak við sig þegar hann kynnti framboð sitt fyrir nokkrum mánuðum, enga peninga og fáir vissu nokkuð um hann eða hvað hann stóð fyrir. Hann fór gegn stærstu kosningamaskínu Bandaríkjanna, Clintonveldinu sem byggir á gífurlegu framlagi stórfyrirtækja. Árangur Sanders sýnir að unga kynslóðin í Bandaríkjunum er örvæntingarfull.

Iowa bill hillary

Bandaríkin, vagga lýðræðis og nútíma stjórnskipunar, eru komin á yztu nöf þar sem stórfyrirtæki í krafti ógnar-fjármagns einoka fyrirkomulagið sem á að tryggja lýðræðislega stjórnarhætti, virka aðgreiningu ríkisvalds, skoðanafrelsi og rétt manna til að leita lífshamingjunnar. Bilið milli ríkra og fátækra er orðið slíkt að það er ekki lengur hægt að tala um tækifæri fólks til að vinna sig upp úr engu. Málflutningur Sanders um að ná landinu úr höndum auðkýfingastéttar náði eyrum fólksins.

Fjármálaöflin ráða pólitík og fjölmiðlum. Þau ákveða á endanum hver sest í Hvíta húsið, hverjir skipa þingið og hvað fjölmiðlar telja fréttnæmt.

Jefferson og Madison myndu snúa sér við í gröfinni ef þeir sæju hvert Bandaríkin eru komin rúmum 200 árum eftir að þeir lögðu grunninn að vestrænni stjórnskipun. Að sama skapi held ég að þeir gætu ekki annað en brosað nú í ljósi úrslitanna í Iowa.

iowa thomas jefferson

Sanders fór gegn spilltum fjármálaöflum sem eru í nánu bandalagi við pólitísk öfl og stjórnvöld sem hafa verið við lýði auk þess sem þau ráða fjölmiðlaveldinu sem mótar umræðuna og reynir að grafa undan öllum þeim sem ögra þvi. Hann vann því rokkandi sigur í Iowa fyrir tilstuðlan ungs fólks sem hefur náð botninum í tiltrú á kerfi sem getur ekki gengið lengur. Kjósendur Sanders vilja umbylta spilltu pólitísku kerfi sem byggir á bandalagi við fjármálaöfl. Eins og hann segir sjálfur voru stórir fjölmiðlar gerðir út til að reyna að koma í veg fyrir að þessi árangur næðist.

 

“Það er ekki hægt að sitja báðum megin borðsins: tala um rétt þeirra sem minna mega sín og vera samtímis kostaður af kúgara þeirra – fjármálaöflunum”

Hér benda stjórnmálaskýrendur á að Sanders sé sósíalisti sem leiti fyrirmynda í velferðarkerfum í norður- og vestur Evrópu. Tilfellið er að hann er miklu áttaðari á veruleikanum en sósíaldemókratar í þeim löndum sem eiga meira sammerkt með málflutningi Hillary Clinton. Hún skreytir sig með regnboga-hugtökum fjölmenningar og femínisma en flýtur áfram í faðmi framlaga frá stórfyrirtækjum. Það er ekki hægt að sitja báðum megin borðsins: tala um rétt þeirra sem minna mega sín og vera samtímis kostaður af kúgara þeirra – fjármálaöflunum.

Auðvitað er mikilvægt að halda áfram að berjast fyrir réttindum kvenna og minnihlutahópa en það verður ekki gert með því að veifa fánum feminisma og fjölhyggju heldur með því að brjóta niður kerfi oligarka – stórfyrirtækja, samþjöppun valds í viðskiptalífi, pólitík og fjölmiðlum. Sú samþjöppun valds hefur átt sér stað út um allan heim, allt frá Rússlandi Pútíns yfir Atlantsála til Bandaríkja Norður-Ameríku og Suður-Ameríku en þar hefur hæstiréttur Brasilíu nýlega sagt þessum öflum til syndanna og lýst því yfir að það gangi gegn stjórnarskrá landsins að stórfyrirtæki ráði því hver komist til valda í lýðræðisríki. Það eru borgarar landsins sem eiga að kjósa forystu en ekki fjármálaöflin. Það er ekki verið að tala um að þeir sem eigi meira undir sér geti ekki haft áhrif en staðan er orðin sú í nútímanum að nokkrir tugir manna eiga orðið allt og ráða öllu – glóbalt. Fjármálaöflin einoka pólitíkina og fjölmiðlaumræðuna, móta almenningsálitið og ráða því hverjir komast til valda, forheimska og afvegaleiða kjósendur í krafti fjármagns. Nú segir ungt fólk í Bandaríkjunum hingað og ekki lengra.

iowa clinton foundation

Fólk er að rísa upp gegn kerfislægri spillingu og ójöfnuði sem er orðinn slíkur í heiminum að 62 aðilar eiga meir en helmingur mannkyns. Brot úr einu prósenti á allt og ræður öllu.

Stjórnskipun Bandaríkjanna sem mótuð var á 18. öld byggir á því að það sé sjálfgefið að allir menn séu skapaðir jafnir með óafsalanleg réttindi eins og frelsi, sókn eftir hamingju og réttinn til lífs eins og segir í Sjálfstæðisyfirlýsingunni 1776. Í inngangi hennar er tekið fram að það sé náttúrulegur réttur manna að standa vörð um pólitískt sjálfstæði sitt. Sanders talar um pólitíska byltingu. Í Sjálfstæðisyfirlýsingunni segir að fólki eigi að losa sig úr fjötrum stjórnvalda sem vinna gegn réttindum þess.

Grundvöllur vestrænnar stjórnskipunar sem lagður var með stjórnarbyltingunni í Frakklandi og sjálfstæðisbyltingu Bandaríkja Norður-Ameríku á 18. öld gerði ekki ráð fyrir þeirri samþjöppun auðs og valda sem orðin er í samtímanum út um allan heim. Almenningur er að átta sig á þessu og mun reyna að brjóta af sér fjötrana sem  stórfyrirtæki í bandalagi við spillta pólitíkusa, fjölmiðla og kerfiskalla í víðtækasta skilningi þess orðs hafa bundið fólk í.

Thomas Jefferson varaði við þeirri þróun sem orðin er 1825 þegar hann benti á hvernig fólk tapaði tilfinningunni fyrir frelsi og mannréttindum í skjóli sterkra stjórnvalda “aristókrasíu” sem byggði vald sitt á bönkum og auðugum fyrirtækjum.

Sigur Sanders í Iowa markar tímamót hver svo sem endanleg niðurstaða verður í samkeppni þar sem auðræðið ríkir að minnsta kosti um sinn. Örvænting og barátta ungs fólks kann að breyta því.

 

 

62 auðugustu eiga meira en helmingur jarðarbúa!

62 auðugustu eiga meira en helmingur jarðarbúa!

línuritBilið milli hinna vellauðugu og þeirra fátækustu hefur aldrei verið meira. Nýútkomin Oxfam-skýrsla sýnir að samanlagður auður 62 ríkustu manna heims er jafnmikill og helmingur jarðarbúa á.

Það er engin tilviljun að Oxfam-skýrslan kemur út núna í sömu viku og hinir vellauðugu funda á árlegri heimsráðstefnu um efnahagsmál í Davos. Skýrslan sýnir að 1% jarðarbúa á meira en 99% en 50% þeirra fátækustu hafa orðið 41% fátækari á árunum 2010-2015. Á sama tíma hefur auður hinna ríkustu 62 aðila aukist um 500 milljarða dollara upp í 1,76 trilljónir.

Þeir sem allt eiga komast fyrir í einni rútu, eins og talsmaður Oxfam benti á. Stjórnmálamenn sem mega sín lítils gagnvart fjármálaöflunum hafa ekkert gert til að sporna við þessari þróun. Ójöfnuður eykst stöðugt. Pólitísk völd safnast á þessar fáu hendur sem hafa sópað til sín megninu af auði heims.

Lýðræði, mannréttindi og réttarríki geta ekki þrifist í þessari þróun. Einn af hverjum níu sveltur. Kallað hefur verið eftir aðgerðum – jafnt af Frans páfa sem alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það verður að skoða þessa þróun í samhengi við allt annað.

Sjá hér.

Kristinn Björnsson – minningarorð

Kristinn Björnsson – minningarorð

Kristinn BjörnssonNærvera Kristins Björnssonar fór ekki fram hjá fólki. Hann var glæsimenni. Sé hann fyrir mér hávaxinn, ljóshærðan, með gleraugun og bros í augunum; umkringdan fólki. Hann var með skemmtilegri mönnum, fyndinn, fljótur til svars og glöggur á menn og málefni.

Í hugann kemur upp kvöld á Fjólugötu, æskuheimili þeirra systkina, hans, Emilíu vinkonu minnar, Sjafnar og Áslaugar. Það var veisla og þarna voru foreldrar þeirra, vinir og frændfólk. Þarna var Kristinn, nýútskrifaður lögfræðingur ásamt Sólveigu sinni og frumburði þeirra. Árum saman hitti maður ekki eingöngu vini Emilíu í boðum, heldur einnig vini systkina hennar, frændfólk og foreldrana Sjöfn og Björn. Það er stór hópur af fólki sem þekkist í gegnum tengsl við þessa skemmtilegu og góðu fjölskyldu.

Kristinn ólst upp með þremur glaðværum systrum og var augsýnilega náinn báðum foreldrum sínum. Hann var skírður eftir móðurafa sínum, Kristni, sem kenndur var við Geysi og Emilía sagði að hefði alltaf verið óaðfinnanlegur í klæðaburði. Þannig var Kristinn. En hann var einnig mjög líkur föður sínum Birni, eins og Emilía, sem var svo sjarmerandi, fyndinn og hlýr maður. Kristinn hitti oft naglann á höfuðið og með eftirminnilegum hætti. Um Emilíu systur sína sagði Kristinn að hún sameinaði marga eftirsóknarverðustu kosti sem eina manneskju prýða. Hann hafði  ýmsa þessa kosti sjálfur. Þar stendur upp úr trygglyndi.

Á fundi í Aðalstræti 4 á Heimsmyndarárunum. Myndin er tekin 1991. Frá vinstri Sigurður Gísli Pálmason, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, Pétur Björnsson, Herdís Þorgeirsdóttir, Hildur Grétarsdóttir og Kristinn Björnsson, sem gegndi stjórnarformennsku í Ófeigi hf., sem gaf út Heimsmynd frá 1986-1993.

Þegar ég stofnaði útgáfufyrirtæki í janúar 1986 til að gefa út tímaritið Heimsmynd fékk ég Kristinn til að koma í stjórn ásamt nokkrum öðrum einstaklingum í viðskiptalífinu. Taldi að það myndi styrkja stöðu blaðsins á auglýsingamarkaði. Tíminn leiddi í ljós að því gagnrýnni sem skrif í blaðinu urðu því erfiðar átti það uppdráttar.  Þrátt fyrir góðan hug stjórnarmanna var ekki auðvelt fyrir þá að sitja undir þrýstingi þegar greinar í tímaritinu voru farnar að ganga nærri jafnvel samstarfsaðilum þeirra í viðskiptalífi og pólitík. Leiðir hlutu að skilja en það var með þeim hætti að engan skugga bar á.

Það er sjónarsviptir af Kristni Björnssyni. Hann var góður maður. Oscar Wilde sagði beisklega að það væri fáránlegt að flokka fólk eftir því hvort það væri gott eða slæmt. Annað hvort væri fólk sjarmerandi eða leiðinlegt. Kristinn féll einnig þar í fyrri flokkinn.

Votta Sólveigu, börnum, tengdadóttur og barnabörnum innilega samúð sem og Emilíu vinkonu minni og fjölskyldunni allri.

(Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu sama dag og útför Kristins Björnssonar fór fram í Dómkirkjunni, 10. nóvember 2015. Kristinn Björnsson lést 31. október 2015 í kjölfar erfiðra veikinda. Hann var fæddur 17. apríl 1950.)

SJÁLFSTÆÐISYFIRLÝSINGIN 1776 OG GRÍSKIR FJÖTRAR

SJÁLFSTÆÐISYFIRLÝSINGIN 1776 OG GRÍSKIR FJÖTRAR

greece-cartoonÁ þessum degi, hinn 4. júlí 1776 var sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna undirrituð. Hún markaði þáttaskil í baráttunni fyrir almennum mannréttindum þar sem því var afdráttarlaust lýst yfir að allir menn væru fæddir jafnir. Þessi algilda mannréttindayfirlýsing er grundvöllur þeirrar stjórnskipunar sem byggir á frelsi og sjálfsákvörðunarrétti fólksins.

Markmiðið með sjálfstæðisyfirlýsingunni 1776 var að slíta hin pólitísku tengsl nýlendnana í Norður-Ameríku við bresku krúnuna sem var hvorki réttlátt né lýðræðislegt stjórnvald.

Fimmtíu árum síðar sagði Jefferson, aðalhöfundur yfirlýsingarinnar, að menn yrðu að brjóta af sér hlekki fáfræði (forheimskunar) enda byggir lýðræðið á skoðanafrelsi og upplýstum ákvörðunum. Jefferson sagði að fólki væri almennt orðið ljóst að meirihluti mannkyns væri ekki fæddur með hnakka á bakinu eða að fámennur forréttindahópur væri af Guðs náð íklæddur stígvélum með sporum með lögmæta ásetu á hnakknum til að stjórna hestinum.

Þessi orð hafa verið rifjuð upp nýlega í ljósi vaxandi ójöfnuðar sem hefur innleitt nýja aristókrasíu (einokun stórfyrirtækja). Fólk er ekki fætt í hlekkjum. Gríska þjóðin stendur frammi fyrir þeirri spurningu á morgun hvort hún eigi að brjóta af sér hlekki skuldafjötra – og þá má hafa í huga orð Roberts Schumans, eins af stofnendum Evrópuráðsins og kola- og stálbandalagsins, forvera Evrópubandalagsins, manns sem skildi út á hvað evrópsk samvinna ætti að ganga, ekki út á „hernaðarbandalag og ekki aðeins út á efnahagslegu einingu heldur fyrst og fremst út á hið siðmenntaða bandalag í víðtækasta skilningi þess orðs.”

Þess má geta hér að forysta Evrópuráðsins hefur lýst því yfir að þjóðaratkvæðagreiðslan í Grikklandi sé ekki í samræmi við alþjóðleg viðmið sem gera kröfu um boðað sé til slíkrar atkvæðagreiðslu með tveggja vikna fyrirvara. Boðað var til atkvæðagreiðslunnar um hvort ganga ætti að kröfum kröfuhafa s.l. laugardag og ekki er ljóst hverjar verða afleiðingarnar ef Grikkir segja “nei” við ofangreindu og hvort það þýði að þeir fari út úr evrópska myntbandalaginu og taki upp eigin mynt. Þá eru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að hafa spurningarnar sem lagðar eru fyrir þjóðina óskýrar. (Sjá hér:http://www.ekathimerini.com/198779/article/ekathimerini/news/council-of-europe-conditions-of-greek-referendum-fall-short-of-international-standards).

Hér  er grein um aukið vald viðskiptablokka og áhrif þeirra á lýðræði og mannréttindi úr greinaflokki um togstreitu markaðar og réttarríkis sem ég birti í Morgunblaðinu í janúar og febrúar 2006.

Togstreita markaðar og réttarríkis

Togstreita markaðar og réttarríkis

GREECE CRISISTogstreita markaðar og réttarríkis – I (upphaflega birt sem greinaflokkur í Morgunblaðinu í janúar og febrúar 2006).

Hvernig á að bregðast við á tímum hnattvæðingar þegar fyrirtæki eru orðin það voldug að þau geta grafið undan grunnréttindum fólks í ríkjunum, sem þau starfa í? Er kominn tími til að alþjóðavæða réttarríkið?
Er hugsanlegt að lýsa megi ástandinu í heiminum, nú í upphafi 21. aldar, þannig að þar takist á markaðsþjóðfélagið og réttarríkið? Ef ég væri beðin að lýsa réttarríkinu fyrir barni myndi ég líkja því við upphaf ævi Montesquieu, mannsins sem við rekjum grunnhugmynd okkar um þrískiptingu ríkisvaldsins til. Hann fæddist á kaldri janúarnóttu 1689 í kastala nálægt Bordeaux í Frakklandi, sonur dómara og guðrækinnar móður. Betlari, sem átti leið hjá, var kallaður til sem skírnarvottur svo að drengurinn myndi minnast þess allt sitt líf að hinir örsnauðu væru bræður hans. Hann var barn þess tíma þegar fátækt og eymd var ekki rakin til samfélagslegra þátta heldur útskýrð eins og hver önnur tilviljun eða hjátrú. Í því verki sem Charles-Louis Montesquieu síðar varð heimsfrægur fyrir, “Andi laganna” (De l’esprit des lois 1758), útskýrði hann fyrir umheiminum að aðlaga ætti lögin lífi fólks, þörfum þess og aðstæðum, þjóðerni og loftslagi og að því frelsi sem stjórnarskrá heimilaði . . .

Hvernig ber að líta á réttarríkið?

Með þessum hætti þarf að hugsa um réttarríkið en ekki eingöngu sem ríki sem lýtur réttarreglum við beitingu ríkisvalds, þ.e. að stjórnvöld hagi athöfnum sínum í samræmi við lög; að eftirlit þurfi með meðferð opinbers valds, að lög séu ekki afturvirk; að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og valdmörk milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds séu skýr – allt bráðnauðsynlegar forsendur en ekki nægar. Það þarf að hugsa um réttarríkið sem dýpra og innihaldsríkara hugtak eins og það var skilgreint af alþjóðanefnd lögfræðinga 1959: Réttarríkið er fyrirkomulag til að ná fram stjórnmálalegu, félagslegu og efnahagslegu réttlæti! Þessi skilgreining á réttarríki á sér æ fleiri talsmenn. Einn þeirra, Owen Fiss, professor við lagadeild Yale-háskóla, bendir á hvernig fylgjendum þessa viðhorfs hafi fjölgað á sama tíma og ný-frjálshyggjan hafi leitt öflug stórfyrirtæki í öndvegi – sem í sjálfu sér sé lýðræðislegt. Á hinn bóginn sé ljóst að kröfur réttarríkisins um virðingu fyrir mannréttindum og kröfur fyrirtækja um hámarksarðsemi fara ekki alltaf saman. Markaðir þurfa á réttarríki að halda en þeir eru ef til vill ekki tilbúnir fyrir það í öllu sínu veldi, þar sem kröfur réttarríkis eru ekki endilega í samræmi við forsendur markaðarins.

 

Alexis de Toqueville, franski aristókratinn sem gerði úttekt á lýðræði í Ameríku á fyrri hluta 19. aldar, sagði að efnahagsleg hagsæld í lýðræði þyrfti alltaf að haldast í hendur við ákveðnar dyggðir. Hann taldi ekki nóg að afnema forréttindi valdastéttarinnar eins og gert hefði verið í frönsku byltingunni, efnahagslegur ójöfnuður væri líka áhyggjuefni fyrir lýðræðið.

Í höfuðstöðvum Evrópuráðsins í Strasbourg í síðustu viku, sagði Terrie Davis aðalframkvæmdastjóri þess, í árlegu ávarpi til þingmannasamkundunnar, að til þess að Evrópuráðið gæti staðið vörð um þau grunngildi sem það byggði á – lýðræði, mannréttindi og réttarríki – mætti ekki gleymast að lýðræði væri meira en grunnreglur um viðeigandi lögskipan og ferli. Raunverulegt lýðræði ætti rætur í lýðræðis-menningu og þá menningu þyrfti að rækta, ekki bara í nýfrjálsum ríkjum heldur einnig þeim sem byggðu á aldalangri hefð.

Stöðug barátta fyrir réttindum

Þær rúmu 800 milljónir íbúa hinna 46 ríkja sem nú eru aðilar að Evrópuráðinu og Mannréttindasáttmála Evrópu eru mis”kúltíveraðar” í þessum efnum. Hin nýfrjálsu ríki Austur-Evrópu, umföðmuðu anda Evrópuráðsins þegar vígi kommúnismans féll með Berlínarmúrnum á svipaðan hátt og “eighties-tískuna” svokölluðu, jafn móttækileg fyrir mannréttindum og Íslendingar fyrir Gleðibankanum á þeim tíma. En eins auðveldlega og fólk gat losað sig við herðapúða og legghlífar níunda áratugarins eins erfiðlega getur gengið að breyta hugsunarhætti þess sem hefur búið við þá skoðanakúgun, ótta og óöryggi sem fylgir harðstjórn. Það er sama hvernig hún birtist allir óttast hana en eru að sama skapi ekki tilbúnir að berjast fyrir réttindum sínum eins og þarf að gera stöðugt.Þegar blaðamaður bandarísks stórblaðs hafði samband við mig sem varaforseta Evrópusamtaka kvenlögfræðinga í síðustu viku og bað mig að finna fyrir sig konu í einhverju Evrópuríki, sem hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni (líkast til af því að ný Hollywood-mynd með Charlize Theron í hlutverki slíks fórnarlambs er komin á markað) – var engin kona tilleiðanleg til að koma fram í dagsljósið og ræða sín mál. Ástæðurnar sem lögmenn þeirra gáfu voru m.a. ótti við afdrif sín á vinnumarkaði í kjölfarið.

Það var loks pólskur lögmaður (kona), sem svaraði tölvupósti og sagði frá því að á síðasta ári hefði komið upp alvarlegt mál af þessu tagi í verksmiðju, sem er útibú frá Pepsi, nálægt Varsjá. Þar hafði hópur verkakvenna kært yfirmann sinn fyrir kynferðislegt áreiti í vinnutímanum. Saksóknari gaf út ákæru á hendur verksmiðjustjóranum og hefur málsmeðferð fyrir sakadómi tekið langan tíma. Konunum hefur öllum verið sagt upp störfum og eru þær komnar með mál sitt fyrir félagsdóm. Fulltrúa Solidarnosk, verkalýðsfélagsins á staðnum, sem mótmælti brottrekstri þeirra var gefið að sök að hafa falsað upplýsingar og fleira áður en honum var sparkað. Landssamtök Samstöðu hafa í kjölfarið hótað að sniðganga vörur fyrirtækisins.

Vald stórfyrirtækja

Hvað kemur þessi saga markaði og réttarríki við frekar en sagan af Montesquieu? Hvað ef faðir hans, dómarinn hefði farið út fyrir kastalann sinn og sparkað í beiningamanninn á tröppunum? Spurningin snýst um ábyrgð þeirra sem eiga að tryggja að virðing sé borin fyrir mannréttindum og mannhelgi einstaklinga. Hún snýst um það hvernig samfélagið og umheimurinn allur bregst við þegar stórfyrirtæki á borð við það sem rak pólsku verkakonurnar fyrir að berjast gegn kynbundnu ofbeldi – eru komin í aðstöðu til að hóta fólki að henda því út á guð og gaddinn ef það er með eitthvert mannréttinda-múður. Og hún snýst ekki síst um það hvernig kjörin stjórnvöld bregðast þá við.

 

Eftir því sem vandamálin verða stærri og hnattrænni því meiri þörf er að alþjóðavæða réttarríkið. Það er að verða viðurkennd staðreynd í hópi sérfræðinga á sviði alþjóðalaga og stjórnskipunar að þróunin sé í átt að heimsrétti og að það sé að verða til kerfi alþjóðlegrar stjórnskipunar. Þar vegur þungt þróun mannréttinda á alþjóðavettvangi, ekki síst dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og túlkun hans á Mannréttindasáttmála Evrópu, sem “lifandi sáttmála” sem eigi að veita raunverulega réttarvernd í stað þess að vera fræðileg tálsýn. Evrópusambandsdómstóllinn í Lúxemborg hefur einnig verið virkur í því hlutverki að endurskoða löggjöf aðildarríkja á grundvelli Rómarsáttmálans. Þessi réttarframkvæmd hefur haft gífurleg áhrif innan ríkja, þ.e í afstöðu ríkja til eigin þegna og samskipta þeirra innbyrðis og gert það að verkum að fræðimenn eru farnir að vísa í evrópska stjórnskipun – jafnvel alþjóðlega stjórnskipun.

Óréttmæt áhrif valdablokka

Það er nokkuð viðurkennd staðreynd að ein mesta meinsemd nútíma stjórnkerfa eru óréttmæt áhrif valdablokka í viðskiptalífi á hið lýðræðislega ferli stjórnmálanna, sem í raun varpar skugga á lögmæti þeirra sem eru kjörnir til að fara með völdin og helstu stofnana samfélagsins. Ríkið á hvort tveggja að gæta þess að skerða ekki mannréttindi og jafnframt að tryggja öllum réttinn til að njóta þeirra. Nú eru stjórnvöld víða komin í þá aðstöðu að vera óbeinn þátttakandi í skerðingu með því annað tveggja að ýta undir aðstöðu þriðja aðila til að skerða þau eða koma ekki í veg fyrir slíkt með því að grípa til aðgerða.

Fjölmiðlasamsteypur nútímans eru ágætt dæmi um þetta vandamál. Hnattvæðingin er óhugsandi án þeirra samtímis sem þeir sem þar ráða för eru komnir með yfirþjóðleg áhrif og vald til skoðanamótunar vegna stýringar á upplýsingastreymi, sem vart nokkur máttur innan ríkis fær rönd við reist. Drittwirkung eða áhrif stjórnarskrárbundinna mannréttinda í samskiptum einkaaðila er vart álitamál lengur heldur frekar spurning um hve langt sú réttarvernd nær.

Mannréttindi eru ekki aðeins hástemmd og draumkennd markmið heldur niðurnjörvuð lagaákvæði þar sem auknar kröfur eru um athafnaskyldu ríkisvalds til að tryggja jafnræði borgara og forsendur þess að þeir geti notið grunnréttinda. Þegar Ísland sem fleiri Evrópuríki gerðist aðili að Evrópuráðinu og skuldbatt sig að þjóðarrétti til að framfylgja ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu var almennt álitið að sú réttarvernd sem þar væri snerist um að vernda einstaklinga gegn íhlutun ríkisvaldsins – enda meginregla að íslenskum rétti að einstaklingar búi við athafnafrelsi og slíku frelsi mætti aðeins setja skorður með lögum innan þess ramma sem stjórnarskrá setur. Hins vegar leggur Mannréttindasáttmáli Evrópu (1. gr.) sem og EES-samningurinn (3. gr) þá athafnaskyldu á íslenska ríkið að það geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að staðið sé við þær skuldbindingar sem samningarnir kveða á um. Frá því að þessir samningar voru lögfestir hér má segja að vendipunktur hafi orðið í afstöðunni til athafnaskyldu stjórnvalda, sem kallar ekki aðeins á stefnumarkandi dómaframkvæmd heldur einnig löggjöf með áherslu á efnisleg viðmið en ekki eingöngu formlega staðfestingu á þjóðaréttarlegum skuldbindingum.

Alþjóðlegir mannréttindasamningar sem upphaflega taka mið af þeim meginreglum stjórnskipunar sem eru ríkjandi í þeim ríkjum, sem lengst eru komin í átt til lýðræðis og frjálsræðis (eins og það viðmið var túlkað í upphafi kalda stríðsins) hafa síðan víxlverkandi áhrif í stjórnskipun innan ríkja. Endurbætur á stjórnarskrám og önnur lögskipan sem tekur mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum veitir ríkisvaldinu aðhald en er einnig í auknum mæli álitið tæki stjórnvalda til að stuðla að ákveðinni samfélagsþróun, t.d. velferðarríki eða auknum jöfnuði.

Aðeins ein mannréttindi virk?

Philip Allot, lagaprófessor í Cambridge, talar um “lýðræðis-kapítalisma” þar sem hinn Almenni Vilji og Markaðurinn eru komnir í stað Guðs og Konungs; alvitrir og almáttugir og þess umkomnir að stuðla bæði að hinu besta og versta í samfélaginu þar með ójöfnuði í setningu laga og dómaframkvæmd. Allot segir aðeins ein mannréttindi virk um þessar mundir og það sé réttur hinna ríku til að verða ríkari. Bæði Hæstiréttur Bandaríkjanna og Mannréttindadómstóll Evrópu hafa þurft að kljást við spurninguna um samþjöppun valds og möguleikana á öflugum skoðanaskiptum þegar fámennur hópur ræður í raun hvaða raddir fá að heyrast í samfélaginu. En í dómaframkvæmd kemur berlega í ljós mismunandi afstaða til hlutverks stjórnvalda í réttarríki og athafnaskyldu þeirra þegar eignarhald virðist fremur orðin spurning um samfélagslegt vald en eignarrétt og hvar draga eigi mörkin á milli einstaklingsréttinda og samfélagslegra hagsmuna.

 

Slík mál varpa skýrara ljósi en margt á togstreituna milli markaðssjónarmiða og réttarríkis. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sumarið 2002 í máli nokkurra verkalýðsfélaga gegn Bretlandi var það talið brot á félagafrelsisákvæði Mannréttindasáttmálans að bresk lög heimiluðu atvinnurekendum að sniðganga verkalýðsfélög með því að bjóða starfsmönnum sérsamninga og hærri laun ef þeir tækju ekki þátt í almennum kjarasamningum og þannig væri réttur starfsmanna til að vera í stéttarfélögum, til verndar hagsmunum sínum, ekki tryggður. Gaukur heitinn Jörundsson dómari var sammála niðurstöðu dómenda en skilaði séráliti til að hnykkja á mikilvægi þess að stjórnvöld tryggðu það að vinnuveitendur gætu ekki í skjóli laganna notað fjárhagslegar tálbeitur á starfsmenn til að þeir afsöluðu sér mikilvægum réttindum. Með því móti væri ríkið að bregðast þeirri skyldu sinni að tryggja rétt manna til að ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.

(Höfundur er prófessor við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst.)