by Herdís Þorgeirsdóttir | 4.03.2013 | Mannréttindi & pólitík

Með utanríkisráðherra Ungverjalands, János Martonyi.
Nokkrar svipmyndir frá fundi stjórnar Evrópsku lagaakademíunnar (ERA), sem er miðstöð þekkingar í Evrópurétti og býður upp á námskeið á öllum sviðum réttarins. Þeir sem sækja námskeið eru dómarar frá aðildarríkjum ESB og af evrópska efnahagssvæðinu; saksóknarar, lögmenn, fræðimenn, starfsmenn stjórnsýslu og fleiri. Er núna í vinnuhópi á sviði stjórnskipunar og grundvallarréttinda.

Með dr. Paulina Koskelli, formanni stjórnar. Hún er forseti hæstaréttar Finnlands.

Með Diane Wallis, fyrrum varaforseta Evrópusambandsins.

Á vinnufundi í París með Jan Helgesen.

Með Bogdan Aurescu, aðstoðarutanríkisráðherra Rúmeníu á fundi um stjórnskipunarmálefni í Norður-Afríku. Um miðjan maí var ég með framsögu á vinnufundi í Marrakech í Marokkó um fundi um stjórnarskrárbreytingar á tímum samfélagslegs umróts. Á fundinum skýrðu þeir sem komu að samningu stjórnlaga í Alsír, Egyptalandi, Jórdaníu, Líbíu, Máretaníu, Marokkó og Túnis frá stjórnarskráumbótum í þeim ríkjum. Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að umbætur á stjórnskipun miðuðu að því að draga úr spillingu. Ráðstefna þessi var m.a. skipulögð innan ramma Evrópusambandsins um styrkingu lýðræðislegra umbóta á suðlægum slóðum en stærsti styrktaraðilinn var utanríkisráðneyti Noregs og þýski Hanns Seidel sjóðurinn.

Með Maud de Boer Buquicchio fyrrum varaframkvæmdastjóra Evrópuráðs og fórkólfi í málefnum barna og kvenna.

Með breskum lögmönnum, Gavin Millar og Richard Clayton en við höfum unnið saman að verkefni á sviði meiðyrðalöggjafar.

Undanfarin tíu ár hef ég starfað í teymi lögfræðinga sem vinna að því að skoða innleiðingu jafnréttistilskipana í löggjöf heimaríkis á grundvelli ESB og EES löggjafar. Á myndinni er ég með samstarfskonum á árlegum fundi í Brussel.

Vegna starfa minna sem forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga hef ég komið að ýmsum málum er varða jafnrétti kvenna. Á ráðstefnu í Dushanbe í Tajikistan að tala um aðgengi kvenna að dómstólum en ofbeldi gegn konum er landlæg plága í þessu fátæka ríki.

Á vinnufundi með góðum konum.


Konan á myndinni heitir Ingrid Stoltenberg. Maðurinn hennar var forsætisráðherra Noregs – en það sem ég vissi ekki er að föðursystir hennar var barnabókarithöfundurinn Ann Cath Vestly – sem skrifaði söguna um Óla Alexander fílibomm bomm bomm.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 3.03.2013 | Mannréttindi & pólitík
Það er endalaust verið að tala um flottar konur; bæði í félagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum. Leikkonan Anne Hathaway sem lék hina ógæfusömu vændiskonu Fantine, í kvikmyndinni um Vesalinganna – er sögð hafa sett sig vel inn í málefni varðandi mansal og vændi áður en hún tók að sér hlutverkið. Hún fékk óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki. Í þakkarræðunni vék hún að þeim óhugnaði sem vændi og mansal er. Enda vandamálið hvergi langt undan. En hvernig brugðust fjölmiðlar við – fókusinn var allur á kjólana og líkama leikkvennana. Ekki skrýtið þótt mansal og allur sá viðbjóður sem því fylgir nái að grassera sem aldrei fyrr.
Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali tók gildi á Íslandi hinn 1. júní 2012
Reykjavík, 3. mars 2013.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 28.02.2013 | Mannréttindi & pólitík
Fyrirtæki, sem keppa að árangri verða að ráða hæft starfsfólk. Það virðist há bæði fyrirtækjum á markaði sem og stofnunum stjórnsýslu að þetta lögmál hefur víða ekki verið haldið í heiðri. Í harðnandi samkeppni hafa fyrirtæki og stofnanir ekki efni á því að ganga fram hjá hæfileikafólki. Fyrirtæki verða að skanna markaðinn og leita bestu og hæfustu starfskrafta sem völ er á.
Í dag er jafnlaunadagurinn, þar sem fyrirtæki á evrópska efnahagssvæðinu eru minnt á mikilvægi þess að til þess að ná sjálfbærni í árangri ættu þau að ná til sín hæfileikaríkum konum.
Íbúum í Evrópu er að fækka og þeir eru að eldast. Það verður æ erfiðara að endurmanna vinnumarkaðinn með hæfu fólki. Í harðnandi samkeppni á heimsvísu þurfa fyrirtæki að standa sig, bæði í framleiðslu, þjónustu og andspænis æ flóknari tækni.
Hæfileikar kvenna á vinnumarkaði eru vannýttir. Á Íslandi er þátttaka kvenna í atvinnulífinu meiri en víða annars staðar en karlar eru í öllum helstu áhrifastöðum. Konur virðast oft ekki fá tækifæri nema farið sé að fjara undan á þeim sviðum þar sem þær ná toppnum. Tölfræði í Evrópu sýnir að konur eru aðeins 16 prósent af stjórnum fyrirtækja og kynbundinn launamunur er að meðaltali um 16 prósent. Hjúkrunarkonur rétt skrimta af laununum sínum enda á tífallt lægri launum en meðallaun starfsmanna í reykvískum fjárfestingarbanka.
28. febrúar 2013
by Herdís Þorgeirsdóttir | 14.02.2013 | Mannréttindi & pólitík
Tjáningarfrelsið er mikilvægast allra réttinda en það nær ekki til stórfyrirtækja, sem beita fjármagni í pólitík til að ná töglum og högldum í samfélaginu.
— Ronald Dworkin um dóm hæstaréttar Bandaríkjanna Citizens United v. FEC í janúar 2010 –dóm sem hann sagði réttilega ógna lýðræðinu þar eð stórfyrirtækjum væri þar játað frelsi á grundvelli tjáningarfrelsis til að nota fjármagn að vild til kynningar á frambjóðendum.
(Ronald Dworkin (1931-2013), einn þekktasti og virtasti fræðimaður á sviði mannréttinda og stjórnskipunar látinn.)
14. febrúar 2013
by Herdís Þorgeirsdóttir | 10.02.2013 | Mannréttindi & pólitík
Menntamálaráðherra Þýskands, Annette Schavan, hefur sagt af sér í kjölfar þess að Heinrich Heine-háskólinn í Dusseldorf dró til baka doktorsgráðu hennar vegna ritstuldar. Karl-Theodor Zu Guttenberg, þá varnarmálaráðherra Þýskalands var einnig tilneyddur til að segja af sér árið 2011 þegar uppvíst varð um ritstuld hans við smíði doktorsritgerðar sinnar. Það er álíka neyðarlegt fyrir menntamálaráðherra að verða uppvís að ritstuldi og ef kæmi í ljós að fjármálaráðherra væri með peningana sína í skattskjólum. Sýnt þykir að Annette Schavan notaði kerfisbundið efni frá öðrum við samningu doktorsritgerðar sinnar. Slíkt þykir óboðlegt í samfélagi þar sem menntun er í hávegum höfð og því fylgir fræðileg og fagleg ábyrgð að hafa doktorsnafnbót.
Að axla ábyrgð er hluti af þeirri stjórnfestu sem er kjölfesta þess að lýðræðið geti þrifist. Stjórnmálamenn verða samkvæmt því að gangast við alvarlegum yfirsjónum sem og aðrir sem gegna háum opinberum stöðum. Höfundar bandarísku stjórnarskrárinnar voru sér þess mjög meðvitaðir að ein frumforsenda þess að unnt væri að byggja upp lýðveldi væri sú að þeir sem færu með völd í umboði fólksins væru „dyggðugir“ –annað væri ávísun á spillingu.
Stjórnfesta þar sem menn axla ábyrgð hefur ekki einkennt íslenskt samfélag. Bankahrunið var afleiðing ábyrgðarleysis og pólitískrar spillingar; samfélags þar sem menn og konur vinna kerfisbundið í klíkum að því að komast að kjötkötlum. Þegar ný ríkisstjórn tók við eftir hrun var það ein af tillögum forsætisráðherra að setja starfsmenn stjórnsýslu á námskeið í stjórnfestu og láta draga upp siðareglur svo að þeir sem gegndu opinberum störfum áttuðu sig á hvar mörkin lægju. Hér er engin forsaga um riddaramennsku og „noblesse oblige“ – þ.e. að þeir sem gegna virðingarstöðumum átti sig á því að vandi fylgir vegsemd hverri – að „heiður“ og „sómi“ kalla á ríka ábyrgðarkennd gagnvart samfélaginu.
Það grefur undan réttarríkinu þegar það viðgengst að sneiða hjá reglum og ábyrgð. Það grefur undan lýðræðinu þegar forystan setur sjálfa sig í forgrunn og hagsmuni almennings í aftursætið.
Því eru það góð skilaboð til umheimsins þegar ráðherrar í Þýskalandi segja af sér vegna ritstuldar.
10. febrúar 2013
by Herdís Þorgeirsdóttir | 7.01.2013 | Mannréttindi & pólitík
Grískur tímaritaútgefandi og blaðamaður, Kostas Vaxevanis, skrifar grein í New York Times á þrettándanum undir heitinu – Rotna gríska fámennisklíkan (Greece’s Rotten Oligarchy). Þar segir hann gríska lýðræðið í molum. Eftir fall herforingjastjórnarinnar 1974 varð til einhverskonar bastarður af útþynntu lýðræði þar sem fólk hafði kosningarétt og rétt til að mótmæla á opinberum vettvangi. Fámenn klíka hafði hins vegar áfram tögl og hagldir.
“Hin fámenna klíka manna í viðskiptum sem gætu ekki þrifist án fyrirgreiðslu stjórnvalda en þykjast vera sjálfstæðir frumkvöðlar í ólgusjó markaðsaflanna . . .”
Hann segir að þrátt fyrir mikla umfjöllun um ömurlegt ástand grísku þrenginganna liggi margt ósagt. Kreppan hafi kallað fram átök um hagsmuni og hugmyndafræði þar sem tekist sé á um hið opinbera og velferðarkerfið. Já, í Grikklandi er hið opinbera kerfi í lamasessi, segir greinarhöfundur, af því að undanfarna áratugi hafa stjórnvöld mannað opinbera geirann með stuðningsmönnum alveg óháð hæfni þeirra. Aðalvandinn varðandi stjórnkerfið er þó hin fámenna klíka manna í viðskiptum sem gætu ekki þrifist án fyrirgreiðslu stjórnvalda en þykjast vera sjálfstæðir frumkvöðlar í ólgusjó markaðsaflanna. Þessir aðilar „múta“ stjórnvöldum (lesist: greiða í kosningasjóði) og uppskera feita fyrirgreiðslu. Þeir hinir sömu eru að jafnaði með sterk ítök í fjölmiðlum og geta því þaggað niður umfjöllun um hátterni sitt. Sumir hafa keypt fótboltalið til að tryggja sér almennar vinsældir og slá ryki í augu fjöldans til að fela „hvítflibbaglæpina“ sína.
“Almenningur er ekki upplýstur um það hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni þar sem sjónvarpsstöðvum, dagblöðum og fjölmiðlum á netinu er stjórnað af þessari klíku úr viðskiptum og pólitík . . .”
Greinarhöfundur tekur dæmi af spillingunni. Árið 2011 hafi þáverandi fjármálaráðherra og núverandi formaður jafnaðarmannaflokksins, Pasok, átt frumkvæði að nýjum lögum um eignaskatt, sem þjóni hagsmunum auðugasta hluta þjóðarinnar. Þessi sami stjórnmálamaður átti einnig frumkvæði að lögum sem drógu úr ráðherraábyrgð.
Svona spilling hefur viðgengist í Grikklandi um langt árabil, segir greinarhöfundur. Almenningur er ekki upplýstur um það hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni þar sem sjónvarpsstöðvum, dagblöðum og fjölmiðlum á netinu er stjórnað af þessari klíku úr viðskiptum og pólitík.
“Eina vonin í stöðunni er að almenningur rísi upp gegn sjónhverfingum og spillingu . . .”
Greinarhöfundur rifjar einnig upp annað dæmi um spillingu, sem ég hef minnst á hér áður, en það er svokallaður Lagarde-listi. Árið 2010 afhenti þáverandi fjármálaráðherra Frakka og nú yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðins, Christine Lagarde, grískum stjórnvöldum lista með nöfnum tvö þúsund grískra ríkisborgara sem áttu innistæður í svissneskum bönkum. Þetta gerði Lagarde til að auðvelda grískum stjórnvöldum að koma upp um skattsvik. Grísk stjórnvöld aðhöfðust hins vegar ekki. Tveir fyrrum fjármálaráðherrar lýstu því m.a. yfir í gríska þinginu að þeim væri ekki kunnugt um þennan lista. Í millitíðinni fóru ýmsir fjölmiðlar offari „í smjörklípum“ með því að draga fram nöfn nokkurra einstaklinga til að fela hinn ljóta veruleika að stór hópur auðugra Grikkja reyndi að komast hjá því að greiða skatta á meðan örvæntingarfullir fátæklingar rótuðu í ruslinu eftir fæði.
“Afhverju þögðu fjölmiðlar?”
Þegar greinarhöfundur birti Lagarde-listann í tímaritinu Hot Doc, sem hann gefur út, í október sl. var hann handtekinn og ákærður fyrir brot á friðhelgi einkalífs. Valdhafar urðu ekki ánægðir þegar hann var sýknaður – svo nú hefur honum verið birt önnur ákæra á öðrum en óljósum forsendum, segir hann í greininni. Þá segir hann að aðrir grískir fjölmiðlar hafi þagað um allt ferlið – Lagarde-listann, birtinguna í Hot Doc, handtöku hans og sýknu. Fjölmiðlar utan Grikklands fjölluðu um málið sem stórfrétt.
Afhverju þögðu fjölmiðlar í Grikklandi? Jú, segir greinarhöfundur, vegna þess að Lagarde-nafnalistinn afhjúpaði þá staðreynd að spillt klíka, sem þykist heita „lýðræðislegir valdhafar“ og aðilar með umsvif í skattaskjólum, vinir og skyldmenni pólitíkusa, bankamenn og fjölmiðlaeigendur, sem athafna sig á svörtum markaði, gefa lítið fyrir lýðræðishugsjónina.
“Ný smjörklípa, einum karli fórnað til að bjarga og viðhalda hinu spillta kerfi . . .”
Eftir að útgefandinn hugrakki birti Lagarde-listann í tímaritinu sínu brugðust stjórnvöld á engan hátt við. Fjármálaráðherrann sem yfirgaf embætti sitt nokkrum mánuðum áður hafði tekið CD diskinn með nöfnunum með sér þegar hann gekk út úr ráðuneytinu og skilaði honum ekki aftur fyrr en sú pínlega staða kom upp að eftirmaður hans í embætti þurfti að svara fyrirspurn New York Times um listann í október s.l. og sagðist aldrei hafa séð hann. Ráðherrann sem hafði stungið diskinum í vasann var ekki látinn svara fyrir það né fór mál hans fyrir rannsóknarnefnd þingsins.
Listinn var síðan birtur í nýrri útfærslu, segir greinarhöfundur, og var þá búið að fjarlægja nöfn skyldmenna fyrrum fjármálaráðherra frá 2009-2011 af listanum. Sá ráðherra hefur verið rekinn úr jafnaðarmannaflokknum og þarf nú að svara rannsóknarnefnd þingsins. Það vofir jafnvel yfir honum að vera sviptur þinghelgi og ákærður. Ný smjörklípa, segir höfundur, einum karli fórnað til að bjarga og viðhalda hinu spillta kerfi.
“Blaðamenn verða að sporna gegn sjálfs-ritskoðun og endurheimta þá hugdirfsku sem þarf til að sinna skyldum varðhundar almennings . . .”
Greinarhöfundur segir að betur og betur sé að koma í ljós hvað margt er rotið í Grikklandi á barmi gjaldþrots, sem grísk stjórnvöld reyna að forða með aukinni skattpíningu hinna efnaminni. Helmingur ungra Grikkja er atvinnulaus og hagkerfið er sem lamað. Fólk er jafnvel svangt og nýnasistaflokknum, Gullinni dögun vex ásmegin þar eð örvæntingarfull alþýða þarf útrás fyrir reiði sína í garð þeirra sem hafa ráðið för.
Greinarhöfundur segir að eina vonin í stöðunni sé sú að almenningur rísi upp gegn sjónhverfingum og spillingu. Blaðamenn verða að sporna gegn sjálfs-ritskoðun og endurheimta þá hugdirfsku sem þarf til að sinna skyldum varðhundar almennings. Stjórnvöld verði að endurlífga hina forn-grísku lýðræðishugmynd í stað þess að reyna að jarða þá lifandi, sem segja sannleikann.
Finnst ykkur þetta hljóma kunnuglega?