by Herdís Þorgeirsdóttir | 28.03.2013 | Mannréttindi & pólitík
“Íslendingar” eru hvattir til virkari aðgerða gegn spillingu í stjórnkerfinu. Bent er á að einhver árangur hafi náðst eftir hrun en mikið verk sé óunnið.
Þetta eru niðurstöður í skýrslu GRECO sem er birt í dag, 28. mars. GRECO er hópur ríkja á vettvangi Evrópuráðsins sem beitir sér í baráttunni gegn spillingu meðal þingmanna, dómara og saksóknara.
Í skýrslu GRECO er bent á fámennið á Íslandi og fjarlægðina frá öðrum löndum sem ýti undir klíkuskap og hagsmunaárekstra. Gagnsæi er vopn gegn spillingu og telja skýrsluhöfundar að sú viðleitni sé viðurkennd á
Íslandi í kjölfar hrunsins, 2008.
Skýrsluhöfundar benda á viðleitni í þá átt að setja reglur, sem krefji stjórnmálamenn um að gera grein fyrri fjárframlögum til sín. Þó sé mikilvægt að herða aðgerðir gegn spillingu í stjórnmálum til að endurvekja traust á þinginu.
Hér er skýrslan.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 4.03.2013 | Mannréttindi & pólitík

Með utanríkisráðherra Ungverjalands, János Martonyi.
Nokkrar svipmyndir frá fundi stjórnar Evrópsku lagaakademíunnar (ERA), sem er miðstöð þekkingar í Evrópurétti og býður upp á námskeið á öllum sviðum réttarins. Þeir sem sækja námskeið eru dómarar frá aðildarríkjum ESB og af evrópska efnahagssvæðinu; saksóknarar, lögmenn, fræðimenn, starfsmenn stjórnsýslu og fleiri. Er núna í vinnuhópi á sviði stjórnskipunar og grundvallarréttinda.

Með dr. Paulina Koskelli, formanni stjórnar. Hún er forseti hæstaréttar Finnlands.

Með Diane Wallis, fyrrum varaforseta Evrópusambandsins.

Á vinnufundi í París með Jan Helgesen.

Með Bogdan Aurescu, aðstoðarutanríkisráðherra Rúmeníu á fundi um stjórnskipunarmálefni í Norður-Afríku. Um miðjan maí var ég með framsögu á vinnufundi í Marrakech í Marokkó um fundi um stjórnarskrárbreytingar á tímum samfélagslegs umróts. Á fundinum skýrðu þeir sem komu að samningu stjórnlaga í Alsír, Egyptalandi, Jórdaníu, Líbíu, Máretaníu, Marokkó og Túnis frá stjórnarskráumbótum í þeim ríkjum. Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að umbætur á stjórnskipun miðuðu að því að draga úr spillingu. Ráðstefna þessi var m.a. skipulögð innan ramma Evrópusambandsins um styrkingu lýðræðislegra umbóta á suðlægum slóðum en stærsti styrktaraðilinn var utanríkisráðneyti Noregs og þýski Hanns Seidel sjóðurinn.

Með Maud de Boer Buquicchio fyrrum varaframkvæmdastjóra Evrópuráðs og fórkólfi í málefnum barna og kvenna.

Með breskum lögmönnum, Gavin Millar og Richard Clayton en við höfum unnið saman að verkefni á sviði meiðyrðalöggjafar.

Undanfarin tíu ár hef ég starfað í teymi lögfræðinga sem vinna að því að skoða innleiðingu jafnréttistilskipana í löggjöf heimaríkis á grundvelli ESB og EES löggjafar. Á myndinni er ég með samstarfskonum á árlegum fundi í Brussel.

Vegna starfa minna sem forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga hef ég komið að ýmsum málum er varða jafnrétti kvenna. Á ráðstefnu í Dushanbe í Tajikistan að tala um aðgengi kvenna að dómstólum en ofbeldi gegn konum er landlæg plága í þessu fátæka ríki.

Á vinnufundi með góðum konum.


Konan á myndinni heitir Ingrid Stoltenberg. Maðurinn hennar var forsætisráðherra Noregs – en það sem ég vissi ekki er að föðursystir hennar var barnabókarithöfundurinn Ann Cath Vestly – sem skrifaði söguna um Óla Alexander fílibomm bomm bomm.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 3.03.2013 | Mannréttindi & pólitík
Það er endalaust verið að tala um flottar konur; bæði í félagsmiðlum og hefðbundnum fjölmiðlum. Leikkonan Anne Hathaway sem lék hina ógæfusömu vændiskonu Fantine, í kvikmyndinni um Vesalinganna – er sögð hafa sett sig vel inn í málefni varðandi mansal og vændi áður en hún tók að sér hlutverkið. Hún fékk óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki. Í þakkarræðunni vék hún að þeim óhugnaði sem vændi og mansal er. Enda vandamálið hvergi langt undan. En hvernig brugðust fjölmiðlar við – fókusinn var allur á kjólana og líkama leikkvennana. Ekki skrýtið þótt mansal og allur sá viðbjóður sem því fylgir nái að grassera sem aldrei fyrr.
Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali tók gildi á Íslandi hinn 1. júní 2012
Reykjavík, 3. mars 2013.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 28.02.2013 | Mannréttindi & pólitík
Fyrirtæki, sem keppa að árangri verða að ráða hæft starfsfólk. Það virðist há bæði fyrirtækjum á markaði sem og stofnunum stjórnsýslu að þetta lögmál hefur víða ekki verið haldið í heiðri. Í harðnandi samkeppni hafa fyrirtæki og stofnanir ekki efni á því að ganga fram hjá hæfileikafólki. Fyrirtæki verða að skanna markaðinn og leita bestu og hæfustu starfskrafta sem völ er á.
Í dag er jafnlaunadagurinn, þar sem fyrirtæki á evrópska efnahagssvæðinu eru minnt á mikilvægi þess að til þess að ná sjálfbærni í árangri ættu þau að ná til sín hæfileikaríkum konum.
Íbúum í Evrópu er að fækka og þeir eru að eldast. Það verður æ erfiðara að endurmanna vinnumarkaðinn með hæfu fólki. Í harðnandi samkeppni á heimsvísu þurfa fyrirtæki að standa sig, bæði í framleiðslu, þjónustu og andspænis æ flóknari tækni.
Hæfileikar kvenna á vinnumarkaði eru vannýttir. Á Íslandi er þátttaka kvenna í atvinnulífinu meiri en víða annars staðar en karlar eru í öllum helstu áhrifastöðum. Konur virðast oft ekki fá tækifæri nema farið sé að fjara undan á þeim sviðum þar sem þær ná toppnum. Tölfræði í Evrópu sýnir að konur eru aðeins 16 prósent af stjórnum fyrirtækja og kynbundinn launamunur er að meðaltali um 16 prósent. Hjúkrunarkonur rétt skrimta af laununum sínum enda á tífallt lægri launum en meðallaun starfsmanna í reykvískum fjárfestingarbanka.
28. febrúar 2013
by Herdís Þorgeirsdóttir | 14.02.2013 | Mannréttindi & pólitík
Tjáningarfrelsið er mikilvægast allra réttinda en það nær ekki til stórfyrirtækja, sem beita fjármagni í pólitík til að ná töglum og högldum í samfélaginu.
— Ronald Dworkin um dóm hæstaréttar Bandaríkjanna Citizens United v. FEC í janúar 2010 –dóm sem hann sagði réttilega ógna lýðræðinu þar eð stórfyrirtækjum væri þar játað frelsi á grundvelli tjáningarfrelsis til að nota fjármagn að vild til kynningar á frambjóðendum.
(Ronald Dworkin (1931-2013), einn þekktasti og virtasti fræðimaður á sviði mannréttinda og stjórnskipunar látinn.)
14. febrúar 2013
by Herdís Þorgeirsdóttir | 10.02.2013 | Mannréttindi & pólitík
Menntamálaráðherra Þýskands, Annette Schavan, hefur sagt af sér í kjölfar þess að Heinrich Heine-háskólinn í Dusseldorf dró til baka doktorsgráðu hennar vegna ritstuldar. Karl-Theodor Zu Guttenberg, þá varnarmálaráðherra Þýskalands var einnig tilneyddur til að segja af sér árið 2011 þegar uppvíst varð um ritstuld hans við smíði doktorsritgerðar sinnar. Það er álíka neyðarlegt fyrir menntamálaráðherra að verða uppvís að ritstuldi og ef kæmi í ljós að fjármálaráðherra væri með peningana sína í skattskjólum. Sýnt þykir að Annette Schavan notaði kerfisbundið efni frá öðrum við samningu doktorsritgerðar sinnar. Slíkt þykir óboðlegt í samfélagi þar sem menntun er í hávegum höfð og því fylgir fræðileg og fagleg ábyrgð að hafa doktorsnafnbót.
Að axla ábyrgð er hluti af þeirri stjórnfestu sem er kjölfesta þess að lýðræðið geti þrifist. Stjórnmálamenn verða samkvæmt því að gangast við alvarlegum yfirsjónum sem og aðrir sem gegna háum opinberum stöðum. Höfundar bandarísku stjórnarskrárinnar voru sér þess mjög meðvitaðir að ein frumforsenda þess að unnt væri að byggja upp lýðveldi væri sú að þeir sem færu með völd í umboði fólksins væru „dyggðugir“ –annað væri ávísun á spillingu.
Stjórnfesta þar sem menn axla ábyrgð hefur ekki einkennt íslenskt samfélag. Bankahrunið var afleiðing ábyrgðarleysis og pólitískrar spillingar; samfélags þar sem menn og konur vinna kerfisbundið í klíkum að því að komast að kjötkötlum. Þegar ný ríkisstjórn tók við eftir hrun var það ein af tillögum forsætisráðherra að setja starfsmenn stjórnsýslu á námskeið í stjórnfestu og láta draga upp siðareglur svo að þeir sem gegndu opinberum störfum áttuðu sig á hvar mörkin lægju. Hér er engin forsaga um riddaramennsku og „noblesse oblige“ – þ.e. að þeir sem gegna virðingarstöðumum átti sig á því að vandi fylgir vegsemd hverri – að „heiður“ og „sómi“ kalla á ríka ábyrgðarkennd gagnvart samfélaginu.
Það grefur undan réttarríkinu þegar það viðgengst að sneiða hjá reglum og ábyrgð. Það grefur undan lýðræðinu þegar forystan setur sjálfa sig í forgrunn og hagsmuni almennings í aftursætið.
Því eru það góð skilaboð til umheimsins þegar ráðherrar í Þýskalandi segja af sér vegna ritstuldar.
10. febrúar 2013