Nýtt álit Feneyjanefndar vegna mótmæla í Hvíta Rússlandi

Nýtt álit Feneyjanefndar vegna mótmæla í Hvíta Rússlandi

Á aðalfundi Feneyjanefndar hinn 19. mars var samþykkt álit sem Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir fulltrúi í nefndinni samdi ásamt Claire Bazy Malaurie og Martin Kuijer um það hvernig nokkur lagaákvæði, þ.á m í lögum um um fjöldasamkomur sem og  hegningarlagaákvæði þar að lútandi samræmist evrópskum viðmiðum um félaga- og tjáningarfrelsi. Þessum lögum hefur verið beitt á friðsamleg mótmæli  og félaga í samtökum sem mótmæltu úrslitum forsetakosningana í Hvíta Rússlandi hinn 9. ágúst 2020. Feneyjanefnd álítur lögin koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli í landinu.

Árið 2012 samþykkti Feneyjanefnd álit um lög um fjölda mótmæli og sendi frá sér tillögur sem enn eru í gildi þar sem þeim lögum hefur ekki verið breytt. Herdís var jafnframt einn höfunda 2012 álitsins þar sem þeim tilmælum var beint til stjórnvalda í Hvíta Rússlandi að tryggja bæri rétt einstaklinga til fundafrelsis  og í því skyni væri mikilvægt að afnema þann lagaramma sem þá var í gildi (og er enn) að krefjast þess að fá heimild hjá stjórnvöldum til að koma saman opinberlega. Í stað þess væri unnt að setja tilkynninga-skyldu. Jafnframt bæri nauðsyn til að endurskoða öll lagaákvæði sem jafngiltu banni við fundafrelsi og takmörkunum á  því hverjir gætur staðið fyrir og skipulagt fundi.