by Herdís Þorgeirsdóttir | 4.09.2006 | ALMANAK
Nýlega kom út á vegum Feneyjarnefndar Evrópuráðs, nýtt rit nr. 43 í ritröðinni Science and Technique of Democracy. Heiti ritsins er: “The Preconditions for democratic elections” og er kafli í bókinni eftir prófessor Herdísi Þorgeirsdóttur, ACCESS TO MEDIA AS A PRECONDITION FOR DEMOCRATIC ELECTIONS. Aðrir sem m.a. skrifa í bókina eru dr. jur. Hans-Heinrich Vogel prófessor við lagadeildina í Lundi, Didier Vinolas, Giovanna Maiola en Gianni Buquicchio framkvæmdastjóri Feneyjarnefndar Evrópuráðsins skrifar formála.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 30.06.2006 | ALMANAK
Frjáls Verslun, 5. tbl. 2006 kom út í dag en þar er að finna ítarlega úttekt á Tengslaneti – Völd til kvenna í grein eftir Svövu Jónsdóttur blaðamann. Jafnframt gerir Jón Hauksson ritstjóri, þessa helsta tímarits viðskiptalífsins á Íslandi, hinni árlegu ráðstefnu á Bifröst hátt undir höfði í leiðara blaðsins. Meginþema blaðsins að þessu sinni eru konur í íslensku viðskiptalífi. Blaðið velur áttatíu áhrifamestu konur í íslensku atvinnulífi og þar af tuttugu á topplistann.
Í Frjálsri verslun segir ritstjórinn Jón G. Hauksson um þetta val: “Við gerð listans eru nokkrir þættir hafðir að leiðarljósi og eru þeir fleiri en áður. Það vegur þyngra núna hve mikinn vilja og áhuga konur hafa á að setjast í stjórnir fyrirtækja og félagasamtaka og láta þar með að sér kveða og hafa sig frammi í atvinnulífinu. Stóru þættirnir við valið eru áhrif og völd í skjóli fjármagns, forystuhugsun, fyrirmynd, fordæmi, athafnasemi, eldmóður, stærð fyrirtækja – og takið eftir; vilji til að beita sér og hafa sig frammi. Völd og áhrif í skjóli fjármagns geta verið tilkomin vegna hlutafjáreignar viðkomandi kvenna í fyrirtækjum- þar sem þær koma nálægt stórum og afdrifaríkum ákvörðunum – en líka í gegnum stjórnunarstarf þeirra í fyrirtækjum, til dæmis sem forstjórar eða framkvæmdastjórar einstakra sviða. Frjáls verslun velur tvær konur úr “akademíunni” inn á topp tuttugu listann að þessu sinni, þær Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, og Herdísi Þorgeirsdóttur lagaprófessor og baráttumanneskju um aukið jafnrétti. Báðar eru vel að því að vera komnar inn á listann. Menntun og jafnréttisbarátta eru núna fyrirferðameira í viðskiptalífinu en oft áður. Guðfinna hefur t.d. haft áhrif á þúsundir nemenda, sem numið hafa við HR og er sterkur leiðtogi sem hefur beitt sér fyrir nýjungum og haft áhrif á menntun á Íslandi.
Herdís Þorgeirsdóttir hefur haldið ráðstefnu á Bifröst þrjú ár í röð um tengslanet – völd til kvenna. Það verður að segjast eins og er að- það teljast mikil áhrif að fá hátt á fjórða hundrað kvenna upp á Bifröst og hvað þá að fá þær allar til að standa upp með dynjandi lófaklappi og bravóhróprum og samþykkja einróma ályktun um að sett verði lög um kynjakvóta í stjórnum skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni. En þetta gerði Herdís.”
– Jón G. Hauksson
by Herdís Þorgeirsdóttir | 28.06.2006 | ALMANAK
Bókin Human Rights Law: From dissemination to application – Essays in honour of Göran Melander kom út hjá Brill í dag samkvæmt fréttum sem voru að berast frá Lundi í Svíþjóð en Göran Melander er prófessor emeritus við lagadeildina í Lundi og stofnandi Raoul Wallenberg mannréttindastofnunarinnar. Í bókina skrifa margir fræðimenn á sviði mannréttinda þ.á.m. Herdís Þorgeirsdóttir um skoðanafrelsi. Höfundar bókarinnar eiga það allir sammerkt að hafa kynnst Göran Melander og meðal þeirra eru tveir af fyrrum fræðimönnum við RWI og doktorsnemar við lagadeildina í Lundi – bæði prófessorar núna – Dr. Gregor Noll prófessor við lagadeildina í Lundi og Dr. Herdís Þorgeirsdóttir prófessor við lagadeildina á Bifröst.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 19.06.2006 | ALMANAK
Á kvennafrídaginn kom 2. tölublað tímaritsins Húsfreyjunnar 2006 í verslanir. Blaðið er málgagn Kvenfélagasambands Íslands (stofn. 1930) út en það hóf göngu sína árið 1949 og er því í hópi lífseigustu tímarita landsins. Ritstjóri þess Kristín Linda Jónsdóttirer jafnframt kúabóndi í Miðhvammi í Þingeyjarsýslu og nýkjörin fulltrúi í sveitarstjórn í Aðaldælahreppi (L-listinn). Hún hafði samband vegna Tengslanetsins og fékk Herdísi Þorgeirsdóttur í forsíðuviðtal. Útlit forsíðunnar hefur verið uppfært en myndina að þessu sinni tók Kristinn Ingvarsson ljósmyndari á Morgunblaðinu.