Ummæli lögmanns um dómara varin

Ummæli lögmanns um dómara varin

oliver morice

 

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu komst að þeirri niðurstöðu 23. apríl s.l. að frönsk stjórnvöld hefðu brotið tjáningarfrelsisákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu (10. gr) og ákvæðið um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar (6. gr.) í máli Morice gegn Frakklandi.

Málið Morice gegn Frakklandi laut að sakfellingu lögmannsins, Oliver Morice, sem ákærður var fyrir meiðyrði vegna ummæla í grein í Le Monde í garð dómara sem voru að rannsaka lát dómarans, Bernhard Borrel. Lík Borrel fannst í nálægð við borgina Djibouti árið 1995 og var það að hluta til brunnið. Lögreglurannsókn leiddi til þess að litið var á dauða dómarans sem sjálfsmorð. Hann hefði sjálfur borið eld að líkama sínum. Ekkja hans, Elisabet Borrel, vefengdi niðurstöðuna og taldi að hann hefði verið myrtur. Málið var opnað aftur og dómarar hófu að rannsaka málið á nýjan leik. Lögmaður ekkjunnar vefengdi hlutleysi rannsóknardómaranna í blaðagreininni í Le Monde eftir að áfrýjunardómstóll í París hafði tekið málið úr höndum þeirra, sem höfðu verið skipaðir til að rannsaka málið. Dómararnir kvörtuðu undan ærumeiðingum og í  kjölfarið var gefin út ákæra á hendur lögmanninum og hann síðan fundinn sekur um ærumeiðingar.

Lögmaðurinn taldi að  brotið hefði verið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar við meðferð málsins fyrir dómi í Frakklandi, þar sem einn dómaranna hefði þegar lýst yfir stuðningi við dómarann, sem lögmaðurinn gagnrýndi. Hann taldi jafnframt að tjáningarfrelsi sitt hefði verið skert með ólögmætum hætti. Deild Mannréttindadómstóls Evrópu komst einróma að þeirri niðurstöðu í júlí 2013 að réttur lögmannsins til réttlátrar málsmeðferðar hefði verið brotinn en  frönsk stjórnvöld hefðu hins vegar ekki brotið á rétti hans til tjáningar. Ummæli lögmannsins í garð dómaranna í greininni í Le Monde hefðu verið móðgandi og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á dómskerfinu. Frönsk stjórnvöld hefðu því ekki farið á skjön við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með því að sakfella lögmanninn fyrir ærumeiðingar.

Ástæða þótti til að visa málinu til yfirdeildar dómstólsins sem nú hefur komist að þeirri niðurstöðu að þær skoðanir, sem lögmaðurinn, Morice, birti í greininni hafi verið reistar á nægum rökum. Hann hafi ekki farið yfir leyfileg mörk tjáningarfrelsis þar sem mikilvægir almannahagsmunir hefðu verið í húfi, þ.e. spurning um það hvernig réttarkerfið virkaði. Frönsk stjórnvöld hafi þar með brotið á rétti lögmannsins til tjáningar með því að finna hann sekan um ærumeiðingar með ummælum sínum.

Yfirdeildin kvað þó lögmönnum ekki veitt sama svigrúm og blaðamönnum til tjáningar um þessi efni þar sem þeir stæðu ekki utan réttarkerfisins eins og blaðamenn í þeim gagngera tilgangi að upplýsa almenning. Þvert á móti  væru lögmenn hluti af réttarkerfinu sem aðilar að dómsmálum og verjendur.

Fundur um félagafrelsi

Fundur um félagafrelsi

hofburgFunda- og félagafrelsi eru grundvallarréttindi lýðræðislegrar þátttöku borgara í samfélagingu. Engar skorður má setja þessu frelsi nema í samræmi við alþjóðalega mannréttindasamninga. Var á tveggja daga fundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE) í Vín. Það verður ekki aðeins að huga að því að löggjöf aðildarríkja sé í samræmi við alþjóðleg viðmið heldur einnig framkvæmd laganna.

Dagur Rómafólksins

Dagur Rómafólksins

romaDagurinn 8. apríl er af Evrópuráðinu helgaður Rómafólkinu, sem er stærsti minnihlutahópur Evrópu, um tólf milljónir. Þetta fólk býr við mikla andúð og fordóma, sætir oft líkamlegu ofbeldi og er iðulega á flakki milli staða eða landa. Öldum saman var þetta fólk kallað Sígaunar og brennimerkt sem ómerkilegt og óábyggilegt. Nítjándu aldar tónskáldið Franz Liszt gerði tónlist Rómafólksins hátt undir höfði enda sagði hann alla ungverska tónlist eiga rætur að rekja til Sígauna. Hér er verk hans Ungversk Rapsódía nr. 2 https://www.youtube.com/watch?v=0odaG9qi818

(Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 7. mars 1950.

Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er því ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Rík áhersla hefur verið lögð á að auka skilning og samkennd meðal íbúa álfunnar á grundvelli sameiginlegrar arfleifðar.

Á grundvelli þessara markmiða sinnir Evrópuráðið fjölbreytilegum málaflokkum eins og mannréttindamálum, félagsmálum, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum, menntunar- og menningarmálum ásamt samvinnu á sviði löggjafar svo að dæmi séu nefnd. Evrópuráðið hefur staðið að gerð um það bil 200 alþjóðasamninga. Á meðal grundvallarsamninga Evrópuráðsins eru mannréttindasáttmáli Evrópu og félagsmálasáttmáli Evrópu. Samningar Evrópuráðsins hafa átt mikilvægan þátt í að stuðla að frekari samvinnu meðal aðildarríkjanna, efla samkennd þeirra og styrkja hugsjónir um mannréttindi og lýðræði.)

franz

Helga Þórarinsdóttir í Hannesarholti

Helga Þórarinsdóttir í Hannesarholti

helga þórHelga Þórarinsdóttir – hana hef ég þekkt frá því að við vorum í menntaskóla. Síðan lá leið okkar saman í Boston þar sem báðar voru við nám. Hún var strax mikill eldhugi, skemmtileg, laus við tilgerð og hreinskiptin. Þegar heim kom varð hún víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og eignaðist yndislegan son. Á myndinni er hún að spila á víóluna sína úti í guðsgrænni náttúrunni á einni af tengslanets-ráðstefnunum sem ég stóð fyrir á Bifröst. Ekki grunaði mann þá hve þungbær örlög biðu Helgu. Á sumt samferðafólk okkar eru lagðar slíkar byrðar að maður skilur ekki hvernig það fær risið undir þeim. Helga mun segja frá reynslu sinni á kvöldstund í Hannesarholti n.k. miðvikudagskvöld (8. apríl kl. 20). Sjá nánar hér: http://www.hannesarholt.is/…/kvoldstund-med-helgu-thorarins/

Vettvangur til verndar blaðamönnum

Vettvangur til verndar blaðamönnum

blaðamenn

Evrópuráðið hefur sett upp vettvang á netinu í samvinnu við fimm félagasamtök í þeim tilgangi að stuðla að aukinni vernd og öryggi blaðamanna. Sjá hér:

Þessi vettvangur verður notaður af aðildarfélögunum – Article 19 í London, samtökum evrópskra blaðamanna, EFJ (European Association of Journalists), IFJ (International Federation of Journalists) og samtökum blaðamanna án landamæra (Journalists and Reporters without Borders). Vettvangurinn verður notaður til að setja inn tilkynningar varðandi aðsteðjandi hættur og ógnir við frétta- og blaðamenn og tjáningarfrelsi þeirra og vekja þar með athygli stofnana og 47 ríkja Evrópuráðsins á þeim.

Þarna verður á einum stað unnt að koma á framfæri upplýsingum sem hafa verið staðfestar af aðildarfélögunum varðandi alvarlegar líkamsárásir á blaðamenn, ógnum við uppljóstrara og þá sem standa vörð um leynd heimildarmanna og aðrir tilraunir, hvort sem er af hálfu stjórnmálamanna eða dómskerfis gegn frjálsu flæði upplýsinga og tjáningarfrelsi fjölmiðla.

Nýi vettvangurinn gerir Evrópuráðinu kleift að vekja athygli á alvarlegum ógnum sem steðja að tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks þannig að unnt verði að bregðast skjótar við slíkum hættum og taka upp þráðinn við þau ríki sem hlut eiga að máli og finna úrræði. Á vettvangi þessum verður einnig unnt að fylgjast með aðgerðum Evrópuráðsins í þessum efnum.

Víða í ríkjum Evrópuráðs (sem eru 47 talsins) hafa blaðamenn sætt ofsóknum, verið misþyrmt, sviptir frelsi og æru, teknir af lífi fyrir að sinna störfum sínum að miðla upplýsingum til almennings. Af þessum sökum ákvað Evrópuráðið að bregðast við með því að setja þennan net-vettvang á laggirnar.

council of europe

10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu

10. gr. [Tjáningarfrelsi.]1)
1. Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.
2. Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.
1)Samningsviðauki nr. 11, 2. gr.

Bók Herdísar Þorgeirsdóttur um tjáningarfrelsi blaðamanna og vernd þess í ljósi 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

journalism worthy

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjasta tilkynningin á vefnum varðar hroðalegt morð á 32 ára blaðamanni í Úkraínu í febrúar s.l., Vyacheslav Veremiy. Hér á mynd ásamt eiginkonu og ungum syni.

blaðamaður myrtur