Gagnsæi um fjárframlög til félagasamtaka

Fulltrúar Feneyjanefndar, Richard Clayton (t.v) og Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir ásamt lögfræðingi sem starfar fyrir nefndina í Strassbourg, Ziya Tanjar og Alice Thomas sem er mannréttindalögfræðingur og hefur starfað hjá ODIHR. Myndin er tekin í þinghúsinu í Búkarest, sem er önnur stærsta opinbera byggingin í heiminum, á eftir Pentagon.
Sérfræðingar á vegum Feneyjanefndar, þ.á m. dr. Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir, fara um þessar mundir yfir fyrirhugaðar breytingar á lögum í Rúmeníu sem eiga að auka gagnsæi varðandi fjárframlög til félagasamtaka. Það var þingmannasamkunda Evrópuráðsins í Strassborg sem fór þess á leit við Feneyjanefnd að hún skilaði áliti um frumvarpsdrögin sem borið verður undir aðalfund nefndarinnar í mars. Fulltrúar Feneyjanefndar, Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir og Richard Clayton frá Bretlandi ræddu við fulltrúa í öldungadeild þingsins í Rúmeníu sem standa að frumvarpinu, fulltrúa stjórnvalda og forseta og dómara við stjórnlagadómstólinn í byrjun febrúar.
Hefur Guð áhuga á steinrunnu kerfi? (inngangur í leikskrá: Guð blessi Ísland)
Frá því ræðu forsætisráðherra í sjónvarpi mánudaginn 6. október 2008 lauk með orðunum Guð blessi Ísland og þar til mótmæli á Austurvelli náðu hámarki með bálköstum, bareflum og táragasi hinn 21. janúar 2009 var hið eiginlega hrun innsiglað. Fjármálakerfið var fallið, ríkisstjórninni ekki lengur sætt og tiltrú almennings á stofnunum samfélagsins yrði aldrei söm. Með hverjum nýjum degi höfðu komið fram upplýsingar um það hvernig kaupin gengu fyrir sig bak við tjöldin áður en bankarnir hrundu. Rannsóknarskýrsla Alþingis leiddi síðan í ljós að hér hafði viðgengist mikil spilling þar sem sterkir fjárhagslegir hagsmunir voru samtvinnaðir hinu pólitíska valdi. Orð ritstjóra Morgunblaðsins sem hafði verið í miðju íslensks valdakerfis í hálfa öld áttu eftir að brenna sig inn í þjóðarsálina. Hann lýsti íslensku þjóðfélagi undangenginna áratuga sem ógeðslegu; þar hefðu hvorki ríkt hugsjónir né prinsipp, aðeins tækifærismennska og valdabarátta.
Einkavæðing banka og fleiri ríkisfyrirtækja fyrir og eftir síðustu aldamót skóp sterka auðmenn sem höfðu tögl og hagldir í samfélaginu. Þeir fengu ríkiseignir á silfurfati sem þeir áttu ekki skilið fremur en þjóðin að sitja uppi með afleiðingarnar af slíkri samþjöppun valds og eigna á fárra hendur. Þeir efnuðust vegna óeðlilega greiðs aðgangs að lánsfé bankanna í krafti eignarhalds eða náinna tengsla en ekki vegna ómældrar eljusemi og dugnaðar. Hugtakið yfir einkavæðingu af þessu tagi er “kleptocracy” eða þjófræði. Peningamennirnir áttu fjölmiðla og þar með máttugasta vopnið til að móta almenningsálitið. Með fjárframlögum sínum gátu þeir haft úrslitaáhrif hverjir voru kjörnir til áhrifa. Pólitískir flokkar kepptu um fjárhagslegan stuðning viðskiptablokka. Menn gengu í stjórnmálaflokka, ekki af hugsjón heldur til að eignast bakland. Kerfi frændhygli var fast í sessi eins og hugtökin “innmúraðir” og “innvígðir” eru til vitnis um. Í þessu klíkusamfélagi var mönnum umbunað með stöðuveitingum; í stjórnsýslu, fjármála- og eftirlitsstofnum, dómstólum, menntastofnunum, ríkisfjölmiðlinum og víðar. Hinum gagnrýnu var ýtt út á jaðarinn. Þannig varð spillingin sjálfbær. Ekkert svigrúm var fyrir rannsóknarblaðamennsku til að fletta ofan af því sem var að eiga sér stað. Auglýsendur studdu fjölmiðla sem studdu kerfið. Langvarandi sjálfs-ritskoðun var innan fjölmiðla, í akademíu og þeim stofnunum sem hefðu átt að veita viðnám.
Samfélagið sem hrundi var sýkt af spillingu og stofnanir þess eins og strá í vindi í hinni alþjóðlegu kreppu, sem geisaði á fjármálamörkuðum árið 2008. Hróp búsáhaldabyltingarinnar á vanhæfa ríkisstjórn endurspegluðu þá tálsýn að ný ríkisstjórn myndi færa kjósendum nýja tíma og nýja siði. Gerð var tilraun til að forma nýjan samfélagssáttmála. Á sama tíma tók vinstri stjórnin allt öðru vísi á skuldum hinna auðugu en hinna efnaminni; og ætlaði þjóðinni að taka á sig icesave-skuldbindingar einkabanka. Stjórn sem á eftir kom var síðan hrakin frá völdum vegna uppljóstrana í Panamaskjölum um að ráðherrar ættu fé í skattaskjólum. Hruns-martröðin hélt áfram og enn ríkir upplausn í þjóðfélaginu sem sér ekki fyrir endann á. Þingkosningar á eins árs fresti eru til vitnis um að ekkert pólitískt afl hefur skýrt umboð frá kjósendum.
Fulltrúalýðræðið á víða um heim undir högg að sækja og almennt vantraust á stofnunum samfélagsins helst í hendur við vitneskju almennings um spillingu og getuleysi stjórnvalda til að snúa við þróuninni í átt frá aukinni misskiptingu auðs. Kjósendum finnst þeir ekki lengur hafa úrslitaáhrif því það skipti litlu máli hver taki við stjórnartaumunum eftir kosningar.
Ríki heims standa frammi fyrir stórfenglegum vandamálum; umhverfisvá, hryðjuverkum, flóttamannastraumi, vélmennum sem munu taka yfir störf fólks á vinnumarkaði og þeirri staðreynd að fjármálaglæpir eru tíðir, peningaþvætti og mun meira fé geymt í skattaskjólum en áður var talið (jafngildi um 15% af vergri landsframleiðslu í Evrópu). Rússnesku olíugarkarnir eru taldir geyma megnið af auði sínum í skattaskjólum. Þeir auðguðust í spilltu einkavæðingarferli eftir hrun kommúnismans og eru síðan grundvöllur nýrrar pólitískrar yfirstéttar. Þríeyki Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur undanfarin ár þrýst á einkavæðingu ríkiseigna í stórskuldugum ríkjum álfunnar, Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Portúgal með þátttöku stórfyrirtækja, tilheyrandi spillingu og klíkuskap. Það er ógn við lýðræðið þegar fjársterkir aðilar notfæra sér tímabundna erfiðleika í samfélögum til að komast yfir ríkiseignir en þannig eru olígarkar að verða ráðandi stétt í stjórnkerfum víða um lönd. Hagfræðingurinn Thomas Picketty benti á það í tímamótaverki 2014 að efnalegur ójöfnuður í Bandaríkjunum er meiri en í nokkru öðru samfélagi, nokkru sinni og nokkurs staðar. Önnur ríki fylgja í kjölfarið. Því má ekki gleyma að stjórnskipun Bandaríkjanna varð til sem andsvar við fámennisstjórn. Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taldi mikilvægt að brýna fyrir auðkýfingum á árlegum fundi í Davos í janúar 2017 að tími væri kominn til að skipta upp eignum og auði, sem hefði færst á alltof fáar hendur. Á sama tíma kom ný skýrsla frá Oxfam sem sýndi að átta menn eiga jafnmikinn auð og helmingur mannkyns. Á Íslandi er ójöfnuður einnig að aukast á nýjan leik eftir hrun en efnamestu 10 prósentin eiga um tvo þriðju af öllum eignum landsins.
Það er sama hvaða hugtak er notað yfir fámennisstjórnir því eðli máls samkvæmt byggir tilvist þeirra á því að kæfa niður andóf. Á undanförnum árum höfum við færst nær hinni orwellsku dystópíu þar sem félags- og tæknilegar framfarir þrengja æ meir að frelsi einstaklingsins. Stórfyrirtæki á alþjóðavísu og öfl þeim tengd fylgjast grannt með andófi á netinu og reyna að koma í veg fyrir uppljóstranir. ,,Hugsanalögreglan” kortleggur umferð almennings í netheimum og við berumst hraðar með straumnum þangað sem við ætluðum alls ekki að fara – í áttina frá friðhelgi einkalífs, réttinum til upplýsingar, tjáningar- og skoðanafrelsis, burt frá þeim pólitísku og borgaralegu réttindum sem alþjóðlegir samningar eftirstríðsáranna áttu að tryggja. Dómstóll Evrópusambandsins hefur m.a s. nýlega staðfest að til sé ,,réttur til að gleyma” og veitt stórfyrirtæki á borð við Google sjálfdæmi í að ákveða hvaða upplýsingar á netinu megi fjarlægja. Þannig er unnt að afmá umfjöllun og staðreyndir, sem ella myndu skerpa sýn fólks á samtímann og söguna.
Fámennsistjórn olígarka, alþjóðlegra stórfyrirtækja og vogunarsjóða á ekkert skylt við þær grunnhugmyndir sem vestræn stjórnskipun frá 18. öld byggir á. Kerfi olígarka með auði þeirra og áhrifum kemur til með erfast. Kerfi sem þolir hvorki stöðuga endurskoðun og gagnrýni, né veitir svigrúm fyrir heilbrigt einkaframtak, félagslegt réttlæti, skoðanafrelsi og friðhelgi einkalífs, á meira skylt við kerfi lénsherra, konunga og keisara fyrri alda en draumsýnina um lýðræði með pólitískum og borgaralegum réttindum.
Í þeirri stöðu sem orðin er í heiminum í dag er ljóst að stjórnkerfi eru flest steinrunnin og hugmyndafræðilega ráðþrota gagnvart aðsteðjandi vandamálum sem varða allt mannkyn. Það hefur gerst áður í sögunni og endað með hruni, í Róm til forna og æ síðan þar sem andlýðræðisleg stjórnvöld hafa sprottið úr spilltum jarðvegi. Baráttan fyrir réttlátu samfélagi er hins vegar á ábyrgð okkar allra og þar megum við aldrei gefast upp því þá er forsendan fyrir tilvist okkar eiginlega brostin.
Reykjavík, 15. október 2017
Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir
Kjörin í næst-æðsta embætti Feneyjanefndar
Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir hefur verið kjörin næstæðsti stjórnandi Feneyjanefndar. Á aðalfundi nefndarinnar nú í desember var Herdís kjörin fyrsti varaforseti nefndarinnar en hún hafði í tvígang verið kjörin ein þriggja varaforseta hennar.
Feneyjanefndin er ráðgefandi aðili Evrópuráðsins um stjórnskipuleg málefni og gætir áhrifa hennar langt út fyrir raðir þess. Hlutverk Feneyjanefndar er að ráðleggja aðildarríkjum og aðstoða þau við aðlaga löggjöf og stofnanir til samræmis við evrópsk og alþjóðleg viðmið á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis. Mannréttindadómstóll Evrópu, sem og æðstu dómstólar aðildarríkja, hafa vitnað til álita nefndarinnar í tugum dómsmála undanfarin ár.
Aðild að Feneyjanefnd eiga 61 ríki, þar af öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins auk Bandaríkjanna, Brasilíu, Chile, Perú, Mexíkó, Ísraels, Suður-Kóreu, Alsírs, Marokkó, Túnis og nokkurra ríkja í Mið-Asíu.
Í nefndinni eiga sæti lögfræðingar skipaðir af aðildarríkjum en sem starfa sjálfstætt og óháð þeim. Forseti nefndarinnar er Ítalinn Gianni Buquicchio sem hefur verið forseti frá 2009.
Herdís var skipuð aðalfulltrúi Íslands í Feneyjanefnd 2010 og hefur gegnt störfum fyrir nefndina síðan bæði sem sérfræðingur á sviði mannréttinda og stjórnskipunar og undanfarin ár sem varaforseti í samskiptum við aðildarríkin. Hún var fyrst kjörin ein þriggja varaforseta 2013 og sú eina sem var endurkjörin aftur 2015.
Herdís er doktor í lögfræði og var fyrsti prófessorinn sem skipaður var lagadeildina á Bifröst. Hún var forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga 2009-2013 og sat í stjórn ERA, evrópsku lagaakademíunnar í Trier 2012-2015. Auk þess bauð Herdís sig fram til embættis forseta Íslands árið 2012.
Verndum Internetið
Internetið (veraldarvefurinn) er eign okkar allra. Fjarskiptayfirvöld í Bandaríkjunum (FCC) munu hafa uppi áform um að varpa reglum um svonefnt nethlutleysi (net neutrality) fyrir róða. Samskipti sem fara um internetið sendast á milli staða í gegnum netbúnað internetfyrirtækja (e. internet service provider, skammstafað ISP). Þessi netbúnaður er eins konar æðakerfi internetsins og sér hann um að senda alla umferð á milli notenda á sinn stað. Núgildandi reglur í Bandaríkjunum skylda internetfyrirtæki til að þess að tryggja jafnan aðgang allra að efni á internetinu og í því felst net-hlutleysið. Ef slakað er á þessum reglum fá stórfyrirtæki á fjarskiptamarkaði völd til að beina umferð notenda internetsins í þann farveg sem þjónar þeirra hagsmunum.
Þetta er stórhættuleg þróun fyrir borgara í lýðræðislegu samfélagi. Völd stórfyrirtækja og alþjóðlegs fjármagns eru nú þegar yfirgengileg. Því skýtur það skökku við að á sama tíma og áform eru uppi um að varpa nethlutleysi fyrir róða eru bandarísk stjórnvöld að reyna að koma í veg fyrir samruna AT&T og Time Warner, einmitt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir einokun á fjölmiðlamarkaði.
Internetið á að vera galopið og aðgengilegt öllum. Rúmlegar þrír milljarðar jarðarbúa reiða sig á notkun þess. Stórfyrirtæki eiga ekki að vera í hlutverki dyravarða sem hafa þá hagsmuni helsta að vinna neytendur á band auglýsenda en hundsa mikilvægi þess að borgarar geti átt samskipti á netinu og ekki síst til að eiga í lýðræðislegum skoðanaskiptum. Ef nethlutleysi er afnumið fá þessi internetfyrirtæki að stjórna umferðahraðanum um netið í þágu fárra stórra aðila og útiloka t.d. öndverðar skoðanir og eðlileg skoðanaskipti.
Segja má að sigur hafi unnist í þágu nethlutleysis í aðildarríkjum Evrópusambandsins þrátt fyrir tilraunir fjarskiptafyrirtækja til að ná sínu fram. BEREC (Body of European Regulators for Electronic Communications), samstarfsvettvangur evrópskra eftirlitsstofnana á sviði fjarskipta sendi frá sér í ágúst 2016 leiðbeiningarreglur um það hvernig hrinda eigi reglugerð um nethlutleysi í framkvæmd, sem samþykkt hafði verið í apríl 2016. Búið er að taka reglugerðina upp í EES-samninginn og mun hún taka gildi hér þegar Alþingi hefur gert viðeigandi breytingar á lögum um fjarskipti.
Markmið reglnanna er að skylda internetfyrirtæki að stjórna umferð um netið á grundvelli jafnræðis og hampa engum umfram annan. Talsmenn nethlutleysis voru fljótir að átta sig á því að stórfyrirtæki á fjarskiptamarkaði höfðu verið með fingurna í samningu reglugerðarinnar þar sem ákvæði voru óskýrt orðuð og buðu hættunni á misnotkun heim. Þessi ákvæði voru útfærð með nýju leiðbeiningarreglunum og því fullyrða helstu talsmenn nethlutleysis á þingi Evrópusambandsins að með þessu móti hafi sigur unnist í baráttunni við stórfyrirtæki á fjarskiptamarkaði sem höfðu beitt miklu fjármagni í hefðbundinn lobbýisma til að ná fram sínum hagsmunum.
Einn af helstu baráttumönnum fyrir nethlutleysi er sir Tim Berners Lee, sem fann upp veraldarvefinn. Hann hvatti almenning í Evrópu í opnu bréfi sem hann skrifaði ásamt tveimur lagaprófessorum í fyrra að berjast fyrir opnu interneti og koma í veg fyrir að stórfyrirtæki kæmu upp hraðbrautum á internetinu; banna ætti ,,zero-rating”, þ.e. þegar þessir örfáu risar á fjarskipamarkaði geta krafið ný fyrirtæki um að greiða aðgangseyri til að tryggja aðgang að efni þeirra með sama hraða og annarra sem fyrir eru (mjög erfitt fyrir sprota fyrirtæki og lítil fyrirtæki sem reiða sig á netið); koma í veg fyrir mismunun og vernda jafnt aðgengi allra að internetinu.
Internetið hefur gerbreytt heiminum og opnaði almenningi nýja leið til áhrifa. Sá hinn sami almenningur er einn fær um að standa vörð um að þessi vettvangur sé áfram opinn í allra þágu.



