Herdís Þorgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 18. febrúar 1954. Faðir hennar, Þorgeir Þorsteinsson, fyrrverandi sýslumaður og lögreglustjóri á Keflavíkurflugvelli, er sonur Þorsteins Jónssonar, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Héraðsbúa, og Sigríðar Þorvarðardóttur Kjerúlf, húsfreyju. Móðir hennar, Herdís, er dóttir Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns og Herdísar Ásgeirsdóttur, húsfreyju.
„Faðir minn fæddist á Reyðarfirði en var ungur sendur í Menntaskólann á Akureyri og þaðan fór hann til Reykjavíkur í nám við lagadeild Háskóla Íslands. Móðir mín, Herdís Tryggvadóttir fæddist í Reykjavík, hún varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands og vann síðan á skrifstofu föður síns, Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns, í Júpíter og Mars við Aðalstræti 4. Móðuramma mín, sem ég er skírð í höfuðið á, hét Herdís Ásgeirsdóttir og var fædd á Vesturgötu 32 í Reykjavík. Hún lét sig alla tíð málefni kvenna miklu varða og vann að ýmsum málum í þágu kynsystra sinna. Ég minnist þess að hafa heyrt hana tala um jafnréttismál þegar hún var orðin gömul kona og af nokkrum þunga. Hún var meðvituð um hvað konur ættu langt í land”.
Herdís á þrjú yngri systkini; Þorstein, sem er hagfræðingur, Sigríði, sem er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og Ófeig Tryggva sem er læknir. Hálfsystir þeirra, Katla Margrét, leikkona, fæddist eftir að foreldrar þeirra skildu. “Að mér standa tvær sterkar stoðir; föðurfjölskyldan er ættuð frá Egilsstöðum en langafi minn, Jón Bergsson, reisti Egilsstaðabýlið fyrir aldamótin 1900 og þar búa afkomendur enn og móðurfjölskyldan hér í Reykjavík.“
Mót tveggja menningarheima. Herdís bjó í Reykjavík fyrstu árin en síðan flutti fjölskyldan vegna starfa föður hennar Grænás á Keflavíkurflugvelli og gekk hún í barnaskóla í Njarðvíkum. „Minningar mínar úr bernsku suður með sjó eru góðar og innst inni tel ég rætur mínar vera þar þótt við höfum ekki búið þar lengur en í sex ár. Það má segja að árin þarna hafi verið á mótum tveggja menningarheima; hins íslenska samfélags eftirstríðsáranna og bandarískra áhrifa herliðsins á Keflavíkurflugvelli þar sem „þrýstiloftsflugvélar“ tóku á loft og gaddavírsgirðing umlukti svæðið sem þótti fullt af spennandi tækifærum, hamborgaralykt á flugvallarhótelinu og forboðið sælgæti í sjálfssölum á vellinum. Við krakkarnir máttum ekki fara „upp á völl“ eins og það hét en við stálumst til að kaupa amerískt tyggjó og súkkulaðisstykki.“ Herdís segir að þótt foreldrar hennar hafi skilið hafi alltaf verið einstaklega gott samband á milli þeirra og fjölskyldna beggja megin. „Afar mínir voru miklir vinir. Móðir mín er 84 ára og hún er mikil ættmóðir og tekur utan um alla; líka í föðurfjölskyldunni. Við höfum komið þeim sið á undanfarin ár að hittast einu sinni í viku og borða saman, oftast heima hjá mér á Hávallagötu með mömmu, pabba, systkinum, mökum þeirra og börnum.“
Í blaðamennsku. Herdís segist alltaf hafa haft áhuga á sögu, umheiminum, fólki og örlögum þess í nútíð og fortíð. Hún sagði oft sögur sem krakki, var með mikið ímyndunarafl og hafði þörf fyrir að tjá sig. „Ég var í máladeild Menntaskólans við Hamrahlíð og fór eftir stúdentspróf til Frakklands. Þar var ég við háskólanám í einn vetur og samferða mér þar var Kristín Ingólfsdóttir, núverandi rektor Háskóla Íslands, og höfðum við góðan félagsskap af hvor annarri þennan vetur fjarri fjölskyldu okkar og heimahögum. Ég vann sem flugfreyja hjá Loftleiðum í tvö sumur með námi. Það var ævintýralegt starf þar sem tækifæri gáfust til að heimsækja stórborgir eins og New York og Chicago og þar kynntist ég skemmtilegu og góðu fólki. Eftir veturinn í Frakklandi vann ég í nokkra mánuði við afgreiðslustörf í verslun í Reykjavík en hélt síðan í nám í blaðamennsku í London. Hún var ekki merkileg sú menntastofnun þar sem ég stundaði námið en hafði það sér til ágætis að vera staðsett á þeirri frægu „blaðamannagötu“ Fleet Street. Þar kynntist ég reyndu blaðafólki og fréttakona hjá BBC reyndist mér vel og leyfði mér að æfa mig í framsögn fyrir framan sjónvarpsvélar. Ég sótti um vinnu á Morgunblaðinu sem blaðamaður þegar heim kom og fékk að byrja í myndasafninu þeirra við að flokka ljósmyndir. Eftir nokkra mánuði fékk ég að spreyta mig á viðtölum og fékk góðar undirtektir. Ég var þarna í tvö ár sem blaðamaður og það var lærdómsríkt að vinna undir handleiðslu Matthíasar Johannesen og Styrmis Gunnarssonar auk þess sem þarna voru margir góðir blaðamenn og ljósmyndarar. Eftir blaðamennskuna fór ég í nám í stjórnmálafræði við Háskóla íslands og lauk þaðan BA prófi. Í kjölfarið fór ég í nám í þjóðarétti og alþjóðastjórnmálum við Fletcher School of Law í Boston og lauk þaðan M.A.L.D gráðu 1983.“
Ritstjóri og útgefandi. Anders Hansen, sem rak útgáfufyrirtækið Fjölni, hafði samband við Herdísi árið 1984 og bauð henni að ritstýra tímariti sem átti að setja á laggirnar undir nafninu Mannlíf. „Ég réðst í það verk og ritið varð metstölutímarit sem fór inn á nýjar brautir þar sem umfjöllun var jafnhliða um dægurmál, tísku og stjórnmál.
Í ársbyrjun 1986 stofnaði ég Heimsmynd sem ég ritstýrði og gaf út þar til ég seldi það 1994. Þetta voru ár mikillar reynslu. Það var ekki auðvelt að vera einyrki í blaðaútgáfu með gagnrýna umfjöllun um valdhafa í landinu. Þetta var ekki aðeins lærdómsríkur tími varðandi hið pólitíska landslag heldur kenndi þetta mér að bera virðingu fyrir þeim sem standa í fyrirtækjarekstri þar sem oft eru andvökunætur út af rekstrinum, erfitt að láta enda ná saman og ekki sjálfgefið að fá eigin laun greidd.
Doktorsnám og kaflaskipti. Herdís hélt árið 1996 ásamt þáverandi eiginmanni sínum og fjórum börnum á aldrinum fimm mánaða til 10 ára til Lundar þar sem hún stundaði framhaldsnám. „Ég hafði fengið stöðu til að vinna að doktorsritgerð við lagadeildina í Lundi. Umfjöllunarefnið var tjáningarfrelsi fjölmiðla og ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra. Á þessu tímabili var mér einnig boðið að koma sem gestafræðimaður til Oxford þar sem ég hélt opinberan fyrirlestur um niðurstöður mínar um að stjórnvöldum bæri samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu að tryggja það að fjölmiðlar geti sinnt þeirri skyldu að vera varðhundur almennings óháð þrýstingi frá viðskiptavaldi og stjórnmálaöflum.
Herdís kom heim með börnin til Íslands árið 2000 en þá höfðu þau hjónin ákveða að skilja. Herdís varði síðan doktorsritgerðina í Lundi árið 2003 og hún var ráðin prófessor á Bifröst eftir að hafa farið í gegnum hefðbundið akademískt mat árið 2004. Hún var og er einstæð móðir og til að börnin kæmu ekki að tómu húsi þegar hún var í Borgarfirðinum réði hún konu sem tók á móti þeim nokkrum sinnum í viku og hafði þann starfa í sex vetur.