stjornarskraStjórnarskrárnefnd birtir í dag drög að þremur frumvörpum til stjórnarskipunarlaga. Frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin er til þriðjudagsins 8. mars 2016. Athugasemdir sendist vinsamlegast á netfangið postur@for.is. Nefndin áskilur sér rétt til að birta athugasemdir sem berast.

Meginefni frumvarpanna

Í fyrsta lagi er lagt til ákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Sett er fram almennt ákvæði um að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni og jafnframt kveðið á um megin­for­sendur auðlindanýtingar; þá er mælt fyrir um þjóðareign á náttúruauðlindum og landsrétt­ind­um sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Loks er sett skilyrði fyrir veitingu heimilda til nýtingar auðlinda í eigu ríkisins og í þjóðareign og kveðið á um skyldu ríkisins til þess að taka að jafn­aði eðlilegt gjald fyrir og gæta jafnræðis og gagnsæis.

Í öðru lagi er lagt til ákvæði um umhverfi og náttúru. Þar verði mælt fyrir um að ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvíli sameiginlega á öllum og skuli verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Kveðið er á um rétt allra til heilnæms umhverfis, almannarétt og upplýsinga- og þátttökurétt almennings.

Í þriðja lagi er lagt til að 15% kosningarbærra manna geti knúið framþjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi. Undanskilin eru þó fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum. Frestur til að bera fram kröfu verði 4 vikur frá birtingu laganna. Þjóðaratkvæðagreiðsluna beri að halda í fyrsta lagi 6 vikum og í síðasta lagi 4 mánuðum frá því að staðfest krafa liggur fyrir. Enn fremur er mælt fyrir um að sama hlutfall kosningarbærra manna geti skotið ályktunum Alþingis um heimild til full­gild­ingar á þjóðréttarsamningum til þjóðaratkvæðis. Loks er lagt til að löggjafanum sé heimilað með auknum meirihluta að ákveða að fleiri þingsályktanir falli í þennan flokk ályktana sem hægt verði að vísa til þjóðarinnar, þ.e. þær ályktanir sem hafa réttaráhrif eða fela í sér mikil­væga stefnumörkun. Til að hnekkja lögum eða ályktun í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi meiri­hluti að greiða atkvæði gegn tillögu, sem jafnframt sé að minnsta kosti 25% kosningarbærra manna.

Unnin hafa verið drög að skýringum við ákvæðin þar sem fjallað er um tilefni, nauðsyn og markmið, fyrri tillögur, erlendan rétt og mat á áhrifum.

Forsaga

Stjórnarskrárnefnd gaf út áfangaskýrslu í júní 2014 og gerði þar grein fyrir umræðum í nefndinni um fjögur tiltekin forgangsmál. Tilgangurinn var að efna til opinberrar umræðu og m.a. settar fram spurningar og álitaefni sem vakin var sérstök athygli á. Fjölmargar athuga· semdir bárust við áfangaskýrsluna en þær voru flestar á þann veg að minna á ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2012.

Í kjölfar áfangaskýrslunnar leitaðist nefndin við að nálgast sameiginlega niðurstöðu sem nánari útfærsla yrði byggð á. Vorið 2015 leitaði nefndin eftir aðstoð sérfræðinga við þá til­lögugerð sem nú liggur fyrir, sjá lista yfir viðkomandi sérfræðinga á fylgiskjali. Sérfræð­ingarnir hafa síðan verið nefndinni innan handar við frekari útfærslu ákvæðanna og gerð skýr­inga, en undirstrika ber að ábyrgð á endanlegri tillögugerð er alfarið nefndarinnar. Þá hafa nefndarmenn átt samráð við þingflokka.

Af hverju þrjú frumvörp?

Stjórnarskrárnefnd birtir nú þrjú frumvörp, nánar tiltekið varðandi þjóðareign á náttúru­auðlindum, umhverfis- og náttúruvernd og þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu kjósenda. Nefnd­in ræddi hvort sameina ætti þessi ákvæði í eitt frumvarp en ákvað að halda frumvörpunum aðskildum til þess að kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef til hennar kemur, hafi meira val. Einhugur er hins vegar um það í nefndinni að æskilegt sé að við þinglega meðferð sé fjallað um frumvörpin samhliða.

Hvert verður framhaldið?

Frestur til að skila inn athugasemdum við fyrirliggjandi frumvarpsdrög er til 8. mars 2016. Óskum um þátttöku fulltrúa í stjórnarskrárnefnd í opnum fundum er hægt að beina til ritara nefndarinnar (sif.gudjonsdottir@for.is).

Unnið verður úr athugasemdum og endanlegum tillögum skilað til forsætisráðherra. Því ætti að vera unnt að leggja frumvörpin fram og ljúka meðferð þeirra á vorþingi. Samkvæmt bráða­birgðaákvæði við stjórnarskrána er áskilið að frumvarp sem lagt er fram á þeim grundvelli hljóti stuðning minnst 2/3 hluta atkvæða á Alþingi og meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæða­greiðslu, þó minnst atkvæði 40% allra kosningarbærra manna. Þjóðaratkvæðagreiðsluna ber að halda í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt Alþingis.

 Fylgiskjöl:

Sjá hér umfjöllun Mbl. um fund í HÍ um nýju drögin