Í kjölfar helfararinnar var evrópsk samvinna innsigluð með stofnun Evrópuráðsins í Strassborg reist á stoðum virðingar fyrir mannréttindum, lýðræði og réttarríki.
Mannréttindasáttmáli Evrópu, sem er samningur unninn að tilstuðlan Evrópuráðsins, er eitt áhrifaríkasta tæki í okkar heimshluta til að tryggja mannréttindi. Ísland gerðist aðildarríki að Evrópuráðinu í mars 1950 og undirritaði við það tækifæri Mannréttindasáttmála Evrópu. Aldrei aftur skyldu atburðir á borð við helförina eiga sér stað; aldrei aftur skildu spillt, forheimskuð og ill öfl ná yfirhöndinni með þeim afleiðingum sem birtust skýrast í útrýmingarbúðum nasista; mannfyrirlitningin alger, mannhelgin engin.
Oskar Schindler var rúmlega þrítugur bisnessmaður, félagi í nasistaflokknum, óprúttinn, ósvífinn og lét ekkert tækifæri ónotað með mútum til yfirmanna í SS til að komast yfir verksmiðjur og fá ódýrt vinnuafl úr hópi Gyðinga. Sögusviðið er á pólsku landssvæði þar sem stærstu útrýmingarbúðirnar voru, Auschwitz, Treblinka og fleiri. Sagan hefst í gettói í Kraká þar sem búið var að stúka Gyðingana af.
Á örskömmum tíma breytist hlutskipti venjulegra borgara frá því að sitja við kvöldverðaborð með fjölskyldunni í það að vera skotin á færi, send í vinnubúðir þar sem ekkert beið þeirra annað en hungur, vosbúð, sjúkdómar og ill meðferð.
Myndin lýsir því hvernig Oskar Schindler, sem leikinn er af Liam Neeson, vaknar til vitundar um hryllinginn sem er að eiga sér stað, þótt hann hafi upphaflega haft hag af því að bjarga Gyðingunum inn í verksmiðjurnar til sín. Hann er sýndur sem sjarmerandi en ófyrirleitinn náungi sem vingast við SS-foringjann Amon Göth sem einnig er sannsöguleg persóna og stjórnaði Kraká-Płaszów útrýmingarbúðunum.
Ralph Fiennes leikur Göth af slíkri snilld að áhorfanda stendur raunveruleg ógn af þessum sadista, sem myrðir konur, börn og gamalmenni án þess að depla auga. Schindler borgar honum fyrir að afhenda sér gyðinga til vinnu í verksmiðjunni. Hann nær sérstöku sambandi við ófreskjuna Göth sem er þó öðrum þræði flókinn karakter.
Við réttarhöldin yfir Adolf Eichman, háttsettum SS-foringja, sem dæmdur var til dauða 1962 fyrir að hafa staðið fyrir morðum og pyntingum á milljónum Gyðinga hélt hann því fram að hann hefði aðeins verið smáskrúfa í stóru tannhjóli. Heimspekingurinn Hannah Arendt sem sat réttarhöldin í Jerúsalem skrifaði bók um þau og það sem hún kallaði ,,hversdagsleika illskunnar“ þar sem Eichman hafði komið henni fyrir sjónir sem lítill kall og hversdagslegur. Hún velti fyrir sér hvort venjulegt fólk væri fært um svona illsku út af heimsku í orðsins eiginlegustu merkingu. Arendt var gagnrýnd fyrir afstöðu sína til Eichman og réttarhaldanna. Í grein í New York Times 1965 skrifar dómari við hæstarétt í Philadelphiu að þótt Eichman hafi að sönnu ekki kálað mörgum milljónum með eigin hendi megi ekki horfa fram hjá lagalegri og siðferðilegri ábyrgð þess sem skipuleggur þann hrylling að hrúga milljónum einstaklinga saman, eins og síld í tunnu, í þrælkunarbúðir í þeim tilgangi að útrýma hluta mannkyns með köldu blóði.
Senurnar í Schindler-myndinni vekja til lífs hryllinginn í útrýmingarbúðunum, örvæntingu mæðra vegna barna sinna, barna vegna aldraðra foreldra, miskunnarlaus morð á ungu fólki, viðbjóðslega fyrirlitningu á lífinu en líka vonina sem deyr síðust þrátt fyrir pyntingar, kulda, hungur og ótta. Í miðjum hörmungunum virðist manneskjan búa yfir þeim eiginleika að geta glaðst smástund þegar lífi er þyrmt eða pynting umflúin.
Söguhetjan Oskar Schindler flúði til Argentíu eftir stríð ásamt eiginkonu sinni, Emilíu en þau voru barnlaus. Enginn rekstur sem hann tók sér fyrir hendur eftir stríð gekk upp, kannski af því að hann gat ekki lengur treyst á velvild vina sinna í nasistaflokknum. Hann yfirgaf Emilíu og hélt til Þýskalands þar sem hann dó 1974 bitur og fátækur þrátt fyrir að hafa verið opinberlega heiðraður af Ísraelsríki þar sem hann hvílir beinin og af þýsku ríkisstjórninni.
Hlutur Emilíu eiginkonu Oskars er gerður lítill í myndinni og gagnrýndi hún það síðar meir. Hún dó einnig í fátækt nokkrum árum eftir að myndin var gerð, þótt Spielberg haldi því fram að hún hafi fengið góðar greiðslur. Schindler-Gyðingarnir hafa sagt frá því að Emilía hafi ekki verið til staðar eins og Oskar enda hjónaband þeirra óhamingjusamt og þau bjuggu ekki alltaf saman. Þegar hún hafi verið á staðnum hafi hins vegar munað um hana, gæsku hennar og hjálpsemi. Oskari lýsti Emilía sem ófyrirleitnum framhjáhaldara eins og kemur fram í myndinni og drykkfelldum. Hún segir hins vegar að hún hefði alltaf staðið með honum hefði hann þurft. Ef að líkum lætur má gera ráð fyrir að mynd framleidd, leikstýrt og handrit skrifað af körlum geri minna úr hlut kvenna. Hvorugt þeirra uppskar þó í samræmi við það sem þau hefðu talið sig eiga skilið í ljósi beiskjunnar sem þeim báðum er borin á brýn á meðan Spielberg og aðrir græddu milljónir á sögunni um líf þessa fólks og helförina.
Kannski er sagan á bak við söguna (myndina) sú að réttlæti er ekki þessa heims. Helförin segir þá sögu best. Mannúðarverk eiga ekki að vera unnin til að uppskera hrós og lófaklapp.
Þegar ég sá Schindler-myndina fyrst fannst mér hún að sönnu átakanleg en fjarri veruleikanum, hluti af fortíðinni. Þegar ég horfði á hana í þriðja sinn nýlega grét ég og sneri mér undan í sumum senunum. Það gerði ég líka fyrr í vikunni þegar í fréttatíma birtist mynd af allslausri sýrlenski flóttakonu í búðum í Grikklandi með þvottalögsdreitil í baráttu við Covid-veiruna. Þegar við tölum um við séum öll á sama báti þýðir það að hvert okkar fyrir sig er ábyrgt – við þurfum ekki að vera smáskrúfur í stóru tannhjóli. Uppspretta hins góða er alltaf hjá einstaklingnum.
Eins og segir í Talmúd, helgiriti gyðingdómsins (áletrun sem var greypt inn í hring sem Gyðingarnir sem Schindler bjargaði gáfu honum):
Sá er eyðileggur eitt líf tortímir veröldinni og sá er bjargar einu lífi bjargar heiminum.
“Whoever destroys a single life is considered by Scripture to have destroyed the whole world, and whoever saves a single life is considered by Scripture to have saved the whole world”.
Itzhak Perlman leikur á fiðlu tónlist John Willliams í Schindler’s list: https://www.youtube.com/watch…