Orðin verða lög
Afl í sjálfu sér
* „Tengslanet stærra en nokkru sinni, “ segir prófessor Herdís Þorgeirsdóttir stofnandi ráðstefnunnar * Vilja rétta hlut kvenna
Ráðstefnan Tengslanet IV – Völd til kvenna hefst í dag með því að tæplega 500 konur ganga á Grábrók, þar á meðal Maud de Boer Buquicchio, annar framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og Judith Resnik, prófessor við lagadeild Yale. „Resnik var útnefnd fremsti fræðimaður í lögfræði 2008 í Bandaríkjunum, “ segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir, stofnandi Tengslanetsins.
Konur sem mæta koma úr öllum áttum og eru af öllum stéttum og á öllum aldri í íslensku samfélagi. „Þær eiga það sameiginlegt að vilja rétta hlut kvenna,“ segir Herdís.
Þegar sú hugmynd hennar kviknaði árið 2004, eftir að Herdís hóf störf við lagadeildina á Bifröst, að efna til ráðstefnu um jafnréttismál grunaði hana ekki að hún yrði stærsta ráðstefnan í íslensku viðskiptalífi. Þátttakan sló met 2006 og er enn meiri nú.
Paradísarlaut of lítil
Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur ávarpar konur af Grábrók í dag, standandi hlaðborð er á Kiðáreyrum við Hreðavatn, en ekki í Paradísarlaut eins og hingað til því að lautin rúmar ekki fjöldann.Erlendu gestirnir hefja formlega dagskrá með erindum en þá taka við pallborðsumræður í fjórum liðum, undir stjórn íslenskra kvenna.
Lokapunkturinn verður settur í móttöku hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra en fjöldans vegna var ekki hægt að vera á Bessastöðum eins og fyrri ár. Það má því segja að ráðstefnan hafi sprengt af sér bæði Bessastaði og Paradísarlaut.
Eldmóður og samstaða
„Ég var fengin til að tala um réttindi barna hjá félagi kvenna í læknastétt og sá þá að áhugi á jafnréttismálum, réttindum barna og mannréttindum almennt var ekki bundinn við lögfræðinga. Betra væri að sækja þátttakendur víðar enda eru málefnin slík að þau snerta allar konur, hvar í flokki sem þær standa eða hvaða starfi sem þær gegna og því mikilvægt að sem flestar raddir heyrist í þessum efnum. Þá sá ég einnig að náttúrulegt umhverfið hér væri kjörinn vettvangur. Gífurleg stemning myndaðist á fyrstu ráðstefnunni og þeim seinni. Þar er gleði, eldmóður og samstaða og nú víbrar loftið þegar Tengslanet IV er að hefjast. Hópurinn hefur aldrei verið fjölbreyttari og erlendu fyrirlesararnir eru spenntir fyrir þessu fyrirbæri sem mér finnst sjálfri hafa orðið afl í sjálfu sér.“
Árangurinn er augljós
„Já,“ segir Herdís og vísar í ályktanir Tengslanetsins um konur í stjórnir fyrirtækja og um afnám launaleyndar. „Hlutafélagalögum var breytt í kjölfar Tengslanets 2006 og ályktun um afnám launaleyndar var líka lögleidd.“ Hún bætir við að enn vanti mikið upp á að konur njóti sömu kjara og karlar, að raddir þeirra heyrist og þær taki ákvarðanir í efstu lögum samfélagsins – „en við verðum að halda áfram því að jafnréttisbaráttan er samofin almennri velmegun og velferð. Það eru því hagsmunir allra að konur hviki hvergi. Ef við stöndum saman og munum að sameiginlegir hagsmunir eru meiri en það sem skilur okkur að náum við árangri. Samstaða er lykilatriði. Ég las nýlega gott heilræði: leggðu hart að þér, ekki búast við neinu og skemmtu þér! Þetta er það sem við eigum að gera. Það gerir það enginn annar fyrir okkur.“
Í hnotskurn
Fyrsta ályktun Tengslanetsins var um konur í stjórnir, síðast var ályktað um afnám launaleyndar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur sótt ráðstefnuna frá upphafi. Utanríkisráðherra á von á Condoleezzu Rice á morgun.