TÆPLEGA fjögur hundruð konur taka þátt í þriðju tengslanetsráðstefnunni „Völd til kvenna“ sem fram fer á Bifröst í dag, en ráðstefnan var sett við rætur Grábrókar í gær. Aðspurð segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst og skipuleggjandi ráðstefnunnar, skráninguna hafa farið fram úr sínum björtustu vonum og ljóst megi vera að Tengslanetið sé óumdeilanlega öflugasta ráðstefna ársins í íslensku viðskiptalífi, en þátttakendur koma líkt og fyrri árin úr öllum þjóðfélagshópum. „Tengslanetið er að springa út eins og blóm og ég held að ástæðan sé sú að konur finna hjá sér þörf fyrir samstöðu, að við hefjum okkur upp yfir hversdagslegan ágreining og gerum okkur grein fyrir því að við þurfum ekki að vera sammála um leiðir, en við erum sammála um markmið,“ segir Herdís og tekur fram að greinilegt sé að konur séu að átta sig á því að þær geti haft raunverulega mikil áhrif og völd ef þær standi saman. „Og þær geta eingöngu haft þessi áhrif og fengið þessi völd ef þær standa saman,“ segir Herdís og leggur áherslu á að Tengslanetið endurspegli allt samfélagið. Líkt og fyrri árin var ráðstefnan sett við rætur Grábrókar í gær þar sem þátttakendur voru blessaðir af séra Halldóru Þorvarðardóttur, prófasti í Fellsmúla, eftir að Hafdís Jónsdóttir, betur þekkt sem Dísa í World Class, hafði hitað upp fyrir fjallgönguna, en á tindi gígsins ræddi skáldkonan Þórunn Valdimarsdóttir við viðstadda. Að sögn Herdísar felst mikill kraftur í því að byrja ráðstefnuna með þessum hætti. „Þarna er því um að ræða tengingu við náttúruna, almættið, hinn innri mann og við hverja aðra, sem skilar sér í því að við komum endurnýjaðar til baka.“
Á eftir að blása nýja lífi í umræðuna
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er einn fremsti femínisti okkar tíma, rithöfundurinn og prófessorinn dr. Germaine Greer. Aðspurð segist Herdís sannfærð um að innlegg Greer á ráðstefnunni muni skila miklu inn í umræðuna hérlendis. „Þetta er mögnuð kona. Hún er svo ákveðin, greind, hreinskiptin, djúpvitur og byltingarkennd í hugsun. Hún hefur haft mikil áhrif á mig þessa örfáu daga sem hún hefur dvalist hér á landi,“ segir Herdís og segist örugglega ekki ein um þá upplifun. „Ég efast ekki um að hún muni kveikja upp í umræðunni hérlendis og blása í hana nýju lífi,“ segir Herdís og nefnir sem dæmi umræðu Greer þess efnis að ekki sé nóg að konur sækist eftir jafnfrétti til þess að verða eins og systur í jakkafötum heldur til að verða konur á sínum eigin forsendum. „Þetta er í raun kvenfrelsisbarátta, ekki bara jafnréttisbarátta,“ segir Herdís að lokum.