Það sem er líkt með Herdísi og Ólafi
Þau tala hvort um sig fyrir beinna lýðræði, hafa jafnlengi sagt málskotsréttinn virkan og bæði munu beita honum í veigamiklum málum. Þau hafa bæði menntun, reynslu og þroska til að vera öflugir talsmenn á alþjóðavettvangi. Þau eru sammála um að staða ESB sé þannig að þjóðin þurfi að hugsa sig vel um en hvorugt muni ganga gegn vilja hennar.
Það sem greinir þau að
Þó að Ólafur hafi reynt að hvítþvo embættistíð sína af samneyti við auðmenn sem keyptu upp íslenska pólitík og klessukeyrðu efnahaginn, þá er ekki hægt að treysta því fyllilega að ekkert sitji eftir frá þotuferðunum með félögunum. Herdís gengur hrein inn á vettvang embættisins. Óháð peningaöflum – með 100% opið bókhald sem Ólafur hefur ekki viljað leika eftir. Óháð stjórnmálaflokkum en þó með djúpa þekkingu á eðli þeirra, bæði sem stjórnmálafræðingur og lögfræðingur á sviði mannréttinda hér heima og á alþjóðavettvangi.
Nú er þörf á forsetaskiptum
Kona eins og Herdís er vandfundin og hún er einmitt forsetinn sem við þurfum á að halda nú, tæpum fjórum árum eftir hrun, þegar nýjar fjármálablokkir eru að sölsa undir sig efnahagslífið og hugsanlega að reyna að kaupa sigur í kosningum. Herdís rak fyrirtæki í tæpan áratug og hefur skilning á lögmálum atvinnulífsins, og henni finnst eðlilegt að framtakssemi og frumkvæði fylgi fjárhagslegur ávinningur. Peningaöfl, segir hún, eiga hins vegar ekki að ráða því hverjir eru kjörnir til áhrifa í lýðræðislegu samfélagi. Í dag þurfum við forseta sem hefur í áratugi varað við áhrifum fjármagns á pólitík, sem rannsóknarskýrsla Alþingis sagði vera stærstu orsök hrunsins. Í dag þurfum við forseta sem skilur eðli hrunsins og getur af heilindum bent á orsakir þess, án persónulegra óþæginda. Í dag þurfum við forseta sem hægt er að treysta til að gagnrýna ítök peninga í pólitík, sem eru mesta ógnin við lýðræðið og ganga má að því vísu að munu skerða mannréttindi okkar frekar en orðið er.
Sigurlaug Guðjónsdóttir, Reykjavík.